24.3.2007 | 18:32
Hugsjónarifrildi í miðri leiksýningu
Allir sem hafa lesið Draumalandið eftir Andra Snæ hafa á henni skoðun. Hún kallar á mann að taka afstöðu, allavega hugsa málin vel og pæla vel í kostum og göllum stóriðjuhugmynda. Hún er lifandi bók, tryggir manni hugsanir og stúdíu. Ég las hana sjálfur með áhuga. Ég var ekki sammála öllu sem í henni stóð, en hún hentaði mér vel. Þetta var bók sem kom hausnum á mikið flug. Stundum var ég svo innilega ósammála en aðra stundina innilega sammála. Þetta kallaði fram allan skalann í huga mér.
Ég er þannig gerður að ég vil kanna hlutina frá öllum hliðum, stúdera ólíkar skoðanir. Ekki bara heyra mínar skoðanir, heldur líka annarra. Ég vil líka rökræður við fólk með aðrar skoðanir. Enda á ég vini í öllum flokkum, ég á ættingja sem starfað hafa framarlega í öðrum flokkum og vini sem hafa verið framarlega í flokki annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins. Enda er það síðasta sem ég vil að inniloka mig með einhverjum jábræðrum, fólki sem er mér sammála.
Ég vil lifandi spjall, þess vegna vil ég kynnast líka fólki með aðrar skoðanir. Þannig að þessi bók var í senn lifandi og fersk, tryggði manni góðar pælingar. Þó að ég hafi ekki verið sammála öllu sem í henni stóð var ég glaður eftir lesturinn, enda fékk hún mig til að hugsa kosti og galla stóriðjumála upp á nýtt. Ég var ekki eins eftir lesturinn og fyrir, en það var einmitt þess vegna sem ég las bókina. Ég vildi kynna mér þessa hlið. Sé alls ekki eftir því.
Hugsjónahitinn er misjafn í fólki. Fyndið að sjá þessa frétt um manninn sem var svo hróplega ósammála Draumalandinu að hann kallaði fram í sýninguna í Hafnarfirði. Þetta er verk sem kallar á skoðanir og pælingar, en þetta er kannski varla staður og stund til að svara á móti. Kómískt. Þetta var allavega fyndnasta frétt dagsins, held það hreinlega.
![]() |
Leikhúsgestur rökræddi við leikara í miðri sýningu á Draumalandinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2007 | 15:34
VG toppar í Norðaustri - áfall fyrir Kristjánana
Í nýrri skoðanakönnun Gallups mælist VG stærst flokka í Norðausturkjördæmi og með fjóra kjördæmakjörna þingmenn á meðan að Samfylkingin veslast upp og er með einn þingmann. Steingrímur J. Sigfússon mælist því fyrsti þingmaður kjördæmisins. Mæling af þessu tagi er mjög vond fyrir alla aðra flokka í kjördæminu, en þó sérstaklega fyrir Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn. Kristján er nafnið á báðum kjördæmaleiðtogum þeirra hér. Hvorugur þeirra hoppar varla hæð sína af gleði yfir þessari könnun. Enda verða svona skakkaföll afdrifarík ef af þeim verður.
Svo virðist vera sem að VG sé að taka mikið fylgi af Samfylkingunni, enda er síðarnefndi flokkurinn varla svipur hjá sjón. Einar Már Sigurðarson, alþingismaður Samfylkingarinnar frá 1999, mælist ekki inni í könnuninni og Lára Stefánsdóttir er fjarri því að sjálfsögðu að eiga möguleika á þingsæti skv. því. Í síðustu kosningum fengu bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking tvö þingsæti, en Lára var hársbreidd frá því að ná inn. Hún var inni á þingi meginhluta kosninganæturinnar en féll út við lokatölur er Framsókn náði inn fjórða manni sínum; Birki Jóni Jónssyni. Aðeins munaði þá 41 atkvæði á Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki, þeim síðarnefnda í hag; 5.544 á móti 5.503.
Kristján Þór Júlíusson leiðir nú Sjálfstæðisflokkinn í fyrsta skipti í þingkosningum eftir tveggja áratuga stjórnmálaferil í sveitarstjórnarpólitík. Hann hætti sem bæjarstjóri á Akureyri í janúar eftir níu ára starf til að helga sig nýjum verkefnum, nú í landsmálum. Það verður án vafa mikið pólitískt áfall fyrir Kristján Þór nái Sjálfstæðisflokkurinn ekki fyrsta þingmanni kjördæmisins, forystu á kjördæmavísu, í þessum þingkosningum. Það er klárlega markmið hans og Sjálfstæðisflokksins að hljóta flest atkvæði hér og tryggja bæði Ólöfu Nordal og Þorvald Ingvarsson inn á þing. Ef marka má kannanir undanfarna mánuði hefur Ólöf verið nokkuð örugg í sessi, en staða flokksins hefur þó veikst verulega á milli kannana að undanförnu.
Nýjasta könnun Gallups er ekki góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann þarf að minnsta kosti 30% fylgi til að eygja möguleika á fjórða manninum og fær hann alls ekki við þessar aðstæður sem uppi eru í þessari mælingu. Hann þarf að vinna vel eigi hann að geta náð því. Kannanir hafa þó sýnt að það getur gerst. Það verður hörð barátta þar og má búast við að sjálfstæðismenn verði áberandi í kosningabaráttunni. Þessi mæling sýnir mikið fylgistap fyrir Samfylkinguna sem horfa á fylgið streyma yfir til VG. Það er varla mikil gleði þar.
Ég hef heyrt marga tala um þessa könnun. Sitt sýnist hverjum. Hún boðar stórtíðindi, enda verða það stórpólitísk tíðindi verði Steingrímur J. Sigfússon fyrsti þingmaður kjördæmisins. Allir flokkar nema VG verða fyrir skakkaföllum í þessari mælingu. Til dæmis eru frjálslyndir órafjarri því að ná inn manni og Framsókn tapar tveim þingsætum, en þeir fengu fjögur þingsæti hér síðast og yfir 30% fylgi. En baráttan er bara rétt að hefjast og allur helsti hasarinn eftir. Þeir nafnar Kristján Þór og Möller ætla sér eflaust að trompa Steingrím J. þegar á hólminn kemur.
Þetta verður spennandi kosningabarátta hér í Norðausturkjördæmi. Þessi könnun sýnir okkur þó hversu veik Samfylkingin er orðin fyrst og fremst. Það er lítil gleði þar og virðast þeir verða yfir stóran hjalla að klífa til að geta snúið við vondri stöðu og gert betur en vorið 2003 allavega. Hvað varðar sjálfstæðismenn er greinilegt að tæp 30% eru ekki nóg fyrir Kristján Þór og hans hóp. Þessi könnun sýnir það vel. En það verður auðvitað spurt að leikslokum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
24.3.2007 | 01:49
Sveiflubreytingar hjá Sjálfstæðisflokki milli mánaða
Síðustu mánuði hefur Sjálfstæðisflokkurinn mælst veikari á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni í könnunum Gallups; með baráttufólkið í þéttbýlinu utan þings. Þetta snýst við í nýjustu könnuninni. Þar eru Birgir Ármannsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Sigríður Ásthildur Andersen að mælast inni. Góð tíðindi vissulega það - aftur á móti er áberandi að sjálfstæðismenn missa nokkuð flugið á landsbyggðinni og missa bæði Þorvald Ingvarsson og Björk Guðjónsdóttur út - baráttufólkið í Norðaustur- og Suðurkjördæmi.
Staðan hefur því breyst örlítið. Þessi staða er vissulega mjög góð fyrir Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins. Skv. þessari mælingu eru tíu sjálfstæðismenn inni í Reykjavík og sex í Suðvesturkjördæmi. Þar mælast því 16 af 25 þingmönnum flokksins í könnuninni. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut á þessu svæði 14 þingsæti í kosningunum 2003, síðustu þingkosningum Davíðs Oddssonar; 9 í Reykjavík og 5 í Kraganum. Þessi staða er góð fyrir flokkinn á þessu svæði í ljósi þess að flokkurinn hefur setið í ríkisstjórn í 16 ár. Styrk staða það. Í raun er þetta ótrúlega góð staða stjórnmálaflokks eftir svo langa pólitíska forystu.
Á landsbyggðinni mælist Sjálfstæðisflokkurinn með þrjá menn í öllum þrem landsbyggðarkjördæmunum. Þar er flokkurinn með 9 þingsæti af 25 í könnuninni. Í síðustu könnun voru sætin þar 11, en voru 8 í kosningunum 2003. Mest munar um nokkuð fylgistap í Norðausturkjördæmi. Síðast voru þar fjórir menn inni, þeir eru þrír núna og það sem meira er að VG er komið með afgerandi forskot á Sjálfstæðisflokkinn í kjördæminu. Þessi könnun sýnir því Steingrím J. Sigfússon sem fyrsta þingmann kjördæmisins. Það verður pólitískt áfall fyrir Kristján Þór Júlíusson, fyrrum bæjarstjóra á Akureyri, vinni hann ekki slaginn þar eftir langa tíð í sveitarstjórnarmálum. Takmark hans hlýtur að vera leiðtogahlutverk fyrir kjördæmið.
Svo virðist vera að flokkurinn sé að missa líka fylgi í Suðurkjördæmi. Það verður áfall fyrir Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sem nýjan kjördæmaleiðtoga í Suðrinu, að ná ekki inn Björk Guðjónsdóttur. Í síðustu kosningum klofnaði flokkurinn á svæðinu og tapaði fjórða manni vegna þess. Það sæti ætti að vinnast nú, allt annað væri áfall fyrir flokkinn á svæðinu. Af því leiðir að flokkurinn veikist í báðum þessum kjördæmum. Í Norðvesturkjördæmi virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera með þrjá menn nokkuð örugga. Flokkurinn er þar kominn af stað með vef og hefur opnað kosningaskrifstofur. Þeir fara fyrr af stað en aðrir; fara af stað fyrir páska. Gott það.
Þessar kosningar verða spennandi. Það er öllum ljóst. Sjálfstæðisflokkurinn gæti vel við mælingu af þessu tagi unað í heildina, einkum hvað varðar höfuðborgarsvæðið. Úti á landi virðist staðan ekki vera eins traust og var fyrir nokkrum vikum. Sjálfstæðisflokkurinn mun að öllum líkindum hækka mjög milli kosninga í Norðausturkjördæmi. Ólöf Nordal hefur mælst inni í öllum könnunum eftir að hún varð hinn stóri sigurvegari prófkjörsins í nóvember og stimplaði sig inn á kortið - komst upp fyrir bæði Þorvald Ingvarsson og Sigríði Ingvarsdóttur. En þessi mæling er þó ekki nóg fyrir flokkinn þar.
Geir H. Haarde heldur sterkur til kosningabaráttunnar sé þessi könnun rétt fyrir flokkinn í heild sinni. En það eru plúsar og mínusar á þessum hluta vegferðarinnar til kosninganna eftir sjö vikur. Hans góða staða í huga kjósenda er um leið stærsti styrkleiki Sjálfstæðisflokksins. Allar stjórnmálamannamælingar hafa sýnt hann sterkasta stjórnmálamann landsins - þann sem fólk vill sjá leiða ríkisstjórn. Enda sækist hann eftir því hlutverki. Og landsmenn vilja trausta forystu í tveggja flokka stjórn.
Allar kannanir sýna okkur vel að Sjálfstæðisflokkurinn stendur í raun vel. Framsókn og Samfylking eru hreinlega að crash-a miðað við síðustu kosningar. VG dansar á skýjum, horfir niður á flokkinn sem vildi vera mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er vissulega merkileg staða sem við okkur blasir, þetta verða athyglisverðar kosningar haldist mæling af þessu tagi til enda. En sjö vikur geta verið eilífð í bransa á borð við stjórnmál.
![]() |
Geir H. Haarde telur samstarf Samfylkingar og VG versta kostinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)