Valgerður ávarpar allsherjarþing SÞ

Valgerður Sverrisdóttir

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, ávarpaði í dag allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Ég var að enda við að lesa ávarp Valgerðar og fannst það nokkuð merkilegt í sannleika sagt. Vék hún þar mjög ítarlega að þróunaraðstoð og málefnum sem þeim fylgja. Kom fram í máli hennar að íslensk stjórnvöld myndu axla ábyrgð með auknum framlögum til þróunarsamvinnu. Fann ég skýran samhljóm með þeirri stefnu sem hún kynnti og mun gera að áherslum sínum í utanríkisráðherratíð sinni og þeim sem einkenndu utanríkisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar, fyrrum formanns Framsóknarflokksins, en enginn hefur gegnt embættinu lengur. Hann vann ötullega að þróunaraðstoð.

Valgerður kynnti framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna árin 2009-2010 með afgerandi hætti í ræðunni. Hefur nú verið opnuð heimasíða framboðsins og er greinilegt að mikla vinnu á að leggja í þetta verkefni. Valgerður hefur sjálf sagt að þetta verði eitt lykilverkefna í ráðherratíð sinni og það hefur komið vel í ljós með þeim þunga sem hún hefur helgað verkefninu. Áður hef ég farið yfir skoðanir mínar á því að sækjast eftir sætinu í Öryggisráðinu. Það er öllum ljóst sem líta á vefinn að mikill þungi og kraftur er settur í þetta verkefni að tryggja sætið. Baráttan mun verða hörð, eins og áður hefur komið fram. Auk okkar eru Tyrkland og Austurríki í kjöri.

Það er öllum ljóst að kostnaður vegna framboðs Íslands til þessa sætis verður umtalsverður, bæði þá sem snýr að kosningabaráttu sem nauðsynlegt er að heyja til að hljóta sætið við fyrrnefndar þjóðir og ennfremur þeirrar stækkunar sem yrði á umfangi utanríkisþjónustunnar ef Ísland tæki þar sæti. Á það ber að minnast að meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í. Enn finnst mér lykilspurningunni um það hvaða ávinningur hlytist með því að hljóta sætið sé með öllu ósvarað. Það er einn stóru gallanna í þessu máli, að mínu mati.

mbl.is Utanríkisráðherra fjallaði um aukin framlög til þróunarsamvinnu á allsherjarþingi SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkomulag kynnt

Jón Sigurðsson og Geir H. Haarde

Var að horfa á blaðamannafundinn í Þjóðmenningarhúsinu með Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jóni Sigurðssyni, viðskiptaráðherra, þar sem að þeir kynntu samkomulag milli Bandaríkjanna og Íslands um varnir landsins. Fátt svosem sem þar kom fram er ekki hafði komið fram áður. Heimildir fréttamanna síðustu daga voru réttar að öllu leyti. Varnirnar eru tryggðar með þeim hætti að Bandaríkin skuldbinda sig til að sjá um að verja Ísland gegn vá með hreyfanlegum herstyrk. Varnir á Íslandi heyra sögunni til og við tekur uppstokkun á hinu gamla varnarsvæði, sem verður eign Íslands um mánaðarmótin þegar að síðustu ummerki herstyrks Bandaríkjanna heyra sögunni til.

Gert er ráð fyrir að forsætisráðherra og Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, undirriti bráðlega samning ytra við yfirvöld þar sem byggir á þessum grunni sem kynntur var í dag. Við blasir að Íslandi muni taka að sér að greiða fyrir niðurrif mannvirkja og hreinsun á svæðum sem tilheyrðu Bandaríkjahernum áður og taki við forræði þeirra að öllu leyti. Fara á yfir öll umhverfismál á svæðinu og færa svæðið allt til þess horfs sem viðunandi er. Við blasir að það verði mikið verkefni og mun verða stofnað félag til að halda utan um öll umsvif þar og færa allt til eðlilegs horfs í þeim efnum.

Að mörgu leyti er þetta eins og við var að búast, að sumu leyti eru þarna þættir sem vekja athygli. Heilt yfir er mikilvægt að óvissunni hafi verið eytt. Aðeins eru nú örfáir dagar þar til að Bandaríkjamenn halda á brott og það var orðið gríðarlega mikilvægt að öll atriði málsins væru almenningi ljós, enda um að ræða mikil söguleg þáttaskil, eins og forsætisráðherra sagði á blaðamannafundinum.

mbl.is Bandaríkin munu verja Ísland gegn vá með hreyfanlegum herstyrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tony Blair kveður á flokksþingi

Blair

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, flutti í dag kveðjuræðu sína sem leiðtogi Verkamannaflokksins. Þetta er síðasta flokksþingið í leiðtogatíð hans. Innan árs mun hann hætta í stjórnmálum og láta öðrum eftir sviðsljósið. Þetta var tilfinningarík kveðjuræða fyrir forsætisráðherrann. Það er svosem eðlilegt að svo sé, enda hefur hann verið leiðtogi flokksins í rúm 12 ár og verið forsætisráðherra Bretlands í rúm 9 ár. Það hlýtur að verða erfitt fyrir hann að láta af embættinu og víkja úr forystusveit breskra stjórnmála, enda er hann ekki nema 53 ára gamall og á væntanlega nóg eftir af starfsævinni þegar að hann yfirgefur erilinn sem fylgir vistinni í Downingstræti.

Blair viðurkenndi fúslega í ræðu sinni að það yrði erfitt fyrir sig að hætta. Það er alveg greinilegt að hann hefur stjórnað flokki og þjóð af nokkrum krafti og lagt sig allan í verkefnið. Það vakti mikla athygli að hann hældi Gordon Brown, fjármálaráðherra, mjög í ræðunni. Hann gekk þó hvorki það langt að lýsa yfir stuðningi við hann né heldur að lýsa yfir því hvenær nákvæmlega að hann hefði í hyggju að láta af embætti. Flestir stjórnmálaspekúlantar í Bretlandi spá því að það verði í maílok á næsta ári. 2. maí 2007 hefur Verkamannaflokkurinn ríkt samfellt í áratug og flestir telja að það sé sú dagsetning sem hann vilji ná á valdastóli áður en að hann lætur endanlega gott heita.

Sú kenning hefur þó heyrst að Blair muni hætta fyrir árslok og komi fólki á óvart. Það er talið mun ólíklegra. Flestir spá spennandi leiðtogaslag innan Verkamannaflokksins við brotthvarf Tony Blair úr forystusveitinni. Gordon Brown hefur verið arftaki valda innan Verkamannaflokksins í allan áratug Blairs við völd innan flokksins og greinilegt er að Bretar telja hann ekki afgerandi kost og heyrst hafa raddir um að Blair vilji að David Miliband eða Alan Johnson fari fram gegn Brown. En dagurinn í dag var dagur hyllingar fyrir Blair. Þetta er hans kveðjustund í raun, þó valdaskiptin verði síðar. Þarna var hann í raun kvaddur. Endalokin eru handan við hornið og ljóst að ólgan hefur minnkað.

Tony Blair

Þetta var dagur gleði og hinna breiðu brosa fyrir Verkamannaflokkinn. Þarna voru Blair og Brown samstilltir saman. Þeir hafa hælt hvorum öðrum á báða bóga í gær og í dag. Reyndar setti skugga á þessa gleðivímu fréttir af því að Cherie Blair hefði muldrað orðið "lygari" yfir ræðu Browns þar sem hann sagði að það hefðu verið forréttindi að vinna í stjórnmálum undir leiðsögn og forystu Tony Blair. Gleðivíman var ekki meiri en það. Segja má reyndar að Tony Blair reyni sem mest nú að halda friðinn til að geta kvatt embættið með þeim sóma sem hann telur sæma sér eftir þennan langa valdaferil.

En nú taka spennandi tímar við innan Verkamannaflokksins og í breskum stjórnmálum. Síðasti þingvetur Blairs sem forsætisráðherra þýðir valdabaráttu bakvið tjöldin og uppgjör við liðna tíma - uppstokkun í forystusveit stjórnarflokksins. Spurningin er sú hver fari fram gegn Gordon Brown. Það trúir enginn því lengur að hann verði sjálfkjörinn eftirmaður forsætisráðherrans. Þetta verður harkaleg barátta um völd og áhrif sem við tekur nú.

Ræða Tony Blair - 26. sept. 2006 

mbl.is Blair hælir Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsað til Washington

Þinghúsið

Hugurinn leitaði ósjálfrátt til Washington þegar að ég leit á vef Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, og sá þar myndir hennar frá Georgetown. Það eru núna nákvæmlega tvö ár síðan að ég hélt ásamt þeim sem ég var með í utanríkismálanefnd SUS á sínum tíma til Washington. Það var alveg yndisleg ferð og virkilega skemmtileg. Við skoðuðum alla sögustaðina og fundum borgarstemmninguna. Þetta er í fyrsta skipti í borgarferð sem ég hef varla viljað fara heim. Stemmningin var alveg nákvæmlega eins og ég vildi helst. Mér leið hreinlega eins og ég hefði aldrei verið annarsstaðar. Merkileg tilfinning og svona líka virkilega notaleg.

Borgin er táknmynd fyrir stjórnmálasögu Bandaríkjanna og sögu heimsins. Þar hafa örlög heimsins jafnan ráðist, þar situr valdamesti maður heims á valdastóli og stjórnar öflugasta ríki samtímans. Það jafnast fátt á við að fara til Bandaríkjanna, og fyrir stjórnmálaáhugamann var auðvitað einstakt tækifæri að fara þangað innan við fjórum vikum fyrir forsetakosningar í landinu, en þegar að við fórum í októberbyrjun 2004 snerist allt um forsetakosningarnar milli Bush og Kerry. Ég hafði lengi viljað fara til Washington, segja má að ég sem þyki vera frekar mikill áhugamaður um stjórnmál og söguna hafi lengi beðið færis á að heimsækja þessa borg borganna.

Ég skrifaði ítarlegan pistil um ferðina og fór þar yfir allt sem mér þótti mikilvægast að fara yfir. Mér fannst alveg draumur að fara í Georgetown. Ég tók eitt mesta flipp í bókakaupum í Barnes and Noble þar. Keypti ég þar ítarlega yfirlitsbók um forsetaembætti Bandaríkjanna og umfjöllun um forseta landsins, ævisögu Dennis Hastert, umdeilda bók Kitty Kelley um Bush fjölskylduna, The American Evita, bók sem fjallar um Hillary Clinton með allt öðrum hætti en ævisagan hennar, og síðast en ekki síst ævisögu Lou Gannon um Ronald Reagan. Þetta var paradís á jörðu að fara þarna og ég held að þau sem voru með mér hafi haldið að ég tæki flog áður en yfir lyki. :)

Best af öllu fannst mér að fara út að borða þarna og ég nýtti þau færi vel ásamt hópnum. Þetta var alveg yndisleg ferð og þeir sem vilja lesa meira um hana lesi endilega pistilinn minn um ferðina. Það er farið yfir nær allt sem gerðist úti í ferðinni þar. Ég er búinn að ákveða að ég ætla að fara næsta vor eða sumar út og vera þá lengur en þessa örfáu daga en voru farnir út í október 2004. Það verður yndisleg ferð, ég held að ég geti alveg sagt það hreint út.


Samkomulag um varnarmál

F4-þota

Samkomulag hefur nú náðst milli Bandaríkjanna og Íslands um varnarmál. Það verður kynnt síðdegis á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu. Í viðtali á Morgunvaktinni í morgun fór Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, yfir þessi mál. Nú í hádeginu mun leiðtogum stjórnarandstöðuflokkanna hafa verið gerð grein fyrir samkomulaginu af Geir og Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins og starfandi utanríkisráðherra. Mér skilst að það verði útvarpað og sjónvarpað frá blaðamannafundi leiðtoga stjórnarflokkanna kl. 16:00, svo að það verður hægt að fylgjast með þessu öllu í beinni.

Það er orðið tímabært að allar línur framtíðarskipulags varna landsins skýrist. Hálft ár er liðið frá einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar - ákvörðun sem bar hvorki vitni drenglyndi Bandaríkjastjórnar né virðingu í okkar garð. Hún var eins einhliða og ómerkileg og orðið gat. Staða mála eins og hún blasti við okkur þann 15. mars var eins ómerkileg og hún myndi blasa við ef að maki einhvers sliti sambúðinni með SMS-skeyti. Þetta var jafn kalt og ómerkilegt, í sannleika sagt. Síðan hefur viðbúnaður minnkað hratt á varnarliðssvæðinu og þar eru nú aðeins eftir örfáir menn en enginn varnarviðbúnaður.

Varnarviðræðurnar síðustu mánuði hafa enda snúist aðeins um frágang mála. Mér hefur fundist viðræðurnar snúast meira um hvernig skipta beri hlutum upp og haga þeim með nýjum hætti. Í sannleika sagt hefur það ekki alveg snúist um varnarskuldbindinguna. Það er því óhætt að segja að þetta hafi verið nokkuð vandræðalegar viðræður. Þrennt skiptir máli núna: hvernig verður staðið við varnarsamninginn frá árinu 1951, hvernig verður viðskilnaður Bandaríkjamanna við svæðið og síðast en ekki síst hvernig tryggja megi rekstur alþjóðaflugvallarins, sem skiptir okkur auðvitað miklu máli. Þetta eru lykilatriði.

Ég er sammála Davíð Oddssyni, fyrrum forsætisráðherra, um það að í raun sé ekkert eftir af hinum 55 ára varnarsamningi og hefði verið heiðarlegast að segja honum upp og semja frá grunni. Þetta er sú skoðun sem ég hef sagt í mínum skrifum á heimasíðum mínum allt frá því að allt fór upp í loft árið 2003, þegar að þá átti einhliða að flytja allt burtu, svo til í skjóli nætur með örfárra vikna fyrirvara. Það var framkoma sem sýndi okkur vel hver hugurinn var í okkar garð. Það þurfti ekki frekari vitnanna við.

En nú liggur samkomulag fyrir. Það verður fróðlegt að kynna sér það og sjá hvernig staða mála verður, nú þegar að aðeins sólarhringar eru í endalok varnarviðbúnaðar Bandaríkjanna hérlendis.


Snarpur þingvetur að hefjast

Alþingi

Snarpur þingvetur er að hefjast á kosningamisseri. Á mánudag verður Alþingi sett af Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum félagsmálaráðherra, starfsaldursforseti Alþingis, mun stýra fyrsta fundi þingsins. Eftir afsögn Halldórs Ásgrímssonar er Jóhanna orðin sá þingmaður sem lengst hefur setið á Alþingi. Hún hefur verið á þingmaður frá alþingiskosningunum 1978, en Jóhanna kom inn á þing í vinstrisveiflunni það vor. Að öllu óbreyttu stefnir í að Jóhanna verði áfram aldursforseti á næsta kjörtímabili, en hún hefur þegar tilkynnt um að hún ætli fram í kosningunum að vori.

Ég held að þetta verði mjög spennandi þingvetur sem er framundan. Það verður fróðlegt að sjá fjárlagafrumvarpið og stöðu mála hvað það varðar. Einkum verður áhugavert að sjá hvað ríkisstjórnin ætlar að gera varðandi lækkun matarverðs, sem er lykilmál. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar voru í fréttum um helgina, en enn virðist vera unnið að niðurstöðu sem verði til fyrir upphaf þinghalds. Þær viðræður eru greinilega enn á viðkvæmu stigi, ef marka má það að Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, vildi ekki veita viðtal í gær. Brátt mun svo ráðast framtíð varna landsins.

Það verður fróðlegt að heyra fyrstu stefnuræðu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, að kvöldi 3. október, en þar verður í raun farið yfir mál kosningavetrarins og áherslumálin í aðdraganda þingkosninganna. Mitt í önnum þingsins verða þingmenn í prófkjörum og hætt við að einhverjir þeirra muni falla í þeim darraðardans öllum. Þetta verður því þungur vetur fyrir einhverja þingmenn. Miklar breytingar hafa reyndar orðið á þingskipan, en alls 14 alþingismenn hafa annaðhvort hætt nú þegar á þingi eða munu hætta í kosningunum að vori. Auk þeirra munu einhverjir ekki ná kjöri.

mbl.is Þing kemur saman í næstu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um öryggisþjónustu og sögulegar hliðar hennar

Steingrímur Hermannsson

Um fátt hefur verið rætt meira síðustu daga en tilvist öryggisþjónustu fyrr á árum eftir greinaskrif Þórs Whitehead í Þjóðmálum. Ég fékk ritið sent heim til mín fyrir helgina. Á laugardaginn hafði ég góðan tíma og fór í að lesa Þjóðmál, sem er eins og ávallt áður vandað undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar. Þetta eru virkilega áhugaverð skrif hjá Þór og hiklaust það besta og jafnframt áhugaverðasta í Þjóðmálum að þessu sinni. Þór á auðvelt með að skrifa læsilegan og góðan texta, en ég hef áður lesið góðar bækur hans um stríðsárin á Íslandi, en hann hefur ritað margar áhugaverðar bækur um sögu mála á þessu tímaskeiði.

Í kvöld var athyglisvert viðtal við Steingrím Hermannsson, fyrrum forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins, í Íslandi í dag. Hann var dómsmálaráðherra í síðari vinstristjórn Ólafs Jóhannessonar, árin 1978-1979, og eftirmaður Ólafs í ráðuneytinu en hann gegndi embættinu samfellt í sjö ár, 1971-1978, fyrstu þrjú árin í eigin ríkisstjórn og síðar ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar. Telur Steingrímur óhugsandi að Ólafur hafi ekki vitað um öryggisþjónustuna, sjálfur hafi hann ekki haft hugmynd um hana. Steingrímur fer yfir þessi mál með góðum hætti og þetta var virkilega áhugavert viðtal sem Kristinn Hrafnsson tók við hann.

Það er fátt annað betra þessa dagana fyrir alla stjórnmálaáhugamenn en fá sér Þjóðmál og lesa þessa góðu og vönduðu grein Þórs. Virkilega áhugavert að lesa. Hvet alla til að gerast áskrifendur að Þjóðmálum á andriki.is. Þetta eru vönduð rit sem taka fyrir spennandi málefni. Það er alveg ljóst að þessi mál verða mikið rædd allavega á næstunni, enda eru þetta merkileg upplýsingar sem afhjúpast þessar vikurnar er tilkoma hennar verður almannarómur. Tek ég þó undir með Steingrími í viðtalinu með að skiljanlegt sé að þessu hafi verið komið á fót. Það verður enda að átta sig á þetta að þetta voru viðsjárverðir tímar sem þarna voru.

Bloggfærslur 26. september 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband