Er ágreiningur milli Ómars og Margrétar?

Ómar og Margrét Kjaftasagan segir að uppi sé ágreiningur á milli Ómars Ragnarssonar og Margrétar Sverrisdóttur innan hinnar nýju Íslandshreyfingu sem þau hafa unnið að um langt skeið. Beðið hefur verið nokkuð eftir þessu framboði og þykir mörgum þau vera að falla á tíma. Ef marka mátti orð Ómars í Silfri Egils fyrir hálfum mánuði átti að vera búið að kynna framboðið.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Það hefur heyrst að Margrét Sverrisdóttir vilji afgerandi forystusess í framboðinu en Ómar vilji horfa í aðrar áttir og ekkert fastsetja neitt slíkt eða persónugera hreyfingun algjörlega stuðningsmannahópi Margrétar einvörðungu.

Öllum er ljóst að umhverfismálin hafa verið mjög sterk í kynningu framboðsins, það sé merkt sem hægri grænt. Það að nýja framboðið sé titlað hreyfing hefur mörgum þótt vera í takt við VG, sem ber einmitt heitið Vinstrihreyfingin - grænt framboð. Enda tala gárungarnir um Íslandshreyfinguna - grænt framboð, enda er þetta nýja framboð með subtitle.

En það verður fróðlegt að sjá hvað gerist og hvenær hulunni verður svipt af hægri græna framboðinu, sem hefur verið að myndast hægt og hljótt frá því að Margrét Sverrisdóttir yfirgaf Frjálslynda flokkinn fyrir tveim mánuðum og fetaði saman til nýrrar pólitískrar framtíðar með Ómari Ragnarssyni.

Netbarátta við femínistana?

Einn góður vinur minn spurði mig á förnum vegi í dag hvort að ég væri kominn í einhverja ritdeilu við femínistana vegna skrifa minna gegn þekktum ummælum um nýlegt auglýsingablað Smáralindar. Sagðist ekki vita það hreinlega. Hef þó ekki óskað eftir einhverju stríði við þá. Hef þó verið hugsi yfir þessu eiginlega síðustu dagana. Tel þó ekkert að því að ég hafi skoðanir á skrifum annarra og sé hugsi yfir því máli öllu. Öll höfðum við skoðanir á því máli annars.

Skrifin gegn þessu auglýsingablaði skóku netheimana og auðvitað var það rætt víða. Sagði mitt mat á því. Enda bara eðlilegt. Hér hef ég skoðanir á flestu sem er í gangi. Tel mig ekki vera í stríði eða deilu við femínistana. Þær hljóta að telja mig geta sagt mínar skoðanir án þess að tryllast yfir því. Það er nú fjarstæðukennt ef að femínistar telja skoðanir mínar hefta sitt skoðanafrelsi. Femínistar hafa tjáð sínar skoðanir óhikað og það er ekkert nema eðlilegt.

En svona er þetta bara. Annars tjá femínistar sína skoðun hér bara ef þær vilja. Það er eins og það er bara. Ég get aldrei skrifað hér svo allir séu sammála. Ef einhverjir eru ósammála tjá þeir bara sína skoðun.


Íslandshreyfingin mun það verða

Ómar og Margrét Það er nú ljóst að nýtt hægri grænt framboð mun heita Íslandshreyfingin - lifandi land, en ekki Íslandsflokkurinn eins og margir hafa talað um. Þetta á greinilega að vera umhverfisflokkur sem leggur áherslu á verndun landsins og náttúruauðlindanna. Það blasir enda við að það verði lykilbaráttumál auk fleiri annarra eflaust.

Ekki kemur það mér á óvart að Ómar Ragnarsson sé búinn að festa Í sem listabókstaf en þessi nafngift finnst mér reyndar vera mjög í anda Ómars. Eins og ég skrifaði áðan hefur þessi hreyfing ekki enn sýnt á spil sín og gefið sig upp. Það verður fróðlegt að sjá hver tromp þessarar hreyfingar eigi að vera er á hólminn kemur.

Kosningamaskínunni verður kannski brátt flashað á léninu; www.islandshreyfingin.is, eða hvað? Sigurlín Margrét Sigurðardóttir á þetta lén líkt og það sem áður var merkt Íslandsflokknum. Það er skráð 14. mars sl. eða miðvikudaginn síðasta. Þetta telst sennilega betra nafn, en hitt var svona svolítið sláandi.

Það eru rúmir 50 dagar til kosninga. Áhrif nýs hægri græns framboðs eru óviss á þessari stundu. Það gæti allt eins orðið örlagaríkt afl í kosningabaráttunni, einnig gæti það floppað. Gengi þessa framboðs verður eitt af spurningamerkjum þessarar kosningabaráttu.

Því er erfitt að spá í stöðuna á þessari stundu. Greinilegt þó að stefnir í spennandi kosningar, spennandi fyrst og fremst fyrir stjórnmálaspekúlantana.

Hvað varð eiginlega um Íslandsflokkinn?

Margrét Sverrisdóttir Kjaftasögurnar segja að nýtt hægri grænt framboð muni heita Íslandsflokkurinn, hópurinn sé kominn með lén við hæfi og fengið listabókstafinn Í. Allir spyrja þó hvað hafi orðið um flokkinn, enda ekkert til hans heyrst í nokkurn tíma. Fyrir hálfum mánuði sagði Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður og væntanlegur kjördæmaleiðtogi innan flokksins, að flokkurinn væri væntanlegur innan 10 daga.

Ekki varð sú raunin. Bið einkennir stemmninguna núna fyrir flokknum. Of löng bið getur slagað alla pólitíska stemmningu, þetta segir sagan okkur. Bíði pólitískar vonarstjörnur of lengi verða þær að gömlum lummum. Það er segin saga að erfitt er að koma upp landsframboði. Þarf mikinn mannskap og öflugan kjarna í öllum kjördæmum til að bera slíkt uppi. Veit ekki hvort hópurinn hefur þann kjarna.

Fróðlegt verður að sjá þegar að þetta framboð verður loks kynnt formlega. Margir bíða spenntir, enda áhugavert að sjá hverjir skipa forystusveitina með þeim sem helst hafa verið merktir framboði. Fyrst þá verður hægt að gefa honum mælingu og meta sóknarkraft hans utan höfuðborgarsvæðisins, sem hlýtur að vera aðalbækistöð framboðs af þessu tagi.

Það verður áhugavert að sjá Íslandsflokkinn verða eitthvað. En biðin er að vera löng. Ólík er allavega saga Borgaraflokksins, sérframboðs Alberts Guðmundssonar, fyrir tveim áratugum, og þessa framboðs. Albert fór um allt landið og kom framboðinu upp á örfáum dögum. Framboðið varð örlagavaldur í þeim kosningum.

En biðin eftir Íslandsflokknum er orðin áberandi. En þar hljóta tjöldin brátt að falla og áhorfendur að sjá hvað leynist þar á bakvið.

Bloggfærslur 19. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband