Sjálfstæðisflokkurinn í sókn - aðrir flokkar síga

Könnun (mars 2007) Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst umtalsvert á milli vikna í könnunum Gallups. Í nýrri könnun sem kynnt var fyrir stundu missa allir aðrir flokkar fylgi. VG er enn næststærst, með 25,7%, og mælist með fimm prósentustigum meira fylgi en Samfylkingin. Framsóknarflokkurinn mælist aðeins með 6,9% fylgi og hefur aldrei í sögu kannana Gallups mælst lægri. Frjálslyndir missa flugið og mælast með innan við 5% fylgi, fá því ekki jöfnunarmenn.

Þessi könnun er nokkuð merkileg. Uppsveifla Sjálfstæðisflokksins er vissulega mikið gleðiefni, en hann mælist nú sjö prósentustigum yfir kjörfylginu árið 2003. VG er byrjað að síga eftir langa uppsveiflutíð, en er enn fimmtán prósentustigum yfir kjörfylginu 2003. Samfylkingin heldur sífellt áfram að minnka og er nú komin niður í 20,6%, sem þýðir yfir 10% fylgistap frá síðustu kosningum. Söguleg lægð Framsóknarflokksins eru mjög stór tíðindi, hann mælist 12 prósentustigum undir kjörfylginu 2003 og aðeins með fimm þingsæti. Frjálslyndir hafa misst þrjú prósentustig frá kosningunum 2003.

Ríkisstjórnin mælist fallin þrátt fyrir mikla uppsveiflu Sjálfstæðisflokksins. Þar er um að kenna kreppu Framsóknarflokksins. Það er hætt við að örvæntingin þar í þessari gríðarlegu krísu verði brátt æ meira áberandi. Sama má segja um Samfylkinguna, sem er í frjálsu falli eins og Framsóknarflokkurinn. Það dettur engum lifandi manni í hug að segja að Samfylkingunni hafi tekist að verða mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn í þessari mælingu og pólitísk staða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hefur sjaldan eða aldrei verið veikari, eins og sást reyndar vel af öryggisleysi hennar í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í vikunni.

Þingstörfum mun væntanlega ljúka á morgun. Þá fer kosningabaráttan væntanlega á annað stig og verður æ meira áberandi. Þessi mæling innan við 60 dögum fyrir kosningar er vissulega mjög athyglisverð og miklar pælingar framundan við að greina hana. Fari staðan á einhvern viðlíka veg hlýtur að teljast eðlilegt að VG og Sjálfstæðisflokkurinn, flokkar í mikilli uppsveiflu, myndi nýja ríkisstjórn. Sitjandi stjórn er allavega heldur betur feig fari Eyjólfur ekki að hressast í Framsókn.

mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst mikið frá síðustu könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forstjórar olíufélaganna þriggja lausir allra mála

Olíufélög Hæstiréttur hefur nú staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. febrúar sl. um að vísa máli ákæruvaldsins gegn forstjórum olíufélaganna á tímum olíusamráðsins frá. Þetta er mjög athyglisverður dómur og hlýtur að skekja samfélagið, enda hefur olíusamráðið verið mjög umdeilt og skapað óvinsældir fyrir bæði olíufélögin og þessa menn á forstjórastóli í samfélaginu.

Fram kemur í dómsorði að fyrirkomulag samkeppnislaga hafi ekki verið nógu skýrt um meðferð máls ef grunur vaknaði um að brotið hefði verið gegn lögunum, og þar af leiðandi óskýrt hvernig með skyldi fara ef tilefni þætti til opinberrar rannsóknar jafnhliða meðferð samkeppnisyfirvalda og hvenær beita ætti refsiviðurlögum. Telur Hæstiréttur ekki nægjanlega fram komið, að í lögreglurannsókninni, sem fór fram í kjölfar meðferðar samkeppnisyfirvalda, hefðu þeir, eins og þeirri rannsókn var hagað, fengið notið þeirra réttinda sakborninga.

Því telur Hæstiréttur að ákæra yrði ekki reist á þeirri lögreglurannsókn og var niðurstaða héraðsdóms því staðfest. Var að lesa dóminn, þetta er mikil bomba en um leið áfall fyrir ákæruvaldið sem hefur runnið á rassinn með þetta mál gegn samráðsforstjórum olíufélaganna og Baugsmálið er orðið mikið fíaskó að mínu mati; stendur ekki steinn yfir steini. Ég sem neytandi í þessu landi lýsi yfir hneykslun minni og undrun á þessum dómi sem er með hreinum ólíkindum.

Það var þann 13. desember sl. sem að Bogi Nilsson, ríkissaksóknari, gaf út ákæru á hendur Kristni Björnssyni, fyrrum forstjóra Skeljungs, Einari Benediktssyni, forstjóra OLÍS, og Geir Magnússyni, fyrrum forstjóra ESSO. Þeir voru forstjórar olíufélaganna á tímum samráðsins fræga og hafa verið umdeildir vegna þess í huga þjóðarinnar. Ákæra á hendur þeim persónulega, en ekki olíufélögunum sem slíkum, voru stórtíðindi í málinu.

Gögn í málinu virtust mjög ljós í þá átt að olíufélögin þrjú hafi haft með sér mikið samráð á tímabilinu 1993-2001, eða þar til Samkeppnisstofnun hóf formlega rannsókn sína með því að fara inn í fyrirtækin og afla sér gagna um málið. En nú er þetta mál úr sögunni sýnist manni og fróðlegt að sjá hvort, og þá hvað, taki nú við í því.

mbl.is Ákæru á hendur forstjóra olíufélaga vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband