10.3.2007 | 17:10
Hægri græni Íslandsflokkurinn að verða til
Nýr hægri grænn stjórnmálaflokkur Margrétar Sverrisdóttur, Ómars Ragnarssonar og fleiri aðila, sem hefur vinnuheitið Íslandsflokkurinn, er að verða til. Nýtt framboð, sem stefnt er að bjóði fram í öllum kjördæmum, verður væntanlega kynnt á næstu dögum. Þegar er orðið nokkuð ljóst að Margrét og Ómar muni leiða lista flokksins í höfuðborginni en hinsvegar hvílir mun meiri dulúð yfir skipan forystusæta framboðslista nýja framboðsins í öðrum kjördæmum landsins.
Eins og fram hefur komið á bloggsíðum og í fréttum fjölmiðla er stefnt að því að nýja framboðið heiti Íslandsflokkurinn. Hefur Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, varaþingmaður og líklegur frambjóðandi í nafni nýja framboðsins skráð lénið islandsflokkurinn.is og hljóta það að teljast afgerandi skilaboð um nafnið á flokknum og ekki síður áherslur flokksins. Þetta á að vera umhverfisflokkur sem leggur áherslu á verndun landsins og náttúruauðlindanna. Það blasir enda við að það verði lykilbaráttumál auk fleiri annarra eflaust.
Eftir því sem Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður og einn forystumanna framboðsins, sagði í Silfri Egils fyrir viku er stefnt að kynningu framboðsins fljótlega, væntanlega innan viku. Það virðist unnið mikið á bakvið tjöldin og safnað liði. Enn eiga Margrét og Ómar og þeir sem með þeim ætla að starfa í nafni Íslandsflokksins eftir að sýna vel á spil sín, hver séu trompin þeirra og helstu áherslur, önnur en umhverfismálin. Enda virðist unnið að heilsteyptu framboði með niðurnegldar áherslur í öllum þeim málaflokkum sem máli skipta í samfélaginu.
Það eru rúmir 60 dagar til kosninga. Áhrif nýs hægri græns framboðs eru óviss á þessari stundu. Það gæti allt eins orðið örlagaríkt afl í kosningabaráttunni, einnig gæti það floppað. Gengi þessa framboðs verður eitt af spurningamerkjum þessarar kosningabaráttu rétt eins og Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar fyrir tveim áratugum. Hann fór fram sem leiðtogi með langa stjórnmálafortíð að baki, þó að hann hefði verið hrakinn af ráðherrastóli af forystu Sjálfstæðisflokksins. Þó að honum tækist ekki að koma Borgaraflokknum í ríkisstjórn varð framboðið örlagavaldur.
Fyrirfram sést enginn þungavigtarhöfðingi í röðum Íslandsflokksins á við Albert Guðmundsson en þar er fólk sem hefur verið áberandi í stjórnmálum og ekki síður þjóðmálunum. Því er erfitt að spá í hvernig fer. En augu allra verða á næstunni á Íslandsflokknum og gengi hans. Það má fullyrða á þessari stundu, hvernig svo sem gengi hans verður að lokum.
Það verður áhugavert að sjá hvernig hann mælist á næstunni. Kannanir segja oft söguna vel. Það þarf ekki að efast um að kannanir eru í gangi. Ætli að Fréttablaðið sé með nýja framboðið í næstu könnun sinni? Eru þeir ekki með könnun á morgun? En þetta verður svo sannarlega spennandi kosningabarátta, lítill vafi á því.
![]() |
Íslandsflokkurinn vinnuheiti á áformuðu þingframboði Margrétar Sverrisdóttur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
10.3.2007 | 15:02
Leonardo DiCaprio kominn til landsins

Fetar Leonardo í fótspor James Bond, í túlkun Roger Moore í A View To a Kill árið 1985 og Pierce Brosnan í Die Another Day árið 2002, í því að fara á Jökulsárlón. Ekki þó til að leika í kvikmynd, heldur í myndatöku fyrir glansritið Vanity Fair. Búast má við að hann verði farinn fyrir helgarlok aftur til Bandaríkjanna. Eflaust mun myndatakan eitthvað auglýsa upp landið, enda blaðið víðlesið, og vonandi mun leikarinn njóta landsins og sjá hversu fallegt er á Jökulsárlóni. Það er enda yndislegur staður. DiCaprio er auðvitað mjög þekktur leikari. Hann hefur þó ungur sé verið tilnefndur þrisvar til óskarsverðlauna fyrir leik, síðast fyrir Blood Diamond á óskarsverðlaunahátíðinni fyrir tæpum tveim vikum. Hann var áður tilnefndur fyrir The Aviator og What´s Eating Gilbert Grape?
Þekktasta mynd DiCaprio er þó án nokkurs vafa Titanic, mynd um ástir og örlög á skipinu sögufræga sem sökk til botns fyrir tæpri öld. Mikil og stór mynd um sögu skipsins sem átti ekki að geta sokkið en sökk þó í jómfrúrferðinni sinni. Sú mynd sló í gegn á sínum tíma og er ein vinsælasta kvikmynd sögunnar. Hún verður tíu ára á þessu ári. Hún hlaut 14 óskarsverðaunatilnefningar og 11 verðlaun, sem er hið mesta í sögu verðlaunanna, jafnmikið og Ben-Hur hlaut áður, árið 1959, og The Lord of the Rings: The Return of the King, hlaut síðar, árið 2003. DiCaprio hlaut ekki einu sinni leiktilnefningu fyrir túlkun sína á Jack Dawson í myndinni, sem olli áralangri fýlu hans við akademíuna.
Vinsælasta mynd DiCaprio í seinni tíð hlýtur að teljast The Departed, kvikmynd leikstjórans Martin Scorsese, sem færði leikstjóranum langþráðan leikstjóraóskar og hlaut ennfremur óskarinn sem besta kvikmynd ársins 2006. DiCaprio sýndi góða takta en hlaut þó frekar leiktilnefningu fyrir Blood Diamond en hana, þó ég geti reyndar fullyrt að Blood Diamond sé úrvalsmynd. Flestir töldu að DiCaprio fengi leikaraóskarinn fyrir tveim árum fyrir túlkun sína á auðjöfrinum Howard Hughes í The Aviator en þá tapaði hann fyrir Jamie Foxx sem túlkaði Ray Charles með bravúr. Enn á hann því eftir að vinna þessi eftirsóttu verðlaun. Hann hefur nú gert þrjár myndir með Scorsese.
Hvort að hann þurfi að bíða jafnlengi eftir verðlaununum og uppáhaldsleikstjórinn hans, sem hefur gefið honum bestu leiktækifærin undanfarin ár, skal ósagt látið. En nú er hann á Íslandi - kynnist landi og þjóð. Einhver mun eflaust spyrja hann hinnar sígildu og margtuggnu spurningar um hvernig honum líki við landið. Hvert sem svarið verður munu margir kalla hann Íslandsvin. Annað væri eflaust talið sem stílbrot á stjörnuhefðinni.
![]() |
Leonardo DiCaprio myndaður á Jökulsárlóni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)