15.1.2007 | 21:44
Golden Globe-verðlaunin afhent í nótt

Fróðlegt er að velta því fyrir sér hvaða myndir fái Gullhnöttinn. Kvikmynd Alejandro González Iñárritu, Babel, hlaut flestar tilnefningar, eða sjö, einni fleiri en The Departed í leikstjórn Martin Scorsese. Clint Eastwood er með tvær leikstjóratilnefningar; fyrir Flags of our Fathers og Letters From Iwo Jima, en hvorug þeirra var þó tilnefnd sem besta kvikmyndin í flokki dramatískra kvikmynda. Breska leikkonan Helen Mirren er tilnefnd til þriggja leikverðlauna og virðist nær örugg um sigur í dramaflokknum fyrir túlkun sína á Elísabetu II Englandsdrottningu.
Kvikmyndin Dreamgirls hefur verið að fá mikið lof vestanhafs og er tilnefnd til fimm verðlauna; þ.á.m. sem besta myndin í flokki gamanmynda og söngleikja, fyrir leik Eddie Murphy, Beyonce og svo auðvitað Jennifer Hudson, sem þykir senuþjófur myndarinnar og er nær örugg um sigur í sínum flokki. Hudson féll úr keppni í American Idol árið 2004 en er nú þegar orðin frægari en allir keppendurnir sem urðu fyrir ofan hana í keppninni. Kvikmyndin Borat er tilnefnd í flokki gamanmynda og söngleikja og Sacha Baron Cohen er tilnefndur sem besti leikari í þeim flokki. Góð tíðindi það. Kvikmyndin Little Miss Sunshine er svo með fjölda tilnefninga og aðalleikkona myndarinnar, Toni Collette, hlaut tvær leiktilnefningar.
Leonardo DiCaprio er tilnefndur fyrir tvö hlutverk í dramaflokknum; í Blood Diamond og The Departed. Flest þykir þó benda til að Forest Whitaker vinni verðlaunin fyrir frábæra túlkun sína á Idi Amin í The Last King of Scotland. Gamla brýnið Peter O'Toole fær tilnefningu fyrir comeback-ið sitt í myndinni Venus og fróðlegt verður að sjá hvort hann fær óskarsverðlaunatilnefningu síðar í þessum mánuði, en óskarsverðlaunatilnefningar verða kynntar eftir rúma viku, þann 23. janúar nk. Hann hefur enda eins og flestir vita hlotið átta óskarstilnefningar nú þegar en aldrei unnið. Hann fékk hinsvegar heiðursóskar árið 2003. Warren Beatty mun fá Cecil B. DeMille-heiðursverðlaunin á Golden Globe í nótt, fyrir sinn langa leikara- og leikstjóraferil.
Bendi annars á tilnefningar til Golden-Globe verðlaunanna og hvet sem flesta til að fylgjast með þessu. Alltaf gaman af kvikmyndaverðlaununum. Svo má heldur ekki gleyma að sjónvarpið er verðlaunað líka og margt athyglisvert í þeim flokkum, þó ég fari ekki yfir það hér. Væri gott að heyra í lesendum með það hvernig þeir telja að verðlaunin fari hafi þeir á því skoðun hér. Ég tel að Dreamgirls og The Departed fái myndaverðlaunin og Scorsese leikstjóraverðlaunin. Ég vona að þetta verði loksins árið hans Scorsese.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2007 | 18:12
Kristján Þór ætlar að fljúga á milli AK og RVK

Þetta eru nokkuð athyglisverð ummæli. Lengi hefur verið talað um búsetumál alþingismanna, auðvitað fyrst og fremst landsbyggðarþingmanna, eftir að þeir taka sæti á Alþingi. Það er nýr vinkill hér að þingmenn séu staðsettir í sínum heimabæ og hyggist jafnvel ferðast á milli daglega. Þetta er því athyglisvert sjónarhorn sem kemur með ummælum Kristjáns Þórs. Með þessu hyggst Kristján Þór væntanlega tryggja að hann verði fulltrúi landsbyggðar og sýnilegur fulltrúi hennar, ef marka má ummæli hans í viðtalinu.
Fróðlegt verður að sjá hvernig þetta verður ef Kristján Þór Júlíusson verður ráðherra í næstu ríkisstjórn. Það hlýtur að vera erfitt fyrir hann að fara á milli daglega ef svo býr við og hafa engan fastan samastað í höfuðborginni. Í viðtalinu segist Kristján Þór vilja reyna á hvort að það þurfi að búa á höfuðborgarsvæðinu, hann vilji ekki flytjast búferlum suður eða dveljast þar langdvölum enda sé heimili hans á Akureyri. Þetta er nýr vinkill og athyglisverður. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að Kristjáni Þór gangi sem þingmanni að halda fastri búsetu hér fyrir norðan.
15.1.2007 | 15:38
Svört skýrsla Ríkisendurskoðunar um Byrgið

Er það skýrt mat Ríkisendurskoðunar í skýrslunni að ekki sjáist nein merki þess að þessum fjármunum hafi verið ráðstafað í þágu Byrgisins. Í henni liggur fyrir að fjármunir sem runnið hafa til stjórnenda og starfsmanna Byrgisins eru langt umfram það sem fram kemur í bókhaldi eða ársreikningum félagsins. Launagreiðslur eru ekki færðar rétt í bókhaldið og ekki taldar fram til skatts. Auk þessa lítur út fyrir að stjórnendur og starfsmenn Byrgisins hafi látið bókfæra hjá félaginu og greiða útgjöld sem félaginu eru óviðkomandi.
Í skýrslunni er talið að slík útgjöld megi fullyrða að nemi að minnsta kosti tæpum þrettán milljónum á árinu 2005 og rúmlega 3 milljónir á fyrstu 10 mánuðum ársins 2006, en gætu verið hærri. Ergó: kolbikasvört skýrsla. Það er ekki furða að allt fjárstreymi til Byrgisins hafi verið stöðvað og ekki annað hægt að ímynda sér en að síðustu ríkispeningarnir að óbreyttu hafi farið þar inn í sjóði. Þessi skýrsla er mikill áfellisdómur yfir Byrginu og öllum hliðum reksturs þess.
![]() |
Ríkisendurskoðun vill lögreglurannsókn á rekstri Byrgisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.1.2007 | 13:03
Frú Dorrit á forsetavakt segir sína sögu

Mikla athygli mína í viðtalinu vakti að þar var frekar athyglisverð kynning á álverinu í Straumsvík, sem er eins og flestir vita ekki svo fjarri Bessastöðum. Talaði Dorrit fallega um fyrirtækið og forstjórann Rannveigu Rist. Var þar meira að segja viðtal við Rannveigu og sýndar myndir frá heimsókn forsetafrúarinnar í álverið. Þetta var fróðlegt innlegg í þáttinn, en nú er ekki langt þar til að greiða á atkvæði um hvort stækka eigi álverið. Þetta er því merkileg tímasetning þessa innleggs í viðtal við forsetafrúna að mínu mati. Þetta var mjög áberandi allavega.
Dorrit Moussaieff hefur í tæpan áratug verið áberandi fulltrúi íslenska forsetaembættisins. Hún kom þar til sögunnar eftir andlát Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, forsetafrúar, fyrri eiginkonu Ólafs Ragnars Grímssonar, sem lést úr hvítblæði í október 1998. Hún var stór hluti forsetaembættisins er hún féll frá, enda ekki verið minna áberandi í forsetakosningunum 1996 en Ólafur Ragnar. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir Dorrit að koma þar til sögunnar, svo skömmu eftir lát Guðrúnar Katrínar og raun bar vitni, en henni hefur tekist að verða fulltrúi á vegum forsetaembættisins með sínum hætti og hefur ekki reynt að fara í fótspor ástsællar forsetafrúar, sem Guðrún Katrín var.
Mér fannst að heyra á þessu viðtali að Dorrit telji Ólaf Ragnar Grímsson eigi margt eftir í embætti forseta Íslands, þó hann hafi setið á Bessastöðum í tæp ellefu ár. Það má kannski marka af þessum orðum að Ólafur Ragnar stefni á fjórða kjörtímabilið, eins og Ásgeir Ásgeirsson og Vigdís Finnbogadóttir en láti ekki tólf ár duga eins og dr. Kristján Eldjárn. Mér fannst ummæli hennar um framtíðina athyglisverð. Þau mátti merkja á báða vegu en mér fannst þau þó skýrari merki í þá átt að hún telji Ólaf Ragnar eiga enn nokkuð eftir á forsetastóli.
Dorrit hefur verið í kastljósi fjölmiðla allt frá sögufrægum útreiðartúr þar sem forsetinn axlarbrotnaði og hún birtist við hlið hans í samlitum fötum við útgang Landsspítalans. Þar var hún hin framandi kona sem fáir þekktu en allir vissu að hafði fangað hug og hjarta þjóðhöfðingja sem var að jafna sig eftir erfiðan ástvinamissi. Áratug síðar er hún enn framandi og segir enn sögu sem við þekkjum ekki. En eitt er víst; ævi Dorritar á forsetavakt er athyglisverð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)