7.3.2007 | 23:09
Stund langþráðrar viðurkenningar í Hollywood

Scorsese átti heiðurinn skilið. Það vissu flestir að hann fengi verðlaunin sennilega núna, en margir voru hissa þegar að hann tapaði fyrir tveim árum fyrir The Aviator, glæsilega innsýn í ævi Howards Hughes. Það var háreist stórmynd með glamúr og glysi og margir töldu að þá myndi Hollywood falla fyrir Scorsese, sennilega var myndin markaðssett með það í huga að falla Hollywood í geð, enda var Katharine Hepburn, dálæti kvikmyndaheimsins frá árdögum, ein sögupersónan. Scorsese fór tómhentur heim, en Cate Blanchett sem lék Hepburn vann fyrir túlkun sína.
Það er kannski rétt sem margir segja að The Departed er ekki besta mynd Martin Scorsese. Mér fannst hún þó einna best af þeim fimm myndum sem voru tilnefndar með henni. Það var reyndar orðin ansi æpandi staðreynd að Scorsese hafði ekki hlotið verðlaunin. Ég var nú einn af þeim sem vonaðist eftir að The Aviator fengi óskarinn árið 2005, enda fannst mér hún betri en Million Dollar Baby, þó sú mynd sé vissulega mjög góð. Það hefði allavega orðið stórtíðindi hefði Scorsese tapað aftur nú í kapphlaupinu um óskarinn. Enda fór ekki svo. Ég fann það á mér lengi að nú ætlaði Hollywood að stíga skrefið til fulls til Scorsese, viðurkenna snilld hans í kvikmyndum. Svo fór.
Þetta var svipað móment og fyrir fjórum árum þegar að akademían steig hið stóra og áberandi skref að veita Roman Polanski leikstjóraóskarinn fyrir The Pianist. Það var mjög stór stund. Margir töldu að fortíð hans og umdeilt orðspor myndi koma í veg fyrir það. Enda mátti sjá gleðiglott á andliti Harrison Ford þegar að hann leit í umslagið. Spekingar Hollywood höfðu spáð Rob Marshall óskarnum fyrir Chicago, en sem betur fer fóru verðlaunin ekki þangað. Vonaði ég á þeirri stund að farið yrði alla leið og The Pianist hlyti óskarinn líka sem besta mynd ársins 2002, enda hiklaust í senn langbesta og stórbrotnasta myndin. Svo fór því miður ekki. Chicago vann. Það var átakanlega slappt val.
Það hefur oft gerst í gegnum áranna rás að rangir sigurvegarar hafi orðið á þessum blessuðu óskarsverðlaunum. Ég var einn þeirra sem tók bakföll af ergju þegar að Shakespeare in Love var frekar valin kvikmynd ársins 1998 en Saving Private Ryan, meistaraverk Steven Spielberg. Það var dapurt að fylgjast með því. Miramax keyptu kvikmyndaóskarinn með gylliboðum og valið var umdeilt og leiddi síðar til breytinga á valkerfinu og reglum um gjafir til meðlima í akademíunni, sem velja sigurvegarana. Sem betur fór var þó ekki komið í veg fyrir að Spielberg fengi leikstjóraóskarinn fyrir myndina. Annað slæmt val var þegar að Halle Berry vann leikkonuóskarinn fyrir Monster´s Ball.
Kvikmyndir skipta alltaf máli. Þessi mest áberandi kvikmyndahátíð sögunnar er í brennidepli árlega hjá öllum kvikmyndaspekingum. Það er því ekki sama í huga þeirra hvernig þau fara. Fyrst og fremst var þetta gleðileg óskarsverðlaunahátíð að þessu sinni fyrir þær sakir að Scorsese og Ennio Morricone fengu loksins verðlaunin. Það var löngu tímabært. Morricone er besta kvikmyndatónskáld sögunnar. Fjögur tónverk hans eru hér í spilaranum.
7.3.2007 | 20:42
Stjórnarflokkar funda - enn engin niðurstaða

Það verður fróðlegt að sjá hvernig fara muni að lokum, enda flestum ljóst að brátt verður að vera ljóst hvort samstaða sé um að auðlindaákvæðið verði sett í stjórnarskrá. Stjórnarandstaðan hefur ljáð máls á að styðja slíkt og því ljóst að aðeins er einhver andstaða við málið innan Sjálfstæðisflokksins. Stjórnarandstaðan sá sér auðvitað leik á borði eftir harkaleg og hvöss ummæli bæði þingmanna og ráðherra Framsóknarflokksins og lofaði stuðningi við málið gerðu þeir alvöru úr tali sínu. Reyndar hefur varla heyrst í Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, eftir sín hörðu orð á föstudaginn.
Það bendir ansi margt til þess að flokkarnir nái samkomulagi í þessum efnum. Ef marka má ummæli Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, mun það gerast og Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur talað með þeim hætti líka. Þó er ljóst greinilega ennfremur að hvorugur flokkurinn vill gefa of mikið eftir og þess vegna liggur auðvitað ekkert samkomulag enn fyrir í sjálfu sér. Það verður enda horft í þá átt hvor flokkurinn verði að gefa meira eftir, eða hvort flokkarnir muni mætast verði á miðri leið í þessum efnum. Oft var tekist á um mál innan stjórnarinnar forðum daga en alltaf náðu Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson samkomulagi sem full samstaða var almennt um.
Nú eru stjórnarherrarnir nýjir og vissulega nokkuð breyttir tímar. Það er enda vissulega tímanna tákn að báðir þeir stjórnarherrar sem stýrðu gerð stjórnarsáttmálans fyrir fjórum árum eru farnir úr stjórnmálum og til annarra verka á misfjarlægum slóðum. Þetta er fyrsta alvöru krísa stjórnarsamstarfsins með nýju flokksformennina við stjórnvölinn. Það verður fróðlegt að sjá lyktir málsins, sem væntanlega ræðst með morgni.
Það yrðu vissulega mikil tíðindi yrði ekki komið samkomulag um auðlindamálið milli stjórnarflokkanna fyrir upphaf þingfunda, upphaf lokafundahrinu kjörtímabilsins á löggjafarþinginu.
![]() |
Geir segir enga niðurstöðu komna í auðlindamálið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.3.2007 | 18:02
Titringur í Samfylkingunni vegna ESB-andstöðu

Það er greinilegt að kergja er á milli Samfylkingarinnar og VG í Evrópumálunum og heilt yfir reyndar. Það er svona að verða settleg ólga milli flokkanna. Samfylkingarfólki svíður væntanlega að sjá lágt fylgi mánuð eftir mánuð og meira að segja VG orðið stærra í nýjustu könnun Gallups, í fyrsta skipti í heil fimm ár. Það voru merkileg tíðindi. Kuldinn milli VG og Samfylkingarinnar hefur verið eitt verst geymda leyndarmálið undanfarna mánuði og virðist vera að magnast. Eitraðar pillur ganga á milli og hafa gert síðustu mánuði og þessi samstaða VG með Sjálfstæðisflokknum er því ansi athyglisverð.
Það var reynt að telja fólki trú um það framan af vetri að kaffibandalagið væri trúverðugur valkostur. Þeir eru orðnir fáir sem veðja peningunum sínum á að það samstarf haldi saman í gegnum kosningabaráttuna og það virðist lítið rósahjal á milli flokkanna. Hvöss skerpa frjálslyndra í innflytjendamálum gerði þá holdsveika í hugum flestra, stjórnarandstaðan hefur hikstað á bandalagi við þá síðan og hörð skot á milli VG og Samfylkingarinnar dyljast engum. Flestum er í fersku minni að Steingrímur J. Sigfússon hryggbraut Ingibjörgu Sólrúnu í Kryddsíld í beinni útsendingu og vildi ekkert við það kannast að hún væri forsætisráðherraefni stjórnarandstöðunnar.
Á fundi sem ég var á um daginn með þverpólitíska málfundarhópnum Pollinum hér á Akureyri um daginn nefndi Steingrímur J. forsætisráðuneytið fyrst sem áhugavert ráðuneyti fyrir flokkinn að loknum kosningum í vor, en vildi ekkert gera síðar með það er ég spurði hann um hvort að VG myndi gera kröfu um forsætið í vor. Sú hógværð var ekki sannfærandi. VG veit í hvaða stöðu það er og mun ekki beygja sig mjög djúpt fyrir Samfylkingunni í vor. Enda hafa margir talað um að stjórnarmyndunarviðræður muni snúast um það hver muni fyrstur leita á náðir Geirs Hilmars Haarde.
Það stefnir í spennandi kosningar. Það verður gaman að sjá hversu heitt kaffið verður í kaffibandalaginu er til kjördags kemur og stjórnarmyndunarviðræðna falli sitjandi ríkisstjórn. Þessi samstaða VG og Sjálfstæðisflokks í Evrópunefnd er vissulega táknræn og eykur vangaveltur um það hvort að sú samstaða nái yfir fleiri málaflokka og verði að stjórnarsamstarfi með vorinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.3.2007 | 16:03
Táknræn samstaða tveggja flokka gegn ESB
Mikla athygli hefur vakið að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin-grænt framboð hafa komið sér saman um bókun í Evrópunefnd þar sem tjáð er afgerandi andstaða við ESB-aðild. Skv. nýjustu skoðanakönnun Gallups eru þetta tveir stærstu flokkar landsins, allavega tveir mjög öflugir flokkar. Á meðan síga þeir flokkar sem helst hafa ljáð máls á ESB, Samfylking og Framsóknarflokkur, í skoðanakönnunum.
Þessi bókun er táknræn samstaða þessara tveggja flokka gegn aðild að Evrópusambandinu og skýrt merki um það að aðild er ekki á dagskrá hjá flokkunum og mun ekki verða á komandi árum. Þetta er vissulega mjög þýðingarverð bókun, enda sýnir hún mjög vel ennfremur að aðild verður varla á dagskrá eftir þingkosningarnar í vor, enda vandséð hvernig að starfhæf ríkisstjórn verði mynduð án beggja þessara flokka.
Það er því ljóst að Evrópumálin eru stopp og verða það á komandi árum. Þetta er því afgerandi og sterk bókun sem vekur athygli og hleypir eflaust einhverju lífi í kosningabaráttuna. Tal um mögulegt stjórnarsamstarf VG og Sjálfstæðisflokksins að vori mun að minnsta kosti ekki minnka eða hverfa við þetta merkilega samkomulag milli aðila.
Að þessari bókun standa Björn Bjarnason, formaður Evrópunefndar og dóms- og kirkjumálaráðherra, Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Ragnar Arnalds, formaður Heimssýnar og fyrrum ráðherra, og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG.
Merkileg bókun allavega. Enginn vafi á því. Og það er þungavigtarfólk sem stendur að henni. Bókunin segir eiginlega meira en mörg orð. Samfylkingin sér væntanlega sæng sína útbreidda með ESB núna, eða hvað? Hallast að því.
Lítill fugl hvíslaði reyndar því að mér að konurnar sem Samfylkingin sé að missa vilji ekki ESB-aðild í könnunum og því muni Samfylkingin ekki keyra á málinu til vors.
![]() |
VG og Sjálfstæðisflokkur gegn ESB-aðild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.3.2007 | 14:20
Hugleiðingar um að fita granna stjörnu
Það verður nú seint sagt um óskarsverðlaunaleikkonuna Angelinu Jolie að hún sé feit, enda hefur hún alla tíð borið þá ímynd að vera mjög grönn. Nú eru þeir sem næst henni standa orðnir áhyggjufullir yfir því að hún sé of grönn. Þeir sem hafa séð myndina Girl, Interrupted, sem færði Jolie óskarinn fyrir sjö árum, sjá enda granna og eiginlega gegnumhoraða konu. Þannig hefur ímynd hennar verið í áraraðir.
Jolie þýðir fögur, það er réttnefni á Angelinu sem þykir með fögrustu konum kvikmyndaheimsins. Hún hefur enda verið kyntákn alla tíð. Miðnafnið Jolie er því ekki ættarnafn, heldur er ættarnafn hennar Voight, enda er faðir Angelinu óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight sem var einn af þekktustu leikurum sinnar kynslóðar, og hlaut óskarinn fyrir eftirminnilega túlkun á lamaða hermanninum í Coming Home, manninum sem kemur heim lamaður frá Víetnam. Jolie og Voight hafa ekki talað saman í ein fimm ár vegna ágreinings.
Jolie hefur átt erfitt síðustu mánuði. Það eru nokkrar vikur síðan að móðir hennar, leikkonan Marcheline Bertrand, lést úr krabbameini og auk þess hefur stjarnan sokkið sér ofan í góðgerðarstarf um allan heim, einkum í Asíu, en hún er sem kunnugt er góðgjörðarsendiherra Sameinuðu þjóðanna þar. Hún hefur með því hlutverki fetað í fótspor margra þekktra leikara, t.d. Audrey Hepburn sem var mannréttindatalsmaður alla tíð samhliða leikferlinum og var í sama hlutverki og Jolie er eiginlega nú. Jolie hefur sinnt hlutverkinu vel og gott dæmi er að hún dvaldi um jólin 2005 á hörmungarsvæðunum í Asíu þar sem flóðbylgjurnar skullu á nokkru áður.
Áhyggjur eru víst uppi um það að vinnan sé að sliga leikkonuna. Hún bæði borði og sofi of lítið og heilsan sé ekki í forgrunni. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Þetta er skapmikil og ákveðin kona sem er ekki vön að láta karlana í kringum sig stjórna sér. Gott dæmi er um það hvernig að samskiptum hennar og föðurins lauk með hvelli fyrir nokkrum árum og hún lét Billy Bob Thornton gossa þegar að hann var farinn að skipta sér of mikið af hennar málum. Ekki er nú langt síðan að talað var um erfiðleika hjá Jolie og Brad Pitt.
Annars hefur jafnan verið sagt um stjörnurnar að þær séu skapmiklar. Ætli Angelina Jolie sé ekki gott dæmi um það.
![]() |
Pitt vill fita Jolie |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.3.2007 | 02:37
DeCode heldur sífellt áfram að floppa
Þegar að Íslensk erfðagreining var stofnuð fyrir áratug voru háleit markmið sem einkenndu allt starfið. Þetta var eins og hálfgerð skýjaborg. Nú er ljóst að fyrirtækið er að floppa stórt ár frá ári, staðan heldur aðeins áfram að versna. Það sem margir töldu að yrði björt framtíð er orðin að óttalegri sorgarsögu, sögu brostinna tækifæra og glataðra markmiða umfram allt.
Það að tapið á rekstrinum hjá DeCode, móðurfélagi ÍE, nemi 85,5 milljónum dala á síðasta ári, eða tæpum sex milljörðum íslenskra króna, segir alla sólarsöguna betur en allt annað í raun og veru. Það er sífellt að halla þarna undan fæti. Tapið er gígantískt á íslenskan veruleika allavega og þetta stefnir í meira flopp en jafnvel svartsýnustu menn spáðu fyrir 3-5 árum. Þessi staða er skelfileg miðað við allar hinar háleitu væntingar og öflugu tækifæri sem margir töldu vera framundan fyrir þetta fyrirtæki.
Ég man vel eftir því þegar að umræðan var sem allra mest um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Það eru hvað orðin sjö til átta ár síðan að sú rimma stóð. Þá barðist Ingibjörg Pálmadóttir sem heilbrigðisráðherra fyrir málinu í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og það var eitt mesta hitamál síns tíma í þingsölum. Langt er síðan að Ingibjörg fór af sviðinu sem stjórnmálamaður og háleitu draumarnir um þennan möguleika hafa ekki enn ræst. Ég held að ekki einu sinni svartsýnustu menn í þinginu hafi talið það möguleika að svona illa myndi horfa fyrir Íslenskri erfðagreiningu innan áratugar.
Það er varla björt framtíð framundan þegar að tapið er svona mikið og varla von um bjartari tíð með blóm í haga eins og skáldið á Gljúfrasteini sagði forðum daga.
![]() |
Tap deCODE eykst milli ára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.3.2007 | 00:54
Fjarvera formanns - Ingibjörg Sólrún mætt á Klörubar

Fjarvera Ingibjargar Sólrúnar frá blaðamannafundi stjórnarandstöðunnar á mánudag þótti mjög áberandi og spurðu ansi margir hvar formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins væri niðurkomin í veröldinni. Mikla athygli vakti að þar var mættur þingflokksformaður Samfylkingarinnar (og fyrrum flokksformaður) sem fulltrúi flokksins við hlið formanna minni flokka stjórnarandstöðunnar; Guðjóns Arnars og Steingríms J. en ekki varaformaðurinn Ágúst Ólafur, fyrst formaðurinn var ekki á landinu.
Það munu margir velta fyrir sér að formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins sé farin í sólarlandafrí á þessum tíma og yfirgefi pólitíska sviðið á þessum pólitíska mikilvæga tíma. Kosningabaráttan er löngu hafin og allt komið á fullt t.d. hjá Samfylkingunni sem löngu er farin að auglýsa meira að segja. En formaðurinn fetar í fótspor framsóknarmanna og er mætt skælbrosandi á Klörubar.
Samfylkingin virðist vera að læra af framsóknamönnum þá merkilegu lexíu að meira að segja fjarlægu slóðirnar skipti máli í kosningabaráttu. Athyglisvert.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)