12.1.2007 | 14:11
Magni á ekki sjö dagana sæla

Þegar að ég fór síðast til Bandaríkjanna var það í gegnum flugvöllinn í Baltimore. Þar sem ég var með gömlu týpuna af vegabréfi lenti ég í nokkrum vandræðum hjá konu sem hleypti fólki í gegn sem einhvers konar vörður laganna þarna. Þessi hægláta blökkukona, sem var með augu arnarins, lét á mér dynja eitthvað það mesta og flóknasta spurningaflóð um tilveru mína síðan að ég komst til vits og ára. Mér leið eins og hryðjuverkamanni frá fjarlægum löndum en ekki sögusjúkum sérvitringi frá gamla góða Íslandi.
Vona annars að Magna gangi vel úti, þegar að hann kemst þangað á annað borð. Þetta er harður bransi sem hann heldur í, en hann er eflaust með þau sterku bein sem þarf í þau. Það hefur allavega sést vel af umræðunni um nánustu innviði lífs hans síðustu dagana.
![]() |
Magni án atvinnuleyfis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2007 | 13:27
Carl Bildt sleppur fyrir horn

Carl Bildt varð utanríkisráðherra við valdaskiptin í október er samfylking borgaralegu aflanna steyptu stjórn jafnaðarmanna af stóli eftir tólf ára valdasetu. Innkoma Bildts aftur í stjórnmálin vakti þá mesta athygli, enda hafði hann afsalað sér forystuhlutverki á þeim vettvangi eftir þingkosningarnar 1998 og haldið til annarra verkefna. Hann hafði reynslu og þekkingu í alþjóðastjórnmálum til að bera og hélt embætti utanríkisráðherra með vigt og þunga, þó að Jan Eliasson léti af embættinu, en hann hafði áður verið forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og heimsþekktur diplómat.
Bildt er eflaust mest þekktur fyrir sáttasemjarahlutverk sitt við Balkanskagann á tíunda áratugnum og að hafa leitt stjórn hægriaflanna í upphafi tíunda áratugarins, þá kornungur í raun og maður nýrra tíma. Hann kom aftur sem enn ferskur vindblær og tryggði festu við stjórn hægriaflanna eftir langa stjórnarandstöðu með því að taka við utanríkisráðuneytinu, sem er lykilráðuneyti í sænskum stjórnmálum. Þessi vegtylla kom honum aftur í miðdepil norrænna stjórnmála. Þetta hneykslismál veikti hann og stjórnina sem hann situr í, enda ekki sterk eftir lítt glæsileg pólitísk endalok tveggja ráðherra í byrjun valdaferilsins.
Nú verður fróðlegt að sjá hvort að þessi skandall eltir hann uppi, þó rannsóknin sé búin sem slík. Einn skítablettur á hvítaflippann getur nefnilega verið nógu áberandi.
![]() |
Carl Bildt sleppur við rannsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.1.2007 | 11:41
Verður Kristinn H. forstjóri Tryggingastofnunar?

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, mun skipa forstjóra Tryggingastofnunar ef að því kemur fyrir þingkosningar. Fyrirséð er að forstjóraskipti verði þar fljótlega, enda er Karl Steinar Guðnason, sem verið hefur forstjóri stofnunarinnar allt frá árinu 1993, nú að nálgast sjötugt. Skipan Karls Steinars í forstjórastól Tryggingastofnunar fyrir einum og hálfum áratug var umdeild og þótti til marks um vandræðalegar skipanir í embætti af hálfu Alþýðuflokksins. Umræðan um hana varð mikil og enn heyrast þær raddir að Karl Steinar hafi fengið stöðuna til að rýma til fyrir ráðherrakapli og öðrum málum í stjórnmálum. Um hafi verið að ræða dúsu.
Sé einhver framsóknarmaður í aðdraganda þessara kosninga sem flestir framsóknarmenn telja rétt að gefa dúsu og embætti til að rýma til í vondum aðstæðum er það Kristinn H. Það er ekki óvarlegt a ætla að hann komi til greina í þessa stöðu enda er hann formaður stjórnar Tryggingastofnunar og hefur verið á þessu kjörtímabili. Vangaveltur um stöðu Kristins H. er væntanlega mikið til umræðu innan stjórnmálalitrófsins í Norðvesturkjördæmi. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir Framsóknarflokkinn að afstýra sérframboði eða klofningi sem yrði með brotthvarfi Kristins H. Enn liggur ekkert fyrir en það blasir við að niðurstaða fáist í málið, enda stutt í kjördæmisþing flokksins þar sem samþykkja á endanlegan lista.
Kristinn H. hefur verið miðpunktur átaka innan Framsóknarflokksins nær allt frá fyrsta degi innan flokksins, en þó umfram allt á þessu kjörtímabili. Hann missti formennsku þingflokksins strax eftir kosningarnar 2003, missti allar nefndasetur sínar með eftirminnilegum hætti haustið 2004 vegna átaka við Halldórsarminn, var tekinn í sátt í ársbyrjun 2005 en hefur haldið uppi andstöðu og beittum efasemdum gegn forystu flokksins. Hann hefur þó virst rólegri í þeim efnum eftir að Halldór Ásgrímsson yfirgaf stjórnmálaþátttöku. Fari hann til verka í Tryggingastofnun blasir við öllum af hverju það verður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2007 | 09:27
Saga af næturklúbbadansara sem varð forseti

Juan Peron hafði öðlast sess í sögunni sem forseti Argentínu fyrr á árum. Hann var orðinn gamall og slitinn maður er hann reyndi aftur að komast til Argentínu og á gamals aldri varð hann aftur forseti landsins árið 1973. Sér við hlið fyrrum var hin sögufræga Evita. Henni var gerð skil í kvikmyndum og söngleikjum. Hún varð ódauðleg í huga allra heimsbúa en fyrst og fremst íbúa Argentínu fyrir sitt framlag í sögu landsins við hlið Perons. Árið 1973 sneri Juan Peron aftur með Isabel sér við hlið. Ekki aðeins var hún 35 árum yngri en hann, heldur með aðra fortíð en Evita.
Juan Peron gerði næturklúbbadansmeyna, hina pólitískt algjörlega óreyndu, að varaforseta. Með því varð hún valdamesta konan í heiminum. Hann gerði hana ódauðlega í huga allra heimsbúa. En hún varð ekki ódauðleg með sama hætti og hin þokkafulla Evita. Þær voru ekki úr sama efniviði. Það kom enn betur í ljós í ágúst 1974 er Juan Peron dó, farinn að heilsu og kröftum. Eftir stóð hin óreynda næturklúbbadansmær sem fyrsti kvenforseti heimsins. Í Argentínu vöknuðu menn upp við hana við völd er Peron dó. Hún tók erfitt hlutskipti í arf eftir mann sinn er hann skildi við. Það varð henni um megn. Árið 1976 steypti herinn henni af stóli og hún flúði landið sem var eiginmanni hennar allt.
Þrem áratugum síðar vilja Argentínsk yfirvöld fá Isabel Peron, næturklúbbadansmeyna sem markaði söguna með athyglisverðum hætti í stjórnmálalegu tilliti, aftur í sínar hendur. Hún hefur dvalið í eftirlaunakyrrðinni á Spáni, fjarri því að mæta uppgjöri við valdatíð sína og eiginmannsins litríka. Þeir krefjast framsals og að hún sé tekin höndum.
Isabel er orðin gömul kona og hlýtur að vilja forðast þess að mæta örlögunum í landinu sem hún erfði eftir mann sinn. Það er ekki arfleifð sem hún getur verið stolt af. En mikið er þetta annars ótrúleg saga. Kannski er sagan af næturklúbbadansmeynni ekki síður efni í söngleik en saga hinnar áferðarfallegu Evitu.
![]() |
Argentína vill fá Isabel Perón framselda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)