Margrét Frímannsdóttir kveður

Margrét FrímannsdóttirÉg var að horfa á kveðjuræðu Margrétar Frímannsdóttur á Alþingi, en hún situr nú sinn síðasta þingfund. Búist er við þinglokum innan klukkustundar. Þetta var greinilega tilfinninganæm stund fyrir hana og hún flutti stutta en heilsteypta ræðu. Ég viðurkenni það fúslega að mér hefur alltaf fundist Margrét vera einn frambærilegasti forystumaður Samfylkingarinnar og ég held að þeim muni mjög um hana, enda einn sterkasti leiðtogi flokksins í kvennaarminum.

Það er einmitt hálft ár í dag frá því að Margrét tilkynnti pólitísk endalok sín á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Margrét Frímannsdóttir hefur setið á þingi frá árinu 1987. Hún hefur verið einn helsti leiðtogi vinstrimanna hérlendis í tæpa tvo áratugi og verið öflug í sinni stjórnmálabaráttu. Hún var þingflokksformaður Alþýðubandalagsins 1988-1992, formaður Alþýðubandalagsins 1995-2000, varaformaður Samfylkingarinnar 2000-2003 og þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2004-2006. Hún leiddi framboðslista í öllum kosningum frá árinu 1987 á Suðurlandi, fyrir Alþýðubandalag og Samfylkinguna.

Margrét Frímannsdóttir var fyrsta konan sem leiddi einn af gömlu fjórflokkunum og sigur hennar yfir Steingrími J. Sigfússyni í hörðu formannskjöri í Alþýðubandalaginu er Ólafur Ragnar Grímsson lét af formennsku árið 1995 var nokkuð sögulegur. Án hennar hefði Alþýðubandalagið aldrei farið í sameiningarviðræður við kratana og Kvennalistakonur. Hún stýrði málinu og var óneitanlega ljósmóðir Samfylkingarinnar. Það mæddi oft gríðarlega á henni undir lokin í Alþýðubandalaginu er Steingrímur J. og hans fylgismenn klufu sig frá og stofnuðu eigin flokk. Ennfremur var hún talsmaður Samfylkingarinnar í alþingiskosningunum 1999, en það voru fyrstu kosningar flokksins. Sennilega voru alþingiskosningarnar 1999 þær kosningar sem mest reyndu á hana, en hún leiddi Samfylkinguna fyrstu skrefin.

Ég held að það sé ekki ofmælt að brotthvarf Margrétar Frímannsdóttur veiki Samfylkinguna. Hún var sannkölluð ljósmóðir flokksins og tryggði að flokkurinn komst í raun á koppinn. Það hefur öllum verið ljóst að Margrét Frímannsdóttir hefur verið gríðarlega öflugur leiðtogi á Suðurlandi og átti sér persónufylgi langt út fyrir flokkinn. Hún kom enda úr grasrótinni og hefur verið í pólitík síðan að hún var ung. Sennilega má segja að hún hafi byrjað í pólitík í hreppspólitíkinni, enda var hún lengi oddviti í heimabæ sínum, Stokkseyri, og varð svo þingmaður 33 ára og var alla tíð í forystusveitinni á vinstrivængnum. Það vekur verulega athygli að Margrét ákveði að hætta. Hún er jafngömul Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar. Báðar eru þær fæddar árið 1954.

Þó að ég hafi ekki alltaf verið sammála Margréti á hennar stjórnmálaferli sé ég eftir henni úr stjórnmálum. Þetta var allavega mjög öflug kveðjuræða hjá henni áðan. Þar missir Samfylkingin forystukonu sína á landsbyggðinni og ekki fá þeir neina í staðinn.


Líður að starfslokum Alþingis á kjörtímabilinu

Alþingi Það stefnir í þinglok á næstu klukkutímum. Með því verða um leið starfslok hjá löggjafarþinginu á kjörtímabilinu. Mér telst til að allt að 20 núverandi alþingismenn séu að sitja nú síðustu klukkustundir sínar á þingi fari kosningar í takt við nýjustu kannanir. Það stefnir í mikla uppstokkun og verður áhugavert að sjá hvernig að nýtt þing verður skipað eftir þingkosningarnar eftir 55 daga.

Ef marka má kannanir þessa dagana eru VG og Sjálfstæðisflokkur að mælast í uppsveiflu meðan hinum flokkunum er spáð mismiklu fylgisfalli. Það virðist sérstaklega stefna í erfiðar kosningar fyrir Framsóknarflokk og Samfylkinguna, og hlýtur að fara að styttast í að staðan þar jaðri við örvæntingu, ef það er þá ekki orðið þannig nú þegar. Athygli vekur líka að sjá hversu mjög frjálslyndir minnka könnun eftir könnun.

Það er alltaf kostulegt að fylgjast með þinghaldinu undir lokin ár hvert. Það myndast ævinlega gríðarleg stífla þar síðustu fimm til tíu dagana og verður eiginlega varla viðráðanleg. Svo er keyrt á með næturfundum á næturfund ofan og unnið þar til að menn eru annaðhvort orðnir ein taugahrúga og baugóttir undir augum og falla saman í samkomulag sem felur í sér að nokkrum málum er slátrað eða saltað niður í trog til næsta vetrar og stabbi keyrður í gegn. Þetta er held ég sérstaklega íslenskt verklag. Finnst það afleitt í sjálfu sér, enda tel ég að þingið megi alla jafnan vinna lengur en þetta.

Gestur Einar Jónasson spurði mig í viðtalinu á Rás 2 á miðvikudagsmorguninn einmitt að því hvort að mér þætti að lengja ætti þinghaldið. Sagði ég mína skoðun afgerandi á því að það ætti að gera. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að þinghaldið eigi að byrja í septemberbyrjun og standa fram í maílok hið minnsta. Það væri viðunandi verklag. Það að byrja ekki í september er löngu úrelt verklag að mínu mati og þessir næturfundir og stíflukeyrsla er að mínu mati þinginu til skammar og hef alltaf verið á þeirri skoðun. Lengja þetta takk!

Það eru misjafnlega ólík frumvörp sem renna í gegn á færibandi eins og járndósir í niðursuðuverksmiðju. Gleðst mjög með að samkomulag er loks um að samþykkja að afnema fyrningarfrest á kynferðisbrotum gegn börnum. Löngu kominn tími til að það færi í gegn og fleiri mál ágæt eru að verða að lögum. Sum sitja eftir og daga uppi. Ætli að vínfrumvarpið sem rætt var um í gær verði eitt af þeim? Vona ekki. Verður fróðlegt að sjá hvernig verklaginu lýkur þarna í kvöld.

mbl.is Fyrningarfrestur á kynferðisafbrotum gegn börnum afnuminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mona Sahlin leiðir sænska krata í stað Persson

Mona Sahlin Mona Sahlin var í dag kjörin leiðtogi sænska Jafnaðarmannaflokksins í stað Göran Persson sem hefur leitt hann í ellefu ár og var forsætisráðherra Svíþjóðar í áratug, 1996-2006. Sahlin er fyrsta konan sem leiðir sænska krata og sem leiðtogi annarrar lykilblokkar sænskra stjórnmála. Sænskir kratar misstu völdin í október í fyrsta skipti í tólf ár, og eru nú að upplifa heim stjórnarandstöðunnar og eru greinilega að ganga í gegnum allsherjar uppstokkun. Það er ljóst að það verður verkefni Sahlin að endurreisa flokkinn til vegs og virðingar.

Mikil andstaða var lengi vel við að Sahlin yrði flokksleiðtogi og öflugur armur innan flokksins mátti ekki til þess hugsa að hún leiddi flokkinn eftir allt sem á undan var gengið. Hún var þó tilnefnd af valnefnd í ársbyrjun, sem vann að undirbúningi kjörsins, og enginn annar lýsti yfir áhuga sínum og samstaða myndaðist um hana eftir langar vangaveltur. Hennar bíður athyglisvert hlutskipti í forystunni. Mona var lengi vel talin líklegasti eftirmaður Ingvars Carlssons í baráttu við Persson fyrir áratug, en hann var eftirmaður Olof Palme sem leiðtogi kratanna, 1986-1996, og var forsætisráðherra tvisvar; 1986-1991 og 1994-1996.

Svo fór að vegna kreditkortahneykslis sem jafnan hefur verið kennt við Toblerone (er varð er Sahlin keypti m.a. Toblerone súkkulaði út á ráðherrakort sitt) varð Sahlin að segja af sér árið 1995 og hnossið féll fjármálaráðherranum Persson í skaut. Sahlin hefur lengi verið umdeild innan flokks og utan og skandalarnir hafa elt hana uppi lengi. Það verður nú hlutskipti hennar að reyna að endurreisa ímynd sína sem stjórnmálamanns og vinna flokki sínum fylgi og sigurmöguleika í kosningum eftir rúm þrjú ár. Það er mikið verkefni sem við henni blasir, enda ljóst að hneykslismál hennar eru ekki gleymd.

Dauði Önnu Lindh fyrir tæpum fjórum árum er enn stingandi fyrir Jafnaðamannaflokkinn. Eftir að hún var myrt með sorglegum hætti í september 2003 blasti enda enginn afgerandi eftirmaður Perssons við. Anna Lindh var krónprinsessa flokksins og augljós eftirmaður eftir valdadaga Perssons er hún dó. Skarð hennar er enn mjög áberandi meðal sænskra krata. Sænsku spekingarnir töldu lengi vel að Margot Wallström, kommissar hjá ESB og fyrrum ráðherra, væri vænlegust í verkefnið en hún lýsti því yfir nær um leið og Persson dró sig til baka eftir tap í þingkosningum að hún hefði engan áhuga á að leiða kratana í stjórnarandstöðu næstu þrjú árin.

Það mun mikið reyna á Sahlin nú sem leiðtoga sænsku stjórnarandstöðunnar. Maður hefði haldið að hún væri orðin frekar slitin sem stjórnmálamaður eftir sína skandala. En hún fær greinilega annan séns og krýningu innan flokksins til verka, þrátt fyrir margar afsagnir og vandræðaleg pólitísk mistök. Reyndar má segja að það að Sahlin verði flokksleiðtogi sé til marks um hversu mjög yfirgangur Perssons í flokknum hefur leitt til þess að leiðtogafátækt einkennir hann nú þegar að hann hrökklast sjálfur frá völdum.

Þrjár konur leiða nú norræna jafnaðarmannaflokka í fyrsta skipti í sögu þeirra; Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Helle Thorning-Schmidt og Mona Sahlin. Það var til marks um þetta kvennamóment að allar ávörpuðu þær flokksþing sænskra krata í dag og var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sérstakur heiðursgestur flokksþingsins.

Nú þegar að rúmir 50 dagar eru til þingkosninga hér á Íslandi blasir frjálst fylgisfall við Samfylkingunni og erfið pólitísk staða við leiðtoga flokksins sem virðist vera að missa einmitt kvennafylgið mjög hratt. Það stefnir í kuldaleg pólitísk örlög fyrir íslenska heiðursgestinn á sænska krataflokksþinginu að óbreyttu.

mbl.is Mona Sahlin kjörin leiðtogi sænskra sósíaldemókrata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggvefurinn horfni og umdeildu ummælin

Ég fékk þónokkur viðbrögð við skrifum mínum hér um bloggummæli Guðbjargar Hildar Kolbeins og það sem ég sagði um vefinn hennar eftir að hún lokaði honum í kjölfar umdeildra ummæla um auglýsingablað Smáralindar. Enn bar þó á þeim misskilningi að ég væri að tala gegn því að hún hefði skoðanafrelsi. Gagnrýnin snerist fyrst og fremst að orðavalinu. Það hvernig hún orðaði hlutina var langstærsti þáttur þess hversu gagnrýnin á hana varð rosalega mikil og afgerandi. Varð ég enn og aftur að taka þetta fram, mér til nokkurrar furðu, enda taldi ég mig hafa sagt þetta nógu oft og skýrt auðvitað.

Það að kona í hennar stöðu lét slíkt orðbragð frá sér fara var stór þáttur gagnrýninnar líka að mínu mati. Margir hafa verið á sama máli í þessu og ég, en sumir héldu umræðunni áfram frá sama grunni, eftir fyrri skrif mín. Það var frekar undarlegt. En það er bara eins og það er. Það að Guðbjörg Hildur hafi tekið vefinn niður var viðurkenning þess að hún gat ekki feisað vettvanginn lengur eftir þessa gagnrýni. Það má vel vera að það sé erfitt að biðjast afsökunar á vondu orðbragði, en ég er þess fullviss að margir hefðu metið þá afsökunarbeiðni mikils eins og komið var málum.

En það var ekki á dagskrá greinilega. Í dag voru ýmsar sögusagnir um að Guðbjörg væri hætt í Háskólanum og horfði til annarra verkefna. Þekki það ekki og skipti mér ekki af því. Mér fannst þessi ummæli lágkúruleg og fannst rétt að tjá þá afstöðu. Afsökunarbeiðni fannst mér eðlilegt ferli. Hún tók út umdeildu skrifin en baðst aldrei afsökunar á þeim. Með því að taka skrifin út og síðar loka vefsetrinu var tekið að mínu mati undir harða gagnrýni og hún hopaði án þess að taka aftur ummælin. Málinu lauk því snaggaralegum hætti.

Ég stend hiklaust við þá skoðun mína sem ég hef birt hér um þessi ummæli. Fannst rétt að benda á þau. Fannst þó heiðarlegt að tala rólega um málið í viðtalinu á Rás 2 nýlega, þó ég hafi vissulega svona sagt mitt um það. Viðbrögðin við þessu sýndu mjög vel hversu sterkt netið er. Auglýsingaherferðin sem sýnd var nýlega í sjónvarpi um ómálefnaleg netskrif kom ljóslifandi fram í þessu tilfelli. Það er ekki sama hvernig að þú talar og skrifar á netinu. Það er opinn vettvangur. Farirðu yfir strikið færðu að kenna á því. Einfalt mál!

Þetta mál sýnir okkur vel siðferðismæla netsins og að það er fylgst vel með því sem þar gerist. Hvassyrt orðalag getur enda vakið mikla bylgju andúðar og kallað á sterk viðbrögð. Þetta mál hefur sýnt okkur það mjög vel, enda eitt hið umdeildasta í netheimum í seinni tíð. En þar var talað gegn orðalagi, en ekki skoðunum. Það er allavega mitt mat.


Bloggfærslur 17. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband