Morðalda í London - Blair vill herða byssulögin

Tony BlairÞað hefur verið sorglegt síðustu dagana að heyra fréttir af morðöldunni í London. Fjórir hafa fallið í skotárásum í borginni, þar af þrír unglingar. Í vikunni sá ég ítarlega umfjöllun um þetta mál á Sky, umfjöllun sem fjallaði með vönduðum hætti um stöðu mála, en það hefur sett þungan svartan blæ yfir allt mannlíf í borginni. Virðist fátt vera til ráða, blasir við að um uppsafnaðan vanda í samfélaginu sé að ræða.

Í morgun horfði ég á viðtal við Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, á BBC þar sem hann svaraði fyrir stöðu mála, sem hlýtur að teljast enn eitt erfiða málið fyrir stjórn hans. Sagðist hann vilja að aldur þeirra sem hægt sé að dæma til harðra refsinga fyrir byssueign verði lækkaður úr 21 ári í 17. Er með ólíkindum að Verkmannaflokkurinn hafi ekki fyrr lagt áherslu á það að breyta lögum í þá átt, en í maí hefur flokkurinn verið við völd í áratug.

David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, hefur bent á að þessir atburðir endurspegli alvarlega bresti í bresku samfélagi. Telur hann hættulega framkomu, einmanaleika og þunglyndi ungmenna m.a. stafa af ábyrgðarleysi fullorðinna og mjög skorti á ást og umhyggju í samfélaginu. Vísa forystumenn Íhaldsflokksins óspart á það að upplausn í fjölskyldum og agaleysi sé alvarlegt vandamál og hafa vísað á nýja skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Þar eru bresk börn á botninum hvað snertir hamingju og ánægju í lífinu.

Þetta mál virðist erfitt fyrir Verkamannaflokkinn og forsætisráðherrann sem skiljanlega vilja ekki staðfesta að alvarlegir brestir séu í bresku samfélagi. Eftir áratug við völd er varla við því að búast að bresk stjórnvöld taki undir það mat að breskt samfélag sé á botninum hvað þetta varðar. Það er ljóst að þarna er fyrst og fremst um að ræða samfélagsbresti. Er ekki hægt annað en taka t.d. undir ummæli Sir Menzies Campbell, leiðtoga Frjálslyndra demókrata, um að hvetja verði til virðingar fyrir náunganum og reyna að halda mannleg gildi í heiðri.

En vonandi fer þessari öldu morða og sorgar að linna í London. Þetta er að minna óþyrmilega á morðárásirnar í Washington í september 2002, með öðrum formerkjum, en samt skuggalega líkt. Þetta eru allavega jafnsvartir dagar sem íbúar í London upplifa nú og þeir á Washington-svæðinu fyrir tæpum fimm árum.

Vinkona mín, Ólöf Nordal, verðandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, fjallar um þetta mál í góðri bloggfærslu í dag. Bendi lesendum á að lesa skrif Ólafar.


mbl.is Blair vill herða viðurlög við byssueign
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konudagur

Ég vil óska öllum konum landsins innilega til hamingju með daginn.

Móðurbróðir minn, Helgi Seljan, fyrrum alþingismaður, er þekktur hagyrðingur og hann orti eitt sinn ljóðið Kvennaminni, sem er fallegt mjög, það eru 20 erindi - óður til kvenna. Birti hér nokkur erindi.


Konur okkur gleði gefa,
geta náð að hugga og sefa.
Dásamlegar utan efa
við að knúsa og kela,
kossum mætti stela.

Kostum ykkar karlar lýsa,
kannski á suma galla vísa,
fegurð ykkar frómir prísa,
færa lof í kvæði,
njóta ykkar í næði.

Ekki má ég einni gleyma,
yndi mínu og gleði heima.
Í hjarta mér sem gull vil geyma,
gjöfin lífsins besta.
Konan kostamesta.

Ykkur konum yl ég sendi,
á ástarþokkann glaður bendi.
Mínu kvæði í kross bendi,
kyssi ykkur í anda
enn til beggja handa.

Glæsilegur sigur Eiríks - frábær kvöldstund

Eiríkur Hauksson Ég var staddur í alveg mögnuðu Eurovision-partýi hjá vinafólki mínu í gærkvöldi. Vorum þar nokkur sem höfum alltaf verið miklir áhugamenn um Eurovision, fylgst með keppninni í áranna rás og metum tónlist mikils að sjálfsögu. Það var mikið spáð í spilin og allir auðvitað með sín uppáhaldslög. Þessi keppni sameinar allar kynslóðir við sjónvarpstækið og allir hafa skoðanir á henni, þó sumir vilji ekki kannast við það.

Um eitt voru þó allir sammála í gærkvöldi. Eiríkur Hauksson var langflottastur, með besta lagið og stóð öðrum fremri. Enda vann hann. Glæsilegur sigur það og mjög verðskuldaður. Eiríkur einfaldlega kann sitt fag. Hann hefur mikla sögu í keppninni, hefur verið þar sem keppandi tvisvar og fulltrúi Íslands í hinum frábæra spekingaþætti í aðdraganda keppninnar síðustu árin, og var sá keppenda sem var langöruggastur á sviðinu í gær, hann einfaldlega stóð fremri öðrum. Það skiptir máli að mínu mati. Þetta er bakgrunnur sem einn og sér fleytir langt.

Það voru held ég flestallir glaðir með úrslitin. Eiki er einfaldlega söngvari af þeim skala að við erum stolt af honum. Ég skal fúslega viðurkenna það að ég hefði þess vegna viljað að fimm lög myndu vinna; auk Eika voru Jónsi, Frikki, Heiða og Andri öll í toppformi. Öll þessi níu lög voru ágæt hver á sinn máta, þó ég verði að viðurkenna það að mér fannst kántrýskotna lagið Áfram þeirra síst, en það er kannski bara vegna þess að ég er mjög lítið fyrir kántrýtónlist, allavega mjög í hófi vægast sagt. Lögin sem voru í gær fara allavega sterk til leiks í Eurovision-keppnissöguna sem er alltaf að verða blómlegri.

Það var svona nett nostalgía sem fór um mann við að rifja upp lögin hans Björgvins Halldórssonar í keppninni. Það er enn skandall að sum þeirra, t.d. Sóley, fóru ekki út í keppnina á sínum tíma. Björgvin fór svo seint og um síðir í keppnina, með gott lag en einum of seint samt. Það hefði verið gaman að sjá hann taka eitthvað gamalt Júrólag þarna í gærkvöldi. Hefði ekki verið eðall að fá hann með Ernu Gunnarsdóttur, gamla enskukennaranum mínum í VMA í denn, til að rifja upp eðalsveiflulagið Lífsdansinn, eftir Geirmund Valtýsson? Hví ekki, lagið er jú tvítugt á árinu.

En mesti skandallinn fannst mér að sjá þennan rúmenska úr keppninni í fyrra "mæma" lagið Tornero. Þetta er flott lag og góður söngvari.... en að mæma er fyrir neðan allar hellur. Ræður hann ekki lengur við lagið? Mikil vonbrigði að sjá þetta. Svo var Regína Ósk alveg yndisleg í Júrólaga-upprifjuninni. Það er einn mesti skandall íslenskrar Eurovision-sögu að hún skyldi ekki vinna í fyrra með lagið hans Trausta Bjarnasonar, Þér við hlið. Einstakt lag... mjög vandað, lag á öllum skalanum. Það átti að fara til Aþenu. Regína Ósk var alveg frábær í gærkvöldi.

Silvía Nótt var aldrei þessu vant hógvær og stillt og átti stutta innkomu með nýjasta lagið sitt, nýjan smell sem hún söng mjög vel. Hún stóð sig vel. Var þó að vona að hún myndi syngja sigurlagið sitt frá því í fyrra... en kannski vill hún horfa í aðrar áttir. Það er skiljanlegt vissulega. En í heildina; þetta var magnað kvöld. Virkilega gaman og við skemmtum okkur vel yfir pizzu, nammi, góðum veigum og líflegu spjalli. Eðalgott - svona eins og það á að vera.

Þetta er enda skemmtilegasta sjónvarpskvöld ársins, tja nema kannski þegar að aðalkeppnin er ytra. Ætla svo sannarlega að vona að Eiki Hauks skili okkur glæsilegum árangri í vor. Efast ekki um að við verðum allavega mjög stolt af honum. Og svo er kominn enskur texti á lagið. Getur ekki verið betra! Og svo gerum við öll sem eitt þá lykilkröfu nú að kappinn verði í leðri, sömu múnderingu í gær. Svona á hann að vera.... þetta er málið!

Ólafur Ragnar í Silfri Egils í dag

Ólafur Ragnar Grímsson Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, verður í Silfri Egils hjá Agli Helgasyni nú eftir hádegið. Það er ekki á hverjum degi sem þjóðhöfðingi Íslands venur komur sínar í dægurmálaspjallþætti. Það þótti sögulegt þegar að Ólafur Ragnar fór í Kastljós í aðdraganda forsetakosninganna 2004, en það var í fyrsta skipti í sex áratuga sögu forsetaembættisins sem forsetinn sat fyrir gagnrýnum svörum fjölmiðlamanna. Þá var Ólafur Ragnar í raun að svara fyrir sig í Heimastjórnarmálum.

Það er kannski ekki sögulegt að Ólafur Ragnar Grímsson birtist í hversdagslegum rifrildisþáttum við fjölmiðlamenn í ljósi þess að hann var leiðtogi stjórnmálaflokks í átta ár og fjármálaráðherra í hringiðu umdeildra ákvarðana í þrjú ár. Þegar litið er á það að sami maður er forseti Íslands fær það þó á sig sögulegan blæ. Annars er óvarlegt að líta á forsetann Ólaf Ragnar sem einstakt fyrirbæri ef marka má yfirlýsingar forsetaembættisins um að sá maður sem er í Þróunarráði Indlands sé ekki sami maður og er forseti Íslands. Spaugstofan gerði gott grín að þessum orðhengilshætti á Sóleyjargötunni í fyndinni kómík nýlega.

Eins og fyrr segir er Ólafur Ragnar gamall pólitískur bardagamaður og er vanur að lifa opinberu lífi - hann hefur verið í kastljósi fjölmiðla í fjóra áratugi. Hann hefur notað fjölmiðla óspart í gegnum tíðina. Flestir muna eftir frægri framboðskynningu hans til embættis forseta Íslands í mars 1996 í stofunni heima á Seltjarnarnesi þar sem hann stóð við hlið Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur í vandaðri fjölmiðlauppsetningu og ennfremur því er hann beitti 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins í beinni útsendingu fjölmiðla í júní 2004.

Það verður svo sannarlega athyglisvert að sjá um hvað Ólafur Ragnar og Egill Helgason ræða á eftir í Silfrinu.

Valgerður Sverrisdóttir lengst kvenna í ríkisstjórn

Valgerður Sverrisdóttir Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, hefur nú setið lengst allra kvenna hérlendis í ríkisstjórn. Skv. mælingum í Morgunblaðinu í dag hefur Valgerður nú verið 2.607 daga í ríkisstjórn, í dag, eða í 7 ár, einn mánuð og 19 daga. Jóhanna Sigurðardóttir, sem var félagsmálaráðherra árin 1987-1994, átti fyrra metið. Valgerður var iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1999-2006 en hefur verið utanríkisráðherra síðan 15. júní 2006. Hún var fyrsta konan á báðum ráðherrastólum.

Valgerður hefur setið á Alþingi frá kosningunum 1987 og hefur verið áhrifakona innan Framsóknarflokksins nær allan þann tíma. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, er sú kona sem þriðja er í ráðherrasetu. Hún hefur verið ráðherra í rúm sex ár, eða 1999-2004 og aftur frá 2006 eða ívið lengur og Ingibjörg Pálmadóttir, sem var heilbrigðisráðherra í tæp sex ár, 1995-2001. Það styttist því óðum í að Siv komist á svipaðar slóðir og Jóhanna Sigurðardóttir í ráðherrasetu.

Aðeins ellefu konur hafa tekið sæti í ríkisstjórn Íslands. Fimm þessara kvenna eru sjálfstæðiskonur. Fjórar koma úr Framsóknarflokknum og tvær eru úr Alþýðuflokknum, sem var einn forvera Samfylkingarinnar. Fyrsta konan á ráðherrastóli var Auður Auðuns, sem ennfremur varð fyrsta konan á borgarstjórastóli og forseti borgarstjórnar. Auður varð dómsmálaráðherra árið 1970, eftir andlát dr. Bjarna Benediktssonar í uppstokkun ráðherraliðs Sjálfstæðisflokksins.

Kvenráðherrar í sögu Stjórnarráðs Íslands
Auður Auðuns (1970-1971)
Ragnhildur Helgadóttir (1983-1987)
Jóhanna Sigurðardóttir (1987-1994)
Rannveig Guðmundsdóttir (1994-1995)
Ingibjörg Pálmadóttir (1995-2001)
Sólveig Pétursdóttir (1999-2003)
Siv Friðleifsdóttir (1999-2004; frá 2006)
Valgerður Sverrisdóttir (frá 1999)
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (frá 2003)
Sigríður Anna Þórðardóttir (2004-2006)
Jónína Bjartmarz (frá 2006)

mbl.is Lengst kvenna í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband