Halldór sendir neyðarkall frá Kaupmannahöfn

Halldór Ásgrímsson Í kvöld eru tíu mánuðir liðnir frá því að Halldór Ásgrímsson tilkynnti um pólitísk endalok sín. Svið endalokanna var fagurt sumarkvöld í kastljósi fjölmiðlanna fyrir framan embættisbústað forsætisráðuneytisins á hinum sögufrægu Þingvöllum. Þriggja áratuga stjórnmálaferli lauk með beiskju og mæddum hætti. Framsóknarflokkurinn var í rúst og væringar sliguðu stjórnmálaferil leiðtogans.

Halldór Ásgrímsson var aðalleikari í íslenskum stjórnmálum til fjölda ára - var einn af þeim sem mestu réðu um forystu þjóðarinnar á seinustu áratugum. Hann markaði söguleg pólitísk skref. Það hvernig fjaraði undan honum, í senn miskunnarlaust og kuldalega vægðarlaust, var mjög athyglisvert. Maðurinn sem hafði pálmann í höndunum eftir þingkosningarnar 2003 og gat krafist forsætis út á oddastöðu sína gat ekki nýtt tækifærin og stöðuna. Það varð ekki við neitt ráðið. Hann fjaraði út hratt og áberandi. Forætisráðherraferillinn varð sorgarsaga og ekki varð við neitt ráðið. Spunameistararnir klúðruðu meira að segja endalokunum er á hólminn kom. Halldór fór sneyptur af hinu pólitíska sviði.

Halldór Ásgrímsson er nú kominn í órafjarlægð frá stjórnmálatilverunni á Íslandi. Hann situr nú á friðarstóli í Kaupmannahöfn sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Hann horfir á hnignun Framsóknarflokksins og vandræði flokksins úr fjarlægð. Það blandast engum hugur um að Framsóknarflokkurinn rær lífróður í öllum kjördæmum. Hann á erfitt. Þrír lykilráðherrar flokksins eru á fallanda fæti á höfuðborgarsvæðinu og utanríkisráðherrann, einn nánasti pólitíski samstarfsmaður Halldórs Ásgrímssonar áratugum saman, er í erfiðri stöðu í Norðausturkjördæmi. Kannanir sýna hana eina að mælast inni á þingi í því sem forðum var helsta vígi Framsóknarflokksins. Staðan er dökk.

Þó að tíu mánuðir séu liðnir frá afsögn Halldórs Ásgrímssonar hefur ekkert breyst. Staða Framsóknarflokksins hefur í engu breyst. Hún hefur jafnvel versnað enn ef eitthvað er. Það er eitthvað stórlega að klikka hjá Framsóknarflokknum. Þjóðin finnur ekki samleið með honum lengur og hann á verulega undir högg að sækja; ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur í lykilhéruðum landsbyggðarinnar. Hnignun flokksins í Norðausturkjördæmi er lýsandi fyrir stöðuna. Jón Sigurðsson virðist ekki hafa tiltrú almennings. Það trúir því enginn að hann sé forsætisráðherraefni. Staða hans er ekki góð.

Halldór hefur nú sent úr neyðarkall frá Kaupmannahöfn, vissulega mjög athyglisvert neyðarkall. Hann reynir þar að tala flokkinn upp, talar um kosti hans og greinir gallana. Hann varar við VG. Það er ekki nýtt að heyra úr ranni Framsóknarflokksins. Áralöng beiskja Valgerðar Sverrisdóttur og Steingríms J. Sigfússonar í pólitískum væringum kom vel fram á kosningafundi héðan úr kjördæminu. Það er ekkert ástarhjal. Enda blasir við að VG hefur styrkst mjög einmitt á kostnað Framsóknarflokksins. Þetta veit reyndur höfðingi í Köben.

Í viðtalinu við Ríkisútvarpið í gær sagði Halldór að flokkurinn gjaldi þess að ósekju að hafa staðið að umdeildum málum eins og nýtingu auðlinda og breytingum á fjármálamarkaði sem þó hafi verið forsenda framfara á undanförnum árum. Enda keyrir Framsókn nú og mun gera næstu 40 dagana á slagorðum þess efnis að fólk eigi ekki að kjósa stoppstefnu í vor. Jón Sigurðsson talar mjög ákveðið gegn því að stoppa og hefur frasi hans í þeim efnum verið sett í allar auglýsingar og kynningar. Svona tala allir forystumenn um allt land.

Fari kosningar eins og kannanir sýna er Framsóknarflokkurinn ekki bógur til ríkisstjórnarþátttöku og heldur mæddur og bugaður í endurhæfingu. Svona staða yrði banabeygur fyrir Halldórsarminn svokallaða sem nú stjórnar í gegnum Samvinnumanninn trygga Jón Sigurðsson. Nái hann ekki kjöri á þing eða flokkurinn lendir utan stjórnar fer hann eflaust í gegnum allsherjar uppstokkun og breytingar. Þá verða sennilega kynslóðaskipti. Það verður eflaust mesta rótið innan hans í áratugi. Margir sem þar ríkja munu þá horfa annað.

Það blæs ekki byrlega fyrir Framsóknarflokknum. Honum hefur oft tekist að redda sér úr miklum krísum á innan við 40 dögum. Verða þessir 40 dagar þó erfiðari en aðrir í aðdraganda kosninga? Það verður fróðlegt að fá svarið við því. En neyðarkall gamla höfðingjans úr fjarlægri heimsborg sannfærir mann þó vel um það að róðurinn er þeim þyngri nú og erfiðari. Þeir eru allavega fáir stjórnmálaskýrendurnir sem setja peningana sína á að Framsókn nái kjörfylginu en eitthvað verður nú samt krafsað.

Það verður vel fylgst með því hvort að Framsóknarflokkurinn vaknar til lífsins bugaður eða hnarreistur að morgni 13. maí og hvort að formaður Framsóknarflokksins verður landlaus pólitískt utan þings eða tekst að redda sér inn í hlýjan stól valdanna eins og Björn Ingi Hrafnsson í Reykjavíkurborg vorið 2006. Þetta verða örlagaríkar kosningar fyrir Framsóknarflokkinn á hvorn veginn sem fer.

Samfylkingin föst í 20% fylgismælingum

Ágúst Ólafur og Ingibjörg Sólrún Það er mjög athyglisvert að sjá að Samfylkingin virðist vera orðin pikkföst í 20% fylgismælingum. Þar virðist ekkert ganga og stefnir í umtalsvert fylgistap þessa stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins. Hann mælist æ ofan í æ með um eða yfir 10% minna fylgi en í þingkosningunum 2003. Ef vikukannanir Gallups eru bornar saman sést nærri bein rauð lína í 20% marki. Það er varla gleði innan flokks sem vildi verða mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn með slíkt.

Fylgi Samfylkingarinnar virðist því vera að festast í nýjum og mun lægri mörkum en í síðustu tveim alþingiskosningum. Það er áfall fyrir flokk sem hefur viljað byggja sig upp til forystu í ríkisstjórn. Færu kosningar á þessa leið fengi Samfylkingin aðeins 13 þingsæti, einu fleiri en Framsóknarflokkurinn fékk í kosningunum 2003. Það hefði þótt saga til næsta bæjar í kosningunum fyrir fjórum árum þegar að Samfylkingin kynnti Ingibjörgu Sólrúnu sérstaklega sem forsætisráðherraefni að flokkurinn ætti eftir að enda í Framsóknarfylgismælingum.

Þessar mælingar og þessi staða eru mikið pólitískt áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Nú er búið að dubba Össur upp til fundaferðalaga um landið með konunni sem auðmýkti hann forðum, felldi hann af formannsstól Samfylkingarinnar eftir fimm ára starf við að byggja upp flokkinn. Kannski telur flokkurinn og forystan sig verða að fara vel með Össur og þetta sé einhver mildileg sátt millum einstaklinga. Má vera. Mun líklegra er þó að flokkurinn telji Össur vera það pólitískt mikilvægan að það verði að flagga honum. Það verði að sýna að Ingibjörg Sólrún og Össur geti unnið saman enn, þrátt fyrir mjög harðvítugt og kuldalegt uppgjör þeirra um forystu flokksins fyrir tveim árum.

Hvað er annars að gerast með varaformann Samfylkingarinnar? Af hverju er hann ekki á fundaferðum um landið með formanni flokksins? Það er greinilega mjög skrítin chemistría þarna á bakvið tjöldin. Þetta er einhver dulin saga um samskipti fólks þarna. Enda er það auðvitað gríðarlega áberandi að formaður og varaformaður flokks fari ekki svona ferðir saman um landið. Enda yrði lesið mjög sterkt í það færi Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, með einhverjum öðrum en Þorgerði Katrínu svona mikilvægan rúnt um landið skömmu fyrir kosningar.

Það verður fróðlegt að sjá stjórnmálaskýrendur greina pólitískan skell fyrir Samfylkinguna af þessum kalíber verði hann að veruleika. Þessi mæling er orðin of föst og áberandi til að henni verði neitað lengur. Fyrst féll Samfylkingin niður og svo festist hún í mörkunum. Þessi staða er vissulega mjög verðugt verkefni fyrir stjórnmálaskýrendur. Það verður líka aðalgreiningarefnið hvort að forystu flokks sem hrynur svona rosalega þrátt fyrir stjórnarandstöðuvist árum saman sé sætt.

mbl.is Ágúst Ólafur: Hætta á að atkvæði detti niður dauð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískur lífróður Valgerðar Sverrisdóttur

Valgerður Sverrisdóttir Ef marka má nýjustu könnun á fylgi flokkanna í Norðausturkjördæmi stefnir í að kosningabaráttan hér næstu vikurnar verði að mörgu leyti pólitískur lífróður Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra. Framsókn mælist aðeins með einn þingmann inni og hefur misst rúmlega 20% fylgi og þrjú þingsæti. Það sáu allr sem fylgdust með kjördæmaþætti Stöðvar 2 að könnunin var áfall fyrir Valgerði, enda hafði hún talið að fylgið væri nær 20% mörkunum en 10%.

Það stefnir í miklar breytingar fyrir Framsóknarflokkinn í vor, enda eru tveir þingmenn flokksins; Jón Kristjánsson og Dagný Jónsdóttir að draga sig í hlé. Jón er nú aldursforseti þingflokks Framsóknarflokksins eftir brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar og hefur verið á þingi frá árinu 1984 en Dagný hefur aðeins setið eitt kjörtímabil á þingi og hljóta að teljast stórtíðindi að hún hafi ákveðið að draga sig í hlé eftir svo skamma þingsetu, en hún var presenteruð sem framtíðarefni flokksins hér í síðustu kosningum, eins og kunnugt er.

Í síðustu kosningum vann Framsóknarflokkurinn afgerandi sigur; hlaut fjóra þingmenn og yfir 30% fylgi. Nú stefnir í afhroð, sé þessi könnun að segja alla söguna nú, sem ég efa ekki að hún geri. Það hlýtur að valda Valgerði vonbrigðum. Hún mun veikjast mjög í sessi fái flokkurinn skell af þessu tagi. Það má reyndar spyrja sig að því að hvort að þau sögulegu tímamót að enginn framsóknarmaður að austan eigi möguleika á þingsæti valdi þeim skráveifu þar. Austfirðingar í stjórnmálum misstu strax tvö þingsæti með vali þessa framboðslista í janúar. Síðast fengu Akureyringar í flokksstarfinu nokkurn skell við val á lista en nú varð sá kaleikurinn Austfirðinga. Það voru stór tíðindi.

Alla tíð frá stofnun Framsóknarflokksins hefur flokkurinn haft afgerandi og sterka leiðtoga fyrir austan. Allir þekkja Halldór Ásgrímsson eldri, Eystein, Vilhjálm frá Brekku, Tómas Árnason, Halldór Ásgrímsson yngri og Jón Kristjánsson. Dagný Jónsdóttir varð svo síðasta vonarstjarna þeirra og hún var mest allra kynnt í kosningunum 2003. Jafnskjótt og hún kom hvarf hún. Þessir menn mörkuðu sögu Framsóknarflokksins að fornu og nýju. Gleymum því ekki. Þeirra hlutur í sögu flokksins er og hefur alla tíð verið talinn afgerandi. Það voru merkilegustu tíðindi aðdraganda þessara kosninga að þeir fyrir austan áttu engan til að fylla skarðið.

Eysteinn Jónsson var pólitískur lærifaðir Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Hann mótaði hann manna mest. Sömu áhrif hafði hann á Tómas og Halldór Ásgrímsson hinn yngri. Eysteinn mótaði heila kynslóð framsóknarmanna fyrir austan. Hann hafði mikil áhrif. Það var enda bjargföst trú mín að þessi gamli baráttumaður og forni forystumaður austfirskra framsóknarmanna hafi snúið sér við í gröfinni vitandi að enginn framsóknarmaður yrði á þingi að austan kjörtímabilið 2007-2011. En framsóknarmenn nyrðra gátu glaðst. Framsóknarmenn á Akureyri eygja nú von á sínum fyrsta þingmanni síðan að Ingvar Gíslason sat á þingi í Höskuldi Þórhallssyni.

En það er ljóst að heilladísirna eru ekki í pólitísku ferðalaginu nú með Framsókn. En þar á greinilega að snúa vörn í sókn. Valgerður beit, eins og ávallt, vel frá sér í umræðunum í gærkvöldi. En mun henni takast að bæta stöðu flokksins. Flestir virðast hér ganga að því sem gefnu að þetta sé síðasta kosningabarátta Valgerðar og hún leggi nú allt í sölurnar fyrir gott gengi. Miklar breytingar blasa við með brotthvarfi beggja austfjarðaþingmanna Framsóknarflokksins og nokkuð önnur staða uppi nú en var fyrir fjórum árum með lista sem hafði skírskotun í allt kjördæmið.

Eins og staðan er nú eru framsóknarmenn varla að berjast upp á fleiri en tvö sæti nú, en væntanlega mun Birkir Jón, eini sitjandi þingmaður flokksins hér utan Valgerðar sem fer fram, ná kjöri. Það er mjög óvarlegt annað en telja að hann nái inn. Framsókn mun berjast fyrir því að ná inn þriðja manninum. Það yrði talið varnarsigur og myndi flokkast undir sigur í vondri stöðu að ná að komast yfir 20% og ná inn þrem. En ef marka má þessa könnun þarf margt að breytast til að það takist.

En væntanlega telst þetta pólitískur lífróður. Valgerður hefur áður tekið slaginn og átt bæði góða og slæma daga pólitískt. Innan við ár er liðið síðan að Valgerður náði þeim sögulegum áfanga að verða utanríkisráðherra fyrst kvenna. Nú er spurning hvort að sú vegtylla verði henni sigursæl eða pólitísk bölvun sökum mikillar fjarveru erlendis. Halldór Ásgrímsson háði sem utanríkisráðherra mikinn lífróður í síðustu kosningabaráttu sinni fyrir austan árið 1999. Valgerður ætlar ekki að láta það sama endurtaka sig nú.

En það er greinilega við ramman reip að draga fyrir hana og flokkinn. Þessi staða, ef af yrði, myndi verða túlkuð sem mikill persónulegur ósigur Valgerðar Sverrisdóttur og myndi verða upphafið að pólitískum endalokum hennar og í raun má segja að Framsóknarflokkurinn allur sé að fara í endurhæfingu verði skellur flokksins um allt land að veruleika. Þar verður barist þó til hinstu stundar. En það verður mikil þrautaganga.

Sterk staða Sjálfstæðisflokksins - stjórnin heldur

Könnun (5. apríl)Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig þónokkru fylgi, VG er að missa flugið hratt og ríkisstjórnin heldur velli ef marka má nýjustu könnun Gallups. Engu að síður er VG enn næststærsti flokkurinn þrátt fyrir fylgistap tvær vikukannanir í röð, mælist með 21,1% fylgi nú en hafði 24% fyrir viku og er nú innan við tveimur prósentustigum stærri en Samfylkingin, sem dalar milli vikna og mælist nú með 19,5% en hafði 19,9% fyrir viku.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 6,1% milli vikna. Hann mældist með 34,5% í síðustu viku en hefur nú 40,6% fylgi. Flokkurinn fengi fleiri alþingismenn í slíkri mælingu en hann hefur fengið kjörna áður í sögu sinni. Þetta er besta mæling Sjálfstæðisflokksins í könnunum Gallups í vel á annað ár. Íslandshreyfingin missir fylgi milli vikna. Hún mælist nú með 4,5% en hafði 5,2% í síðustu viku. Frjálslyndir bæta við sig 0,1%, er með 5,4% fylgi í stað 5,3%, og er því enn á mörkum þess að missa þingmenn sína fyrir borð. Framsóknarflokkurinn dalar enn og mælist með 8,1% fylgi í stað 8,3% fyrir viku.

Ríkisstjórnin heldur velli í könnuninni með 48,7% fylgi og 32 þingsæti. Athygli vekur sífellt hrap vinstri grænna, sem eru á hraðri leið niður í 20% mörkin. Engu að síður mælist VG með meira en tíu prósenta fylgisaukningu frá alþingiskosningunum 2003. Framsóknarflokkurinn er aðeins með 8% og hlýtur að vera skollin á gríðarleg örvænting þar, sérstaklega vegna könnunar Félagsvíndastofnunar hér í Norðausturkjördæmi. Þar voru þrír framsóknarmenn fyrir borð og aðeins Valgerður Sverrisdóttir mældist inni. Virðist Framsóknarflokkur eiga erfiða daga fyrir höndum og þeim þar dugar ekkert minna en kraftaverk til að eiga séns á að halda kjörfylginu. Sama gildir um Samfylkinguna.

Þessi mæling hlýtur að vera áfall fyrir Íslandshreyfinguna, sem síðast mældist með þolanlegt start, sem hefur minnkað hægt og hljótt greinilega. Þar er staðan orðin sú að enginn þingmaður mælist inni. Verður fróðlegt að sjá hvað ráð þau Margrét Sverrisdóttir og Ómar Ragnarsson hafa upp í erminni. Það að flokknum haldist ekki betur á fylginu flokkast sem áfall fyrir hópinn. Það virðist vera erfið barátta framundan þar að óbreyttu. Sama gildir um frjálslynda sem svamla um í gruggugu vatni og hafa ekkert grætt á innflytjendatillögum sínum, sem hafa drepið kaffibandalagið svokallaða.

Það er merkilegt að sjá könnun þar sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu á meðan vinstriblokkin dalar nokkuð. Það vekur athygli í ljósi þess að bæði Samfylking og VG dala ásamt Íslandshreyfingunni og Framsókn. Það tapa semsagt allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn og segja má að vinstrisveiflan til Samfylkingarinnar og VG sé nú stopp. Þetta er merkilegt landslag sem þarna sést. Fylgið er allavega á miklu flökti og mikil spenna framundan.

Á laugardag eru fimm vikur til alþingiskosninga. Kannanir sýna mjög breytta mynd frá síðustu kosningum. Tilkoma nýrra flokka hefur merkileg áhrif á heildarmyndina og greinilegt t.d. að nýtt hægri grænt framboð hefur helst tekið af því vinstri græna. Hratt fall VG niður listann er táknrænt en flokkurinn hefur tapað umtalsverðu fylgi á skömmum tíma, sex prósentustigum á tveim vikum. Hver veit nema að pælingin um að fleiri framboð hjálpi ríkisstjórninni en skaði stjórnarandstöðuflokkana fái byr undir báða vængi. 

Samfylking og VG hafa ekki nema 40% samtals í þessari könnun og eru sem blokk því jafnstór Sjalfstæðisflokknum. Þessi könnun er að því leyti nokkur tímamót. Ríkisstjórnin heldur þar velli í fyrsta skipti í nokkuð langan tíma. Það er því margt sem vekur mikla athygli nú. En það er enn langt til kosninga.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur með rúm 40% og VG með 21%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband