Pólitískt áfall Ingibjargar Sólrúnar

ISG Það hlýtur að teljast pólitískt áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að Samfylkingin sé að mælast með minnsta fylgi sitt í fimm ár þegar að 100 dagar eru til alþingiskosninga. Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður Samfylkingarinnar fyrir tæpum tveim árum á þeim forsendum að hún væri leiðtoginn sem gæti leitt flokkinn til valda, gert hann að pólitísku mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn og orðið sá foringi sem gæti leitt ríkisstjórn. Ef marka má þessa könnun er lítil pólitísk sæla framundan fyrir flokk og formann.

Þessi skoðanakönnun kemur á viðkvæmum tímapunkti fyrir Samfylkinguna. Eins og ég benti hér á fyrir stundu var Samfylkingin með tæplega 40% fylgi í könnun Gallups á sama tímapunkti fyrir fjórum árum, í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Samfylkingin er ekki lengur afgerandi forystuflokkur til vinstri ef marka má þetta. Það er varla við því að búast að VG og Steingrímur J. Sigfússon tali fyrir því að ISG sé einhver leiðtogi stjórnarandstöðunnar í þessari stöðu og vilji byggja kosningabandalag undir hennar stjórn. Staðan virðist mjög skýr - þessi könnun staðfestir aðeins fyrri mælingar á því að Samfylkingin er í frjálsu falli fylgislega séð!

Kaffibandalagið er reyndar í huga margra steindautt. Ætla annars Samfylkingin og VG að leiða Frjálslynda flokkinn til valda og áhrifa í ríkisstjórn eins og staðan er nú? Þetta er stór spurning sem þarf að fá afgerandi svör við. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur svarað þessari spurningu með nokkuð afgerandi hætti. Það er ekki fýsilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hans mati að vinna með frjálslyndum og hann telur slíkt samstarf óraunhæft við núverandi aðstæður. Það er mikilvægt að heyra meira af afstöðu annarra leiðtoga stjórnarandstöðunnar við þessu. Það væri fróðlegt að vita hvort þetta bandalag sé enn til staðar og sé valkostur eftir áhersluskerpu Frjálslyndra í innflytjendamálum.

Þessi könnun hlýtur að valda samfylkingarfólki verulegum vonbrigðum. Þrátt fyrir stjórnarandstöðu undanfarinna ára hrynur fylgið af flokknum. Það virðist ekki vera vilji þjóðarinnar að Samfylkingin fari til valda, ekki ef marka má tæplega tíu prósentustiga tap frá kosningunum 2003. Ef þetta verður niðurstaðan fær Samfylkingin væntanlega 14 þingsæti og er að tapa að minnsta kosti sex þingsætum. Flokkurinn fékk 20 þingmenn í kosningunum 2003 en hefur reyndar misst einn þeirra fyrir borð og til Frjálslynda flokksins, en Valdimar Leó Friðriksson sem tók sæti við afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar hefur gengið til liðs við flokkinn og verður án vafa í framboði fyrir hann.

Fyrir Samfylkinguna er að duga eða drepast á næstunni. Formaðurinn virðist vera í sinni mestu pólitísku krísu til þessa og fátt sem minnir á sigursæla daga hennar sem borgarstjóra félagshyggjuaflanna í Reykjavík. Þetta virðist stefna í að verða pólitískur lífróður hennar. Fái Samfylkingin afhroð af þessum skala verður henni vart sætt lengur í fylkingarbrjósti þar. Hún bauð sig fram sem leiðtoga er gæti unnið stóra sigra. Ef þetta verður reyndin mun formannsferill hennar verða metin sem pólitísk sorgarsaga.

Lífróðurinn gæti orðið af slíkum skala að tryggja fyrst og fremst að þetta verði ekki síðasta kosningabarátta hennar - vonarstjörnunnar fornu sem þrisvar sigraði borgarstjórnarkosningar í stafni sameinaðs kosningabandalags en hefur aldrei fundið taktinn sem flokksleiðtogi. Hún virðist eiga erfitt verkefni framundan. Úr þessu dugar henni ekkert minna en pólitískt kraftaverk.

mbl.is Vinstri grænir mælast með 21% fylgi í nýrri Gallupkönnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin í frjálsu falli - VG og SF jafnstór

Könnun (feb 2007) Samfylkingin mælist með lægsta fylgi sitt á kjörtímabilinu í nýjustu könnun Gallups sem birt var fyrir stundu. Samfylkingin og VG eru nær jafnstór og standa á pari. Það er því ljóst að fylgi Samfylkingarinnar er í frjálsu falli og staðfestir þessi könnun fyrri mælingar annarra könnunaraðila í janúar um að fylgi flokksins sé sífellt að minnka í formannstíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

VG bætir einn flokka við sig fylgi milli mánaða og er eins og fyrr segir nú kominn upp að hlið Samfylkingarinnar í stærð. Það flokkast varla undir neitt annað en pólitískt áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hvernig komið sé fyrir Samfylkingunni sem virðist eiga í mikilli pólitískri krísu þessar vikurnar, á þeim tíma sem kosningabaráttan er að hefjast af alvöru. Á sama tímapunkti fyrir alþingiskosningarnar 2003 mældist Samfylkingin með tæplega 40% fylgi í könnun Gallups.

Frjálslyndir minnka um tvö prósentustig milli mánaða. Framsóknarflokkurinn stendur í stað með tæp 10% og eru þessir tveir flokkar nú jafnstórir í mælingu. Sjálfstæðisflokkurinn missir örlítið fylgi en er enn mjög vel yfir kjörfylginu árið 2003. Skv. skoðanakönnuninni mælist ríkisstjórnin með 49% fylgi en flokkarnir sem mynda stjórnina mælast með 46% fylgi og ríkisstjórnin því fallin skv. því.

Þessi könnun er mjög athyglisverð - verður fróðlegt umfram allt að sjá skiptingu fylgis og þingmanna í kjördæmunum. Úrtakið er vel yfir 3000 manns svo að þetta er mjög sterk könnun og nokkuð afgerandi. Raunar eru skilaboðin í henni merkilega lík þeim tölum sem sáust hjá Heimi og Fréttablaðinu.

Það stefnir í spennandi 100 daga, fram að alþingiskosningunum þann 12. maí. Mikil gerjun virðist vera í pólitíkinni og mikil óvissa og jafnframt spenna yfir kosningabaráttunni sem senn hefst af fullum krafti.

Sárt tap - leikið við Spánverja um 7. sætið

Úr leiknum við Rússa Jæja, heldur sárt var tapið fyrir Rússum áðan í leiknum um að fá að spila um fimmta sætið. Það var ýmislegt sem klikkaði í leiknum, eins og þeir sáu vel sem með fylgdust. Það er eins og það er. Nú verðum við að spila um sjöunda sætið á mótinu, spilum við Spánverja um það á laugardaginn.

Eigum við að vera fúl með þetta? Eflaust erum við flestöll hundfúl yfir að hafa ekki náð að leggja Rússana, ekki frekar en á HM hér heima. Þá lentum við heldur betur í því heilt yfir og tapið grátlegt á heimavelli. Nú töpum við en getum samt borið höfuðið hátt. Það verður að taka þessu eins og öðrum töpum á lífsleiðinni sem hverju öðru hundsbiti.

Auðvitað hefði það verið betra að vinna leikinn og leika um fimmta sætið en eiga á hættu að fá það sjötta. Nú verður spilað um sjöunda sætið við Spánverjana, sem við vorum nærri búin að fá sem keppinauta í leiknum um undanúrslitasæti. Nú verður liðið að reyna að negla sjöuna og koma brosandi frá þessu. Vonandi lendum við ekki í því að verða áttundu úr því sem komið er.

Það er mikil pressa að halda í svona leik. Tapið fyrir Dönum á þriðjudag var svo tæpt að grátlegt mátti teljast, eins og ég hef sagt hérna. Það er oft erfitt að koma með fullan damp úr slíku. En þetta er bara svona. Vonandi náum við sjöunda sætinu og getum glaðst með eitthvað í stöðunni. Áttunda sætið er aldrei gleðiefni að vinna á svona móti vissulega.

mbl.is Íslendingar leika um 7. sætið eftir tap fyrir Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nektin selur....

Daniel Radcliffe Það er ekki hægt að segja annað en að nektin selji í nútímasamfélaginu sem við lifum í. Það þarf ekki að horfa lengi í kringum sig í blöðum, á netinu og sjónvarpi... eða mörgum öðrum þáttum til að sjá það. Tímarnir eru afgerandi og boðskapurinn er það líka. Nekt er líka orðin meira áberandi í leikhúsunum. Öll höfum við sennilega upplifað það að með einhverjum hætti er haldið á þær brautir...

Nú erum við að sjá alþjóðakynningu á leikriti, bresku leikriti meira að segja. Þar er nekt grunnþema í kynningu. Aðalleikarinn gerði Harry Potter ljóslifandi á hvíta tjaldinu fyrir tæpum áratug. Það þarf sennilega varla að taka það fram að með kynningarmyndunum einum er tryggð metaðsókn á verkið. Það blasir við öllum, þarf ekkert að ræða það meira.

Fyrir tæpum áratug var leikritið Blue Room kynnt með nektinni. Í verkinu sem sýnt var í London var nekt grunnurinn og aðalleikkonan var Nicole Kidman, sem síðar hlaut óskarsverðlaunin fyrir The Hours og er ein vinsælasta leikkona sinnar kynslóðar. Leikritið sem slíkt féll í skuggann. Þið megið geta þrisvar hvað stóð mest eftir sýninguna. Fyrir nokkrum árum var svo The Graduate sýnt í London líka. Vita nú allir um hvað það snýst eftir myndina guðdómlegu frá 1967 með Dustin Hoffman og Anne Bancroft. Allir vita líka hvað vakti mesta athygli í sviðsuppfærslunni.

En er þetta kannski bara tákn tímans? Það hefur sjálfsagt hver og einn sína skoðun, sína sýn á það. En þetta vekur atygli. Held að megi þó fullyrða það að Equues verði leikrit ársins og Daniel Radcliffe er að skapa sér nýja ímynd. Hann verður allavega ekki saklausi galdrastrákurinn í hugum fólks eftir þetta..... sem er kannski gott. Með nýrri ímynd koma oftast glæný tækifæri.

mbl.is Radcliffe fer úr hverri spjör í leikritinu Equus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónína Ben byrjar að blogga af krafti

Jónína BenediktsdóttirÞað er ekki hægt að segja annað en að Jónína Benediktsdóttir byrji af krafti að blogga hér á Moggablogginu. Hún segir í bloggfærslu að tölvupóstar olíuforstjóranna hafi verið komnir inn á heimili hennar og þáverandi sambýlismanns hennar, Jóhannesar Jónssonar, löngu áður en þeir bárust Samkeppnisstofnun.

Orðrétt segir Jónína: "Hvað gerðist, ef ég nú vogaði mér að láta almenning vita, að tölvupóstar olíuforstjóranna voru komnir inn á heimili mitt og Jóhannesar í Bónus, löngu áður en þeir bárust Samkeppnisstofnun? Fæ ég þá fleiri og magnaðri árásir í Baugsmiðlunum?

Hvers vegna segir enginn: Það þarf að rannsaka upphaf olíumálsins? Hver ýtti því úr vör? Hvaða hugur bjó þar að baki? Góðmennska, hefndarhugur?
".

Meira er sagt sem vert er að lesa. Þetta eru heldur betur dúndurskrif - það verður greinilega vel fylgst með bloggvef Jónínu Benediktsdóttur á næstunni.

Upphaf Baugsmálsins - skrif JBen


mbl.is Jónína Benediktsdóttir segir að tölvupóstar í olíumálinu hafi lekið út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tony Blair yfirheyrður öðru sinni af lögreglu

Tony BlairTony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur verið yfirheyrður öðru sinni af lögreglu vegna "Cash-for-honours"-skandalsins. Blair hefur réttarstöðu vitnis í málinu. Málið þykir sífellt vera að spinna upp á sig og staðan að versna fyrir forsætisráðherrann. Nokkrir dagar eru síðan að Levy lávarður, sem verið hefur einn helsti forystumaður fjármálaráðs Verkamannaflokksins, var handtekinn og ennfremur Ruth Turner, sem hefur verið yfirmaður almannatengslamála í D10.

Þetta hneykslismál, sem byggist á því að Verkamannaflokkurinn hafi þegið 14 milljóna punda lán frá auðmönnum fyrir þingkosningarnar árið 2005 í skiptum fyrir góð sæti í lávarðadeild breska þingsins og umtalsverð áhrif, þykir vera sérlega vont fyrir Blair og Verkamannaflokkinn í ljósi þess að Blair hafði á sér blæ heiðarleika við komu sína til valda og hann væri nýr valkostur nýrra tíma. Það yrði mjög táknrænt myndi þetta mál skaða pólitíska arfleifð hans og það myndi festast við hann með afgerandi hætti.

Sumir telja þetta vera mál af sama skala og Watergate-hneykslið sem eyðilagði bæði stjórnmálaferil og pólitíska arfleifð Richards M. Nixon. Það skal ósagt látið hvort sé. Það er þó öllum ljóst að þetta mál er hið allra versta fyrir Blair og pólitíska arfleifð hans og skaðlegt fyrir Verkamannaflokkinn. Framvinda þessa máls er að verða ótrúleg hreint út sagt og í raun má segja að pólitísk framtíð Blairs ráðist af því hvernig að þessi rannsókn muni í raun fara er á hólminn kemur.

Það þarf ekki færan stjórnmálaskýranda til að sjá að þetta mál er hið versta fyrir bresk stjórnvöld. Séu þessar ásakanir réttar munu þær enda loða alla tíð við nafn forsætisráðherrans og ekki síður flokksins sem hann stýrir. Það mun loða við þó að Blair yfirgefi Downingstræti 10. Reyndar má segja að svo gæti farið að þetta mál yrði pólitísk endalok Blairs, sem ríkt hefur í D10 í áratug í maí. Það yrðu sagnfræðilega séð merkileg endalok á ferli hans kæmi til þess.


mbl.is Blair yfirheyrður öðru sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítþvottur Frjálslynda flokksins

Guðjón Arnar Það verður nú seint sagt að niðurstaða miðstjórnar Frjálslynda flokksins hvað varðar kosningarnar á landsþingi þeirra um liðna helgi komi manni á óvart. Einhvernveginn var ekki von á því að formaður og forystan skrifaði undir gallaðar kosningar og vont ráðslag við framkvæmdina. Það voru vandræðalegri mistök en svo að hægt væri að skrifa undir og því flokkast þessi niðurstaða vart undir annað en klassískan hvítþvott.

Það vakti verulega athygli mína í gær að formaðurinn kallaði það ekki klofning flokksins sem hann leiddi að forveri hans á formannsstóli og stofnandi flokksins hefði sagt skilið við flokkinn með öllu hans nánasta samverkafólki, þ.á.m. dóttur hans sem verið hefur framkvæmdastjóri flokksins í níu ár, að ógleymdum varaþingmanni, miðstjórnarfólki og borgarstjórnarflokknum öllum eins og hann leggur sig. Einhversstaðar hefði verið talað um klofning með minni sviptingum en þessum.

Í kvöld var fróðlegt að sjá og heyra Guðjón Arnar Kristjánsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem hann sagði að það hefði alltaf mátt búast við því að fólk segði sig úr flokknum í tugatali. Ég hef aldrei fyrr heyrt formann stjórnmálaflokks hérlendis segjast hafa búist við fjöldaúrsögnum og eða að eðlilegt sé að fólk streymi úr flokknum, hvað þá trúnaðarfólk og virkt fólk í innra starfi flokksins. Þá sagðist hann það eðlilegt að það verði inn- og útstreymi úr flokknum í smölun til að styðja viðkomandi. Með öðrum orðum er formaðurinn að segja að hann hafi reiknað með því að fólk kæmi bara í flokkinn í smölun og svo strax út aftur. Þetta er alveg kostulegt.

Ég sæi fyrir mér fréttaumfjöllunina ef forveri formanns eins af stærri stjórnmálaflokkunum (öðrum en Frjálslynda flokknum) og allt nánasta samstarfsfólk viðkomandi einstaklings gengi allt út. Auðvitað yrði það ekki kallað neitt annað en pjúraklofningur og það er því auðvitað ekkert annað en klofningur sem blasir við Frjálslynda flokknum. Það að neita því ber vott um mikla pólitíska afneitun. Þessi formaður verður sífellt hlægilegri með hverri stundinni sem líður og ekki bætir þessi hvítþvottur fyrir.

mbl.is Niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni engum vafa undirorpin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband