3.8.2006 | 19:03
Kostulegt stefnuflökt í minnkandi flokki

Stundum veit maður ekki alveg hvert í ósköpunum Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er að fara í sinni pólitík né síður hvaðan hún er að koma. Ég var að horfa áðan á viðtal við hana í kvöldfréttum NFS í gærkvöldi - enn eitt kostulegt viðtalið er svosem frekar hægt að segja. Í stuttu máli sagt var hún þar enn einu sinni að reyna að búa til kosningamál úr þeirri lítt spennandi tilhugsun að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evruna. Það er svosem ekkert nýtt að Samfylkingin tali fyrir þessu tvennu og er varla frétt nema í gúrkutíðinni á hásumri. Það sem mér fannst miklu frekar frétt var sú yfirlýsing formanns Samfylkingarinnar að Samfylkingin myndi ekki setja aðild að ESB sem skilyrði að ríkisstjórnarmyndun.
Sagði Ingibjörg Sólrún í viðtalinu við Herdísi Sigurbergsdóttur að það gengi ekki fyrir flokkinn að gera kröfu um það þar sem Samfylkingin sé ein um þessa stefnu. Þetta var alveg hlægilegt - í raun gat hún enda sagt að Samfylkingin hefði engan áhuga á að berjast fyrir málinu. Á tyllistundum hefur sá söngur hljómað að Samfylkingin sé málsvari ESB og tali fyrir kratastefnu Jóns Baldvins í Evrópumálum meðan að hann var utanríkisráðherra. Í raun má segja nú að málið sé skraut á flokknum en eitthvað sem ekkert er að marka. Það er að vissulega ánægjulegt fyrir okkur að formaður Samfylkingarinnar telji sig ekki geta náð þessu í gegn og þori ekki að leggja í slag um það.
Það er ekki furða að Ingibjörg Sólrún sé að fuðra upp pólitískt og tekið sé að hitna undir formannsstól hennar, þegar að mið er tekið af stefnuflökti hennar. Það virðist vera algjörlega vonlaust fyrir hana og flokkinn að einblína á mál - mynda sér stefnu og standa við hana í gegnum þykkt og þunnt. Í þá 15 mánuði sem hún hefur verið formaður hefur hvorki gengið né rekið í flokknum og hann tapað markvisst fylgi. Nú hefur hún setið á þingi í nákvæmlega ár og staðan virðist ekki beysin. Það yrði altént mikil pólitísk tíðindi ef svo færi að VG myndi standa á pari við Samfylkinguna eftir næstu kosningar, en munurinn milli flokkanna minnkar sífellt.
Það hlýtur að vera erfitt fyrir Samfylkingarfólk að horfa upp á stöðuna og vera að horfast í augu við að talið um tvo turna er bara þvæla og að VG sé farið að naga á hælana á þeim flokki sem átti lengi vel að vera pólitískt mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Það er hlegið að því markmiði núna og Ingibjörg Sólrún virðist vera í miklum erfiðleikum. Væntanlega fer að líða að því að menn fari að velta því fyrir sér hver muni leysa hana af hólmi á formannsstóli flokksins, enda mun hún varla geta setið lengi sem formaður fari svo að Samfylkingin tapi fylgi og þingsætum frá kosningunum 2003.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2006 | 18:06
Rjómablíða á gömlu góðu Akureyri

Það hefur verið alveg unaðslegt að vera lítið fyrir framan tölvuna seinustu dagana og njóta sumarsins í hitabylgjunni sem nú er hér á gömlu góðu Akureyri. Það var svo gott veðrið hér í gær að leitun er að öðru eins seinustu árin hreinlega sagt. Í dag var hitinn litlu minni - svo fór að ég sólbrann í dag og þurfti í fyrsta skiptið til fjölda ára að grípa til sólvarnar eftir að hafa fengið mér tveggja tíma göngutúr í bænum fyrir og eftir hádegið.
Þetta var alveg frábær dagur og við erum öll í sæluvímu hér. Þegar er fjöldi fólks tekinn að streyma til Akureyrar til að vera á fjölskylduhátíðinni Ein með öllu sem stendur alla helgina. Góð dagskrá framundan og besta veðrið verður að sjálfsögðu hér. Var reyndar að koma heim eftir göngutúrinn og hitti þegar fjölda vina og kunningja að sóla sig í bænum og við kaffihúsin að fá sér hressingu.
Ekki til mörg lýsingarorð svosem til að lýsa veðrinu og stemmningunni hér. Ætli ég láti meistara Bubba ekki það eftir en lagið hans Fallegur dagur frá árinu 2004 er unaðslega gott og hittir í hjartastað. Flottur texti - skothelt lag.
Veit ekki hvað vakti mig
vill liggja um stund
togar í mig tær birtan
lýsir mína lund
Þessi fallegi dagur
þessi fallegi dagur
Íslenskt sumar og sólin
syngja þér sitt lag
þú gengur glöð út í hitann
inn í draumbláan dag
Þessi fallegi dagur ...
Mávahvítt ský dormar dofið
inn í draum vindsins er það ofið
hreyfist vart úr stað
konurnar blómstra brosandi sælar
sumarkjólar háir hælar
kvöldið vill komast að
Þessi fallegi dagur ...
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)