20.2.2007 | 19:28
Harðvítugar deilur um hinsta hvílustað Önnu Nicole

Ekkert samkomulag er um nein atriði málsins og því verður það dómarans að taka ákvörðun um hvar Anna Nicole Smith verði í raun jarðsett og hvernig gengið verði frá málum dóttur hennar. Móðir Önnu Nicole, Vergie Arthur, og sambýlismaður og meintur barnsfaðir Önnu Nicole, Howard Stern, takast á í fyrrnefnda málinu en það verður væntanlega til lykta leitt á næstu dögum enda getur varla annað en talist mikilvægt að það verði ljóst fljótlega hvar stjarnan verði jarðsett. Móðirin vill jarðsetningu í Texas, en Stern vill að hún hvíli við hlið sonar síns á Bahama-eyjum.
Það er afskaplega ömurlegt að fylgjast með þessu máli. Það er eiginlega svo sorglegt að skynja það að þessi kona hefur verið umkringd fólki sem vilja aðeins hagnast á frægð hennar og ríkidæmi. Það er enda deilt um öll atriði. Það að takast þurfi á fyrir dómi um jarðsetningu er væntanlega hið sorglegasta. Það verður eins og fyrr segir dómara í ósköp venjulegum dómstól í Flórída, Larry Seidlin, að ákveða greftrunarstað - það verður því ósköp venjulegur embættismaður sem tekur þá ákvörðun vegna þess að samstaða er ekki til staðar. Málsaðilar talast ekki við nema í gegnum lögmenn og átökin hörð. Enda sást það vel á myndunum áðan.
Bein útsending er víst í bandarísku sjónvarpi frá þessum undarlegu réttarhöldum. Það er undarlegt að það sé talið áhugavert sjónvarpsefni að fylgjast með þessu. Kannski segir það talsvert um fréttamat og hversu mjög í kastljósinu þetta mál allt er. Þetta er allt mjög óraunverulegt. Í reyndina snýst þetta mál allt um peninga og hagsmuni tengda þeim. Það blasir við. Það er kuldalegt vissulega. Þetta gæti sennilega varla gerst nema í Bandaríkjunum. En það var sagt fyrir nokkrum áratugum að peningar og hagsmunaátök um þá gæti gert heilsteyptasta fólk að hreinræktuðum skrímslum.
Fjölmiðlar spila svo meginhlutverk í þessum darraðardans öllum. Það kemur svosem ekki neinum á óvart. Hrægammahugsun fjölmiðlanna er hinsvegar alltaf jafnnöturleg að sjá svona í nærmynd. Þetta mál er ekker einsdæmi en það virkar það sennilega vegna þess hversu opinbert það er. Það verður enda seint sagt að þetta mál sé heilsteypt. Það að þessari konu sé ekki leyft að hvíla í friði og ekki sé hægt að jarða hana án átaka segir allt sem segja þarf um þá sem næst henni stóðu.
Þetta væri sennilega ekki í fréttum ef þetta væri ekki fræg kona og ekki í Bandaríkjunum. Þeir vestanhafs eru snillingar að hype-a upp fréttir af stjörnum og þetta mál er risavaxið vegna þess að sú sem það snýst um er fræg. En það er sorglegt engu að síður.
![]() |
Harðar deilur um hvílustað Önnu Nicole Smith |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2007 | 15:44
Mun Gordon Brown taka við sökkvandi skipi?

Gordon Brown hefur verið erfðaprins valdanna innan Verkamannaflokksins alla leiðtogatíð Tony Blair, allt frá árinu 1994. Hann hefur lengst allra verið fjármálaráðherra Bretlands og þótt intellectual-týpa í breskum stjórnmálum, mun meiri maður pólitísks innihalds og hugsjóna en Tony Blair. Hann hefur verið farsæll forystumaður og haft mikið persónufylgi, langt út fyrir flokk sinn. Þó Brown hafi verið umdeildur hefur hann notið trausts. Hann ákvað að sækjast ekki eftir leiðtogastöðu flokksins þegar að John Smith dó fyrir þrettán árum. Blair og Brown sömdu um að Blair fengi leiðtogastólinn, gegn því að hann myndi rýma til innan viss tíma.
Bið Browns eftir forsætisráðherrastólnum er orðin löng. Blair sveik loforðið fræga sem gert var vorið 1994, um að Blair færi frá á miðju öðru kjörtímabilinu. Þess í stað sóttist hann eftir að leiða flokkinn þriðju kosningarnar í röð. Með því komst Blair í sögubækur sem sigursælasti og þaulsetnasti leiðtogi kratanna í yfir 100 ára flokkssögu. Blair hefur fjarað hægt og rólega út síðan, hann varð gríðarlega óvinsæll í kjölfar Íraksstríðsins og hefur aldrei endurheimt fyrri vinsældir eftir það. Það er enda fátt nú sem minnir á geislandi leiðtogann sem leiddi Verkamannaflokkinn til sigurs í maí 1997 og leiddi baráttu fólksins fyrir því að konungsfjölskyldan sýndi Díönu prinsessu hina hinstu opinberu virðingu haustið 1997.
Nú stefnir loksins í að Gordon Brown verði loksins við völd í Downingstræti 10 innan nokkurra mánaða. Að því hefur Brown stefnt leynt og ljóst í tæpa tvo áratugi. Hann var reyndar orðinn svo illur við tilhugsunina um að Blair ætlaði sér að sitja lengur en rétt framyfir tíu ára valdaafmælið í maí að hann varð að minna Blair á að honum væri heillavænlegast að fara meðan að stætt væri. Brown leiddi flauelsbyltingu gegn Blair í september - þá skalf allt og nötraði innan flokksins. Blair var gert ljóst að fastsetja tímasetningu brottfarar ella yrði honum steypt af stóli með þeirri hörku sem slíku hefði fylgt. Blair tók skilaboðunum beiskur á brá og gaf upp tímaplan.
Þessi skoðanakönnun hlýtur að vera reiðarslag fyrir leiðtoga sem hefur beðið í áraraðir eftir tækifæri síns stjórnmálaferils - tækifærinu til að leiða. Hann horfir fram á að Blair hefur skilið eftir sig svo sviðna pólitíska jörð eftir tíu ára valdaferil að varla stendur steinn yfir steini. Hann tekur í arf óvinsælar ákvarðanir, vonsvikna þjóð með langan valdaferil krata sem lofuðu öllu fögru en stóðu ekki undir því, skaðleg hneykslismál og klofinn flokk sem horfir í fylkingamyndum til framtíðar. Enn eru þeir til sem telja að Brown geti ekki unnið kosningar - hann sé ekki sterkur leiðtogi. Þetta er vond staða fyrir mann sem hefur lengi beðið eftir að fá tækifæri.
Gordon Brown verður vandi á höndum þegar að hann flytur í Downingstræti 10. Þessi könnun skannar þann vanda. Þessi könnun og aðrar vondar framtíðarmælingar, ef þær þá koma fram, gæti líka komið af stað leiðtogabaráttu um það hver taki við af Blair. Það yrðu nöpur örlög fengi kannski Brown ekki tækifærið. En hver er sterkari en hann? Þeir eru vandfundnir. Þrátt fyrir allt er líklegast að Skotinn Brown taki við, þó hann sé tveim árum eldri en Blair. En það eru erfið verkefni framundan og erfiðar ákvarðanir sem bíða nýs leiðtoga Verkamannaflokksins.
Bresk þjóð virðist búin að fá sig fullsadda af áratug Verkamannaflokksins og horfir í aðrar áttir og til ferskrar framtíðar sem David Cameron og Íhaldsflokkurinn stendur fyrir. Það stefnir í straumhvörf í breskum stjórnmálum og svo gæti farið að hinn lífsreyndi skoski stjórnmálamaður muni fjúka sömu leið og Blair innan tíðar. Það yrðu grimm pólitísk örlög fyrir mann sem beið of lengi, ekki satt?
![]() |
Fylgi breska Verkamannaflokksins minnkar enn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.2.2007 | 13:53
Kristinn H. í annað sætið hjá frjálslyndum í NV

Ég verð að viðurkenna að ég taldi að tilfærsla Kristins H. til frjálslyndra hefði falið í sér allavega leiðtogastól í öðru Reykjavíkurkjördæmanna eða Norðvestri - hann færi ekki yfir fyrir minna en leiðtogastól. Það er ekki undarleg ályktun, enda lét hann steyta á skeri hjá Framsókn vegna leiðtogastóls í Norðvestri sem hann tapaði í prófkjöri með þeim hætti sem hann vildi að færi fram. En hann var vissulega í vonlausu sæti sem hið þriðja var augljóslega. Auk þess hafði hann brennt flestar ef ekki allar brýr að baki sér innan flokksins. En það verður ekki hjá því komist að telja að Sleggjan hafi verið ódýr fyrir frjálslynda.
En það er greinilegt að þeir frjálslyndir ætla sér að fara í strandhögg um kjördæmið með lista þar sem þeir Guðjón Arnar og Kristinn H. eru efstir. Þeir eru vestfirskir harðjaxlar, sem hafa verið lengi í pólitík og ætla að reyna að fiska saman eitthvað. Fróðlegt verður að sjá hverjum er ætlað þriðja sætið á listanum, væntanlega er það kona sem verður í því sæti. Það hlýtur að vera einhver með tengingar á Vesturlandið, enda er blær Vestfjarða á lista frjálslyndra orðinn ansi mikill með Ísfirðing og Bolvíking í efstu tveim sætunum.
Það verður fróðlegt að sjá hverjum séu ætlaðir leiðtogastólar í borginni. Ætli það séu kannski þeir Magnús Þór og Jón Magnússon, andlegur faðir hans í innflytjendamálum. Tja, það skyldi þó ekki verða. Verður svo ekki Grétar Mar settur í Suðrið og Valdimar Leó í Kragann? Það verður sennilega nokkuð hrútabragð af listum þessa flokks, enda er Sigurjón Þórðarson valinn til leiðtogastarfa hér í Norðausturkjördæmi. Hann færði sig nefnilega fyrir Sleggjuna sjálfa.
Er kannski sleggjan klaufhamar? Það er oft erfitt að fá svar þegar að stórt er spurt....
![]() |
Kristinn í 2. sæti hjá Frjálslyndum í Norðvesturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.2.2007 | 11:19
Er Halla Vilhjálms nýja konan í lífi Jude Law?

Einkalíf hans hefur verið stormasamt síðustu árin. Hann giftist leikkonunni Sadie Frost árið 1997. Þau eignuðust saman þrjú börn en fyrir átti Sadie einn son sem Jude gekk í föðurstað. Þau slitu samvistum fyrir fjórum árum eftir tíu ár saman. Síðan hefur Jude verið einn eftirsóttasti piparsveinn kvikmyndaheimsins. Sadie og Jude börðust um forræði barnanna í rúm tvö ár. Á þeim tíma hóf Jude ástarsamband við leikkonuna Siennu Miller, sem er eitt hið stormasamasta í stjörnuheimum síðustu árin. Þau hættu þrisvar saman og tóku hvort annað í sátt meira að segja eftir að Jude hélt framhjá henni með barnfóstrunni sinni.
Undir lok síðasta árs slitu Sienna Miller og Jude Law endanlega samvistum. Það var í bresku pressunni túlkað sem hart lokauppgjör milli þeirra eftir beisk sambandsslit. Það væri freistandi að vita hvar Halla Vilhjálmsdóttir, söngkona, kom til sögunnar hjá Jude Law. Ef marka má fréttir á hún nú hug og hjarta leikarans. Hann kom til Íslands í síðustu viku og virðist hafa bæði borðað með henni og skoðað næturlífið í fylgd hennar. The Sun hefur nú birt fréttir þess efnis að Halla og Jude hafi verið í símasambandi eftir að hann kom heim til Bretlands og greinilegt að sambandið er eitthvað meira en bara vinahjal.
Það var reyndar sagt í fréttum í gær að þetta hafi verið þriðja Íslandsför leikarans. Var liggur við talað um það sem hneyksli, enda hefði þá pressan misst af honum. Ég held að það sé gleðitíðindi að þekktir menn á borð við Jude Law geti komist óséðir til Íslands og sloppið við pressuna. Við eigum líka að gefa þekktu fólki af þessu tagi tækifæri til að lifa sama frjálsa lífinu og við viljum sjálf. Stærsti kosturinn er að hér getur fólk verið í friði og lifað frjálst sínu lífi. Það er stór kostur.
Það er skiljanlegt að The Sun velti þó fyrir sér þessum böndum milli Jude og Höllu Vilhjálms. Er hún nýja konan í lífi hans? Það er óhætt að segja að kynnishlutverkið í X-Factor verði ekki tækifæri ársins fyrir hana ef þær sögusagnir eru réttar. Íslendingar virðast fylgjast með þessu með sama hætti og þegar að Fjölnir Þorgeirsson nældi sér tímabundið í Mel B. Meira að segja er strax farið að tala um Jude Law sem tengdason Íslands rétt eins og Mel B. var kölluð tengdadóttir landsins.
Klisja.... eða hvað?
![]() |
The Sun fjallar um Jude og Höllu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2007 | 00:39
Dramatík hjá litríkri fjölskyldu
Ein kostulegasta sjónvarpsfjölskylda sögunnar er Osbourne-fjölskyldan. Meira að segja hin skrautlega Addams-fjölskylda, sem gerð var ódauðleg í sjónvarpsþáttum á sjöunda áratugnum og tveim kvikmyndum, bliknar í samanburðinum. Eitthvað undarlegasta fjölskyldulíf einnar fjölskyldu var afhjúpað með öllu sem því fylgdi í raunveruleikaþáttum um Osbourne-fjölskylduna. Það var ekki síðra drama en í helstu hasarþáttum.
Það er oft sagt að stjörnurnar verði veruleikafirrtar með frægðinni. Það verður reyndar seint sagt að Ozzy Osbourne sé normal karakter, hann hefur alltaf virkað sem utanveltu og ekki alveg í sambandi og hefur ekki batnað með árunum. Það merkilegasta við þættina um þau var einmitt hversu villt allt var. Þar gerðu allir hlutina eins og þeir vildu og þetta heimili var jafnhlýlegt og strætóstoppistöð. Þar var líka mikið drama. Þessir þættir gleymast allavega ekki þeim sem sáu. Það var viss lærdómur að sjá inn í kviku þessarar fjölskyldu.
Nú er sagt í fjölmiðlum vestanhafs að einn í fjölskyldunni sé HIV-smitaður. Það fylgir ekki sögunni hver það sé. Ef ég þekki bandaríska fjölmiðla rétt verður ekki hætt að segja frá því fyrr en það hefur verið upplýst. Bandarískir fjölmiðlar eru betri en nokkrir aðrir við að hype-a upp fréttir um stjörnur og halda þeim eins og lengi og hentar til að selja blöð eða auka áhorf. Gott dæmi um það er dramað um ævi og örlög ljóskunnar Önnu Nicole Smith. Hún virðist enn dýrmætari pressunni dauð en lifandi, eins fyndið og það hljómar.
Þetta er kostuleg veröld sem við lifum í - veröld sem stendur og fellur með bandarísku fréttamati þeirra sem þurfa að selja blöð og auka áhorf stöðvanna sinna. Og eftir þessu er dansað víðar.... merkilegt nokk.
![]() |
Einhver úr Osbourne-fjölskyldunni HIV-smitaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |