29.4.2007 | 16:06
Fylgið á fleygiferð á milli flokka í Norðaustri

Samfylkingin er að tapa nokkru fylgi frá kosningunum 2003 og missir fylgi ennfremur frá kjördæmakönnun í vikunni. Frjálslyndir missa brot úr prósenti og litlu framboðin eru ekki að ná flugi. Stór tíðindi könnunarinnar, sennilega þau stærstu, er að mínu mati hækkun Framsóknarflokksins sem virðist á góðri leið með að halda þriðja manni inni á lokaspretti kosningabaráttunnar. Ennfremur vekur athygli hversu mjög VG er að styrkjast á kostnað Samfylkingarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn: 28% (23,5%)
VG: 23,9% (14,1%)
Framsóknarflokkurinn: 21,9% (32,8%)
Samfylkingin: 19,7% (23,4%)
Frjálslyndir: 5,5% (5,6%)
Íslandshreyfingin: 0,9%
Baráttusamtökin: 0%
Þingmenn skv. könnun
Kristján Þór Júlíusson (Sjálfstæðisflokki)
Arnbjörg Sveinsdóttir
Ólöf Nordal
Steingrímur J. Sigfússon (VG)
Þuríður Backman
Valgerður Sverrisdóttir (Framsóknarflokki)
Birkir Jón Jónsson
Kristján L. Möller (Samfylkingu)
Einar Már Sigurðarson
Fallinn af þingi
Sigurjón Þórðarson
Þetta er merkileg mæling vissulega. Þessi könnun er ekki sérstaklega góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem tapar nokkrum prósentustigum frá kjördæmakönnun í síðustu viku. Þar var fylgið rúm 31% en fellur nú niður í slétt 28%. Vissulega er það nokkur fylgisaukning frá kosningunum 2003. Á móti kemur að það voru afspyrnuslakar kosningar fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem féll undir 25% og hlaut aðeins tvo menn kjörna; Halldór Blöndal og Tómas Inga Olrich. Þau úrslit mörkuðu það að við misstum ráðherrastól og forsetastól þingsins. Þetta verður ekki mjög viðunandi útkoma fyrir Sjálfstæðisflokkinn vilji hann öruggan ráðherrastól í vor.
Framsóknarflokkurinn er að styrkjast á lokasprettinum greinilega. Fyrir nokkrum vikum töldu margir það draumóra að Framsókn næði inn þriðja manni. Ég hef alltaf varað menn við því og sagt sem e að Framsókn hefur tekið kosningar á 10-20 dögum, stundum örfáum dögum. Framsókn tók kosningarnar 2003 í Norðausturkjördæmi á viku til tíu dögum. Það var ótrúleg sveifla sem ég gleymi aldrei, enda var ég þá að vinna á fullu í baráttunni. Merkileg staða. Það verður ótrúlegur varnarsigur fyrir Framsókn nái þeir bylgju af þeim skala nú. Þar er klárlega keyrt á Höskuldi og markmið þeirra er að ná honum inn. Það verða mikil tíðindi ná þau honum inn.
VG er greinilega að bæta við sig. Ef marka má sundurliðun er VG að styrkja sig á kostnað Samfylkingarinnar sérstaklega hér á Akureyri. Það er öllum ljóst að flokkurinn hlaut góða kosningu síðast. Það verður þó mikið pólitískt áfall fyrir Samfylkinguna fari hún undir 20% og verður afspyrnuslök mæling fyrir Kristján L. Möller. Það er reyndar athyglisvert að sjá að Samfylkingin er hvergi að halda kjörfylginu og er í bullandi vörn um allt land, berjast fyrir því að ná því. Það er engin sókn og staða þeirra hlýtur að vera þeim áhyggjuefni miðað við langa forystu í stjórnarandstöðu og þorstann í völd. Ný forysta skilar þeim engu. Þetta er vond staða.
Steingrímur J. Sigfússon virðist vera kominn í sína bestu kosningabaráttu á ferlinum. Hann hefur þó langan pólitískan feril að baki. Eftir þingkosningar mun aðeins Jóhanna Sigurðardóttir hafa lengri þingsetu að baki. Hann var landbúnaðar- og samgönguráðherra fyrir óralöngu, árin 1988-1991. Það er reyndar eina tímabilið á 24 ára þingferli Steingríms J. þar sem hann hefur verið stjórnarsinni. Þannig að hann getur talað ansi vítt og greinilega verið borubrattur. VG sækir mjög í sig veðrið í Norðaustrinu. Þeir mælast með tvo kjördæmakjörna, fengu síðast kjördæmamann og jöfnunarmann. Þeir horfa nú til þriðja manns. Hann er í sjónmáli í þessari mælingu.
Frjálslyndir eru að dóla á þessu bili, 5-6%, og hafa verið að gera meginhluta kosningabaráttunnar. Finnst Sigurjón og hans fólk vera að reyna að stóla helst á að hljóta styrk til jöfnunarsætis. Annars fengu frjálslyndir verri kosningu hér vorið 2003 en í meginhluta kosningabaráttunnar. Þá var Brynjar Sigurðarson í þessu leiðtogasæti og hann var hluta baráttunnar nærri þingsæti en komst ekki inn og fékk minna en kannanir sýndu um skeið. Staða Sigurjóns er allavega ótrygg og fátt sem bendir til að hann verði kjördæmakjörinn. Íslandshreyfingin er greinilega í tómu tjóni og ekki líkleg til afreka. Baráttusamtökin sjást varla og ekki vænleg til árangurs.
Kjördæmaþátturinn í Ríkissjónvarpinu áðan var mjög áhugaverður. Þar var Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA og formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, í forsvari fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er gott mál, enda er mikilvægt að við kynnum Valda vel. Hann er í baráttusætinu okkar, er sterkur frambjóðandi fyrir Akureyri sem er mikilvægt að komist á Alþingi. Valgerður er sterk í debatt, bítur mjög frá sér og er að ná sama krafti aftur. Hún var í mikilli vörn framan af en styrkist sífellt í takt við það sem gerðist vorið 2003. Steingrímur J. fer langt á mikilli reynslu. Möllerinn er duglegur að ná orðinu og Sigurjón er eins og hann á að sér að vera.
Könnunin færir okkur merkilega mynd af stöðu mála. Það er greinilegt að Framsóknarflokkurinn er að bæta stöðu sína á Akureyri á kostnað okkar í Sjálfstæðisflokknum. Þar munar um Akureyringinn Höskuld Þórhallsson sem kynntur er mjög sem framtíðarmaður í stjórnmálum, maður sem er fæddur og uppalinn hér. Faðir Höskuldar, sr. Þórhallur Höskuldsson, var vinsæll og virtur prestur hér á svæðinu, sérstaklega hér í Akureyrarsókn þar sem hann starfaði til dánardags. Þessar tengingar skipta máli og ég tel að stóra fylgisaukning Framsóknar sé einmitt milli kannana hér á Akureyri. Það segja kannanir mjög vel, þessi mæling segir söguna vel.
VG er að taka af Samfylkingunni sérstaklega hér á Akureyri. Mér sýnist á greiningu könnunarinnar að stóru örlagaskilin séu að verða hér á Akureyri. Það eru mjög vond tíðindi að Sjálfstæðisflokkurinn sé að missa fylgi til Framsóknarflokksins hér á Akureyri. Það er umhugsunarefni fyrir okkur sjálfstæðismenn að mínu mati. Það er alveg deginum ljósara að 28% fylgi er í raun ekki viðunandi útkoma. Ég hef enda alltaf talið að við getum farið hærra og tel að við munum aldrei geta sótt þau áhrif innan flokksins, með ráðherrasetu og öðrum áhrifum, með minna fylgi en 30%. Þessi könnun er að því leyti gula spjaldið um að vinna betur!
En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna hér. Margir eru þó enn óákveðnir og þar ráðast örlög frambjóðendanna hér í baráttusætum. Það leikur lítill vafi á því að spennandi 13 dagar eru sannarlega framundan í kosningabaráttunni hér. Þar verður barist um hvert atkvæði. En fylgið er á mikilli ferð og áhugaverðir tímar svo sannarlega framundan.
![]() |
Sjálfstæðismenn og VG bæta við sig mönnum í Norðausturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.4.2007 | 00:48
Skiptar skoðanir á viðtalinu við Jónínu Bjartmarz

Ef marka má lífleg kommentaskrif á vefnum hjá mér um málið eru heitar skoðanir í báðar áttir. Ég hafði satt best að segja mjög gaman af þeim skoðanaskiptum. Þau voru í svo tvær gjörsamlega ólíkar áttir að athyglisvert var að sjá. Það er þó að mínu mati alveg fyrir neðan allar hellur að kenna Helga um umfang umfjöllunar málsins. Hann er ekki ritstjóri Kastljóss og tók engar ákvarðanir um umfang umfjöllunar. Þórhallur Gunnarsson, yfirmaður Sjónvarpsins, tók þær ákvarðanir.
Vissulega er umdeilt að birta slíkar upplýsingar svo skömmu fyrir kosningar. Get ekki betur séð en að þetta sé frétt. Það stendur eftir að þetta er umdeilt mál, mál sem vekur mikla athygli. Þetta er auðvitað vandræðalegt mál fyrir ráðherrann í umræðunni sem verður auðvitað harkaleg þegar á lokasprett kosningabaráttunnar. Bloggarar hafa verið iðnir að ráða í gáturnar í heildarmyndinni. Talað er um ástæður þess að tengdadóttir Jónínu fékk undanþáguna umdeildu og jafnvel rætt um hver hafi lekið þessu til fjölmiðla. Það eru margar spekúlasjónir í gangi.
Fyrst og fremst verður fylgst með hvort og þá hvaða áhrif málið hafi á stjórnmálaumræðuna næstu dagana. Skiljanlega fara framsóknarmenn, spunameistarar þeirra og frambjóðendur, til varnar fyrir ráðherrann. Hún er að berjast tvísýnni baráttu fyrir endurkjör og flokkurinn slær skjaldborg um hana í vondri stöðu. Það verður athyglisvert að sjá kannanir og dóm kjósenda í Reykjavík er á hólminn kemur eftir hálfan mánuð. Þá ræðst pólitísk framtíð Jónínu. Hún sækir sér umboð í kosningunum til borgarbúa og þar ráðast örlögin fyrst og fremst.
Það gerir það svosem ekki í rifrildi ráðherra í vanda og þáttastjórnanda sem er að vinna sína vinnu.