Margrét Sverris hjólar í Magnús Þór

Margrét Sverrisdóttir Margrét Sverrisdóttir hefur nú tilkynnt um varaformannsframboð í Frjálslynda flokknum gegn Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Athyglisvert að hún fari ekki í formannsframboð, en það kemur svosem varla að óvörum, enda hefði slíkur slagur væntanlega orðið flokknum þungt á kosningaári. Mun heppilegra væntanlega fyrir hana að leggja heldur til við Magnús Þór og vera við hlið Guðjóns Arnars í forystu.

Margrét heldur því í samskonar átök og Gunnar Örn Örlygsson lagði í fyrir tveim árum. Þá gaf hann kost á sér gegn Magnúsi Þór. Hann tapaði og fór yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Það var heljarmikið uppgjör. Nú hjólar Margrét í Magnús Þór. Mikil tíðindi þetta, enda hefur Magnús Þór verið varaformaður og þingflokksformaður líka í vel á fjórða ár. Þetta verður visst uppgjör milli afla innan flokksins og mun móta flokkinn í aðdraganda þessara kosninga.

Þetta verður væntanlega harður slagur og mikil átök, enda til mikils að vinna fyrir þann er sigrar og mikið fall fyrir þann sem tapar. Magnús Þór tapar sess sínum sem maður númer tvö tapi hann þessum slag en Sverrisarmurinn fær þungan skell og vont áfall tapi Margrét. Það verður fróðlegt að sjá hvort þeirra muni vinna þennan slag á landsfundi um aðra helgi.

mbl.is Margrét Sverrisdóttir sækist eftir sæti varaformanns Frjálslynda flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konungleg stemmning á Golden Globe

Dame Helen MirrenÞað var konungleg stemmning í Los Angeles í gærkvöldi þegar að Golden-Globe voru afhent í 64. skiptið. Stjarna kvöldsins var breska leikkonan Dame Helen Mirren sem hlaut tvö leikverðlaun fyrir túlkun sína á tveim kjarnakonum í sögu breska konungsveldisins; Elizabeth I, í samnefndri sjónvarpsmynd sem fjallar um efri ár drottningarinnar sem ríkti árin 1558-1603, og Elizabeth II, þar sem hún túlkar drottninguna sem ríkt hefur frá árinu 1952 í kvikmyndinni The Queen, sem lýsir eftirmála dauða Díönu, prinsessu af Wales, í Frakklandi í september 1997.

Mörgum að óvörum hlaut kvikmyndin Babel verðlaunin sem besta dramatíska kvikmynd ársins. Hún var tilnefnd til sjö verðlauna, en hlaut aðeins þessi einu, sem eru þýðingarmikil enda marka hana sem sterkt óskarsverðlaunaefni. Söngvamyndin Dreamgirls hlaut verðlaunin sem besta gaman/söngvamynd ársins og ennfremur fyrir leikara í aukahlutverkum; Eddie Murphy og Jennifer Hudson. Murphy, sem þótti hafa dalað sem leikari að undanförnu, á þar öfluga endurkomu og er orðaður við óskarinn og hin lítt þekkta Idol-stjarna (vann ekki árið 2004) Hudson slær í gegn sem eitt mesta nýstirni undanfarinna ára.

Leikarinn Forest Whitaker hlaut verðlaunin sem leikari í aðalhlutverki í dramatískri kvikmynd fyrir túlkun sína á einræðisherranum Idi Amin í Úganda. Er Whitaker orðaður við óskarinn, enda þykir hann eiga stjörnuleik í myndinni. Eins og fyrr segir vann Helen Mirren verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki í dramatískri mynd. Leikkonan Meryl Streep vann verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki kvenna í gaman/söngvamynd í myndinni The Devil Wears Prada þar sem hún fer á hlutverkum í hlutverki kuldalega tískuritstjórans Miröndu Priestley. Sacha Baron Cohen hlaut verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki í gaman/söngvamynd fyrir sprenghlægilega túlkun sína á hinum kostulega Borat.

Mörgum að óvörum tókst kvikmyndinni The Departed ekki að hljóta verðlaunin sem besta dramatíska kvikmynd ársins, né tókst leikurunum Leonardo DiCaprio, Mark Wahlberg og Jack Nicholson að vinna verðlaunin fyrir leik sinn í myndinni. Hinsvegar tókst leikstjóranum Martin Scorsese að hljóta gullhnöttinn fyrir leikstjórn sína. Scorsese hefur oft verið tilnefndur en aðeins einu sinni unnið; fyrir fjórum árum, árið 2003, fyrir kvikmyndina Gangs of New York. Scorsese er nú orðaður við leikstjóraóskarinn og DGA-leikstjóraverðlaunin sem afhent eru skömmu fyrir afhendingu óskarsverðlaunanna. Scorsese hefur aldrei hlotið óskarinn á löngum leikstjóraferli og þykir mörgum vera kominn tími.

Kvikmynd Clint Eastwood, Letters from Iwo Jima, hlaut verðlaunin sem besta erlenda mynd ársins. Eastwood var tilnefndur fyrir leikstjórn sína í henni og Flags of Our Fathers (sem var að stórum hluta tekin hérlendis). Kvikmyndin The Queen var verðlaunuð fyrir besta kvikmyndahandrit ársins. Í myndinni er lýst eftirmála dauða Díönu prinsessu, fyrir tæpum áratug, er hún var syrgð um allan heim. Krafa fólksins var að drottningin sýndi henni virðingu og þrýstingurinn neyddi hana til þess. Atburðunum er lýst með lágstemmdum og hlutlausum hætti með gríðarlega góðum hætti og handritið er einn megingrunnur myndarinnar, utan leiksins. Lag Prince í kvikmyndinni Happy Feet var valið kvikmyndalag ársins.

Elizabeth I var valin besta sjónvarpsmynd ársins og aðalleikkona myndarinnar Dame Helen Mirren valin besta leikkonan í sjónvarpsmynd. Bill Nighy var valinn besti leikarinn í sjónvarpsmynd fyrir leik sinn í Gideon´s Daughter. Ugly Betty var valin besta gamanþáttaröðin í sjónvarpi og aðalleikkona þáttanna, America Ferrera, var valin besta leikkonan í gamanþætti. Alec Baldwin var valinn besti leikarinn í gamanþætti fyrir 30 Rock. Grey´s Anatomy var valinn besti dramatíski þátturinn í sjónvarpi. Hugh Laurie var valinn besti leikarinn í dramaþætti fyrir leik sinn í House og Kyra Sedgwick besta leikkonan fyrir Closer. Aukaleikarar í sjónvarpi voru valdir Jeremy Irons fyrir Elizabeth I og Emily Blunt fyrir Gideon´s Daughter.

Leikarinn og leikstjórinn Warren Beatty hlaut Cesil B. DeMille heiðursverðlaunin fyrir æviframlag sitt til kvikmynda sem litríkur leikari og stórtækur leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi. Hann flutti gríðarlega góða þakkarræðu er hann tók við verðlaununum. Beatty alltaf góður. Sem minnir mig á að ég verð að fara að rifja upp kynnin af mynd hans, Bonnie and Clyde, frá árinu 1967, þar sem hann lék á móti Faye Dunaway, og bestu kvikmyndinni sem hann gerði sjálfur, Reds, árið 1981. Umdeild en ógleymanleg kvikmynd um ævi John Reed, sem hann hlaut leikstjóraóskarinn fyrir árið 1982.

Kvikmyndahluti Golden Globe gefur oft vísbendingar um Óskarsverðlaunin sem afhent eru í febrúarlok, en tilnefningar til verðlaunanna verða kynntar í næstu viku. Valdir partar af verðlaunaafhendingunni verða sýndir á Stöð 2 í kvöld - hvet alla sem ekki gátu skiljanlega vakið í nótt að horfa á þá það helsta sem uppúr stóð eftir kvöldið. Það er ljóst að fjöldi góðra mynda eru á leiðinni upp á skerið og nóg af úrvalsefni fyrir okkur kvikmyndaáhugafólk að sjá - sérstaklega hlakkar mér til að sjá Babel og Dreamgirls, svo fátt eitt sé nefnt.

Allar upplýsingar um Golden Globe 2007


mbl.is Babel og Dreamgirls valdar bestu myndirnar á Golden Globe hátíðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarfdælski forsetinn

Dr. Kristján Eldjárn Síðustu dagana hef ég endurnýjað kynni mín af ævisögu Gylfa Gröndal um Svarfdælinginn Kristján Eldjárn og forsetaferil hans. Kristján hefur alltaf að mínu mati verið fremstur forsetanna fimm - sannkallaður heiðursmaður sem var sameiningartákn í embættinu. Fyrir nokkrum vikum var bloggvinur minn, Hrafn Jökulsson, með könnun á forsetunum á vef sínum og þar kaus ég auðvitað Kristján. Hann vann í þessari netkönnun hans, enda greinilega ofarlega í huga landsmanna.

Bók Gylfa um Kristján er gríðarlega vönduð í alla staði, eins og Gylfa er von og vísa. Hann var einn besti ævisagnaritari í sögu íslenskra bókmennta og afkastamikill á því sviði. Ævisaga Kristjáns var með hans betri verkum, en hann skrifaði ennfremur ævisögur forvera hans á forsetastóli; Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar. Kristján vann afgerandi kosningasigur í forsetakjörinu 1968. Hann var forseti fólksins, honum auðnaðist alla tíð að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna.

Það má með sanni segja að Kristján hafi verið ólíkur því sem við kynntumst síðar í þessu táknræna þjóðhöfðingjaembætti. Hann fór í langa göngutúra á Álftanesi, ferðaðist lítið og þótti vera táknmynd alþýðleika hérlendis ásamt eiginkonu sinni, Halldóru Ingólfsdóttur Eldjárn. Deilt var meira að segja um það í kosningabaráttunni 1968 að Kristján væri litlaus og kona hans hefði sést í fatnaði frá Hagkaupsverslunum, svokölluðum Hagkaupssloppi. Lægra þótti háttsettum ekki hægt að komast en að sjást í slíkum alþýðufatnaði. En Kristjáni og Halldóru auðnaðist að tryggja samstöðu um embættið og eru metin með þeim hætti í sögubókunum, nú löngu eftir að hann lét af embætti.

Kristján var forseti á miklum umbrotatímum hérlendis, bæði í þjóðmálum og á vettvangi stjórnmála. Hann var mjög kraftmikill ræðumaður og rómaður fyrir innihaldsríkar og tilkomumiklar ræður sínar. Á ég ræðusafn hans í bókaformi. Tvær ræður hans, við embættistökuna 1968 og nýársávarp 1976, á ég í hljóðformi og þátt um ævi hans sem Gylfi Gröndal gerði árið 1996 á ég líka. Þeir þættir voru gerðir í aðdraganda forsetakjörs það ár er Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti.

Bók Gylfa um Kristján er stórfengleg lýsing á þessum merka manni. Merkilegast af öllu við að kynna mér hann og verk hans í gegnum þessa bók var það að honum var alla tíð frekar illa við Bessastaði og var alltaf stressaður vegna ræðuskrifa sinna - var aldrei sáttur við neinar ræður sínar. Hann var hinsvegar talinn þá og enn í dag besti ræðumaður sinnar kynslóðar að væntanlega Gunnari Thoroddsen frátöldum.

Hvet ég alla til að lesa þessa góðu bók og reyndar aðrar ævisögur Gylfa um forsetana, fróðleg umfjöllun um ævi og forsetatíð forsetanna þriggja - sérstaklega mæli ég þó með bókinni um Kristján, sveitastrákinn að norðan sem varð forseti Íslands og öflugur þjóðhöfðingi landsins.

Barack Obama í forsetaframboð?

Barack Obama Barack Obama kom, sá og sigraði á flokksþingi Demókrataflokksins í Boston í júlí 2004 með glæsilegri ræðu. Nokkrum mánuðum síðar var hann kjörinn í öldungadeildina. Nú virðist nær öruggt að hann gefi kost á sér til embættis forseta Bandaríkjanna. Um það framboð hefur verið talað mánuðum saman. Fyrir jól fór Obama til New Hampshire, þar sem fyrstu forkosningar vegna forsetakosninganna 2008 fara fram eftir nákvæmlega ár, og fékk gríðarlega sterkar viðtökur. Sagt er að pólitísk stjarna sé komin til sögunnar.

Segja má að Barack Obama hafi í ferð sinni til New Hampshire fengið mestu viðbrögð sem nokkur mögulegur forsetaframbjóðandi hafi fengið í New Hampshire á þessum tímapunkti fyrir forsetakjör síðan að John F. Kennedy fór af stað með framboð sitt fyrir um hálfri öld. Það er ekki undarlegt að þessar sterku viðtökur og kraftur sem einkenndi könnunarleiðanur Obama veki honum von í brjósti á sama tíma og uggur hlaut að einkenna hugsanir Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmanns og fyrrum forsetafrúar, og stuðningsmanna hennar.

Nú er Obama kominn af stað með könnunarnefnd forsetaframboðs, sem er afgerandi vísbending um framboð. Síðustu árin hefur Hillary verið afgerandi líklegust meðal demókrata til að verða forsetaefni á næsta ári, í kosningunum þar sem eftirmaður George W. Bush verður kjörinn. Sú staða er að breytast og horft er sífellt meir í áttina til Obama. Mörgum demókrötum finnst hann ferskur valkostur, unglegur og heillandi, og hugsa ósjálfrátt til Kennedys forseta, sem heillaði bandarísku þjóðina fyrir hálfri öld er hann hóf forsetaframboð sitt og naut mikils stuðnings allt þar til að öllu lauk svo snögglega er hann féll fyrir morðingjahendi í Dallas á nöprum föstudegi sem markaði þáttaskil í bandarískum stjórnmálum.

Ólíkt er vissulega með Obama og Kennedy að sá síðarnefndi hafði að baki setu í bæði öldungadeildinni og fulltrúadeildinni í 13 ár er hann varð forseti en Obama á aðeins að baki tveggja ára setu í öldungadeildinni. Hann er því talinn reynsluminni og það er einmitt það sem margir nefna sem helstu veikleika hans. Margir segja það ekki skipta máli, hann hafi ferskleikann sem flokkinn vanti og hafi vantað frá gullaldardögum Bill Clinton fyrir einum og hálfum áratug er hann komst í Hvíta húsið á stjörnuljóma, snúnum frösum og gullnum spinntöktum. Það má efast verulega um að Clinton-hjónin deili þeim skoðunum, enda gæti svo farið að Obama myndi stela frá henni pólitísku tækifæri ferils hennar; aðgöngumiða flokksins að Hvíta húsinu.

Fyrir nokkrum misserum hefði fáum órað fyrir að Hillary fengi alvöru samkeppni um útnefningu Demókrataflokksins um forsetaembættið, en menn eru farnir að horfa meira til þess að alvöruhasar verði og þá á milli þeirra tveggja. Spenna virðist komin upp meðal demókrata og núningur virðist orðinn milli Obama og Hillary. Bíða flestir nú eftir formlegri ákvörðun hinnar þeldökku vonarstjörnu, sem enn liggur undir feldi að hugsa málin og ætlar að gefa út formlega tilkynningu fyrr en síðar, en fréttir af vinnu bakvið tjöldin við að kanna grundvöll framboðs gefa skýrar vísbendingar. Búast má við að bæði Hillary og Obama taki af skarið innan mánaðar.

Það yrðu stórtíðindi færi Barack Obama fram og Hillary Rodham Clinton færi í slaginn ennfremur og myndi tryggja líflega baráttu um það hver yrði frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum eftir tvö ár.

Skandall á skandal ofan í Byrginu

Byrgið Þeir voru ekki öfundsverðir fráfarandi og settur forstöðumaður Byrgisins að verja óráðsíuna og skandalana sem þar hafa viðgengist í viðtölum í sjónvarpi og útvarpi í dag. Það er erfitt að verja eitthvað á borð við það sem gerst hefur, enda var skýrsla Ríkisendurskoðunar svo svört að maður man varla annað eins. Þetta er mikill áfellisdómur yfir Byrginu, ég held að nær allir geti verið sammála um það.

Þessi skýrsla var miklu dekkri og drungalegri en mér hefði eiginlega órað fyrir. Það er svo margt gruggugt þarna að mann setur hljóðan hvernig þetta gat viðgengist öll þessi ár. Það er sérstaklega dapurlegt að ríkisfé hafi streymt þarna inn og ekkert verið fylgst með því hvernig því var varið. Þessi Byrgis-skandall hlýtur að kalla á uppstokkun allra vinnubragða við ríkisstyrkveitingar af þessu tagi og nánari eftirgrennslan þess hvernig fénu sé varið og í hvaða verkefni það í raun fari. Þessi skýrsla er áfellisdómur yfir vinnuferlum félagsmálaráðuneytisins.

Þessi mál eru á könnu félagsmálaráðuneytisins, enginn vafi á því. Það er algjörlega ótækt annað en leitað verði viðbragða þeirra félagsmálaráðherra sem sátu á þeim tíma sem um er að ræða; eftir skýrsluna 2001 sem var vond fyrir Byrgið, en er eins og englablíða miðað við það svartnætti og þá bókhaldsóreiðu sem við blasir. Páll Pétursson og Árni Magnússon voru félagsmálaráðherrar meginþorra þess tíma sem um ræðir. Páll var á þeim stóli í tvö ár eftir að fyrri skýrsla kom út og Árni í þrjú ár. Það er ekki hægt annað en leita viðbragða þeirra á þessum skandal.

Heilt yfir skiptir máli að vel verði haldið á málefnum þeirra sem þurfa á hjálp að halda. Þó að Byrgið hafi fengið þetta náðarhögg og þeir sem stjórnað hafa því má ekki gleyma að veita þarf fólki í neyð vegna fíknar sinnar og óreglu hjálparhönd. Það er gott að félagsmálaráðuneytið hafi leitað til Samhjálpar og þar verði unnið vel á öðrum grunni. Hvað Byrgið varðar er til skammar hversu lengi því tókst að vinna með þeim hætti sem það gerði í fjárhagslegu tilliti.

mbl.is Innlegg úr söfnun fóru jafnóðum inn á persónulegan bankareikning forstöðumanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband