Akureyrarbær fagnar hugmyndum um Norðurveg

Sigrún Björk Jakobsdóttir Á fundi bæjarráðs Akureyrarbæjar undir lok vikunnar var samþykkt bókun þar sem fagnað er hugmyndum sem kynntar voru nýlega um Norðurveg, vegaframkvæmd um Kjöl, sem myndi stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um tæpa 50 kílómetra og á milli Akureyrar og Selfoss styttist leiðin um 141 kílómetra. Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, lagði fram bókunina, sem hljóðar svo:

Bæjarráð Akureyrar fagnar hugmyndum sem kynntar voru í vikunni um Norðurveg. Framkvæmdin sem slík styttir vegalengdir milli tveggja stærstu og fjölmennustu svæða landsins frá 50-150 km. eftir því við hvaða staði er miðað. Þessi stytting á leiðinni þýðir mun minni olíueyðslu, minni mengun og þar með minna útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

Þar sem að Kjalvegur er hugsaður sem verkefni í einkaframkvæmd mun það ekki hafa áhrif á röð annarra brýnna framkvæmda í samgöngumálum. Ef af verður er áríðandi að endurbygging á veginum um Kjöl verði framkvæmd með þeim hætti að raski verði haldið í algjöru lágmarki og að við hönnun vegarins verði umhverfisvernd höfð að leiðarljósi.

Það er ekki annað hægt en að fagna þessari bókun bæjarráðs. Þetta líst mér vel á.

mbl.is Bæjarráð Akureyrar fagnar hugmyndum um Norðurveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama í forsetaframboð - spenna hjá demókrötum

Barack Obama Öldungadeildarþingmaðurinn Barack Obama leiftraði af krafti á blaðamannafundi í Springfield fyrir stundu þar sem að hann lýsti formlega yfir framboði sínu til embættis forseta Bandaríkjanna. Obama yrði fyrsti þeldökki forseti Bandaríkjanna næði hann útnefningu flokksins og kjöri í Hvíta húsið í kosningunum 4. nóvember á næsta ári. Obama flutti frábæra ræðu, sem ég horfði á með áhuga á Sky, fyrir utan ríkisþinghúsið í Illinois, þar sem Abraham Lincoln flutti leiftrandi ræður forðum. Þar talaði leiðtogi með mjög skýr markmið.

Aðalkeppinautur hans um útnefningu Demókrataflokksins verður Hillary Rodham Clinton, starfsfélagi hans í öldungadeildinni og fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna. Eitt eiga þau sameiginlegt. Bæði eiga þau rætur í Illinois og koma þaðan - þar hófst pólitík þeirra. Þau eru bæði úr ríkinu sem fóstraði Abe Lincoln fyrstu skrefin í áttina að sögulegum pólitískum ferli. Ef marka má stöðuna nú er öruggt að annað þeirra nær útnefningunni. Baráttan verður hiklaust mjög hörð og lífleg átök marka baráttuna. Enn er langt í forkosningar, ellefu mánuðir, svo að búast má við að þau verði að hafa sig öll við til að halda lífi og fjöri í baráttunni.

Framboð þeirra beggja er sögulegt og það mun komast í sögubækurnar nái annað þeirra útnefningunni. Obama er fyrsti blökkumaðurinn með raunhæfa möguleika á útnefningu demókrata og Hillary fyrsta konan. Það yrði svo enn sögulegra muni annað þeirra standa á svölum þinghússins í Washington þann 20. janúar 2009 og sverja embættiseiðinn andspænis John Roberts, forseta Hæstaréttar. Enn er talað um að Al Gore gæti bæst í hópinn, þó hann hafi sjálfur neitað því og margir telji að hann ætti erfiðan slagur við þessi tvö. Það er þó óvarlegt að útiloka Gore og enn er unnið bakvið tjöldin að framboði hans. Færi hann fram yrði það stjörnum prýddur slagur, enda teljast þessi þrjú öll til stjarna innan flokksins.

Barack Obama virðist hafa allt sem þarf. Innkoma hans í þennan útnefningaslag er söguleg. Hann er án vafa fyrsti blökkumaðurinn sem á raunhæfan möguleika á að ná völdum í Bandaríkjunum. Hann er leiftrandi sameinuð útgáfa John F. Kennedy og Martin Luther King að mínu mati. Það leikur enginn vafi á að hann er skærasta stjarna blökkumanna síðan að séra King var og hét. Allt frá sviplegum dauða Kings fyrir fjórum áratugum hefur blökkumönnum í Bandaríkjunum vantað alvöru leiðtoga, sannkallað sameiningartákn. Það virðist að koma til sögunnar með þessum þingmanni frá Illinois sem hefur á örfáum árum tekist að verða pólitísk stjarna, leiftrandi leiðtogaefni og umfram allt von blökkumanna á forsetaefni.

Obama kom, sá og sigraði á flokksþingi Demókrataflokksins í Boston í júlí 2004 með glæsilegri ræðu. Nokkrum mánuðum síðar var hann kjörinn í öldungadeildina. Nú er stefnan sett á æðstu metorð. Fyrir jól fór Obama til New Hampshire, þar sem fyrstu forkosningar vegna forsetakosninganna 2008 fara fram í janúar 2008, og fékk svo gríðarlega sterkar viðtökur að sagt er að farið hafi um Clinton-hjónin. Segja má að hann hafi fengið þar mestu viðbrögð sem nokkur mögulegur forsetaframbjóðandi hafi fengið í New Hampshire á þeim tímapunkti fyrir forsetakjör síðan að John F. Kennedy fór af stað með framboð sitt fyrir um hálfri öld.

Síðustu árin hefur Hillary verið afgerandi líklegust meðal demókrata til að verða forsetaefni á næsta ári, í kosningunum þar sem eftirmaður George W. Bush verður kjörinn. Sú staða er að breytast og horft er sífellt meir í áttina til Obama. Mörgum demókrötum finnst hann ferskur valkostur, unglegur og heillandi, og hugsa ósjálfrátt til Kennedys forseta, sem heillaði bandarísku þjóðina fyrir hálfri öld er hann hóf forsetaframboð sitt og naut mikils stuðnings allt þar til að öllu lauk svo snögglega er hann féll fyrir morðingjahendi í Dallas á nöprum föstudegi sem markaði þáttaskil í bandarískum stjórnmálum.

Ólíkt er vissulega með Obama og Kennedy að sá síðarnefndi hafði að baki setu í bæði öldungadeildinni og fulltrúadeildinni í 13 ár er hann varð forseti en Obama á aðeins að baki tveggja ára setu í öldungadeildinni. Hann er því talinn reynsluminni og það er einmitt það sem margir nefna sem helstu veikleika hans. Margir segja það ekki skipta máli, hann hafi ferskleikann sem flokkinn vanti og hafi vantað frá gullaldardögum Bill Clinton er honum tókst að komast í Hvíta húsið á stjörnuljóma, snúnum frösum og gullnum spinntöktum.

Það má efast verulega um að Clinton-hjónin deili þeim skoðunum, enda gæti svo farið að Obama myndi stela frá henni pólitísku tækifæri ferils hennar; aðgöngumiða flokksins að Hvíta húsinu. Fyrir nokkrum misserum hefði fáum órað fyrir að Hillary fengi alvöru samkeppni um útnefningu Demókrataflokksins um forsetaembættið, en menn eru farnir að horfa meira til þess að alvöruhasar verði og þá á milli þeirra tveggja.

Ákvörðun Barack Obama og leiftrandi ræða hans á nöprum vetrardegi í Springfield kveikir líf og funa í forsetaslag demókrata. Framundan er spennandi slagur milli fyrsta blökkumannsins og fyrstu konunnar sem raunhæfa möguleika hafa á að ná Hvíta húsinu. Það stefnir í söguleg átök - hvernig sem fer.

mbl.is Obama lýsir formlega yfir framboði sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir kjörinn formaður KSÍ með yfirburðum

Geir Þorsteinsson Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri KSÍ, var í dag kjörinn eftirmaður Eggerts Magnússonar á formannsstóli Knattspyrnusambands Íslands með yfirburðum. Hlaut Geir yfir 70% atkvæða í kosningunni þar sem hann keppti við Jafet Ólafsson og Höllu Gunnarsdóttur. Sérstaklega vekur athygli mína hversu lítinn stuðning Halla hefur meðal þingfulltrúa, en þó var vel ljóst að hún hafði mikinn stuðning úti í samfélaginu.

Geir hafði lengi unnið hjá KSÍ og hafði mikinn stuðning stórra og öflugra knattspyrnufélaga og því öllum ljóst er haldið var inn í þingið að staða hans væri sterk en þó var ég að vona að það yrði meiri spenna í þessu og allavega færi fram önnur umferð. En þetta er víst svona og fer eftir bókinni ef svo má segja. Það er greinilegt að Eggert Magnússon hefur mikil ítök þarna inni og vilji hans nær algjör lög, ef svo má að orði komast.

Eggert Magnússon lætur nú af formennsku í KSÍ, en hann hefur leitt starf þess í átján ár, eða allt frá árinu 1989, en Eggert tók þá við formennsku af Ellert B. Schram, fyrrum alþingismanni, sem tveim árum síðar varð forseti Íþróttasambands Íslands, en hann gegndi þeirri stöðu í 15 ár. Eggert var á þingi KSÍ í dag kjörinn heiðursforseti sambandsins.

mbl.is Geir Þorsteinsson kjörinn formaður KSÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andlát sveipað dulúð - baráttan um ríkidæmið

Anna Nicole Smith Andlát Önnu Nicole Smith er enn sveipað dulúð - ekki hefur enn tekist að finna formlega dánarorsök hennar og spurningar hrannast upp um lokapunkta ævi hennar og dauðsfallið sem er aðalumfjöllunarefnið vestan hafs þessa dagana og er meira að segja að því er virðist meira í fréttum en yfirvofandi framboðstilkynning Barack Obama til embættis forseta Bandaríkjanna í dag.

Það tók nokkrar vikur að fá skorið úr dánarorsök Daniel Smith, sonar Önnu Nicole, þegar að hann lést fyrir fimm mánuðum og sama dulúðin er í kringum lát hennar sjálfrar. Með réttarkrufningu í Flórída í gær tókst þó að loka á þann möguleika að dánarorsök sem flestir bjuggust við merkilegt nokk; ofnotkun ólöglegra lyfja og það voru engar töflur í maga stjörnunnar. Það verður því að leita í aðrar áttir en þá sem talin var líklegust til að loka á dulúð þessa máls...... og það tekur eflaust einhverjar vikur.

Nú mun mikill fókus alls þessa máls falla á það hver hafi verið faðir hinnar fimm mánuðu dóttur Önnu Nicole Smith. Sá sem er faðir hennar mun nefnilega fá mikil áhrif og í raun full yfirráð yfir frægu erfðamáli Önnu Nicole gegn börnum olíuauðjöfurins J. Howard Marshall. Þar sem stelpan er aðeins fimm mánaða verður hún undir yfirráðum föðurins í yfir heil sautján ár. Um mikla peninga er að telja og varla við öðru að búast en að faðerninu fylgi mikil völd í öllum málarekstrinum, sem hefur þegar tekið tæp tólf ár og náði Anna Nicole aldrei fullnaðarsigri í málinu, sem er þegar orðið eitt hið mest áberandi síðustu áratugina.

Þrír menn segjast vera faðir stelpunnar og ljóst að brátt fæst úr þessu skorið með læknisfræðilegri tækni. Ekki er hægt að segja annað en að málið líkist nokkuð dauða Christinu Onassis, einkadóttur skipakóngsins Aristotle Onassis, sem lést langt fyrir aldur fram árið 1988, aðeins 38 ára gömul. Christina lét aðeins eftir sig eina dóttur, Athinu. Hún erfði allt eftir móður sína og meginhluta þess sem eftir stóð af Onassis-ættarveldinu, sem afi hennar lét eftir sig er hann lést árið 1975.

Vandinn var hinsvegar sá að Athina var aðeins þriggja ára gömul. Faðir hennar, Thierry Roussel, sem hafði skilið við Christinu fyrr sama árið og hún dó, hafði því full yfirráð yfir málefnum erfðaríkis Christinu og málefnum dóttur þeirra. Það stóð í rúm fjórtán ár. Enn í dag hefur Athina, sem vill lítið vita af föður sínum í dag ekki fengið öll yfirráð yfir Onassis-arfleifðinni og standa meira að segja málaferli um að hún fái full yfirráð þó að hún hafi skv. erfðaskrá átt að erfa móður sína að öllu leyti og endanlega er hún varð 21 árs á síðasta ári.

Nei, það er ekki tekið út með sældinni að vera frægur...... er það ekki lexían af þessu öllu? Held það....

mbl.is Önnu Nicole ekki allstaðar hlýlega minnst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiksnillingur kveður

Ian Richardson Breski leikarinn Ian Richardson varð bráðkvaddur í morgun, 72 ára að aldri. Richardson var stórkostlegur leikari, mjög öflugur dramatískur leikari með víða og næma túlkun. Hann er og verður eflaust þekktastur fyrir túlkun sína í breskum eðalstykkjum í sjónvarpi, sérstaklega fyrir leik í Shakespeare-verkum, en hann var skemmtilega alvarlegur og allt að því nöturlega kaldhæðinn í túlkun sinni og gat túlkað breitt svið karaktera með flókinn bakgrunn.

Eftirminnilegasta hlutverk hans er án nokkurs vafa karakter hins slóttuga og vægðarlausa Francis Urquhart sem fetaði pólitískan valdastiga í breskum stjórnmálum með köldum huga ljónsins og varð forsætisráðherra Bretlands með klækjabrögðum og vílaði ekki fyrir sér að drepa jafnvel þá sem mest stóðu í vegi framavona hans. Í þessu hlutverki naut sín allra best allir styrkleikar Richardsons sem leikara og hlutverkið er eitt hið eftirminnilegasta í breskri sjónvarpssögu.

Urquhart í túlkun Richardsons gleymist engum sem sáu allar þrjár sjónvarpsþáttaraðirnar um hann; House of Cards, To Play a King og The Final Cut, sem gerðar voru á níunda og tíunda áratugnum. Endalok persónunnar voru kaldhæðnust af öllu sem gerðist og víst er að þeir sem muna svip klækjarefsins á lokastund síðustu þáttaraðarinnar muna vel að eflaust hafi hann þá hugsað hver hafi er á hólminn kom verið snjallari. Á ég allar þessar sjónvarpsmyndir og hef notið þeirra mjög í áranna rás. Fyrst tók ég þær upp á spólum en keypti þær í gegnum amazon.com fyrir nokkrum árum. Skyldueign fyrir alla sanna stjórnmálaáhugamenn.

Eftirminnilegasta kvikmyndahlutverk Ian Richardson er án nokkurs vafa hlutverk Hr. Warrenn í Brazil, hinni stórfenglegu kvikmynd Terry Gilliam, sem gerð var árið 1985. Mynd sem ég mæli hiklaust með við alla sanna kvikmyndaunnendur. Richardson var alveg yndislega svipmikill í þeirri mynd. Einnig mætti nefna Cry Freedom, Mistral´s Daughter, Much Ado About Nothing, A Midsummer Night's Dream og The Hound of the Baskervilles svo að mjög fátt sé nefnt. Þeir sem vilja þó sjá snilli hans í hnotskurn ráðlegg ég öllum að sjá myndirnar um Francis Urquhart, en sjálfur sagði hann að karakterinn hefði hann mótað með Ríkharð III í huga. Þeir eiga svo sannarlega margt sameiginlegt.

En blessuð sé minning meistara Richardson. Nú er svo sannarlega komið gott tilefni til að rifja upp House of Cards, To Play a King og The Final Cut á næstu dögum.

mbl.is Ian Richardson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband