7.1.2007 | 18:35
Ómerkilegar kjaftasögur um Magna

Nú virðist fátt meira rætt á netinu en nafnlausar kjaftasögur á spjallvefum að Magni og Dilana, sem var með honum í RockStar Supernova hafi átt í ástarsambandi sem leitt hafi til sambandsslitanna. Þetta eru ómerkilegar kjaftasögur, mjög slæmur fylgifiskur frægarinnar, eins og ég sagði hérna á vefnum í gær.
Það er víst segin saga með Íslendinga að Gróa á Leiti býr í hugum margra. En þetta er allt mjög leiðinlegt mál. Þetta gekk reyndar svo langt að, skv. visir.is, að opinberri aðdáendasíðu Magna, www.magni-ficent.com, var lokað í gær eftir að einn notandi gekk svo langt að falsa frétt um þessar sögusagnir og notaði til þess útlit CNN-fréttastofunnar.
Svo er talað um kjaftagang á barnalandi, þar sem allt mun undirlagt í kjaftasögum og umræðu um þessi mál. Það er reyndar með ólíkindum að nafnið barnaland sé yfirheiti þeirrar kjaftasamkundu sem það spjall er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.1.2007 | 14:35
Svandís ver ekki skrifin á Múrnum

Þeim fer fækkandi sem leggja upp í að verja Múrinn og þessi skrif sem einkennst af kergju og gremju í garð Margrétar Frímannsdóttur, sem skrifaði pólitíska ævisögu sína fyrir jólin og skrifaði þar um samskipti sín og Steingríms J. Sigfússonar á stormasömum árum innan Alþýðubandalagsins. Heift er í garð Margrétar fyrir þau söguskrif. Það sjá allir sem lesa Múrinn og hin frægu ummæli þar um bók Margrétar og sáu vandlætingarsvipinn á Steingrími J. í Kryddsíld á gamlársdag er rætt var um þessa bók. Þar vildi hann með engum hætti ræða eða fara yfir skrif Margrétar. Athyglisvert það.
Þeir voru sennilega fáir sem höfðu hugmyndaflug í það á gamlársdag þegar að áramótaumfjöllun Múrsins var lesin að þar væri verið að grínast með Jón Baldvin Hannibalsson. Þetta er einhver lélegasta eftiráskýring eða hol afsökun sem ég hef lengi séð í stjórnmálaumræðu. Hví var nafn Thelmu Ásdísardóttur nefnt í sömu mund og Margrétar Frímannsdóttur og bókar hennar? Hefur einhver innan VG húmor fyrir svona skrifum? Eftir stendur að þetta var mjög ósmekklegt og þetta fór fyrir brjóstið á mörgum. Það er lítilmannlegt að skrifa með þessum hætti og það er ekki hlaupið að því að verja það.
Það sést sífellt betur að þessi skrif eru að verða mikið fótakefli og vandræðabarn fyrir VG. Hvernig getur femínisti sem á að taka alvarlega í stjórnmálaumræðu gert grín að lífsreynslusögu Thelmu, sem varð fyrir alvarlegu kynferðisofbeldi í æsku sinni, og ekki beðið viðkomandi afsökunar á misheppnuðum brandaranum? Það er ekki furða að Svandís leggi ekki í að verja skrifin, enda eru þau óverjandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.1.2007 | 13:03
Síðasta embættisverk Kristjáns Þórs

Í sameiningarkosningu samhliða forsetakjöri í júní 2004 ákváðum við íbúar í þessum tveim sveitarfélögum að taka höndum saman til framtíðar með afgerandi hætti á báðum stöðum. Yfirgnæfandi meirihluti var til staðar við sameiningu. Á þeim degi sem forseta- og sameiningarkjörið fór fram fann ég vel að áhugi fólks hér var mun frekar bundinn við sameiningarkosninguna en forsetakjörið, en megintíðindi þess var að yfir 20% fólks skilaði auðu í kjöri þar sem sitjandi forseti var í framboði.
Það sem ég met mest í bæjarmálunum hér síðustu árin er einmitt þessi samvinna Akureyringa og Hríseyinga sem hefur verið mjög farsæl. Það hefur gengið vel að vinna saman og fyrir okkur í flokksstarfinu innan Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri hefur verið notalegt að kynnast góðum félögum okkar út í eyju, en þar er starfandi flokksfélag í okkar nafni. Ég komst því miður ekki út í eyju í gær til að verða viðstaddur þessa athöfn, en það fór ekki á milli mála í kosningabaráttunni í fyrravor að þetta mál var það sem að íbúar í Hrísey lögðu mesta áherslu á og var þeirra hjartans mál. Það er svo sannarlega skiljanlegt og gleðilegt að það verði að veruleika nú.
Mörgum finnst það eflaust merkilegt að síðasta embættisverk Kristjáns Þórs á litríkum bæjarstjóraferli sé á vettvangi í Hrísey, nýjasta hverfi Akureyrarbæjar. Mér finnst það viðeigandi að þar sé síðasta stórverkið, enda var þetta íþróttahús stórt í huga okkar sjálfstæðismanna og við höfum klárað málið í samstarfi við Samfylkinguna nú.
Það er mjög gott að málið sé klárað á þeim tímapunkti sem Kristján Þór lætur af embætti bæjarstjóra og heldur til verka á öðrum vettvangi. Önnur verkefni taka nú við innan meirihlutans og verður fróðlegt að fylgjast með forystu nýs bæjarstjóra í þeim efnum.
![]() |
Skóflustunga tekin að íþróttahúsi í Hrísey |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.1.2007 | 00:15
Gremja vinstri grænna í garð Möggu Frímanns

Steingrími féllust hendur þegar að Egill Helgason fór að tala um bókina í Kryddsíld á gamlársdag og vildi greinilega einhver viðbrögð. Hann sagði með uppstríluðum vonskusvip að hann ætlaði nú ekki að ræða þau mál á þessum vettvangi. Í áramótaúttekt Múrsins á gamlársdag segir svo um bók Margrétar: "Bók ársins: Minnislausa stelpan frá Stokkseyri. Margrét Frímannsdóttir heimfærir endurminningar Thelmu Ásdísardóttur upp á sjálfa sig." (feitletrun er mín).
Meðal þeirra sem skrifuð eru fyrir þessum skrif er Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG og leiðtogi flokksins á öðrum framboðslistanum í Reykjavík. Það er ekki hægt annað en að finnast þessi skrif Katrínar og félaga hennar á Múrnum mjög lágkúruleg og þeim til skammar. Þessi skrif eru Múrnum lítill vegsauki, en í gegnum þau skín heift og kergja með það að Margrét hafi skrifað sig frá árunum með Steingrími J. og rakið pólitískan bakgrunn þess manns sem stjórnar VG og kallar sig femínista til hátíðabrigða.
Ég hef lengi verið viss um það að Steingrímur J. hafi aldrei getað yfirstigið það að hafa orðið undir fyrir Margréti í formannskjöri Alþýðubandalagsins fyrir tólf árum. Það var gríðarlegt pólitískt áfall fyrir hann, eftir að hafa verið varaformaður Alþýðubandalagsins í sex ár, frá því að hann felldi Svanfríði Jónasdóttur af varaformannsstóli, að fóta sig eftir það áfall. Kergja flokkseigendafélagsins og nánustu samverkamanna var skýr og afgerandi beitt og um hana má lesa í bók Margrétar, sem allt að því sætti pólitíku einelti meðal eigin þingflokks, þar til að Steingrímur J. og nánustu samverkamenn gengu á dyr og stofnuðu VG.
Steingrímur J. og Margrét áttu aldrei skap saman eftir formannskjörið sögulega árið 1995, er Margrét skellti Steingrími í póstkosningu allra flokksmanna. Vinnubrögðin á Múrnum nú sýna vl að ekkert er gleymt og ergelsið býr innst í hugarskotum lærisveina formannsins, sem enn muldrar í horni tóna ergju og reiðilesturs á bakvið tjöldin. Það að blanda nafni Thelmu Ásdísardóttur inn í umræðu um bók Margrétar er til hreinnar skammar, fyrir flokk og forystukonu sem vill kenna sig við femínisma og segir sína sögu um innrætið á bænum.
Þessi femíniski húmor þeirra á Múrnum meikar engan sens og flestir sitja eftir hristandi hausinn yfir þeim á Múrnum sem berja hausnum við sjálfan múrinn. Afsökunarbeiðni þeirra á Múrnum er í undarlegri taginu að mínu mati, sem og fleiri, þar er sagt að hér hafi verið "djókað" með Jón Baldvin og ummæli hans um heimilisofbeldið sem Margrét þurfti að þola innan Alþýðubandalagsins frá flokkseigendafélaginu. Ekki botnar maður í því.
Finnst þeim á Múrnum virkilega fyndið að bera pólitísk söguskrif Margrétar saman við skelfilega lífsreynslu Thelmu Ásdísardóttur? Þessi afsökunarbeiðni virkar frekar hol og innantóm eins og galtóm tunna. Það liggur við að maður líti á þetta sem jafn innantóma iðrun og Árni Johnsen sýndi um daginn sjálfstæðismönnum sem veittu honum annan séns. Er þetta kannski tæknileg iðrun á Múrnum?