Þrír mánuðir til alþingiskosninga

Alþingi Þrír mánuðir eru til alþingiskosninga. Það stefnir í mest spennandi kosningabaráttu í áraraðir - könnunum ber ekki saman og óvissa uppi um stöðu mála. Mikil gerjun virðist vera í pólitíkinni. Óvissa er uppi um hvort fleiri framboð bætist við þá fimm flokka sem nú eiga sæti á Alþingi. Að mörgu leyti sýnist mér að stefni í mest spennandi þingkosningar frá árinu 1987 er mikil uppstokkun varð.

Fjöldi þingmanna situr nú sínar síðustu vikur á þingi og kveðja brátt stöðu sína í hinu virðulega þinghúsi við Austurvöll. Margir alþingismenn eru að hætta þátttöku í stjórnmálum og fjöldi þingmanna munu falla í kosningunum ef marka má skoðanakannanir. Það stefnir í mikla uppstokkun. Skv. öllum skoðanakönnum nú stefnir í uppstokkun fylkinga, mismikið fylgistap Framsóknarflokkins og Samfylkingarinnar og viðbót vinstri grænna. Það er því ljóst að miklar mannabreytingar verði á Alþingi.

Kosningabaráttan virðist vera hafin á fullum krafti. Framboðslistar liggja nú flestir fyrir og meginlínur orðnar ljósar. Allir framboðslistar Sjálfstæðisflokksins eru tilbúnir og aðrir flokkar tilbúnir með sitt, enn er þó óvissa um framboðslista Frjálslynda flokksins um allt land og VG í Norðvesturkjördæmi hefur ekki enn gengið frá sínum málum. Formenn flokkanna eru komnir í kosningaham. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa farið í fundaferð um landið en formenn stjórnarflokkanna; Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hafa verið rólegi í tíðinni en þó nokkuð í fjölmiðlum. Geir var t.d. í Silfri Egils í löngu viðtali um helgina.

Það stefnir í spennandi kosningar. Ef marka má skoðanakannanir verður þetta fjörleg barátta. 90dagar virka ekki mikið á langri ævi eins manns en fyrir stjórnmálamann í hita og þunga tvísýnnar og spennandi kosningabaráttu eru 90 dagar sem heil eilífð. Harold Wilson, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, sagði sem frægt varð að vika væri langur tími í stjórnmálum - sem voru orð að sönnu svo sannarlega. Þetta verða líflegir þrír mánuðir, svo mikið er víst.

Vonbrigði að flugvöllur verði ekki lengdur á árinu

Akureyrarflugvöllur Það eru nokkur vonbrigði fyrir okkur hér að fyrst sé gert ráð fyrir sérstakri fjáröflun vegna lengingar flugbrautarinnar á Akureyrarflugvelli um 460 metra til suðurs á næsta og þarnæsta ári. Helst hefði þurft að fara í verkefnið á þessu ári, enda er þetta fyrir löngu orðið þarft verkefni og hefði í raun átt að vera byrjað á því fyrr hefði til þess verið vilji og dugur í þeim sem ráða för með samgöngumálin.

Ég fer ekki leynt með það að ég hef orðið fyrir talsverðum vonbrigðum með það hversu mjög Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, hefur dregið lappirnar í þessum efnum, svo mjög að okkur flokksfélögum hans hér á svæðinu er orðið nóg um. Óþarfa töf á lengingu flugvallarins hefur þegar kostað það að vetrarflugi milli Akureyrar og  Kaupmannahafnar var hætt fyrir jólin, enda stenst aðstaðan ekki orðið grunnmarkmið varðandi þjónustu að vetri.

Það er vissulega mikilvægt að það sjáist að ráðamönnum er alvara með tali sínu um lengingu vallarins. Um hana hefur verið talað árum saman, en málið varla hreyfst spönn frá túngarði. Það hefur verið talað um lengingu Akureyrarflugvallar um þónokkuð skeið, en ekkert gerst í þeim efnum og greinilegt á áætlunum að biðinni er ekki lokið þó við sjáum nú glitta í fjármagn fyrir þessu löngu þarfa verkefni. Akureyrarflugvöllur er mikilvæg samgöngumiðstöð hér og það þarf að búa henni þann sess sem mikilvægt telst.

Efndum á mjög fögrum loforðum hefur verið beðið eftir í árafjöld frá Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra. Það verður seint sagt að við Norðlendingar séum hoppandi sælir með sniglagang verklags í samgönguráðuneytinu undanfarin ár. Það er þó gott að vita að þessi ráðherra sé þess megnugur að standa við stóru orðin og koma þessu máli úr umræðugírnum og á vegferð framkvæmda. Þó þarf enn að bíða... sem afleitt telst.

mbl.is Akureyrarflugvöllur lengdur árið 2008 og 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvinsældir ISG afhjúpa veikleika Samfylkingarinnar

ISG Stærsti vandi Samfylkingarinnar virðist afhjúpast með áberandi hætti í könnun Fréttablaðsins í dag á því hvaða stjórnmálamönnum þjóðin treystir best. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er þar sá stjórnmálamaður sem þjóðin treystir síst - hún ber þar höfuð og herðar yfir alla aðra. Óvinsældir hennar meðal þjóðarinnar eru þar mjög áberandi. Þetta verður enn meir afgerandi þegar að litið er á það að 28% segjast styðja flokkinn en aðeins 12% segjast treysta Ingibjörgu Sólrúnu til forystu.

Ingibjörg Sólrún sagði í frægri ræðu í Keflavík að vandi flokksins væri að þjóðin treysti ekki þingflokknum þeirra. Það er greinilegt á þessum tölum og þessari stöðu að þjóðin treystir ekki Ingibjörgu Sólrúnu. Það er allavega ljóst að formaður stjórnmálaflokks sem hefur lengi verið í stjórnarandstöðu og mælist ekki í uppsveiflu milli kosninga er að mistakast ætlunarverkið og mistakast að byggja sig upp sem trúverðugt leiðtogaefni til æðstu metorða; forystu í nafni þjóðarinnar. Hún hefur ekki þann meðbyr sem vænst var eftir. Þessi könnun og aðrar slíkar að undanförnu staðfesta það vel. ISG verður því að horfa í eigin barm en ekki þingflokksins síns.

Ingibjörg Sólrún varð formaður Samfylkingarinnar á fyrirheitum um að gera betur en Össur Skarphéðinsson, maðurinn sem byggði Samfylkinguna upp sem stjórnmálaflokk fyrstu skrefin eftir erfiðar samningaviðræður til vinstri. Hún náði þeim sess fyrst og fremst á fornri frægð sem borgarstjóri í Reykjavík sem leiddi sameinað félagshyggjuframboð til valda þrjár kosningar í röð. Henni virðist ekki vera að takast að vinna sama leikinn á flokksvelli á eigin verðleikum. Hún virðist ekki vera á sömu braut og forðum var. Enda má segja það með sanni að stjórnmálaferill hennar hafi verið ein sorgarsaga eftir að hún missti borgarstjórastólinn.

Það hefur gengið brösugt fyrir hana að standa við fyrirheit sín til flokksmanna um að efla stöðu Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún virðist enda mjög umdeild innan raða flokksins. Í prófkjöri flokksins í Reykjavík í nóvember hlaut hún fyrsta sætið með 70% kosningu. Sigurinn í sætinu var afgerandi en þó nokkuð beiskur fyrir hana. Vakti þetta sérstaka athygli auðvitað vegna þess að ekkert annað framboð var í fyrsta sætið. Um var að ræða beina og breiða braut fyrir formanninn. Þetta var því varla gleðiefni fyrir hana og sýndi vel stöðu mála bakvið tjöldin, enda fékk Össur fjölda atkvæða í fyrsta sætið.

Staða Ingibjargar Sólrúnar telst ekki góð fyrir stjórnmálaleiðtoga í stjórnarandstöðu - leiðtoga flokks sem aldrei hefur verið í ríkisstjórn. Þessi mæling boðar ekkert gott fyrir flokk eða formann. En þessi mæling greinir vandann sem Samfylkingin á við að etja. Það er enda erfitt að selja flokk í kosningum þegar að þjóðin treystir ekki þeim sem leiðir hann, jafnvel ekki einu sinni eigin flokksmenn.

Ríflegur samgöngupakki næsta áratuginn

Malarvegur Þá hefur hulunni verið svipt af samgönguáætlun næsta áratugar, árin 2007-2018. Þar eru mörg stór samgönguverkefni kortlögð til fulls. Mikil leynd hefur ríkt yfir áætluninni og hefur stjórnarandstaðan flutt ófáar ræðurnar þar sem spurt er út í komandi verkefnum á meðan að áætlunin var enn í vinnslu í þingflokkum stjórnarflokkanna.

Gert er ráð fyrir að heildartekjur og framlög til samgönguáætlunar verði 381,4 milljarðar króna á þessum ellefu árum sem áætlunin lýsir og af þeirri upphæð renni kringum 324 milljarðar króna eða 85% til vegamála. Til flugmála renna kringum 35 milljarðar og siglingamála 22 milljarðar. Vinna við áætlunina hefur staðið lengi og kominn tími til að hjúpa hulunni af henni. Samgöngumálin eru þess eðlis að allir vilja að munað sé eftir þeirra svæði og átök milli kjördæma og svæða verða óhjákvæmileg.

Í nóvember boðaði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, stórátak í vegamálum á fundi Samtaka verslunar og þjónustu. Það var vissulega ánægjulegt að heyra það. Þá boðaði hann fjögurra akreina veg hingað norður til Akureyrar og austur að Markarfljóti, þangað sem beygt yrði niður að Bakkafjöru og höfn sem byggð yrði þar fyrir Vestmannaeyjaferju. Það var ánægjulegt að heyra þá að ráðherrann hefði einhvern metnað fyrir því að bæta samgöngur norður og leggja jafnvel fjögurra akreina veg hingað norður í land.

Allir sem fara leiðina Akureyri - Reykjavík sjá vel að leiðin er löngu sprungin og kominn tími til að hugsa stórt í þessum efnum. Okkur hér fyrir norðan hefur fundist leitt að ráðherrann hafi ekki hugsað nógu stórt varðandi styttingu leiðarinnar. En það er eins og það er bara. Það verður allavega fróðlegt að kynna sér samgönguáætlunina; sjá verkefni næsta áratugar og hugmyndir framtíðarinnar birtast þar.

Samgöngumál skipta alla landsmenn miklu máli og því er þessi áætlun stórt og mikilvægt plagg, ekki bara tölur á hvítum ráðuneytisblöðum.

mbl.is Rúmir 380 milljarðar til vegagerðar á næstu 11 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul dagblöð öðlast nýtt líf á netinu

Sigrún Klara og Sigrún BjörkSigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, og Sigrún Klara Hannesdóttir, landsbókavörður, undirrituðu í morgun samstarfssamning sem felur í sér fulla stafræna endurgerð á prentuðu efni nokkurra dagblaða og færslu þess yfir á veraldarvefinn. Um er að ræða stafræna endurgerð Dags, Tímans, Þjóðviljans og Alþýðublaðsins og birtingu þess á Netinu. Verður verkefnið allt unnið hér nyrðra.

Nú þegar hefur verið unnið að því að setja Morgunblaðið allt á stafrænt form og hægt er að lesa það með auðveldum hætti allt aftur til stofnárs, árið 1913. Eins og fram kemur í fréttatilkynningu vegna þessa verkefnis er auk Morgunblaðsins búið að mynda Lögberg-Heimskringlu svo og öll íslensk tímarit og dagblöð sem eru eldri en frá árinu 1920 - mun síðufjöldi stafrænna gagna sem er nú að fullu aðgengilegur á netinu kominn nokkuð á aðra milljón.

Það er mikilvægt að standa vörð um gömul dagblöð, tímarit og rit sem hafa verið áberandi í samfélaginu. Sum þeirra eru ekki lengur gefin út og hafa því sagt sitt síðasta. Það er mikilvægt verkefni að gera þetta aðgengilegt með auðveldum hætti og að hægt sé að kynna sér gömul blöð á netinu og lesa gamlar fréttir og gömul viðtöl. Þetta er arfur sem færa þarf framtíðarkynslóðum og það verður aðeins gert með öflugu átaki til fullrar varðveislu þeirra.

Það er sérstakt gleðiefni að standa eigi vörð um öll blöð dagblaðsins Dags, sem gefinn var út hér á Akureyri í tæp áttatíu ár. Það blað skipar stóran sess í norðlenskri sögu. Að því blaði er að mínu mati mikil eftirsjá og mér hefur fundist sess þess ekki hafa verið fyllt hér, þó vissulega komi Vikudagur út og hafi gert í tæpan áratug. Það hvernig fór fyrir Degi var leiðindasaga, ég er einn þeirra sem enn sakna þess að lesa það að morgni. Veit ég að fleiri eru sama sinnis.

Nú hefur verið hafið sérstakt átak að standa vörð um þessi gömlu blöð og færa þau landsmönnum með auðveldum hætti. Undirritun þessa samnings er því sérstakt gleðiefni. Sérstaklega hljótum við hér fyrir norðan að gleðjast yfir því að öll eintök Dags verði sett á netið og sú merka saga sem það blað skipar í huga okkar hér verði aðgengileg með einföldum tölvusmelli.

Stefnt er að því að efnið verði allt aðgengilegt í gegnum slóðina tímarit.is.


mbl.is Dagur, Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn á netið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða Geirs - Ingibjörg Sólrún óvinsæl

Geir H. Haarde Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er sá stjórnmálamaður sem flestir landsmenn treysta best, skv. nýrri könnun Fréttablaðsins. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, er hinsvegar sá stjórnmálamaður sem þjóðin treystir síst. Næstir á eftir Geir í vinsældum komu Steingrímur J. Sigfússon, Ingibjörg Sólrún, Össur Skarphéðinsson, Guðjón Arnar Kristjánsson og Jón Sigurðsson.

Á eftir Ingibjörgu Sólrúnu með minnst traust koma Geir H. Haarde, Björn Bjarnason, Valgerður Sverrisdóttir og Guðjón Arnar Kristjánsson. Þetta eru athyglisverðar niðurstöður. Þær sýna sterka stöðu forsætisráðherrans en greinilega veikari stöðu formanns stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Það er merkilegt að sjá að sá einstaklingur sem leiðir flokk sem hefur verið lengi í stjórnarandstöðu og sækist eftir völdum sé að mælast með minnst traust landsmanna. Það getur varla verið gleðiefni fyrir Samfylkinguna.

Það sem er greinilegt í þessu er að Steingrímur J. Sigfússon er minnst umdeildur leiðtoganna til vinstri, er bæði vinsælli en Ingibjörg Sólrún og mun minna óvinsæll. Geir hefur verið ráðherra í áratug og leitt stærsta flokk landsins, stjórnarflokk í sextán ár, svo að staða hans hlýtur að teljast góð. Verulega athygli vekur að nýr formaður Framsóknarflokksins virðist ekki höfða vel til landsmanna, kannski ágæt hliðardæmi þess að Framsókn er sýnd í sama úrtaki í sögulegri fylgislægð.

Það stefnir í spennandi þingkosningar - þar mun reyna mikið á stjórnmálamennina og hversu mjög einmitt landsmenn treysta þeim. Er á hólminn kemur ráðast kosningarnar mikið á frammistöðu þeirra sem leiða flokkana, þeirra sem mest eru í sviðsljósinu.

mbl.is Flestir treysta Geir af stjórnmálaleiðtogunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn vill heilbrigðismálin til sjálfstæðismanna

Björn BjarnasonBjörn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni orðið tímabært að Sjálfstæðisflokkurinn fái heilbrigðisráðuneytið í sinn hlut og fái tækifæri til að takast á við málaflokkinn. Tveir áratugir eru liðnir frá því að Sjálfstæðisflokkurinn hafði síðast ráðuneytið undir sinni verkstjórn og aðeins tveir sjálfstæðismenn hafa setið á ráðherrastóli þar frá stofnun ráðuneytisins árið 1970; þau Matthías Bjarnason og Ragnhildur Helgadóttir.

Tek ég heilshugar undir þessa skoðun Björns. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið samfellt í ríkisstjórn í sextán ár, fyrstu fjögur ár þess tíma var málaflokkurinn hjá Alþýðuflokknum en í tólf ár, eða frá árinu 1995, hefur Framsóknarflokkurinn haft heilbrigðismálin. Hefði farið vel á því að við sjálfstæðismenn hefðum fengið þennan málaflokk í okkar hlut eftir alþingiskosningarnar 2003, enda verið rétt og eðlilegt þá að meiri hrókeringar hefðu orðið á ráðuneytum. Heilbrigðismálin voru sá málaflokkur sem ég hefði allavega helst viljað í hlut flokksins þá.

Það er langur tími liðinn, heilir tveir áratugir, liðnir frá því að sjálfstæðiskonan Ragnhildur Helgadóttir var heilbrigðisráðherra. Síðan hafa kratar og framsóknarmenn leitt verkin þar, eins og fyrr segir lengst af í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Verði Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn í vor finnst mér mjög mikilvægt að hann fái ráðuneytið í sinn hlut.


mbl.is Sjálfstæðismenn fái heilbrigðismálin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótti um stórslys - 112 dagurinn haldinn hátíðlegur

112 dagurinnÉg hélt svei mér þá að það hefði orðið stórslys hér á Akureyri í hádeginu í dag þegar að sjúkrabílar, slökkviliðsbílar og bílar björgunarsveitanna keyrðu allar hér niður Þórunnarstrætið með sírenur gjallandi á fullu gasi. Þetta var allavega ekki sérstaklega ánægjulegt áheyrnar að heyra sírenuvælið og sjá allan þennan viðbúnað. Þetta er allavega ekki algeng sjón að sjá hér og ég hélt í svipinn að mjög alvarlegt slys hefði orðið.

Svo var þó sem betur fer ekki. Ekki leið á löngu þar til ég áttaði mig á að 112 dagurinn var í dag og þetta hefði því verið svokölluð 112 lest sem fór niður Þórunnarstrætið, en í henni voru fyrrnefndir bílar. Það er þarft og gott verkefni að minna vel á neyðarlínuna á þessum táknræna degi sem minnir á símanúmerið, 112, og það góða starf sem unnið er þar.

Að þessu sinni var dagurinn helgaður margvíslegum störfum sjálfboðaliða að forvörnum, leit og björgun, almannavörnum og neyðaraðstoð, sem er mjög verðugt að minnast á degi sem þessum. En ég man allavega framvegis eftir 112 lestinni, svo að hún komi mér ekki svona að óvörum.


mbl.is 112 dagurinn helgaður störfum sjálfboðaliða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband