Valgerður skammar Geir - sundrung í Evrutali

Valgerður Sverrisdóttir Það er ekki ofsögum sagt að ummæli Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, á Stöð 2 í kvöld hafi verið skammartónn í garð Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og sýni vel hversu mikil gjá er milli ráðherra ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. Geir og Valgerður tala fjarri því sama tungumál í málefnum Evrunnar. Geir telur að tal um upptöku Evrunnar sé óraunhæft og í raun vísar þar m.a. á ummæli Valgerðar, sem nú svarar honum svo fullum hálsi. Það er greinilegt að þetta ríkisstjórnarsamstarf er að verða mjög þreytulegt, enda virðist það feigt ef marka má skoðanakannanir.

Tónninn í Valgerði Sverrisdóttur sýndi okkur mjög vel gjána sem er til staðar milli aðila. Mér finnst það mjög ótrúverðugt fyrir þessa ríkisstjórn að svona stór meiningarmunur sé til staðar milli forsætisráðherra og utanríkisráðherra, sem eru valdamestu ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Það gerir ekkert annað en að veikja þetta ríkisstjórnarsamstarf og innviði samstarfs þar á milli. Þetta er sérstaklega óheppilegt í aðdraganda þingkosninga. Sundrungarhjal milli Valgerðar og Geirs, er táknrænt og skaðlegt í meira lagi að mínu mati. Það afhjúpar að tveir valdamiklir ráðherrar eru algjörlega ósammála og þetta er varla traustvekjandi fyrir þessa stjórn.

Reyndar er ágreiningur ekki bara innan ríkisstjórnarinnar um Evrópumál. Þar eru mikil átök innan Framsóknarflokksins. Halldóri Ásgrímssyni mistókst sem forsætisráðherra að gera Evrópumálin að stórstefnumáli á flokksþingi Framsóknarflokksins í mars 2005, þrátt fyrir stuðning nánustu samstarfsmanna sinna, þ.m.t. Valgerðar Sverrisdóttur, nú utanríkisráðherra. Þar var afgerandi andstaða. Nú styttist aftur í flokksþing og innan flokksins starfar nefnd skv. samþykktum flokksþingsins 2005 sem m.a. skilgreinir samningsmarkmið. Það verður fróðlegt að sjá niðurstöður hennar. Reyndar virðist andstaðan skörp innan Framsóknarflokksins. Ekki fyrr hafði Valgerður tjáð sig fyrst en Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, hafði svarað henni af krafti.

Mér finnst Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, vera eins og blaktandi lauf í vindi í þessum málum eins og svo mörgum öðrum. Hann virðist vera ótrúlega stefnulaus í fjölda mála og fáir vita hver pólitík þessa manns er, sem á að vera einn valdamesti maður landsins. Ólíkt Halldóri Ásgrímssyni vantar í þennan formann flokksins það að tala hreint út og vera afgerandi í tali. Það er stundum eins og maður þurfi orðabók til að skilja samræmi orða hans. Það er varla kostur fyrir nokkurn stjórnmálamann. Mér finnst þó frekar eins og hann vilji ekki ESB núna, en hann flöktir verulega mikið til, einum of fyrir minn smekk.

Mér finnst ágreiningur um Evrópumál innan þessarar ríkisstjórnarinnar vera orðinn vandræðalegur fyrir hana. Það ætti að standa forsætisráðherra nær að standa vörð á ráðherrum sínum en að fjargviðrast yfir því hvað formaður Samfylkingarinnar segir. Vandinn nú finnst mér vera ágreiningur forsætis- og utanríkisráðherra með áberandi hætti, eins og við höfum séð í gær og í dag. Þetta er algjörlega óviðunandi hringavitleysa, segi ég og skrifa.

Valgerður leiðir - Birkir og Höskuldur næstir

Valgerður Sverrisdóttir Listi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi liggur nú fyrir. Valgerður Sverrisdóttir, Birkir Jón Jónsson og Höskuldur Þór Þórhallsson skipa efstu þrjú sæti framboðslistans, en Huld Aðalbjarnardóttir, kennari á Kópaskeri, er í fjórða sætinu. Það kemur engum á óvart að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, skipi leiðtogasæti framboðslistans. Hún hefur setið á þingi frá árinu 1987 og verið kjördæmaleiðtogi af hálfu Framsóknarflokksins frá árinu 1999. Hún er nú fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Valgerður er afgerandi forystumaður Framsóknarflokksins og verið áberandi forystumaður innan flokksins, hún var þingflokksformaður 1995-1999 og verið ráðherra frá 31. desember 1999, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1999-2006 en varð fyrst kvenna utanríkisráðherra í júní 2006. Birkir Jón Jónsson, alþingismaður, hlýtur afgerandi kosningu í annað sætið, sem kemur engum að óvörum í ljósi þess að hann var eini sitjandi þingmaðurinn í framboði, utan Valgerðar. Hann er formaður fjárlaganefndar og sveitarstjórnarmaður í Fjallabyggð fyrir flokkinn og hefur sterka stöðu. Birkir kom inn síðast sem eitt af framtíðarefnum flokksins og er nú næstur Valgerði og líklegur eftirmaður hennar síðar meir.

Höskuldur Þórhallsson hlýtur kosningu í þriðja sætið. Hann var augljós fulltrúi Akureyringa í fremstu röð á listann, en Akureyringar náðu aðeins efst fimmta sætinu á kjördæmisþingi fyrir fjórum árum, en þá varð Þórarinn E. Sveinsson í því sæti. Höskuldur hefur lengst af sinnar ævi búið í Hörgárdal og Akureyri, en faðir hans, sr. Þórhallur Höskuldsson var sóknarprestur á Möðruvöllum 1968-1982 en á Akureyri 1982-1995, er hann lést langt fyrir aldur fram. Höskuldur hefur eflaust farið mjög langt á verkum sínum sem kosningastjóri flokksins í Norðausturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum, en flokkurinn vann þá glæsilegan sigur og hlaut yfir 30% atkvæða og fjóra þingmenn.

Athygli vekur að efsti Austfirðingurinn á listanum er Jón Björn Hákonarson í fimmta sætinu. Það var fyrirséð að Austfirðingar ættu erfitt uppdráttar nú, þó að þeir hefðu jafnan haft sögulegt séð sterka stöðu austur á fjörðum og lykilforystumenn. Þeir áttu engan afgerandi forystumann eftir að Jón Kristjánsson og Dagný Jónsdóttir, sitjandi alþingismenn, ákváðu að draga sig í hlé úr stjórnmálum nú að vori. Austfirðingar lenda því í sömu stöðu nú og Akureyringar síðast að eiga ekki þingmann.

Það mun vafalaust styrkja flokkinn hér að hafa Akureyring í baráttusæti en væntanlega munu framsóknarmenn leggja áherslu á að Höskuldur fari inn á þing hið minnsta, allt annað yrði sögulegt afhroð fyrir þá. Ég held að listi framsóknarmanna verði sterkari en ella í ljósi þess að skýr fulltrúi stórs svæðis á borð við Akureyri er inni í vænlegu sæti.

mbl.is Valgerður í fyrsta sæti á lista framsóknar í NA-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdimar Leó vill í framboð fyrir frjálslynda

Valdimar Leó Friðriksson Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, sem sagði skilið við Samfylkinguna í nóvember og er nú óháður þingmaður, hefur nú opinberað áhuga sinn á framboði fyrir Frjálslynda flokkinn í vor og að ganga til liðs við flokkinn. Það eru engin tíðindi svosem í mínum augum, enda skrifaði ég pistil hér að morgni 16. nóvember sl, eða áður en hann sagði sig úr Samfylkingunni og orðrómur fór af stað á fullu, að hann myndi segja skilið við flokkinn og horfði til frjálslyndra. Hann lagði þó er á hólminn kom ekki í að ganga í Frjálslynda flokkinn samhliða úrsögn úr Samfylkingunni.

Ég ítrekaði fyrri skrif í öðrum pistli að kvöldi 16. nóvember og gekk eiginlega lengra í fullyrðingum, eftir að Steingrímur Sævarr Ólafsson hafði staðfest þessar kjaftasögur og líka skrifað um málið. Nokkrir aðilar véfengdu þær heimildir sem ég hafði í fyrri skrifunum, sem bæði voru fengnar frá stjórnmálaáhugamönnum í kraganum og viðtali við Valdimar Leó á Útvarpi Sögu þar sem hann neitaði engu. Þær efasemdarraddir urðu rólegri í seinni skrifunum og gufuðu hægt og rólega algjörlega upp.

Nú hefur Valdimar Leó opinberlega sagst horfa til frjálslyndra, svo að öll voru þessi skrif rétt af minni hálfu. Þar var nákvæmlega engar kjaftasögur rangar eða eitt né neitt ýkt. Einfalt mál það. Væntanlega horfir Valdimar Leó til þess að reyna að fá umboð til að leiða lista frjálslyndra í kraganum, sínu gamla kjördæmi. Það er óvíst hver leiðir listann þar nú, enda engin prófkjör hjá frjálslyndum nú frekar en nokkru sinni áður.

Það verður frekar skondið ef að Valdimar Leó verður kjördæmaleiðtogi af hálfu frjálslyndra í sama kjördæminu og Gunnar Örn Örlygsson leiddi lista árið 2003. Frjálslyndir forystumenn gagnrýndu ekki svo lítið brotthvarf Gunnars úr flokknum. Þá vændu Frjálslyndir Gunnar Örn um svik og reyndu að beita sér fyrir því að Gunnar afsalaði sér þingmennsku sinni þar sem staða mála væri breytt frá kosningunum.

Það er spurning hvort að Frjálslyndir leiði kjörinn þingmann í nafni Samfylkingarinnar til leiðtogasætis í kosningum að vori. Svo segir kjaftasagan. Fróðlegt hvað gerist í þeim efnum.

Tiktúrur stjarnanna

SmileyHeimur stjarnanna er oft órafjarri okkar sem lifum hið daglega líf með bros á vör oftast nær. Þó að sú tilvera sé oft frekar litlaus er hún samt að ég tel miklu skemmtilegri en gervitilveran sem stjörnurnar lifa í kastljósi fjölmiðla og með paparazzi-hundana á eftir sér alla daga, eins og hrægamma. Það er ekki beint draumatilvera neinnar vitsmunaveru, hreint út sagt

Það er orðið nokkuð langt síðan að ég hef hlegið eins mikið og yfir þessari frétt um væntanlegt brúðkaup Elizabeth Hurley, sem er alþekkt glamúrdama. Ekki er hún mikið í aukabitunum, enda borðar hún ekkert eftir kl. 16.00 á daginn til að passa nú alveg 110% örugglega í brúðarkjólinn sinn. Engin kaloría umfram eftir síðdegið. Það er því eflaust lítið um popp og kók át þar yfir sjónvarpinu á kvöldin og pizzupantanir.

Það er eitthvað svo kaldhæðnislega margt fyndið við þessa tilveru sem stjörnurnar eiga. Það fylgir sögunni að fröken Hurley borði nú aðeins eggjahvítur, grænmeti og gufusoðinn fisk, og smávegis af franskbrauði og fólínsýru til að auka möguleika sína á að verða barnshafandi. Jamm, það er ekki öll vitleysan eins. Ég vona að bloggvinir mínir lifi ekki svona steríleseruðu lífefni og frökenin sem þarf að passa í brúðarkjólinn sinn.

Sem minnir mig á það að ég má alls ekki gleyma því að panta mér pizzu í kvöld, fá mér kók með og borða Nóa kropp svona með til hátíðabrigða. Svo þarf að poppa líka. Mjög gott, enda er klukkan nú officially orðin 16:00. Þessu má ég alls ekki gleyma. :)


mbl.is Elísabet Hurley neitar að borða eftir klukkan 16
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórir mánuðir til alþingiskosninga

Alþingi Fjórir mánuðir eru nú til alþingiskosninga. Á mánudag kemur Alþingi saman og hefst þá lokasprettur fundahalda þar á þessu kjörtímabili. Fjöldi þingmanna situr nú sínar síðustu vikur sínar á þingi og kveðja brátt stöðu sína í hinu virðulega þinghúsi við Austurvöll. Margir alþingismenn eru að hætta þátttöku í stjórnmálum og fjöldi þingmanna mun falla í kosningunum ef marka má skoðanakannanir. Það stefnir í mikla uppstokkun.

Kosningabaráttan virðist vera hafin á fullum krafti. Framboðslistar liggja nú fyrir einn af öðrum. Þegar eru fjórir framboðslistar Sjálfstæðisflokksins tilbúnir, en eftir er að samþykkja lista í Norðaustur- og Suðurkjördæmi, en þar verða kjördæmisþing haldin um næstu helgi. Aðrir flokkar eru langt komin með sín framboðsmál. Framsóknarflokkurinn hér í Norðausturkjördæmi ákveður lista sinn í dag og í Suðurkjördæmi skýrast þau mál um næstu helgi er kosið verður á milli Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra, og Hjálmars Árnasonar, þingflokksformanns, um leiðtogastól.

Formenn flokkanna eru komnir í kosningaham. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon eru í fundaferð um landið. Formenn stjórnarflokkanna; Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hafa verið rólegi í tíðinni en samt sem áður verið áberandi í fréttum. Kastljós fjölmiðla hefur verið á Jóni, en hann er eini flokksleiðtoginn í þessum kosningum sem aldrei hefur tekið virkan þátt í kosningabaráttu áður sem frambjóðandi. Á hann reynir nú mjög. Reyndar er óvissa um leiðtogamál frjálslyndra en þar á eftir að verða landsfundur senn, þar sem kjörin er forysta.

Það stefnir í spennandi kosningar. Ef marka má skoðanakannanir verður þetta fjörleg barátta. Aðalmál þingsins síðustu vikurnar sem þingið starfar á kjörtímabilinu er frumvarp um málefni RÚV. Það verður fróðlegt hvort að stjórnarmeirihlutinn nær því í gegn, en ansi oft hafa breytingar og frestanir sett mark sitt á það.

mbl.is Vorþing hefst á mánudag með umræðum um RÚV ohf.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...að vera heimtur úr helju

Shawn Hornbeck Það er jafnan sláandi, en mjög gleðilegt, að heyra fregnir af því að fólk sem hefur verið horfið árum saman finnist heilt á húfi. Nú hefur unglingspilturinn Shawn Hornbeck fundist í Missouri í Bandaríkjunum eftir að hafa verið týndur í tæp fimm ár. Hann fannst eftir að annar unglingspiltur, Ben Ownsby, hvarf fyrr í vikunni en vísbendingar um flutningabíl í eigu manns að nafni Michael Devlin, þóttu passa við þann sem sást á vettvangi er Ben hvarf.

Það leiddi til þess að Devlin var handtekinn og strákarnir fundust báðir. Eins og fyrr segir hefur Hornbeck verið týndur í fimm ár, en hann hvarf októberdag einn árið 2002 og verið talinn hreinlega af, enda mjög ólíklegt að einstaklingar sem hafi verið horfnir svona lengi komi í leitirnar aftur. Það er vissulega sláandi að sjá að svona geti enn gerst, að fólk ræni einhverjum og geti haldið honum svo árum skipti. Þetta er jafnan alheimsviðburður að upplifa svo gleðilegan atburð að þeir sem hafi lent í svona örlögum geti þó náð aftur heim til sín og verið heimtur úr helju.

Innan við ár er nú liðið síðan að stelpan Natascha Kampusch fannst í Austurríki. Hún hafði verið týnd í átta ár og verið talin af. Henni var haldið á heimili vitfirrts manns og lifði mjög hrörlegu lífi. Fréttamyndirnar af vistarverum hennar í kjallara hússins sem henni var haldið fanginni í fóru um allan heim og voru sláandi. Fréttaviðtalið við Kampusch var alheimsviðburður og með ólíkindum þótti af hversu mikilli stillingu hún gat talað um lífsreynslu sína, sem var ógnvekjandi og sorgleg í senn. 

Það vekur svo sannarlega athygli kastljóss fjölmiðla þegar að fólk er heimt úr helju eftir áralanga vist sem fangi einhvers. Það er skelfilegt að vakna upp við það að svona geti gerst, einkum er um er að ræða börn sem eru í haldi vitfirrtra manna. Það er þó auðvitað sérstaklega ánægjulegt að það takist að heimta það úr helju. Væntanlega munu fjölmiðlar fylgjast jafnvel með Shawn Hornbeck og Natöschu Kampusch fyrir nokkrum mánuðum.

mbl.is Fannst á lífi eftir að hafa verið saknað um árabil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Isabel Peron handtekin... en látin svo laus

Isabel Peron Isabel Peron, fyrrum forseti Argentínu, sem er 75 ára gömul, var handtekin í Madrid á Spáni í gærkvöldi. Isabel hefur búið á Spáni frá árinu 1981, en hún varð fyrsti kvenforseti heimsins og sat við völd á Argentínu árin 1974-1976, en hún varð forseti við lát eiginmanns síns, hins umdeilda Juan Domingo Peron, sem tvívegis varð forseti Argentínu, í fyrra skiptið við hlið hinnar áhrifamiklu Evitu, eiginkonu sinnar, og síðar við hlið Isabel, en hann var þá farinn að heilsu.

Isabel var látin laus gegn skilyrðum skömmu eftir handtökuna, en yfir henni vofir að vera framseld til Argentínu, landsins sem hún dvaldi aðeins í sem þegn í tæpan áratug, en varð samt þjóðhöfðingi þess. Hún og Peron komu úr útlegð hans árið 1973, þá hafði Peron ekki komið þangað í 18 ár, en honum var steypt af stóli í byltingu árið 1955. Hann gerði Isabel að varaforseta sínum. Isabel, sem var næturklúbbadansmær í Panama á sjötta áratugnum, er hún kynntist Peron, erfði svo stjórn landsins er Peron féll frá. Það varð svo sannarlega brösugt tímabil, sem endaði með kuldalegum hætti.

Í stuttum pistli hér í gær fór ég yfir bakgrunn Isabel og pólitíska sögu þeirra hjónanna, sem er auðvitað stórmerkileg þó seint verði hún talin glæsileg. Valdatími Isabel, sem auðvitað var algjörlega óreyndur stjórnmálamaður og hafði ekki hundsvit á málefnum Argentínu eða gat ekki verið andlit stjórnmálatilveru þar, var þyrnum stráður og að því kom auðvitað að honum lauk með hranalegum hætti. Herinn steypti henni af stóli. Hún var enda vissulega mjög utanveltu stjórnmálamaður og hafði það ekki til að bera sem þurfti til að stjórna landinu, sem eins og fyrr og síðar hefur verið mjög hriktandi af hernaðarlegum og fjárhagslegum krísum.

Isabel, sem markaði spor í söguna með forsetaferlinum, vill varla halda aftur til Argentínu. Stjórnvöld þar vilja að hún svari til saka fyrir að bera ábyrgð á mannránum og mannshvörfum þegar hún var forseti Argentínu á árunum 1974-1976. Hún er nú komin í sömu stöðu og Augusto Pinochet, annar litríkur forystumaður í s-amerískum stjórnmálum undir lok tíunda áratugarins og eftir það; að vera á flótta undan réttvísinni. Það verður fróðlegt að sjá hver örlög þessarar hálfáttræðu konu verða, fyrsta kvenforsetans í sögu heimsins.

mbl.is Isabel Perón látin laus með skilyrðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband