Sigrún Björk bæjarstjóri - tímamót í bæjarmálum

Sigrún Björk Jakobsdóttir Sigrún Björk Jakobsdóttir tók við embætti bæjarstjóra á Akureyri á bæjarstjórnarfundi fyrir stundu. Hún var kjörin eftirmaður Kristjáns Þórs Júlíussonar á bæjarstjórastóli með atkvæðum átta bæjarfulltrúa meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og minnihlutafulltrúa Lista fólksins. Sigrún Björk er nú leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar. Kristján Þór, sem verið hefur bæjarstjóri á Akureyri í níu ár eða frá 9. júní 1998, var á fundinum kjörinn forseti bæjarstjórnar. Hann mun því sitja áfram í bæjarstjórn en víkur nú úr öllum nefndum.

Sigrún Björk er tíundi bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar, frá árinu 1919, og er fyrsta konan sem gegnir embættinu. Hún hefur átt sæti í bæjarstjórn Akureyrar frá kosningunum 2002 og varð forseti bæjarstjórnar í stað Þóru Ákadóttur í kjölfar kosninganna vorið 2006. Hún var formaður menningarmálanefndar og Akureyrarstofu 2002-2007 og var varaformaður bæjarráðs þar til í dag. Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi, verður nú varaformaður bæjarráðs og framkvæmdaráðs og formaður Akureyrarstofu, auk þess að vera formaðu skólanefndar.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, er fædd 23. maí 1966. Hún er stúdent frá Menntaskólanum við Sund og útskrifaðist úr IHTTI hótelstjórnunarskólanum í Sviss árið 1990. Einnig hefur hún lokið námi í nútímafræðum við Háskólann á Akureyri og stjórnunarnámi á vegum Símenntunar HA. Sigrún hefur starfað sem hótelstjóri á Hótel Austurlandi, í sölu- og markaðsdeild Hótel Íslands, verið hótelstjóri á Hótel Norðurlandi, deildarstjóri hjá Úrvali-Útsýn, verkefnastjóri hjá Menntasmiðjunni á Akureyri og verkefnastjóri hjá Price Waterhouse Coopers.

Leiðtogaskipti hjá okkur sjálfstæðismönnum í bæjarmálum eru mikil tímamót fyrir okkur sem höfum unnið í félagsstarfi flokksins, en við höfum leitt bæjarmálin í tæpan áratug. Kristján Þór Júlíusson var allan sinn bæjarstjórnarferil mjög áberandi í sínum verkum og verið afgerandi leiðtogi. Brotthvarf hans sem leiðtoga boðar nýja tíma í bæjarmálunum, en hann heldur áfram í bæjarmálum en á öðrum vettvangi þar. Hann mun nú taka við stjórn bæjarstjórnarfunda og verða forystumaður bæjarstjórnarinnar. Flestum sjálfstæðismönnum er þakklæti í huga í garð pólitískrar forystu Kristjáns Þórs á þessum tímamótum, en hann hefur fært okkur öfluga forystu og leitt okkur til góðra sigra.

Ég vil óska nýjum bæjarstjóra, góðri vinkonu og öflugum samherja í innra starfi flokksins hér um langt skeið, til hamingju með merkan áfanga. Við sjálfstæðismenn á Akureyri erum stoltir að því að fyrsta konan sem verður bæjarstjóri sé úr Sjálfstæðisflokknum. Í þessu felast tímamót í bæjarmálunum - auk þessa eru enn ein tímamótin sem verða með kjöri Kristjáns Þórs sem forseta bæjarstjórnar, en hann er fyrsti bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar sem tekur við því embætti.

Rimma Magna við kjaftasögurnar

Magni Ekki er maður hissa á því að Magni sé orðinn þreyttur á kjaftasögunum. Það er eflaust erfiðara en nokkuð annað en að verða að sætta sig við vont eða rangt umtal bara vegna þess að maður sé frægur, en svo er nú oft staðan. Frægðin getur verið ágæt sínar fimmtán mínútur, eins og sagt er, en síðan getur oft versnað yfir stöðunn.

Skrautlegt spjallsvæðið á Barnalandi er eflaust eitthvað sem flestir hafa skoðun á, sérstaklega núna þessa dagana vegna þessa máls. Ég skrifaði smá um það hérna í gær. Fékk ég eftir það góð komment og svo tölvupósta þar sem margir er lesa þar og skrifa daglega sögðu sínar skoðanir, bæði blótuðu spjallsvæðinu og lofuðu það. Merkilegt mál. Sitt sýnist hverjum yfir þetta spjallsvæði.

Öld kjaftasagnanna hefur lengi verið við lýði hér á Íslandi. Það er ekkert nýtt. Annars er það kostulegt oft hvað saga getur breyst í meðförum fólks, margfaldast og orðið önnur meiri. Gróa lifir víst enn góðu lífi.

mbl.is Magni býr sig undir langt tónleikaferðalag um Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigrún Björk tekur við embætti bæjarstjóra

Sigrún Björk Jakobsdóttir Sigrún Björk Jakobsdóttir verður í dag fyrsta konan á bæjarstjórastóli í sögu Akureyrarkaupstaðar. Hún tekur við embættinu af Kristjáni Þór Júlíussyni á bæjarstjórnarfundi sem hefst kl. 16:00. Hún verður leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar samhliða því. Sigrún Björk hefur setið í bæjarstjórn frá árinu 2002 og hefur verið forseti bæjarstjórnar frá því í júní 2006.

Það er alveg ljóst að leiðtogaskiptin innan Sjálfstæðisflokksins marka nokkur þáttaskil í bæjarmálunum. Kristján Þór hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í áratug og verið bæjarstjóri frá 9. júní 1998. Sigrún Björk varð önnur í prófkjöri flokksins í febrúar á síðasta ári og hlaut ein, utan Kristjáns Þórs, bindandi kosningu þar. Hún hefur setið í stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar og verið áberandi í öllu flokksstarfinu hér.

Það er að mínu mati mikið gleðiefni að Sjálfstæðisflokkurinn eigi fyrsta kvenkyns bæjarstjórann í sögu Akureyrar. Þetta er því merkilegur dagur í bæjarmálunum hér. Kristján Þór Júlíusson tekur við sem forseti bæjarstjórnar samhliða því að hann víkur sem bæjarstjóri. Uppstokkun verður á nefndum og ráðum. Hjalti Jón Sveinsson, bæjarfulltrúi, tekur sæti Sigrúnar Bjarkar í bæjarráði og Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi, tekur sæti í framkvæmdaráði, stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar og verður formaður stjórnar Akureyrarstofu, auk þess að gegna formennsku í skólanefnd. 

Þetta er stór dagur í bæjarmálunum. Sigrún Björk Jakobsdóttir verður tíundi bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar, frá árinu 1919, og fyrsta konan. Því fylgja mikil tímamót. Ég vil óska Sigrúnu Björk Jakobsdóttur innilega til hamingju með embættið. Við höfum átt langt samstarf í flokksstarfinu hér og unnið saman í mörgum verkefnum. Ég þekki hana því vel og veit því vel að hún á eftir að verða mjög áberandi og öflug í þessu krefjandi verkefni.

Sigrún Björk var í góðu viðtali hjá morgunhönunum Gesti Einari og Huldu Sif hér á Akureyri í morgun. Bendi lesendum á að hlusta á viðtalið.

mbl.is Nýr bæjarstjóri tekur við á Akureyri í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Al Gore snúa aftur?

Al Gore Um þessar mundir eru sex ár síðan að Al Gore hvarf úr miðpunkti stjórnmálaumræðu eftir að hafa naumlega mistekist að verða forseti Bandaríkjanna í jöfnustu forsetakosningum í sögu landsins. Nú er talað um pólitíska endurkomu hans og hvort hann muni gefa kost á sér í forkosningum demókrata, sem hefjast eftir ár, við val á forsetaefni flokksins. Al Gore hlaut fleiri atkvæði í forsetakosningunum 2000 á landsvísu en George W. Bush en mistókst að sigra í fleiri fylkjum Bandaríkjanna og tapaði því í kjörmannasamkundunni.

Eins og flestir vita er forsetakjörið í Bandaríkjunum kosning á kjörmönnum fylkjanna. Þeir sem sigra í sem flestum fylkjum hljóta Hvíta húsið. 270 kjörmenn þarf til að hljóta hnossið. Í 36 daga börðust Gore og Bush hatrammlega eftir kjördag fyrir því að hljóta 25 kjörmenn Flórída-fylkis. Þar réðust örlögin. Gore var framan af örlagaríkri kosninganótt spáð sigri þar. Allar stóru fréttastöðvarnar hlupu á sig og urðu að bakka frá spádómnum. Bush hlaut fylkið er á hólminn kom en með nær engum teljanlegum mun. Flórída varð fylki örlaganna í kosningunum.

Gore ákvað að véfengja þau úrslit er ljóst varð að innan við 1000 atkvæði skildu að. Fór hann fyrir dómstóla með mál sitt og reyndi að hnekkja staðfestum úrslitum í fylkinu og krafðist algjörrar endurtalningar allra atkvæðaseðla. Eftir lagaströggl og deilur í tæpa 40 daga viðurkenndi Gore loks ósigur sinn þann 13. desember 2000 eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna hafði fellt þann úrskurð sinn að Bush hefði unnið Flórída og ekki yrði um frekari endurtalningar að ræða. Dómurinn var þó ekki einróma í því mati og skiptist eftir frægum sögulegum fylkingum í forsetatíð William H. Rehnquist í réttinum, árin 1986-2005. Gore fór sár af velli átakanna. Naumari gat tapið ekki orðið.

Richard M. Nixon og Al Gore eiga það sameiginlegt að hafa tapað naumlega forsetakosningum meðan að þeir gegndu embætti varaforseta. Báðir tóku þeir tapið gríðarlega nærri sér. Merkilega margt er líkt með sálrænu áfalli þeirra eftir tapið. Nixon tapaði fyrir John F. Kennedy með svo naumum hætti að lengi vel var óvíst um úrslitin. Deilt var um úrslitin í Illinois meðal annars. Ólíkt Gore véfengdi Nixon ekki stöðu mála þar og bakkaði frá stöðu mála. Ósigur Gore var mun tæpari en Nixons fjörutíu árum áður. Það hefur margt verið rætt og ritað um tap Nixons. Hann var brennimerktur af því alla tíð. Gore gekk í gegnum svipaðan sálrænan öldudal.

Nixon tókst að eiga sér endurkomu. Hann gaf kost á sér í forsetakosningunum 1968. Framan af benti flest til þess að keppinautur hans í kosningunum yrði Robert F. Kennedy, bróðir Kennedys forseta, sem sigraði Nixon átta árum áður. Það hefði orðið söguleg rimma og athyglisverð. Af henni varð ekki. Kennedy var myrtur í Los Angeles eftir forkosningasigur í júní 1968 með sama sjónræna skelfilega hættinum í kastljósi fjölmiðlanna og bróðir hans fimm árum áður. Keppinautur Nixons varð Hubert Humphrey, varaforseti Johnson-stjórnarinnar. Nixon vann kosningarnar naumlega. Forsetaferill hans varð stormasamur en honum tókst að ná endurkjöri árið 1972.

Richard Nixon neyddist til að segja af sér vegna Watergate-hneykslisins árið 1974, fyrstur forseta í sögu landsins. Það voru söguleg endalok en forsetaferill hans lamaðist vegna þessa umdeildasta pólitíska hneykslismáls sögunnar. Það verður seint sagt að Nixon og Gore eigi pólitískt margt sameiginlegt. Um margt voru þeir sem dagur og nótt. Bitur reynsla þeirra við tap í forsetakosningum er þó kaldhæðnislega lík þegar á er litið. Báðir mörkuðust þeir alla tíð af tapinu. Nixon tókst að eiga sér endurkomu og eiga söguleg ár á forsetastóli, með mörgum afrekum á vettvangi utanríkismála. Þau féllu þó öll í skugga pólitískra endaloka hans, en valdaferlinum lauk með skömm.

Al Gore er sagður vera að hugsa stöðu sína. Margir telja hann eitt sterkasta forsetaefni flokksins þrátt fyrir mistækan stjórnmálaferil sem markast af góðum og slæmum dögum í stjórnmálum. Lykiltromp Gore er fyrst og fremst pólitísk reynsla. Hann var varaforseti Bandaríkjanna á tímum Clinton-stjórnarinnar 1993-2001 og hefur reynslu á vettvangi alþjóðastjórnmála og málum í Washington. Barátta hans í umhverfismálum hefur líka markað honum aðra tilveru sem gæti orðið honum drjúg er á hólminn kemur.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að hann snýr aftur á pólitíska sviðið í aðdraganda kosninganna þar sem eftirmaður keppinautar hans í sögulegustu forsetakosningum Bandaríkjanna frá upphafi verður valinn.

Áhrif myndsímans í kjölfar aftöku Saddams

Saddam HusseinHver hefði trúað því fyrir nokkrum vikum að myndsíminn yrði jafnafdrifaríkur við aftöku Saddams Husseins og raun bar vitni? Nú hefur nýtt myndband birst, tekið í gegnum myndsíma af líki Saddams í kjölfar aftökunnar. Er þar nærmynd af líkinu og sést þar mikið sár á hálsinum. Þetta myndband er nú, rétt eins og hið fyrra, komið á netið og virðist brátt verða meginumræðuefnið í kjölfar aftökunnar

Fyrra myndskeiðið hafði úrslitaáhrif á umræðu meðal almennings gegn aftökunni og dauðarefsingum almennt. Flestir fylltust óhug við að sjá það myndefni sem umheimurinn sá innan við sólarhring eftir aftökuna. Þar sáu allir jarðarbúar aftökuna með raunsæjum og afgerandi hætti, ljóslifandi með vondum myndgæðum en afgerandi áhrifum. Myndsíminn færði kaldhæðnislega síðustu skilaboð Saddams í lifanda lífi. Merkileg endalok það. Það voru eflaust ekki þau skilaboð sem að var stefnt að færa umheiminum.

Hefði umheimurinn aðeins séð klippuna sem stjórnvöld dreifði hefði umræðan orðið önnur en ella varð. Þessi afgerandi vitnisburður aftöku Saddams telst væntanlega þýðingarmesta myndsímaupptakan til þessa. Ofan á allt annað var ógeðfellt að sjá og heyra orðaskipti böðlanna og Saddams áður en sá síðarnefndi fór niður gálgann og snaran hertist um háls hans. Það er óviðunandi andrúmsloft sem þar blasti við og þessi aftaka fékk á sig blæ hefndar en ekki réttlætis í kjölfar dóms. Þessi myndsímaupptaka varð mun raunsærri útgáfa af sannleikanum eins og hann var á þessum vettvangi.

Upptaka aftökunnar í gegnum myndsímann höfðu þau áhrif að andi stundarinnar var fangaður á mynd. Vissulega var klippan gróf og ógeðsleg, en hún sýndi óásættanlegt andrúmsloft við aftöku. Hún breytti umræðunni í kjölfar dauða Saddams. Á því leikur enginn vafi. Það er reyndar umhugsunarefni að tvær myndklippur teknar á myndsíma frá þessu augnabliki dauða Saddams séu til og leiðir hugann að því hvernig staða mála var á þessum stað í Bagdad er einræðisherrann fyrrverandi dó með sama hætti og mörg fórnarlömb valdatíðar hans.

Enginn efast lengur um áhrifamátt myndsímans eftir þetta. Svo mikið er víst.

mbl.is Nýtt myndband af líki Saddams birt á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband