Jæja... þá vitum við það

Larry Birkhead Um fátt hefur verið meira rætt undanfarnar vikur vestanhafs en það hver hafi verið faðir dóttur Önnu Nicole Smith. Nú er ljóst eftir DNA-rannsókn að faðirinn er ljósmyndarinn Larry Birkhead, sem hefur barist fyrir rétti sínum mánuðum saman og sagst vera faðirinn. Það hefur reyndar verið með ólíkindum að fylgjast með þessu máli úr fjarska. Það hefur gnæft yfir flest annað í Bandaríkjunum, meira að segja forsetakosningarnar 2008, einkum eftir að Anna Nicole dó.

Með þessari niðurstöðu mun Larry Birkhead eflaust fá fullt forræði yfir Dannielynn Smith. Með því öðlast hann full völd í víðfrægu erfðamáli milli Önnu Nicole og fjölskyldu olíuauðjöfursins J. Howard Marshall, sem Anna Nicole Smith giftist árið 1994, en málinu lauk aldrei meðan að Anna Nicole lifði. Stelpan er einkaerfingi hinnar frægu fyrirsætu og leikkonu. Jafnframt er ljóst að Birkhead ríkir yfir dánarbúi hinnar frægu stjörnu, enda er stelpan litla aðeins hálfs árs gömul og mun ekki hljóta völd yfir sínum málum fyrr en eftir rúm sautján ár. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hann nýtir völd sín í málinu.

Dramatík virðist því ætla að halda áfram á fullum krafti í kringum Önnu Nicole Smith þó að hún hafi nú sjálf hinsvegar yfirgefið hið jarðneska líf. Hún lifði og dó í kastljósi fjölmiðla. Ekki er við því að búast að þessi niðurstaða og dauði hennar bindi í raun enda á umfjöllunina. Ég hef stöku sinnum dottið inn í þáttinn Entertainment Tonight á Sirkus, rétt fyrir kvöldfréttir á Stöð 2. Það er alveg kostulegur þáttur. Það hvernig þetta mál hefur verið velt upp fram og til baka hefur vissuega verið með nokkrum ólíkindum alveg. Þetta virðist vera endalaus vella og umfjöllunarefni.

Að mínu mati er saga Önnu Nicole Smith hrein sorgarsaga - saga hennar er táknmynd þess að ríkidæmi og frægð þarf ekki að tákna gleði og hamingju. Það getur verið hrein hefnd að festast í þessu lífi. Hún er skólabókardæmi eflaust um það að fjölmiðlar geta fylgt fólki út yfir gröf og dauða. En já, ég vona að þessu máli sé nú hreinlega lokið. Þetta er orðið ágætt, er reyndar fyrir löngu orðið einum of. Það er vonandi að fjölmiðlar geti nú leyft þessari konu hreinlega að hvíla í friði.

mbl.is Birkhead er faðir Dannielynn Smith
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlaust stjörnuhjal

Það er stundum svolítið spes að fylgjast með umræðunni um líf stjarnanna í glysheimum. Áhugi pressunnar á lífi þeirra virðist æði oft ótakmarkaður. Gott dæmi um fórnarlömb glamúrsins sem verða margtuggnar eru Britney Spears og Anna Nicole Smith. Sú síðarnefnda dó í kastljósi fjölmiðlanna og fylgst var með örlögum líkamsleifa hennar meira að segja í fjölmiðlum. Því fjölmiðlakastljósi er reyndar merkilegt nokk enn ekki lokið, þó saga stjörnunnar sem slíkrar sé orðin öll.

Díana, prinsessa af Wales, lifði í kastljósi fjölmiðlanna í mjög langan tíma. Kaldhæðni örlaganna voru líka þau að hún dó í myndavélablossa í París. Það var tragísk saga í meira lagi. Rými stjarnanna er oft ekki mikið. Líf þeirra hlýtur æði oft að vera litlaust og leiðinlegt. Einkalíf stjarnanna verður almannaeign merkilegt nokk. Það er ekki langt síðan að íslenskur tónlistarmaður varð heimsfrægur á einni nóttu. Glys frægðarinnar sligaði einkalífið hans eins og frægt varð. Frægðin varð dýrkeypt.

Ég veit ekki hvað mér kemur svosem við með hverjum Britney Spears er þá stundina og hverjir sofa hjá henni. En það virðist samt vera okkur mikilvægt. Veit ekki af hverju. Þessi glamúr og glysheimur er að verða ansi þreyttur finnst mér.

mbl.is Britney á föstu með rúmlega tveggja metra körfuboltamanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESSO heyrir sögunni til - lækkar bensínið?

ESSO Það eru mikil tímamót fólgin í því að ESSO heyri sögunni til í íslensku samfélagi. Olíufélagið ESSO hefur verið áberandi hluti hérlendis í sex áratugi, allt frá árinu 1946 og verið eitt helstu olíufélaganna með Olís og Skeljungi. Nýtt nafn hlýtur að kalla á nýja ímynd og kannski vilja nýlegir eigendur nýtt upphaf.

Eitt sinn voru olíufélögin mikil tákn í pólitík. ESSO var olíufyrirtæki framsóknarmanna og mjög sterkt sérstaklega í sveitabyggðunum og framsóknarbæjunum, t.d. hér á Akureyri og víðar um landið. Skeljungur var olíufyrirtæki sjálfstæðismanna eins og flestir vita og svo var ESSO tákn vinstrimannanna en Héðinn Valdimarsson var lengi ein helsta driffjöður Olíuverslunar Íslands, Olís.

Talað er um að fyrirtækið muni taka yfirheitið Naust, en það hefur þó ekki enn verið staðfest. Með nafnabreytingunni sparar Olíufélagið fimmtíu milljónir króna árlega, enda þurfti félagið að greiða fyrir afnot af nafninu. Það vonandi lækkar bensínverðið, en einhvernveginn hallast ég þó að því að svo verði nú ekki.

mbl.is Esso-merkið kostar fimmtíu milljónir á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn sterkur í Reykjavík suður

Geir H. HaardeSkv. kjördæmakönnun Gallups í Reykjavík suður mælist Sjálfstæðisflokkurinn nú með fimm kjördæmakjörna þingmenn þar. VG mælist stærri en Samfylkingin þar og hafa báðir flokkar tvo kjördæmakjörna menn, Samfylking og Framsóknarflokkur missa báðir kjördæmakjörna þingmenn, yfir til Sjálfstæðisflokks og VG. Framsóknarflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn og Íslandshreyfingin ná skv. þessu því ekki kjördæmakjörnum manni inn.

Sjálfstæðisflokkur: 40,4% (38,3%)
VG: 23,6% (9,3%)
Samfylkingin 22,6% (33,3%)
Framsóknarflokkur: 4,9% (11,3%)
Frjálslyndi flokkurinn: 4,2% (6,6%)
Íslandshreyfingin: 4,1%

Þingmenn skv. könnun

Geir H. Haarde (Sjálfstæðisflokki)
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Birgir Ármannsson

Kolbrún Halldórsdóttir (VG)
Álfheiður Ingadóttir

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Samfylkingu)
Ágúst Ólafur Ágústsson

Fallin skv. könnun

Jónína Bjartmarz
Sæunn Stefánsdóttir
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Mörður Árnason

Þetta er merkileg niðurstaða. Framsóknarflokkurinn tapar miklu fylgi og Jónína Bjartmarz og Sæunn Stefánsdóttir eru órafjarri þingsæti. Frjálslyndir falla niður og eru jafnir Íslandshreyfingunni sem virðist ekki beint vera að fá það fljúgandi start sem talað var um. Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel með fimm kjördæmakjörna og gætu eygt möguleika á sjötta manni í þessari stöðu, Dögg Pálsdóttur, hæstaréttarlögmanni. Samfylkingin tapar nokkru fylgi og missir einn kjördæmakjörinn mann í stöðunni og Mörður Árnason er kolfallinn af þingi skv. þessu. VG bætir miklu við sig.

Þetta er allavega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna.


mbl.is VG og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig fylgi í Reykjavík suður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður lokaspretturinn drjúgur fyrir Framsókn?

Jón SigurðssonFramsóknarflokkurinn kynnti í dag stefnumál sín. Þar er talað hreint út um lykilmál kosningabaráttunnar og í boði mörg fögur fyrirheit, eflaust verður nóg reyndar af þeim hjá öllum flokkum. Greinilegt er að Framsókn fer fram undir merkjum slagorðsins: Árangur áfram - ekkert stopp, sem hefur verið áberandi undanfarnar vikur. Athyglisvert er að renna yfir loforðalistann. Sumt kemur á óvart, sumt alls ekki. Það er eins og gengur eflaust.

Það eru 32 dagar til alþingiskosninga. Í nýjustu skoðanakönnun Gallups mælist Framsóknarflokkurinn með 8% fylgi, tíu prósentustigum undir kjörfylginu sem er örlitlu minna fylgistap en Samfylkingin mælist með þar. Það fylgi myndi færa Framsókn 5-6 þingmönnum í besta falli. Það yrði sögulegt afhroð fyrir þennan forna flokk valda og áhrifa alla sögu sína, allt frá stofnunarárinu 1916. Í slíkri stöðu mælast tveir ráðherrar utan þings og fólk í baráttusætum sæti eftir með sárt ennið. Ofan á allt markar sú staða þann veruleika að formaður Framsóknarflokksins er utanþings. Hvað gerist verði sá veruleiki ofan á; formaðurinn landlaus og flokkurinn í sögulegu fylgisfalli? Endurhæfing tæki eflaust við.

Það er eldgömul saga að Framsóknarflokkurinn mælist mun lægri í skoðanakönnunum en það sem svo kemur að leikslokum upp úr kjörkössunum á kjördegi. Í þingkosningunum 2003 háði Framsóknarflokkurinn mikla varnarbaráttu um allt land. Það voru síðustu þingkosningar Halldórs Ásgrímssonar á löngum stjórnmálaferli. Lengst af kosningabaráttunni mældist hann ekki inni í Reykjavík norður, þar sem hann fór þá fram eftir áratuga framboðssögu í Austurlandskjördæmi hinu forna. Halldór náði kjöri við annan mann, Árna Magnússon, sem varð félagsmálaráðherra eftir kosningarnar og stefndi framan af í að verða krónprins Framsóknarflokksins.

Þær kosningar voru reyndar ótrúlega sigursælar fyrir Framsóknarflokkinn. Hann vann mjög merkan sigur þá á skoðanakönnunum. Hér í Norðausturkjördæmi höfðu flestir stjórnmálaskýrendur átt von á spennandi slag Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Með ævintýralegum lokaspretti á síðustu tíu dögum baráttunnar tók Framsókn kjördæmið með trompi og vann er á hólminn kom glæsilegan kosningasigur með rúmlega 30% og hlaut fjóra kjördæmakjörna. Öllum að óvörum komst Birkir Jón Jónsson inn á þing undir lok talningar og felldi út bloggvinkonu mína, Láru Stefánsdóttur, sem komst með annan fótinn inn á þing eina örskotsstund en missti svo af þingsætinu.

Það er því alveg ljóst að fólk hér og eflaust víðar um land vanmetur Framsóknarflokkinn ekki svo glatt. Hitt er svo aftur annað mál að Framsókn liggur örlitlu neðar nú en var í könnunum Gallups mánuði fyrir kosningar, en er að mörgu leyti ekkert mikið betur á sig kominn þó. Þá var lokasprettur Framsóknar mjög drjúgur. Stór ástæða hins ævintýralega sigurs Framsóknarflokksins hér í Norðaustri fyrir fjórum árum var góður framboðslisti sem hafði tengingar um allt kjördæmið og ennfremur sterk aldursdreifing. Það er enginn vafi á því í mínum huga að sterk staða ungliða þá hafði mikið að segja. Þar var ungu fólki treyst fyrir áhrifum og fólk kaus það inn þá.

Einn stóri þáttur þess hversu vel gekk vorið 2003 fyrir Framsóknarflokkinn var pólitísk reynsla Halldórs Ásgrímssonar. Hann hafði þriggja áratuga stjórnmálaferil að baki, var sjóaður í bransanum og sigldi fleyinu til hafnar. Þrátt fyrir að Íraksstríðið hafi byrjað á lykilpunkti kosningabaráttunnar hafði það engin áhrif þá. Halldór stóð sig vel sérstaklega síðustu fimm sólarhringana og var mikilvægur hlekkur í varnarsigrinum. Halldór var markaðssettur sem fyrr sem kletturinn í hafinu, leiðtoginn á miðjunni. Sú markaðssetning gekk. Halldór var í oddastöðu að kosningum loknum. Samfylkingin bauð honum forsæti ríkisstjórnar og hann spilaði stöðuna vel eftir það.

Halldór náði samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn að kosningum loknum um að verða forsætisráðherra 16 mánuðum eftir kosningar og hann varð eftirmaður Davíðs Oddssonar í september 2004. Halldór sá aldrei til sólar í forsætisráðuneytinu, því sem átti að verða hápunktur stjórnmálaferils hans, lokapunktur glæsilegs ferils. Íraksmálið spilaði lykilþátt í því hversu örlögin urðu grá. Halldór ákvað að stíga upp eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006, sem urðu vondar fyrir flokkinn þrátt fyrir að vinna sigur á könnunum í Reykjavík. Endalok stjórnmálaferils Halldórs með melódramatískum blaðamannafundi á Þingvöllum vöktu mikla athygli. Það voru nöpur endalok á löngum ferli.

Nýr formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, er í aðalhlutverki í kosningabaráttu flokksins nú. Það mun í raun allt standa og falla með því hvort að hann verður trúverðugur leiðtogi. Hann hefur enga þungavigtarsögu í pólitík að baki. Hann er því mjög ólíkur forvera sínum, sem var sviðsvanur leikari í bransanum. En hann er maður úr kjarnanum og hefur eflt hann, en virðist eiga mikið verk óunnið enn utan kjarnans. Þar ráðast örlög flokksins í vor. Jón hefur þó sjóast mjög í fjölmiðlum. Allra augu verða á honum. Verður hann einhver klettur í hafinu, eða er hann eins og Kolbeinsey, kletturinn sem molnar niður í sæinn?

Stóra spurningin er þó; mun Framsókn enn og aftur vinna sigur á skoðanakönnunum? Þetta verður örlagaríkur mánuður fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins á hvorn veginn sem örlögin ráðast.


mbl.is Framsóknarmenn boða áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófessor biður Íslendinga afsökunar

Jæja, þá hefur bandaríski stjórnmálafræðiprófessorinn við Princeton-háskóla í New Jersey beðið íslensku þjóðina afsökunar á umdeildum ummælum sínum sem mikið voru í fréttum í gær. Ég held að þau hafi stuðað ansi marga, maður fann það bara á viðbrögðunum á bloggsíðum og í umræðunni. Einhverjir aðrir litu á þetta sem grín, græskulaust gaman og blaður í bláinn jafnvel.

Ég skrifaði um þetta mál hér í gær og sagði mína skoðun á lykiládeilunni sem hann var í raun að beina að, hvort Bandaríkin ættu að ráðast á Íran, og fjallaði aðeins um það í og með. En orðaval hans má vel vera að hafi verið húmor en þau féllu ekki í kramið hér á Íslandi tel ég. Það hvernig hlutnirnir eru orðaðir ræður oft úrslitum um það hvernig þau verða dæmd.

En viðbrögðin hafa greinilega ekki látið standa á sér til prófessorsins. Greinilegt er að þar hafa Íslendingar verið mjög áberandi við að láta skoðun sína í ljósi, og það með líflegum hætti.


mbl.is Biður þjóðina afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband