23.3.2007 | 18:29
VG í mikilli uppsveiflu - áfall Samfylkingarinnar
Það er mjög fróðlegt að rýna í nýjustu könnun Gallups. Uppsveifla VG heldur þar og áfall Samfylkingarinnar verður sífellt meira áberandi. Fimm sitjandi þingmenn flokksins mælast fallnir í könnuninni og aðeins myndu þrjár konur ná á þing í nafni flokksins. Á meðan blómstrar VG enn og mælist með sautján þingmenn, tólf fleirum en í kosningunum 2003. Samfylkingin tapar sjö þingmönnum, sem er mikið af stjórnarandstöðuafli að vera.
Samfylkingin er í könnuninni að missa Einar Má Sigurðarson, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Mörð Árnason og Önnu Kristínu Gunnarsdóttur af þingi. Aðeins Róbert Marshall í Suðurkjördæmi er að mælast inni af fólki í baráttusætum flokksins. Það virðist þurfa pólitískt kraftaverk til að Samfylkingin sjái fram á að ná inn t.d. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Önnu Kristínu, Árna Páli Árnasyni, Guðmundi Steingrímssyni, Láru Stefánsdóttur og Guðnýju Karlsdóttur. Aðeins í Suðurkjördæmi virðist Samfylkingin geta brosað í dag. Í Norðausturkjördæmi er Samfylkingin orðin minnst fjórflokkanna hvorki meira né minna og er þar aðeins með Kristján Möller inni.
Þessi könnun Gallups staðfestir endanlega mikla fylgissveiflu til vinstri grænna. Hún er orðin mjög föst yfir 20% fylgi og því sífellt meir að festast í sessi. Það er mikil kvennasveifla sem fer í áttina til þeirra fyrst og fremst. Vinstrimenn virðast hafa gefist upp á Samfylkingunni, sem sífellt minnkar og er núkomin undir 20% markið og fer að nálgast fylgislægðina sem hún varð fyrir á fyrstu árum sínum. Segja má að Samfylkingin sé að verða örflokkur, festast í sessi sem þriðja stærsta aflið. Það dettur engum í hug að tala um flokkinn lengur sem mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta eru vissulega mikil tíðindi.
Það virðast vera stóru tíðindin að konur horfa í áttina til vinstri grænna í æ meira mæli. Konur segja skilið við Samfylkinguna með áberandi hætti, þrátt fyrir það að kona sé þar í forystu, kona sem metin var vonarstjarna vinstrimanna fyrir fimm til sex árum. Hennar staða er orðin mjög slæm og vandséð hvernig að hún geti verið trúverðugur leiðtogi hafandi leitt flokkinn til verstu útkomu sinnar og órafjarri öllum lykilmarkmiðum sínum í formannskjörinu 2005. Miðað við þessa stöðu alla er VG að festa sig í sessi sem forystuafl til vinstri. Því verður vart neitað. VG er að leiða vinstrið og á mikilli sigurbraut meðan að Samfylkingin veslast hreinlega upp.
Það er alveg ljóst á þessari stöðu að ríkisstjórnin er á fallanda fæti. Framsóknarflokkurinn sígur sífellt neðar og virðist ekki vera að ná sér upp. Staða þeirra hlýtur að vera þeim áfall. Í þingkosningunum 2003 fengu Framsóknarflokkur og Samfylking þingmeirihluta, 32 þingmenn. Nú mælast flokkarnir tveir með 18 þingsæti. Þeir hafa því tapað fjórtán þingsætum, sjö hvor, frá kosningum til þessarar könnunarmælingar. Þetta eru stórpólitísk tíðindi. Það er djúpstæð kreppa innan beggja flokka og vandséð hvernig að formenn flokkanna geta staðið af sér pólitískt áfall á borð við þetta sem stefnir í. Bæði þurfa nú pólitískt kraftaverk.
Staða Sjálfstæðisflokksins er þolanleg. Flokkurinn hefur verið að mælast sterkur á landsbyggðinni en veikri á höfuðborgarsvæðinu. Nú hefur þetta snúist við algjörlega. Til dæmis virðist Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi vera að tapa nokkru fylgi og VG er orðið forystuafl í Norðausturkjördæmi. Það eru stórtíðindi. Það sem breytist nú er að fólk í baráttusætum Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu eru inni en út falla Þorvaldur Ingvarsson og Björk Guðjónsdóttir, sem eru í baráttusætum í Norðaustri og Suðri.
Sterk staða vinstri grænna er til merkis um breytingar. Þetta er orðin svo ákveðin sveifla til vinstri grænna að hún verður ekki hunsuð. Þetta er afgerandi bylgja sem þeir eru á núna. Tal um stutta sveiflu á ekki lengur við. Það þarf ansi mikið að breytast til að þeir fái ekki um 20% í kosningunum, eiginlega þyrfti hrun til. Um leið er Samfylkingin að veslast upp. Staða hennar er athyglisverð. Fátt nema pólitískt kraftaverk getur bjargað þeim frá því að tapa stórt frá kosningunum 2003. Varaformaður frjálslyndra mælist svo fallinn og með honum allir þingmenn flokksins nema formaðurinn. Staðan er á fallanda fæti þar.
Spurningin er hvernig stjórn gæti verið mynduð úr svona stöðu. Held að þar séu þrír kostir helstir; stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, VG og Sjálfstæðisflokks eða VG, Framsóknar og Samfylkingar. Það er enginn vafi að fái VG um eða yfir 25% muni þeir selja sig dýrt, allavega krefjast forsætis í vinstristjórn eigi að mynda hana. Þessi könnun er að því leyti svakalegt högg fyrir SF og Ingibjörgu Sólrúnu að Steingrímur J. er orðinn risi á vinstrivængnum - hann er orðinn alvöru forsætisráðherraefni til vinstri. ISG er ekki drottnandi persóna til vinstri. Þeir dagar eru liðnir. Það eru stór tíðindi.
En ein könnun segir aldrei alla söguna. En samt. Þetta eru mjög sterk tíðindi og bylgjan til VG verður ekki hunsuð. Til þess er hún orðin of langvinn og afgerandi. En þetta verða spennandi kosningar. Spái mest spennandi og vægðarlausustu kosningabaráttu með gylliboðum og auglýsingakeyrslu í sögu lýðveldisins. Einfalt mál. En það er aldrei gaman af spennulausri kosningabaráttu, ekki satt?
![]() |
Þorgerður: Þátttaka okkar forsenda umburðarlyndrar miðjustjórnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.3.2007 | 16:06
50 dagar til kosninga - hverjir kæmust á þing?
50 dagar eru til alþingiskosninga - spennan vex og kosningbaráttan að hefjast af krafti. Könnun Gallups í dag hefur vakið mikla athygli og sýnir talsverðar sviptingar. Ég hef nú sett upp lista um það hvaða þingmenn nái kjöri gangi könnunin eftir, sem sýnir stöðu mála á þessum tímapunkti. Það er athyglisverð mæling - 28 nýjir alþingismenn myndu ná inn í slíkri stöðu.
Á flestum stöðum eru framboðslistar til og staða mála örugg. Þessi listi er mjög athyglisverður. Í þessu má sjá sviptingar. Fimm sitjandi þingmenn Samfylkingarinnar eru fallnir í þessari stöðu og þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins, en á það ber að minnast að allir sjálfstæðismennirnir féllu neðar en í fimmta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í nóvember og einn þeirra var kjörinn af lista Frjálslynda flokksins, eins og minnst er á í útskýringum fyrir hvern flokk.
Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, mælist inni í fyrsta skipti í langan tíma. Sem fyrr mælist Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, utan þings og blæs ekki byrlega fyrir honum, né heldur Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, sem mælist nú úti eftir að hafa verið inni í Gallup-könnunum um skeið. Magnús Þór Hafsteinsson, Kristinn H. Gunnarsson, Valdimar Leó Friðriksson og Sigurjón Þórðarson, sem fara fram fyrir frjálslynda, mælast allir fallnir í könnuninni, rétt eins og hinn umdeildi Jón Magnússon er ekki inni í Reykjavík suður.
En hér er semsagt nafnalistinn:
Sjálfstæðisflokkur (25)
Geir H. Haarde - Reykjavík suður
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Birgir Ármannsson
Guðlaugur Þór Þórðarson - Reykjavík norður
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Pétur H. Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson
Sigríður Á. Andersen
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir - Suðvesturkjördæmi
Bjarni Benediktsson
Ármann Kr. Ólafsson
Jón Gunnarsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Sturla Böðvarsson - Norðvesturkjördæmi
Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Oddur Kristjánsson
Kristján Þór Júlíusson - Norðausturkjördæmi
Arnbjörg Sveinsdóttir
Ólöf Nordal
Árni M. Mathiesen - Suðurkjördæmi
Árni Johnsen
Kjartan Ólafsson
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 22 þingsæti í kosningunum 2003 (bættist liðsauki við inngöngu Gunnars Örlygssonar í maí 2005, sem kom úr Frjálslynda flokknum) - bætir við sig þrem þingmönnum í könnuninni.
Þingmenn sem falla: Drífa Hjartardóttir, Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örn Örlygsson.
Þingmenn sem hætta: Halldór Blöndal, Sólveig Pétursdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Guðmundur Hallvarðsson og Sigurrós Þorgrímsdóttir.
VG (17)
Kolbrún Halldórsdóttir - Reykjavík suður
Álfheiður Ingadóttir
Auður Lilja Erlingsdóttir
Guðmundur Magnússon
Katrín Jakobsdóttir - Reykjavík norður
Árni Þór Sigurðsson
Paul Nikolov
Ögmundur Jónasson - Suðvesturkjördæmi
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Jón Bjarnason - Norðvesturkjördæmi
Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir
Steingrímur J. Sigfússon - Norðausturkjördæmi
Þuríður Backman
Björn Valur Gíslason
Dýrleif Skjóldal Ingimarsdóttir
Atli Gíslason - Suðurkjördæmi
Alma Lísa Jóhannsdóttir
VG fékk 5 þingsæti í kosningunum 2003 - bætir við sig tólf þingsætum í þessari könnun.
Þingmenn sem falla: Enginn.
Þingmenn sem hætta: Enginn
Samfylkingin (13)
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir - Reykjavík suður
Ágúst Ólafur Ágústsson
Össur Skarphéðinsson - Reykjavík norður
Jóhanna Sigurðardóttir
Helgi Hjörvar
Gunnar Svavarsson - Suðvesturkjördæmi
Katrín Júlíusdóttir
Guðbjartur Hannesson - Norðvesturkjördæmi
Karl V. Matthíasson
Kristján L. Möller - Norðausturkjördæmi
Björgvin G. Sigurðsson - Suðurkjördæmi
Lúðvík Bergvinsson
Róbert Marshall
Samfylkingin fékk 20 þingsæti í kosningunum 2003 (missti eitt með brotthvarfi Valdimars Leós Friðrikssonar til Frjálslynda flokksins) - missir sjö þingsæti í þessari könnun.
Þingmenn sem falla: Einar Már Sigurðarson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Mörður Árnason og Anna Kristín Gunnarsdóttir.
Þingmenn sem hætta: Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Jóhann Ársælsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Jón Gunnarsson.
Framsóknarflokkur (5)
Siv Friðleifsdóttir - Suðvesturkjördæmi
Magnús Stefánsson - Norðvesturkjördæmi
Valgerður Sverrisdóttir - Norðausturkjördæmi
Birkir Jón Jónsson
Guðni Ágústsson - Suðurkjördæmi
Framsóknarflokkurinn fékk 12 þingsæti í kosningunum 2003 (missti eitt með brotthvarfi Kristins H. Gunnarssonar til Frjálslynda flokksins) - missir sjö þingsæti í þessari könnun.
Þingmenn sem falla: Jónína Bjartmarz, Sæunn Stefánsdóttir og Guðjón Ólafur Jónsson.
Þingmenn sem hætta: Jón Kristjánsson, Hjálmar Árnason og Dagný Jónsdóttir.
Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, er nú utan þings og mælist heldur ekki inni í könnuninni.
Frjálslyndi flokkurinn (3)
Kolbrún Stefánsdóttir - Suðvesturkjördæmi
Guðjón Arnar Kristjánsson - Norðvesturkjördæmi
Grétar Mar Jónsson - Suðurkjördæmi
Frjálslyndi flokkurinn fékk 4 þingsæti í kosningunum 2003 (einn þeirra gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn árið 2005 og flokkurinn fékk tvo nýja þingmenn árið 2007) - flokkurinn fær þrjá menn í þessari könnun.
Þingmenn sem falla: Magnús Þór Hafsteinsson, Kristinn H. Gunnarsson, Sigurjón Þórðarson og Valdimar Leó Friðriksson.
Þingmenn sem hætta: Enginn.
Þetta eru mjög athyglisverðir nafnalistar og öllum ljóst að gríðarleg uppstokkun verður á Alþingi í vor verði þetta niðurstaðan. Fyrir það fyrsta er ríkisstjórnin fallin í þessari könnun og ljóst að komið getur til mjög spennandi og jafnvel langvinnra stjórnarmyndunarviðræðna ef þessi verður staðan. Þó ber á það að líta að tveir flokkar hafa nú þegar nær útilokað stjórnarsamstarf við Frjálslynda flokkinn eins og staðan er nú.
En 50 dagar geta verið langur tími í pólitík - það eru tæpir tveir mánuðir og sjö vikur til stefnu nákvæmlega. Vikan getur oft verið sem eilífð í pólitík og öllum ljóst að mikil spenna verður yfir baráttunni. Svo er ekki enn útséð um að fleiri framboð komi fram. Það má því búast við leiftandi pólitískri spennu næstu tvo mánuðina.
Þegar að talað er um fallna þingmenn miða ég við frambjóðendur í tíu efstu sætunum. Þessi listi er settur saman eftir útreikningum Gallups á þingmönnum flokkanna og skiptingu þeirra á kjördæmin. Eina sem ég hef því gert er að setja nöfn við niðurstöðu könnunar Gallups og útreikninga, svo það sé skýrt tekið fram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)