Cherie Blair kallar Gordon Brown lygara

Cherie Blair

Mitt í framboðsræðu Gordon Brown á flokksþingi Verkamannaflokksins í dag, þar sem hann reyndi að lofsyngja Tony Blair, mun Cherie Blair hafa muldrað orðið "lygari" örg á svip. Gordon Brown flutti ræðuna í morgun og snerist hún að nær öllu leyti um að byggja sig upp sem leiðtoga og kynna framtíðina sem hann vill færa flokknum. Fór hann fögrum orðum um forsætisráðherrann og talaði lofsamlega um hann og verk hans. Eitthvað mun lofsöngurinn hafa farið illa í forsætisráðherrafrúna sem mun hafa snúið upp á sig yfir ræðunni og muldrað þessi orð um fjármálaráðherrann. Það er greinileg gjá á milli þeirra hjóna og Browns, en í gær vildi Blair ekki lýsa yfir stuðningi við Brown.

Það á ekki af bresku krötunum að ganga í þessum mánuði. Fyrst er Tony Blair næstum hrakinn úr embætti af samverkamönnum Gordon Brown og svo reynir Brown að lofsyngja þann sem hann reyndi að grafa undan í framboðsræðunni. Það er merkilegur kúltúr þarna. En já Cherie tókst allavega að stela senunni, þó að hún hafi eflaust viljað gera það við aðrar aðstæður en þessar. Það þarf varla að taka það fram að talsmaður forsætisráðherrans neitar auðvitað að forsætisráðherrafrúin hafi kallað Gordon Brown lygara með þessum hætti. Þvílíkur vandræðagangur. Ekki batnar yfir óeiningunni innan Verkamannaflokksins og greinilegt að Blair-hjónin ætla sér ekki að styðja Brown til forystu.

Gordon Brown

Gordon Brown virðist reyndar eiga í verulegum erfiðleikum. Það er enda tekið að molna undan honum rétt eins og forsætisráðherranum. Í könnun Daily Telegraph í dag kemur fram að meirihluti Breta vilji ekki að hann verði eftirmaður Blairs og mælist nú David Cameron mun vinsælli meðal þjóðarinnar en Brown. Fallandi gengið í könnunum hlýtur að vera honum mikið umhugsunarefni. Hann allavega nýtti tímann sinn vel í ræðunni í Manchester í morgun og reyndi að gera sig að nýjum valkosti í breskum stjórnmálum.

Oft er sagt að það sé þunn línan á milli þess að vera erfðaprins í stjórnmálum og lúser. Þegar að menn hafa verið krónprinsar lengi getur svo farið að menn endi sem hlægilegir og missi af lestinni í orðsins fyllstu merkingu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer fyrir Gordon Brown. Ef marka má orðaval Cherie Blair í dag munu þau hjón frekar dauð liggja en að styðja hann opinberlega sem leiðtogaefni flokksins í leiðtogakjöri sem verður innan árs í Verkamannaflokknum.

mbl.is Cherie Blair sögð hafa kallað Brown lygara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristinn Pétursson í framboð

Kristinn Pétursson

Á laugardag tilkynnti Kristinn Pétursson, fyrrum alþingismaður, um þá ákvörðun sína að gefa kost á sér í 2. - 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Kristinn tók sæti á Alþingi fyrir Austurlandskjördæmi í mars 1988 þegar að Sverrir Hermannsson var skipaður bankastjóri Landsbanka Íslands og átti sæti á þingi til loka kjörtímabilsins en féll í kosningunum 1991. Kristinn hefur alla tíð verið ófeiminn við að hafa skoðanir á mönnum og málefnum og oft látið harkalega í sér heyra og oft ekki vílað fyrir sér að gagnrýna með einbeittum hætti flokkssystkini sín.

Kristinn hefur verið þekktur fyrir að vera einkum laginn við að láta í sér heyra á kjördæmisþingum eða landsfundi og tala fyrir sínum skoðunum, einkum og sér í lagi á sjávarútvegsmálum. Hann er enda fiskverkandi á Bakkafirði. Hafði ég heyrt margar sögur af honum lengi og vel áður en ég fór á kjördæmisþingið hér í Norðaustri haustið 2002 á Egilsstöðum, skömmu eftir sameiningu flokksstofnanna í Norðurlandskjördæmi eystra og Austurlandskjördæm. Á þessu sama þingi var ákveðið að stilla upp fyrir kosningarnar 2003.

Á þessu kjördæmisþingi flutti Sigríður Ingvarsdóttir, þáv. alþingismaður, kjarnmikla og settlega ræðu, að mestu um sjávarútvegsmál. Sigríði mæltist vel og hún kom virkilega vel fyrir. Í kjölfar ræðunnar kom Kristinn í pontu og veittist harkalega að skoðunum Sigríðar á kvótakerfinu og gaf lítið fyrir hana né ræðuna. Þau tókust á þarna í heillangan tíma um sjávarútvegsmál og áttu mjög fátt sameiginlegt, svo vægt sé til orða tekið hreinlega. Þetta var ótrúleg rimma og gleymist fáum sem þarna voru. Kristinn hefur allavega aldrei farið troðnar slóðir.

Nú munu Sigga og Kristinn takast á um sömu sæti, en það liggur í loftinu að hún muni ennfremur sækjast eftir 2. - 3. sætinu. Veit ekki hvernig Kristni muni ganga en svo mikið er víst að hann mun ræða um sjávarútvegsmál með sínum rótgróna hætti í prófkjörsslagnum, ef ég þekki hann rétt.

mbl.is Kristinn Pétursson býður sig fram í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birna Lár gefur kost á sér

Birna Lárusdóttir

Ég sé að Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar í Ísafjarðarbæ og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, hefur tilkynnt um framboð sitt fyrir komandi þingkosningar. Það er gleðiefni. Hún er góður kvenkostur fyrir flokkinn í Norðvestri fyrir komandi kosningar. Birna hefur verið mjög öflug í innra starfi flokksins og t.d. verið kjörin með afgerandi hætti í miðstjórn fjórum sinnum á landsfundi. Kynntist fyrst Birnu á landsfundinum 2001, þegar að hún fór í annað sinn inn í miðstjórn. Virkilega öflug kona og sterkur valkostur fyrir sjálfstæðismenn ofarlega á lista að mínu mati.

Það verður reyndar mest spennandi að sjá hvort það verður stillt á lista eða boðað til prófkjörs hjá flokknum í kjördæminu. Hef heyrt orðróm þess að þar eigi að stilla upp. Veit ekki hvað verður, en það styttist í kjördæmisþing flokksins, en það verður haldið 7. og 8. október, helgina á undan okkur hér í Norðaustrinu. Allir þrír þingmenn flokksins í kjördæminu ætla sér að halda áfram, svo að það stefnir í spennandi tíma þarna og gott mál að fólk sé farið að gefa upp vilja til framboðs. Það er allavega gleðiefni að fólk eins og Birna Lár skellir sér í slaginn.

mbl.is Birna Lárusdóttir gefur kost á sér á lista Sjálfstæðisflokks í Norðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagný og Birkir takast á um annað sætið

Dagný og Birkir Jón

Fastlega er búist við að Dagný Jónsdóttir og Birkir Jón Jónsson, alþingismenn Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, muni berjast um að skipa annað sæti framboðslista flokksins í kosningunum að vori. Jón Kristjánsson, fyrrum heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, sem setið hefur á þingi í yfir tvo áratugi, skipaði sætið í kosningunum 2003 en hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í komandi kosningum. Í aðdraganda kosninganna 2003 átti Framsóknarflokkurinn aðeins tvo þingmenn í kjördæmahlutunum og tókust því þau Jón og Valgerður Sverrisdóttir á um fyrsta sætið á tvöföldu kjördæmisþingi á Hrafnagili í janúar 2003. Vann Valgerður þar nokkuð auðveldan sigur.

Í þriðja og fjórða sæti listans völdust þau Dagný og Birkir Jón. Þau voru þá formaður og varaformaður SUF og voru í augljósu bandalagi þá um að veljast saman í þau sæti sem þau sóttust eftir og náðu með stuðningi Valgerðar og Jóns að verjast áhlaupi Þórarins E. Sveinssonar, fyrrum forseta bæjarstjórnar á Akureyri, um að fá annað af sætunum. Varð hann þess í stað í fimmta sætinu. Nú blasir við að þau muni takast á um annað sætið við brotthvarf Jóns Kristjánssonar úr stjórnmálum. Dagný er augljós fulltrúi Austfirðinga í flokkskjarna framsóknarmanna í sæti Jóns en engum hefur blandast hugur um að Birkir Jón stefnir hærra og hefur verulegan áhuga á forystustörfum innan flokksins.

Það stefnir því í ungliðaslag meðal framsóknarmanna hér. Það kemur svosem ekki bara til vegna valdabaráttu þeirra á milli heldur einfaldlega þeirri staðreynd að Framsóknarflokkurinn á verulega undir högg að sækja í kjördæminu. Eins og staðan er núna eru einfaldlega tvö nokkuð örugg sæti eftir að sækjast í kjördæminu. Árið 2003 vann Framsóknarflokkurinn afgerandi sigur í kjördæminu og tókst að hljóta fjögur þingsæti. Öllum að óvörum felldi Birkir Jón Samfylkingarkonuna Láru Stefánsdóttur útaf þingi undir lok talningar í kosningunum. Nú þykir staða flokksins öllu óvissari, hér sem og í raun um allt land. Það fer því væntanlega svo að þau berjast um að færast upp.

Úrslit sveitarstjórnarkosninganna í vor voru t.d. gríðarlegt áfall fyrir framsóknarmenn hér á Akureyri sem hlutu aðeins einn bæjarfulltrúa kjörinn. Það var sögulegt botnskrap hjá Framsóknarflokknum á Akureyri og ótrúlegt áfall fyrir fyrrum forystuflokkinn í bæjarmálum Akureyringa um áratugaskeið. Það áfall varð einmitt tilfinnanlega mikið fyrir flokksmenn alla í kjördæminu, enda vita allir að sterk staða í kosningum í Norðausturkjördæmi ræðst mikið af hlutfalli flokkanna í kosningum meðal Akureyringa og Eyfirðinga, þar sem stór hluti íbúa kjördæmisins býr.

Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer hjá Framsókn hér að vori í Norðaustri og hversu miklu rýrari útkoman verður þá. Við öllum blasir að verulegt fylgistap verður hjá þeim nú hér og því skiljanlegt að slegist sé um þann stól sem öruggur telst.

Bjarni Ben sækist eftir öðru sætinu

Bjarni Ben

Bjarni Benediktsson, alþingismaður, hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kraganum. Það fer því ekki svo að hann taki slaginn við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, eins og margir höfðu velt fyrir sér. Má því telja nær öruggt að Þorgerður Katrín verði ein í kjöri um fyrsta sætið og fái góða kosningu í það. Kjördæmisþing sjálfstæðismanna í kraganum verður 4. október nk. í Valhöll. Verður spennandi að sjá hvort það verði prófkjör eða uppstilling þarna. Altént er ljóst að ekki verður harður slagur um fyrsta sætið.

Nú eru nýir frambjóðendur farnir að tilkynna sig í kraganum. Í gær gaf Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, allt frá því að hann varð fjármálaráðherra árið 1998, kost á sér í fjórða sæti framboðslistans. Enn er beðið eftir ákvörðun Sigríðar Önnu Þórðardóttur, fyrrum umhverfisráðherra og þingflokksformanns, sem setið hefur á þingi frá árinu 1991, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ, Ármanns Kr. Ólafssonar, forseta bæjarstjórnar í Kópavogi, Sigurrósar Þorgrímsdóttur, alþingismanns og Jóns Gunnarssonar, formanns fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi.

Búast má við spennandi framvindu mála í framboðsmálum sjálfstæðismanna í kraganum. Framundan er enda fjölgun þingsæta í kraganum, þar sem þingsætin verða 12 en ekki 11, enda færist þingsæti úr Norðvesturkjördæmi yfir í kragann. Á góðum degi gætu sjálfstæðismenn því hlotið 6 þingsæti í kjördæminu. Það er því eftir miklu að slægjast, enda aðeins þrír þingmenn eftir af þeim fimm sem Sjálfstæðisflokkurinn hlaut kjörna í alþingiskosningunum 2003.

mbl.is Sækist eftir öðru sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matarskattur lækkar verulega

Mjólkurvörur

Skv. fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi stefnir í verulega lækkun matarskattsins, sem settur var á árið 1987. Talað er um lækkun um allt að 10%, úr 14% niður í 4%. Það hefur blasað við allt eftir tillögur nefndar Hallgríms Snorrasonar, hagstofustjóra, að taka þyrfti afgerandi ákvarðanir um matarverð hérlendis og koma með raunhæfar tillögur að lækka það. Svo virðist nú hafa verið gerst. Skatturinn var settur á í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar árið 1987 og sprakk stjórn hans tæpu ári síðar þegar að Sjálfstæðisflokkurinn vildi fella skattinn niður, en Jón Baldvin Hannibalsson, þáv. fjármálaráðherra, sem vaðið hafði eld og brennistein fyrir skattinn, vildi halda honum.

Matarverð hér á landi er alltof hátt og mikilvægt að leita allra leiða til að lækka það. Þetta eru góðar tillögur í þeim efnum, ef rétt reynist sem fram kom hjá Sjónvarpinu í gærkvöldi. Búast má við að leiðtogar stjórnarflokkanna; þeir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, muni kynna tillögur til lækkunar matarverðs í dag eða á morgun. Það er mikilvægt að lækka matarskattinn með krafti og það deilir enginn um það að þetta er gott innlegg í þá átt. Það er kominn tími til að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tryggi hér gott matarverð og ég held að þetta sé það mál sem brenni á langflestu fólki.

Vil annars hrósa Þórdísi Arnljótsdóttur fyrir fagmannlega og góða frétt um þessi mál í fréttatíma Sjónvarpsins í gærkvöldi. Svona á að gera þetta. Það var vönduð frétt og táknræn fyrir stöðu mála eftir lækkun skattsins, enda fór Þórdís í verslun 10-11 og tíndi þar í körfu ýmsar nauðsynjavörur í körfuna sína. Eftir að hafa borgað matvörurnar reiknaði hún út hversu mikið ódýrari matarkarfan myndi verða við lækkun matarskattsins. Góð fréttamennska þetta!

Bloggfærslur 25. september 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband