20.3.2007 | 13:18
Ætlar Ingibjörg Sólrún að stöðva álversstækkun?
Það verður seint sagt að pólitísk staða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Samfylkingarinnar sé glæsileg. Hún reynir allt sem hún mögulega getur núna til að byggja sig aftur upp og að reyna að gera lítið úr innri ólgu innan flokksins. Nú er gamla góða plata þeirra vinstrimanna um að Morgunblaðið sé í baráttu gegn þeim sett á enn eina ferðina, en hún er nú orðin frekar rispuð í gegn. Virkar satt best að segja ekki sannfærandi lengur.
Það er gaman að fylgjast með örvæntingunni innan Samfylkingarinnar sem virðist vaxa dag frá degi. Össur er kominn í áberandi sólóspil og leikur sína eigin rullu innan flokksins, enda skiljanlegt með sína fylgismenn á flestum póstum í vörninni á framboðslistum um allt land á meðan að Ingibjörg Sólrún lítur orðið út eins og Ásgeir Sigurvinsson á hliðarlínunni kortéri áður en hann var rekinn sem landsliðsþjálfari. Það virðist vera að sliga Ingibjörgu Sólrúnu mjög að vera orðin prímadonnan sem getur ekki sungið er á hólminn kemur, rekur bara upp skaðræðisgól en ekki fagran óperettusöng eftir alla söngþjálfunina í gegnum árin.
Það er mjög sérstakt að fylgjast með Samfylkingunni. Ingibjörg Sólrún er farin að minna mig allverulega á ósynda konu sem hent er í djúpu laugina og reynir að svamla eitthvað án þess að geta í raun komist um laugina án hjálpar. Þar er gamla sundreglan að sannast dag frá degi; annaðhvort skal sökkva eða reyna eitthvað til að redda sér. Staða hennar hlýtur að vera þeim vonbrigði sem kusu hana til formennsku. Ekki hefur róðurinn verið eins sigursæll og stefnt var að. Væntingar þeirra sem studdu hana gegn Össuri var að hún gerði Samfylkinguna að mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Eftir standa brostnar vonir og væntingar.
Viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu á Stöð 2 í gær vakti mikla athygli mína. Þar var reynt að sýna gamla takta og láta eins og við værum enn á árinu 2003, kortéri eftir að hún hrökklaðist af borgarstjórastóli. En svo er ekki og við erum víst stödd á árinu 2007, með Samfylkinguna í frjálsu falli og fasta í mikilli fylgisdýfu, um eða rétt yfir 20%, fjarri öllum markmiðum um mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn og farinn að líta upp til Steingríms Jóhanns og vinstri grænna, sem forðum daga voru smælingjar í augum þeirra. Svo er ekki nú. Nú lítur Ingibjörg Sólrún og félagar hennar upp fylgislega séð til vinstri grænna og Steingrímur J. er orðinn alvöru forsætisráðherraefni og spilar eigið sóló taktfast.
Ingibjörg Sólrún ýjaði að því fannst mér að það skipti engu máli hvað Hafnfirðingar ákveddu eftir ellefu daga, hún hefði sína skoðun á því og hikaði ekki frá henni. Til hvers er íbúakosning í Hafnarfirði ef ekkert verður að marka hana? Yfirlýsingar formanns Samfylkingarinnar virkuðu mjög afdráttarlausar og afgerandi. Þar hafa menn skoðun og hika ekkert frá henni, hvað sem öllu íbúalýðræði gildir. Er kannski kosningin í Hafnarfirði marklaus? Það verður allavega fróðlegt að sjá í hvaða átt Samfylkingin snýst samþykki Hafnfirðinga stækkun. Munu Össur og Ingibjörg Sólrún þá styðja stækkun? Það reynir á það brátt.
Ingibjörg Sólrún á mikið verk fyrir höndum. Þetta verður erfið barátta, flokkurinn og hún eru á vondum slóðum 50 dögum fyrir kosningar. Allt virðist að snúa á versta veg. Alþýðubandalagið er gufað upp úr Samfylkingunni og flóttinn heldur sífellt áfram. Samfylkingin er að verða eins og sökkvandi skip undir skipstjórn Ingibjargar Sólrúnar sem allir hoppa af, meira að segja konurnar samkvæmt skoðanakönnunum. Merkileg örlög það. Stóru tíðindi þessa tímapunkts er einmitt flóttinn úr Samfylkingunni yfir til Steingríms J.
Getur gömul vonarstjarna staðið slíkan skell af sér, verði hann endanlega að veruleika í maí? Við fáum brátt svarið við því. En við vitum þó að við hverja mælingu minnkar átórített Ingibjargar Sólrúnar til muna. Við erum öll það snjöll að við vitum það. Og við vitum líka að flokkur og leiðtogi í endalausri lægð virka sem lúserar. Enda er örvæntingin að taka öll völd - meira að segja hjá konunni sem allir töldu vera bjargvætt Samfylkingarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
20.3.2007 | 00:47
Óhugnaður
Fróðlegt er að sjá ábendingar um klámauglýsingar á tölvuleikjasíðum, sem tengdar eru íslenskum leikjasíðum, sem og annarsstaðar á netinu. Þetta er mjög skelfilegt bara. Hvet fólk til að lesa ummæli Petrínu Ásgeirsdóttur, hjá Barnaheillum, sem er í fréttinni hér fyrir neðan.
Þetta er óhugnaður sem berjast verður gegn með öllum tiltækum ráðum að mínu mati.
![]() |
Um 30-40% ábendinga barnaklám |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)