Fleiri andvígir stækkun en hlynntir á kjördegi

Öll atkvæði talin á kjördegi Ljóst er nú að fleiri greiddu atkvæði gegn stækkun álvers Alcan í Straumsvík en með henni á kjörfundi í dag. Nú á aðeins eftir að telja utankjörfundaratkvæði og er úrslita að vænta fyrir miðnættið. Rétt rúmlega 200 atkvæði skilja á milli fylkinganna og virðist flest stefna í að stækkunartillagan hafi verið felld.

Það er þó beðið eftir lokatölum til að fullyrða eitthvað í þessum efnum. Utankjörfundaratkvæðin eru yfir 1000, svo að mjög mikið af atkvæðum er enn í pottinum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer er á hólminn kemur, en yfirvofandi kosningabarátta til Alþingis hafði mikil áhrif á ferli málsins.

Væntanlega munu úrslitin nú hafa enn meiri áhrif á hvernig umræðan verður síðustu 40 dagana eða þar til næstu kosningar, þingkosningarnar sjálfar, fara fram. Fari kosningin á þennan veg verður fróðlegt að sjá viðbrögð forsvarsmanna Alcan.

Rannveig Rist, forstjóri Alcan, vildi lítið segja í vefútsendingu Ríkissjónvarpsins rétt í þessu og spyr enn að leikslokum og sama sögðu forsvarsmenn fylkinganna. Það mátti þó skilja svo á henni að úrslit af þessu tagi boðaði endalok álversins í Straumsvík.

Það er alveg ljóst að þetta mál er út af borðinu fari úrslit á þennan veg. Kannski verður umræðan um eftirmálann ekki síður spennandi en kosningaferlið sem lauk með dómi Hafnfirðinga.

mbl.is Fleiri andvígir álveri en fylgjandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæpt mun það verða í Hafnarfirði

Fyrstu tölur Aðeins munar 50 atkvæðum á milli fylkinga stuðningsmanna og andstæðinga stækkunar Alcan í Straumsvík, andstæðingunum í vil í fyrstu tölum. Það stefnir í spennandi kvöld í Hafnarfirði og tæpan sigur þeirrar fylkingar sem mun sigra er á hólminn kemur.

Það var vitað að þetta yrði tæpt í Hafnarfirði, en varla svona rosalega tæpt að munaði um hvert atkvæði. Það verður væntanlega raunin. Þetta mun ráðast af fjölda utankjörfundaratkvæða en yfir 1000 atkvæði voru greidd fyrir daginn í dag. Sá stabbi verður örlagaríkur í þessu máli.

Það er mikilvægt, þó naumt verði á fylkingunum, að vilji Hafnfirðinga standi á hvorn veginn sem fer að mínu mati.

mbl.is Fylkingar nánast jafnar samkvæmt fyrstu tölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlagadagur spennunnar í Hafnarfirði

Alcan Það er mikill örlagadagur í Hafnarfirði í dag - þetta er líka dagur spennunnar. Eftir tæpan klukkutíma verða birtar fyrstu tölur í kosningu bæjarbúa um deiliskipulagstillögu um stækkun álversins í Straumsvík. Jafnvel mestu spámenn Hafnfirðinga og víðar um land þora varla að spá, stuðningsmenn og andstæðingar láta þó spár sínar gossa hikstalaust. Brátt fáum við dóm Hafnfirðinga - hvað þeir vilji. Allir landsmenn bíða eftir tölum.

Það verður vissulega fróðlegt að sjá hvor fylkingin verði ofan á. Að mínu mati verða menn að standa vörð um þá niðurstöðu sem fæst, þó naumt kunni að vera á milli fylkinga. Lýðræðið er þannig jú að meirihlutinn talar, hann fékk þetta umboð í hendurnar og þá eiga menn að virða þann dóm. Að mörgu leyti finnst mér þetta íbúalýðræði til fyrirmyndar. Vel má vera að þetta hafi skipt bænum í fylkingar. En þetta er það stórt mál að Jón og Gunna í bænum á að fá valdið. Þá fæst líka enn sterkari niðurstaða en hefði verið í ellefu manna bæjarstjórn pólitískra fylkinga.

Sjálfur hef ég ekki verið að belgja mig yfir þessu máli. Hef ég að mig minnir skrifað aðeins fimm færslur sem impra á þessu. Enda er þetta svosem ekki mitt mál. Hafnfirðingar hafa þennan dóm. Álverið er í sveitarfélaginu. Íbúar þar eiga að kjósa um hvort þeir vilji svona fabrikku eður ei. Þeirra er valið. Ég lenti reyndar í skoðanakönnun Fréttablaðsins um málið um daginn. Tók ég þá í fyrsta skipti afstöðu til málsins einn með sjálfum mér. Kom mjög snöggt upp spurningin og ég svaraði án hiks, þó í raun án þess að spá mikið í því. Þó að þetta mál hafi verið básúnað í öllum miðlum hafði ég í sannleika sagt ekkert fellt neinn dóm þannig séð en það spratt fram. Ágætt alveg.

Þetta verður spennandi kvöld. Gaman að fá fyrstu tölur von bráðar og fylgjast með fram á kvöldið. Það verður áhugavert að skrifa um þetta þegar að síðasta atkvæðið hefur farið í gegnum talningu og allt er komið á hreint. Vil reyndar umfram allt dást af Hafnfirðingum að vera með rafræna kjörskrá. Nútímalegt og gott - þetta er framtíðin ætla ég rétt að vona við kjördagsvinnuna í kjördeildum.

mbl.is Yfir 8.500 manns hafa kosið í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsað til Ástjarnar

Ástjörn Það er oft gaman að hugsa til liðinna daga. Ég fór t.d. að hugsa aðeins áðan þegar að ég sá gamla ferðamynd frá Ásbyrgi frá sumrinu 1988. Um leið áttaði ég mig á að tveir áratugir eru í sumar síðan að ég fór fyrst í sumarbúðirnar Ástjörn. Það er orðinn nokkur tími. Ég fór þangað tvö sumur í röð, var heilan mánuð hvort sumar. Það var lærdómsríkur og gefandi tími.

Það voru auðvitað viss viðbrigði að halda í burt að heiman, upplifa eitthvað nýtt og njóta góða veðursins á þessum slóðum. Þetta er góður tími í minningunni. Ég var ekki lengi að detta í þann gír að njóta þessa staðar, enda var svo margt við að vera og þetta var notalegur tími. Eins og gefur að skilja var fyrra sumarið lærdómur og það var gaman, tíminn leið hratt enda var svo gott veður og þetta var góð lífsreynsla í minningarbankann.

Síðara sumarið var vissulega öðruvísi. Maður vissi að hverju gengið var. Það var í minningunni skemmtilegra sumar, enda var þá svo virkilega skemmtilegur hópur saman þar. Ég kynntist fjölda góðs fólks þarna, suma hef ég haldið sambandi við og suma ekki hitt síðan. Það er eins og gengur. Það væri gaman að vita hvað varð af sumum. Skemmtilegt að hugsa aftur til þessa tíma allavega. Þetta var mjög lærdómsríkur tími, enda er ég viss um að allir sem fara á Ástjörn koma glaðari í hjartanu heim til sín. Þetta er nauðsynlegt fyrir krakka að upplifa.

Annars þekki ég auðvitað betur til annarra sumarbúða, en amma mín Hanna Stefánsdóttir var lengi aðaldriffjöðurin í rekstri sumarbúðanna við Hólavatn, en þar hefur frábært starf verið unnið. Þau sem unnið hafa þar á sviði trúarinnar hafa fært mörgum góðar minningar og eitt er víst að sumarbúðirnar eru mikils virði. Það er nauðsynlegt fyrir krakka að upplifa slíkt ævintýri. Mér fannst það allavega ævintýri að halda t.d. í Ástjörn. Þetta voru skemmtileg sumur í minningunni.

Bogi Pétursson var forstöðumaður á Ástjörn þegar að ég var þar. Hann var allt í öllu þar áratugum saman. Allir þeir sem fóru til Ástjarnar í hans tíð hugsa til hans með hlýju. Einstakur maður. Ég kynntist allavega vel minn tíma þar hvað Bogi er yndislegur og gefandi persónuleiki. Það var heilsteypt og góð mótandi reynsla að dvelja þar. Alla tíð hefur Bogi verið gulls ígildi í mínum huga eftir þennan tíma.

Það gæti meira en vel verið að maður líti bara í Ástjörn í sumar. Það er orðið langt síðan að ég hef farið þar heim í hlað. Það er eflaust margt breytt þar frá mínum tíma, en undirstaðan þar er þó sú sama og hún er mikils virði.

VG og Sjálfstæðisflokkur missa fylgi í Norðaustri

Kristján Þór Júlíusson Sjálfstæðisflokkurinn og VG tapa fylgi milli vikna í Norðausturkjördæmi í nýrri könnun Gallups. Flokkarnir eru nú næstum stórir, en VG missir sjö prósentustig og Sjálfstæðisflokkurinn missir eitt. VG er nú sjónarmun stærri, mælist enn stærstur í kjördæminu, með 29% slétt. Sjálfstæðisflokkurinn er einu og hálfu prósenti minni, eða 27,5%. Samfylkingin bætir við sig nokkuð og mælist nú með 19,4%. Framsókn bætir við sig prósenti og mælist með 17,2%. Frjálslyndir hækka og mælast með 5,2%.

Þetta er vissulega athyglisverð mæling. Það virðist vera að VG sé að missa flugið hér, enda var mælingin síðast, 36%, auðvitað með ólíkindum og vitað mál að það myndi aldrei haldast. Þetta var þeirra toppur og þeir tapa miklu fylgi milli vikna. Reyndar er enn langt eftir, það eru sex vikur til kosninga og kosningabaráttan er ekki enn hafin af fullum krafti. Enn eiga framboðin eftir að sýna á spil sín og margt enn óráðið. En þessi mæling segir sína sögu nú og fróðlegt að sjá hana birtast þarna.

Íslandshreyfingin mælist með 2,5% fylgi í þessari könnun hér í Norðausturkjördæmi. Mér þykir það mikið miðað við að enn er ekki komið á hreint hver verði leiðtogi listans hér eða hver keyrsla framboðsins verður hér á þessu svæði. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Íslandshreyfingin verði komin með lista og kjördæmaleiðtoga fyrir kjördæmaþátt Stöðvar 2 á miðvikudaginn, en þar verður fjallað um málefni kjördæmisins og þá fáum við nýja könnun, 800 manna úrtak, sem segir eflaust enn aðra sögu.

Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Kristján Þór Júlíusson, fyrrum bæjarstjóra á Akureyri, að Sjálfstæðisflokkurinn sígi enn. Það er farið að halla á þriðja manninn, Ólöfu Nordal, í þessari mælingu. Einar Már er aftur kominn inn og VG missir flugið. Miðað við þessar tölur er erfitt að spá hvar neðri mörk þingmannatals kjördæmisins lendir. Höskuldur Þórhallsson gæti alveg dottið inn fyrir Framsókn haldi þeir áfram svona og Lára eygir möguleika fari þau að mælast yfir 20% markið. Þannig að spurningamerkin eru mörg.

Það var alltaf vitað að VG myndi missa damp og færi aldrei yfir 30%, svo að þetta kemur ekki að óvörum. En staða Sjálfstæðisflokksins er vissulega umhugsunarverð, enda verður þessi mæling varla viðunandi fyrir fólk þar, enda má alveg búast við skekkjumörkum, og í raun gæti vel verið að Sjálfstæðisflokkurinn liggi innan við 25% markið. Það þarf að vinna betur á þeim bænum ætli menn að vinna þessar kosningar, það er alveg ljóst.

En þetta verður spennandi kosningabarátta. Öll horfum við með áhuga á kjördæmaþáttinn á miðvikudag og verður gaman að sjá kjördæmaleiðtogana í panel að ræða kosningamálin.

Bloggfærslur 31. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband