Skiptar skoðanir um lögbrot Spaugstofunnar

Sr. Matthías Jochumsson Mikið hefur verið rætt og ritað um atriði Spaugstofunnar á laugardagskvöldið þar sem lög um þjóðsöng lýðveldisins voru brotin og settur gríntexti við hann. Hef ég fengið mörg komment um þetta mál og ennfremur slatta af tölvupóstum. Þar koma fram skoðanir bæði með og á móti, sumir eru ansi harðorðir. Það er eins og það er bara. Heilt yfir finnst mér eins og fram hefur komið að þetta mál snúist ekki um gríntextann heldur lögbrotið sem slíkt.

Einhverjir spyrja sig eflaust; mun Spaugstofan og Páll Magnússon, útvarpsstjóri, verða ákærð fyrir þetta? Veit það ekki, en þarna reynir hiklaust á lög um þjóðsönginn. Það er mjög einfalt mál í sjálfu sér. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Verði ekki tekið á þessu máli er alveg kristalskýrt að lögin um þjóðsönginn og refsiákvæðin með öllu gagnslaus. Það er mín skoðun að það verði að taka á þessu máli með þeim eina hætti sem fær er. Lögin segja það. Mín skoðun skiptir í sjálfu sér engu máli. Lögin eru sett til að fara eftir þeim.

Margir hafa spurt mig um hver skoðun mín sé á þjóðsöngnum. Við því er einfalt svar. Það hefur verið mat mitt og skoðun til fjölda ára að við Íslendingar eigum fallegasta þjóðsöng í heimi. Lofsöngur er við ljóð sr. Matthíasar Jochumssonar, sem var prestur hér á Akureyri í einn og hálfan áratug, undir lok prestsferils síns. Eftir honum er nefnd kirkja okkar Akureyringa, minningarkirkja sálmaskáldsins og prestsins. Skammt frá stendur Sigurhæðir, þar bjó hann frá því húsið var byggt árið 1903 allt til dánardags árið 1920. Þannig er mál með vexti að ég er mikill unnandi kveðskapar Matthíasar, er því svosem ekkert alveg sama um þetta.

Ég hef til dæmis alla tíð verið algjörlega á móti því að skipta um þjóðsöng. Tel það í raun jafnast á við guðlast að tala um að henda honum og skipta um. Vissulega eigum við mörg falleg ættjarðarlög sem gaman er að syngja á tyllidögum og tignum stundum í sögu þjóðarinnar. En ekkert þeirra jafnast á við þjóðsönginn. Brást ég harkalega við í nóvember 2004 þegar að Sigríður Ingvarsdóttir og Hilmar Gunnlaugsson, varaþingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, báru fram þingsályktunartillögu þar sem þau vildu skipta um þjóðsöng. Var þetta frekar dapurt mál fyrir þau bæði á skammri innkomu á þingi á þeim tíma.

En þetta mál snýst ekki um það hvort þjóðsöngurinn sé fallegur, einfaldur eða erfiður til söngs eða of mikill trúarlegur söngur. Þetta snýst um lög um þjóðsönginn og brot á honum. Það er ekki flókið mál. Þetta er prófmál á það hvernig koma skal fram við og hver staða hans sé. Það er mjög einfalt í sjálfu sér. Sumir líta eflaust á þetta sem spurning um heiður séra Matthíasar. Veit það ekki alveg. Það gæti vel verið að meistari Matthías væri harður virkjunarandstæðingur væri hann lifandi. En þetta snýst um hvernig koma skal fram við þetta lag. Það voru sett lög um lagið, lög sem eiga að vernda það.

Brot á því eru sem betur fer sárafá. Fyrir 25 árum var þjóðsöngurinn rokkaður upp í frægri kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar. Það var umdeilt - tekist var á um það. Sama á við um þetta mál, sem er umdeilt og tekist á um það hvort að lögin eru marklaus eður ei. Það verður fróðlegt að sjá hvort lögin séu aðeins til skrauts eður ei.

mbl.is Spaugstofumenn brutu lög um þjóðsönginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spaugstofan brýtur lög - deilur um þjóðsönginn

Spaugstofan Það er ljóst að Spaugstofan braut lög um þjóðsöng lýðveldisins Íslands með grínatriði sínu í afmælisþætti sínum á laugardagskvöldið. Skiptar skoðanir hafa verið á þessu atriði. Skrifaði ég um þetta hér í gær og fékk fjölda kommenta og voru það lífleg skrif, bæði þeirra sem voru innilega sammála mér og þeirra sem fannst grínið allt í lagi.

3. gr. laga nr. 7/1983 um þjóðsöng Íslendinga hlýtur að teljast mjög skýr, en þar segir: "Þjóðsönginn skal ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð". Þá segir ennfremur í 6. gr. sömu laga: ,,Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum eða [fangelsi allt að 2 árum]. Með mál út af slíkum brotum skal farið að hætti opinberra mála". Það er erfitt að líta öðruvísi á en að þetta atriði hafi brotið þessa þriðju grein.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist í þessu máli. Þar skiptir í raun litlu máli hvað mér eða Jóni og Gunnu úti í bæ finnist um þetta atriði, heldur það að um er að ræða brot á þessum löum sem skuli fara yfir með þeim hætti sem bær er. Fjallað var um þetta mál í hádegisfréttum Rásar 1 og þar kom fram að rísi ágreiningur um notkun þjóðsöngsins skeri forsætisráðherra úr um hann. Svo var auðvitað bent á það sem flestir ættu að vita að ekki er heimilt að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni.

Þetta hlýtur að teljast prinsipp-mál í meðferð þjóðsöngsins. Ef engin meining er að baki refsiákvæðunum í þessari fyrrnefndu sjöttu grein í lögum um þjóðsönginn ætti að afnema þau. Það er alveg ljóst að eitt tilvik þar sem þjóðsöngurinn er notaður með öðrum hætti en tekið er fram í lögum um hann markar það hvernig tekið er á þeim. Að því leyti telst þetta visst prinsipp-mál auðvitað og fróðlegt að sjá hvað gerist í þeim efnum.

Kommentin hér í gær voru úr öllum áttum. Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að sjá góð komment félaga míns og bloggvinar, Eyþórs Inga Jónssonar, organista hér við Akureyrarkirkju. Hann fór þar yfir sitt mat á þessu. Erum við mjög sammála í þeim efnum. Það má vel vera að mörgum hafi þótt húmorinn góður. Það er í mínum huga aukaatriði. Þetta snýst um virðingu við þjóðsönginn og það að um hann gilda lög.

Það má vel vera að einhverjum hafi þótt fyndið að snúa lofsöng séra Matthíasar upp á Alcan og áliðnaðinn, en lög eru lög þrátt fyrir það. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu máli. En ég þakka enn og aftur kommentin hér í gær og þær skoðanir sem þar komu fram.

Kaffibandalagið feigt - frjálslyndir einangraðir

Jón Magnússon og Magnús Þór Það blasir við að Frjálslyndi flokkurinn er orðinn einangraður í íslenskum stjórnmálum, holdsveikur ef segja á hlutina hreint út. Sjálfstæðisflokkurinn hefur útilokað samstarf við hann að óbreyttu og nú er Samfylkingin að gefa hann upp á bátinn, ef marka má ummæli Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar.

Það kemur varla að óvörum. Segja má reyndar að nafngiftin sé orðin rangnefni. Allir sem horfðu á Silfur Egils í gær sáu gjána í áherslum Jóns Magnússonar og Ágústs Ólafs, vel sást að þar er engin heil brú til staðar á milli. Ummæli Jóns Magnússonar þar sem hann tók undir skilgreiningu Egils Helgasonar um að flokkurinn væri að verða eins og kristilegur repúblikanaflokkur vakti mikla athygli. Þar sást reyndar mjög vel á hvaða mið flokkurinn ætlar að halda. En í ljósi þess er flokkurinn ekki neinum samstarfshæfur.

Ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins er hvorki stjórn eða stjórnarandstaðan með þingmeirihluta. Frjálslyndi flokkurinn hefur engan þingmann í þeirri mælingu. Íslandshreyfingin hefur þar þrjú sæti og mælist sem örlagaríkt afl, þó eflaust séu þau vonsvikin innst inni með að fá ekki meira. En það gæti þó verið að þrjú til fimm þingsæti til Íslandshreyfingarinnar verði til þess að hvorug blokkin hafi meirihluta og hún því komin þarna á milli.

Staða Frjálslynda flokksins er athyglisverð. Hann hefur einangrast mjög og kaffibandalagið virðist úr sögunni vegna ólgu milli flokkanna og meiningarmunar varðandi innflytjendamálin. Ummæli varaformanns Samfylkingarinnar vekja athygli og segja meira en mörg orð að þetta bandalag stjórnarandstöðunnar heldur ekki lengur og er úr sögunni. Samt þorir Ágúst Ólafur ekki að segja þetta hreint út, kannski kemur að því er líður á baráttuna.

Það verður vel fylgst með frjálslyndum í kosningabaráttunni. Meginþungi hita þeirra í innflytjendamálum verður í Reykjavík. Þar fara fremstir í flokki þeir Magnús Þór Hafsteinsson og Jón Magnússon. Hvorugur þeirra er inni í nýjustu könnun Gallups. Mun Íslandshreyfingin slaufa þá báða út þar? Fróðlegt verður það að sjá. Annars geta menn rétt ímyndað sér á hvaða pólitík þeir keyra næstu 50 dagana. Það sást vel í Silfrinu í gær.

mbl.is Telur skoðanir oddvita frjálslyndra ekki góðan grundvöll til samstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkarnir semja um auglýsingakostnað

FlokkarÞað er ánægjulegt að loksins hafi náðst samkomulag milli framkvæmdastjóra stjórnmálaflokkanna um ramma í auglýsingamálum vegna alþingiskosninganna eftir sjö vikur. Reynt hefur verið nokkrum sinnum að landa slíku samkomulagi, en án árangurs. Þetta ætti að tryggja hófsamari kosningabaráttu og rólegri keyrslu en verið hefur, þó auðvitað fái flokkarnir rúman ramma til að kynna sig. 

Flokkarnir ná þó ekki þeim stalli að banna t.d. sjónvarpsauglýsingar, en þar verður settur 28 milljóna króna rammi hinsvegar. Það kemur ekki að óvörum að sjá að fulltrúi Framsóknarflokksins vildi setja hæstu mörkin, eða 35 milljóna króna þak. Miðað við auglýsingakeyrslu Samfylkingar og sérstaklega Framsóknarflokks þá mátti búast við að erfitt yrði að fara með pakkann á kosningarnar neðar en þetta.

Þessar kosningar verða spennandi. Allar kannanir eru að sýna okkur nokkuð breytt pólitískt landslag og allir flokkar vilja berjast á sínum forsendum. Það eru viss tímamót að tekist hafi að marka kosningabaráttunni þrátt fyrir þá hörku skynsamlegan ramma. Það tekst vonandi að hafa baráttuna bæði heiðarlega og skynsamlega dýra. Þetta verður auðvitað dýr pakki, en þetta samkomulag er af hinu góða.

Nú verður svo gaman að sjá hver eyðir mestu, menn halda eflaust gott bókhald á það að kosningum loknum.


mbl.is Auglýsingakostnaður stjórnmálaflokkanna takmarkaður við 28 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband