12.3.2007 | 22:23
Eiríkur hinn rauði dökkhærður í Valentine Lost

Fannst þó textinn þónokkuð óskiljanlegur á köflum og þurfti ég að gera mér ferð til að sjá myndbandið á vef Ríkisútvarpsins til að ná einhverjum kontakt við textann og átta mig alveg á honum. Ennfremur finnst mér frekar leitt að sólókaflanum hefur verið breytt og tekinn úr samhengi við það sem áður var. Laginu hefur verið hraðað greinilega á milli söngkafla og finnst mér ekki gott að taka sólókaflann út, enda fannst mér hann gefa laginu mikið.
En já, svona er þetta. Tekur smátíma að venjast laginu á ensku en mér fannst upprunalega útgáfan betri ef á að spyrja mig. En ég trúi því ekki að Eiríkur verði dökkhærður í Helsinki í maí. Ef svo er finnst mér það glapræði. Eirík rauða til Finnlands, ekki Eirík dökkhærða! Þetta er frekar ömurleg eyðilegging á vörumerki Eiríks að mínu mati. Hann var betri áður. En vonandi kemst lagið áfram í úrslitahlutann. Það er fyrst og fremst markmiðið.
Það verður spennandi að sjá hvernig á að hafa þetta almennt, en það er greinilegt að það á að fórna rauða hárinu. Sýnist það. Finnst það ekki passa vel við bílnúmerið í myndbandinu sem er Big Red. Hann á að fara rauðhærður út allavega. Tel að flestir séu sammála mér um það held ég. En svona er þetta. Fannst mínusar vera við þetta en ekki ráðandi þó. Átti þó von á að helsta vörumerki hans myndi standa sem grunnur, en svo virðist ekki vera.
Vonum bara að partýkvöldin verði tvö í maí og að Eiríkur komist á aðalkvöldið, 12. maí. Ef svo fer verður það dúndurdagur; kosningar og Eurovision. Ekki amalegt það!
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.3.2007 | 19:55
Ólafur Ragnar ætlar brátt að kaupa eigið hús

Í kvöldfréttum var sýnt er forsetahjónin heimsóttu Ártúnsskóla, en hann hlaut íslensku menntaverðlaunin síðastliðið sumar. Þar var forsetinn og svaraði spurningum nemenda skólans. Það mega börnin alltaf eiga að þau spyrja heiðarlega og án hiks. Þau spurðu forsetahjónin af mikilli einlægni. Meðal annars var spurt hvernig forsetanum líkaði að gert væri grín að honum í Spaugstofunni, hvað bílar hans og embættisins væru gamlir, hvar forsetahjónin hefðu hist fyrst og hversu mörg hús hann ætti.
Merkilegasta svarið hjá forsetanum var við síðastnefndu spurningunni. Eins og Ólafur Ragnar minntist á í svarinu á hann ekkert hús. Þegar að hann var kjörinn forseti árið 1996 áttu Ólafur Ragnar og Guðrún Katrín Þorbergsdóttir heima í raðhúsi á Barðaströnd á Seltjarnarnesi. Þá íbúð eiga nú Guðrún Tinna, dóttir forsetans, og maður hennar, Karl Pétur Jónsson. Sagðist Ólafur Ragnar verða nú að fara að leita sér að nýju húsi. Það blasir auðvitað við að hann þarf að fá sér hús. En er þetta merki um að hann ætli ekki að fara fram aftur og þurfi því brátt á húsi að halda. Stór spurning það.
Forveri Ólafs Ragnars, Vigdís Finnbogadóttir, bjó á Aragötu í Reykjavík áður en hún varð forseti. Hún átti húsið áfram og átti þar eigið heimili í þau sextán ár sem hún sat á forsetastóli. Hluta þess tíma var Bessastaðastofa endurbyggð og því gat forseti ekki heldur hvort eð er búið þar. Undir lok forsetaferilsins var komin íbúð fyrir forsetann aftur í Bessastaðastofu. Er Vigdís lét af embætti var tekið formlega í notkun sérstakt íbúðarhús forseta skammt frá Bessastaðastofu. Ólafur Ragnar hefur einn forseta því búið þar.
Það verður fróðlegt að sjá hvað Ólafur Ragnar hyggst fyrir. Hann ætlar allavega að fara að kaupa eigið hús. Það er vísbending um að forsetaferlinum ljúki brátt. Það eru skilaboð í sjálfu sér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.3.2007 | 17:11
Stjórnarskrárbreytingar ræddar á Alþingi

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, varð í dag fyrsti forsætisráðherra landsins í hálfan þriðja áratug, eða frá forsætisráðherratíð dr. Gunnars Thoroddsens, til að mæla fyrir ráðherrafrumvarpi í eigin nafni í þingsal. Fyrsta umræða um frumvarp um auðlindaákvæði stjórnarskrár Íslands fer nú fram í þingsalnum. Eru skiptar skoðanir þar svo sannarlega um breytingarnar og engin samstaða í sjónmáli. Stefnir væntanlega í að þingið verði lengt.
Þetta er merkilegt frumvarp vissulega. Það er lagt fram af forsætis- og iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Annar þeirra á ekki sæti á Alþingi eins og flestir vita, enda er formaður Framsóknarflokksins utanþingsráðherra. Það er mælt fyrir því í þingsal 60 dögum fyrir alþingiskosningar og gæti orðið hitamál næstu dagana. Ef marka má ræðu Steingríms J. Sigfússonar sem nú stendur yfir verður engin samstaða um afgreiðslu málsins og má telja öruggt að þinglok verði ekki á fimmtudag. Til dæmis eiga eldhúsdagsumræður að fara fram á Alþingi á miðvikudagskvöld. Efast má um að það verði að veruleika að óbreyttu.
Eflaust velta einhverjir því fyrir sér hvort að Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, geti borið fram frumvarp til stjórnarskrárbreytinga. Það er að sjálfsögðu ekki óeðlilegt, enda er ráðherrum heimilt að leggja fram frumvörp í eigin nafni skv. 38 grein stjórnarskrár lýðveldisins. En þetta vekur vissulega athygli. Annars er mjög sjaldgæft að ráðherrar sitji þing án þess að vera þingmenn. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, átti ekki t.d. ekki sæti á Alþingi er hann var fjármálaráðherra 1988-1991 og Geir Hallgrímsson var utanríkisráðherra 1983-1986 án þess að vera kjörinn þingmaður. Báðir voru þeir þó varaþingmenn.
En það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi umræða muni ganga fyrir sig. Það stefnir í átök um auðlindaákvæðið allavega. Tilboð stjórnarandstöðunnar um samstöðu um auðlindaákvæði var greinilega beint tilboð til Framsóknarflokksins en ekki ríkisstjórnarinnar enda breyttist hljóðið í stjórnarandstöðunni við samstöðu stjórnarflokksins. Það var bara hrein og klár leiktjaldasýning.
Að óbreyttu stefnir væntanlega í að þingið verði lengt og fróðlegt hvernig muni ganga í því tilfelli. Hversu lengi mun þinghald standa og hvenær munu þingmenn og frambjóðendur geta hafið kosningabaráttuna á fullu? Þetta eru stórar spurningar nú og ekki síður hvort að stjórnarskrárbreytingin verði afgreidd í hörkulegum átökum stjórnar og stjórnarandstöðu innan við tveim mánuðum fyrir alþingiskosningar.
![]() |
Mælt fyrir frumvarpi um breytingu á stjórnarskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.3.2007 | 15:14
Maðurinn sem bauð George W. Bush byrginn

Einn félagi minn las umfjöllun mína um stjórnmálaferil Chiracs og sendi mér tölvupóst þar sem hann spurði mig um af hverju ég hefði ekki minnst á andstöðu Chiracs við Íraksstríðið. Það var einmitt vegna þess að mér fannst það efni í sérpistil. Annars fannst mér líka umfjöllunin vera orðin helst til löng og þetta væri það stórt efni að rétt væri að taka það sér til umfjöllunar. Annars átti umfjöllunin ekki að verða svona löng en hún spann á sig og endaði nokkuð ítarleg, fannst það reyndar við hæfi, enda þótt að ég hafi ekki alltaf verið sammála Chirac er hann einn valda- og áhrifamesti evrópski stjórnmálamaður síðustu áratuga. Það er mjög einfalt mál. Vona að fólki hafi líkað skrifin allavega að einhverju leyti.
Chirac var ekki einn um afstöðuna gegn innrás í Írak. Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands 1998-2005, var mjög andvígur henni og vinstristjórn hans var mjög harður andstæðingur stefnu Bush og Blair í málinu. Merkilegasti hluti afstöðu Chiracs var auðvitað sú að hann var hægrimaður. Andstaða forsetans varð mjög áberandi og kalt stríð ríkti milli forystumanna þessara tveggja landa við Bandaríkin um þónokkuð skeið. Þó fór alltaf þannig séð vel á með Chirac og Bush á alþjóðavettvangi þó kuldi hafi verið bakvið breið brosin. Sögulegar sættir náðust milli Bush, Chirac og Schröder í eftirminnilegri Evrópureisu Bush í febrúar 2005, sem var diplómatísk tilraun Bush til sátta.
Það hefði þótt nær óhugsandi tveim árum áður er hitinn var sem mestur í Íraksmálinu og samskipti landanna náðu frostmarki. Sérstaka athygli vakti þá fundur Bush og Schröder í Meinz. Það var í fyrsta skipti í þrjú ár, frá upphafi diplómatískra átaka um málið, sem Bush fór til Þýskalands. Chirac hefur alltaf hreykt sér af afstöðu sinni og alltaf metið hana rétta. Hún vakti þó athygli, enda hefur Chirac verið langmest áberandi leiðtogi hægrimanna í Evrópu á forsetaferli sínum og verið áberandi á stjórnmálavettvangi. Enn sést reyndar merki kulda milli Bandaríkjanna og Frakklands. Sumir voru svo harðir að þeir breyttu nafninu á frönskum kartöflum í frelsiskartöflur í Bandaríkjunum.
Það verður þó seint sagt að Chirac hafi grætt á andstöðunni við innrásina í Írak. Persónulegt fylgi hans hefur sífellt minnkað á þessu seinna kjörtímabili hans í Elysée-höll og stjórn hans hefur gengið í gegnum mikla öldudali. Utanríkisráðherrann De Villepin sem var eins og fyrr segir áberandi talsmaður gegn innrásinni í Írak á alþjóðavettvangi er með óvinsælli forsætisráðherrum Frakklands á seinni tímum og hefur lítið grætt á því að hafa keyrt gegn Íraksmálinu. Annars er reyndar De Villepin ekki kjörinn stjórnmálaleiðtogi, enda aldrei boðið sig fram en setið í ríkisstjórn í sérlegu umboði forsetans. Hann sneri frá forsetaframboði nú, enda hefði hann væntanlega hlotið vonda útreið.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig að sagan metur andstöðu Chiracs við innrásina í Írak. Það er þó sú ákvörðun sem mörgum stjórnmálaskýrendum dettur í hug er forsetaferill hans undanfarin tólf ár er rakin nú nokkrum vikum áður en hann hverfur úr pólitíska sviðsljósinu. Það var vissulega ákvörðun sem markaði Chirac sem mann eigin ákvarðana og eigin forystu, en ekki mann sem fylgdi öðrum sama hvað ætti við. Chirac hefur enda alla tíð verið harðskeyttur og áberandi stjórnmálamaður sem hefur farið sínar leiðir án hiks. Hann hefur verið vægðarlaus leiðtogi sem hefur ekki verið auðsveipur einum né neinum. Það verða sennilega eftirmæli hans sem leiðtogi í raun.
Það vakti athygli að hann gat þó ekki notað þessa andstöðu við Íraksstríðið til að byggja sig upp. En kannski var bara franska þjóðin búin að fá leið á Chirac sem slíkum eftir langan valdaferil. Hann hafði jú verið forseti í áratug, tvisvar gegnt forsætisráðherraembætti og verið borgarstjóri í París í 18 ár. Hann hafði verið áberandi á hinu pólitíska sviði í yfir fjóra áratugi. Margir segja einmitt að Frakkar hafi hafnað stjórnarskrá ESB vegna þess að hún hafði fengið nóg af Chirac.
Hvað sem menn segja og finnst um Chirac deilir enginn um að afstaða hans í Íraksmálinu var mjög áberandi. Sennilega var það sú ákvörðun sem einmitt verður mest í minnum höfð síðar meir þegar að hugsað verður til pólitíska klækjarefsins frá Correze og litríka ferilsins hans? Hver veit. Tíminn leiðir það í ljós fyrir okkur án nokkurs vafa.
12.3.2007 | 12:42
Tveir mánuðir til alþingiskosninga

Fjöldi þingmanna situr nú sínar síðustu vikur á þingi og kveðja brátt stöðu sína í hinu virðulega þinghúsi við Austurvöll. Margir alþingismenn eru að hætta þátttöku í stjórnmálum og fjöldi þingmanna munu hreinlega falla í kosningunum ef marka má skoðanakannanir. Það stefnir í mikla uppstokkun heilt yfir, þá mestu jafnvel til þessa í sögu þingsins. Skv. öllum skoðanakönnum nú stefnir í uppstokkun fylkinga, mismikið fylgistap Framsóknarflokkins og Samfylkingarinnar og mikla viðbót vinstri grænna. Það er því ljóst að miklar mannabreytingar verði á Alþingi, sérstaklega ef vinstri grænum fjölgar um 10-12.
Kosningabaráttan er að hefjast af fullum krafti, þó sennilega muni mesti þungi hennar verða eftir páskana. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin verða bæði með landsfundi sína eftir sléttan mánuð, en landsfundur sjálfstæðismanna hefst 12. apríl. Framboðslistar fjögurra stærstu flokkanna liggj fyrir á landsvísu en óvissa enn uppi að einhverju leyti um lista frjálslyndra og nýrra afla á borð við aldraða og öryrkja og svo hægri grænna, sem virðast vera komnir langt á leið í undirbúningi sínum.
Það stefnir í spennandi kosningar. Ef marka má skoðanakannanir verður þetta fjörleg barátta. 60 dagar virka auðvitað ekki mikið á langri ævi eins manns en fyrir stjórnmálamann í hita og þunga tvísýnnar og spennandi kosningabaráttu eru 60 dagar sem heil eilífð. Harold Wilson, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, sagði sem frægt varð að vika væri langur tími í stjórnmálum - sem voru orð að sönnu svo sannarlega. Þetta verða líflegir tveir mánuðir, svo mikið er víst.