6.4.2007 | 15:51
Á föstudaginn langa

Ungum var mér kennt að meta skáldskap Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Amma mín var mjög hrifin af ljóðum hans og átti ljóðabækur hans. Erfði ég þær bækur og nýt þeirra nú. Hann var fremsta skáld landsins á 20. öld - að mínu mati tókst fáum íslenskum skáldum betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn.
Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Davíð var skáld tilfinninga, hann orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Hann var alþýðuskáld sem snerti við fólki. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar.
Eitt fallegasta kvæði Davíðs er án nokkurs vafa Á föstudaginn langa, sem margir kalla Ég kveiki á kertum mínum. Um er að ræða táknrænt og fallegt ljóð sem telst með því besta sem hann orti á löngum skáldferli sínum. Þetta ljóð snertir alltaf streng í hjartanu mínu. Það er við hæfi að líta á það á þessum helga degi.
Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.
Í gegnum móðu og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.
Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað.
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.
Ég bíð, uns birtir yfir
og bjarminn roðar tind.
Hvert barn, hvert ljóð, sem lifir,
skal lúta krossins mynd.
Hann var og verður kysstur.
Hann vermir kalda sál.
Þitt líf og kvalir, Kristur,
er krossins þögla mál.
Þú ert hinn góði gestur
og guð á meðal vor,
og sá er bróðir bestur,
sem blessar öll þín spor
og hvorki silfri safnar
né sverð í höndum ber,
en öllu illu hafnar
og aðeins fylgir þér.
Þú einn vilt alla styðja
og öllum sýna tryggð.
Þú einn vilt alla biðja
og öllum kenna dyggð.
Þú einn vilt alla hvíla
og öllum veita lið.
Þú einn vilt öllum skýla
og öllum gefa grið.
Að kofa og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.
Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.4.2007 | 14:26
Sorgleg endalok á föstudaginn langa
Það var frekar dapurlegt að heyra þá frétt fyrsta í morgunfréttum Ríkisútvarpsins að morgni föstudagsins langa að skemmtiferðarskip hafi sokkið á Eyjahafi og að franskra feðgina um borð sé saknað. Nær allir farþegarnir, 1600 talsins, voru fluttir í land en feðginin voru eftir og urðu örlög þeirra ljós um seinan.
Það er vissulega afrek að tekist hafi að bjarga svo mörgum farþegum farsællega en það að ekki hafi allir komist lífs varpað auðvitað skugga á björgunarafrekið. Það mætti þó kannski segja að mesta afrekið sé vissulega að ekki skyldu fleiri láta lífið þar. Það er hægt að líta misjafnlega á hvernig til tókst við björgunina.
Eftir tíu daga, 15. apríl nk, verða 95 ár liðin frá því að farþegaskipið Titanic fórst. Það var skipið sem aldrei átti að geta sokkið. Það sökk þó í jómfrúarferðinni sinni. Örlög skipsins hafa verið efniviður i margar bækur og frásagnir, sérstaklega í tveim ólíkum en óviðjafnanlegum kvikmyndum frá ólíkum tímaskeiðum. Um daginn horfði ég á gömlu myndina, frá árinu 1953.
Öllu frægari er þó kvikmyndin risavaxna frá árinu 1997. Hún var tæknivætt meistaraverk, stór og öflug, eins og skipið sem er sögusviðið nær alla myndina, frá glæsilegri brottförinni í Southampton til endalokanna miklu sem er færð í glæsilegan en þó svo sorglegan búning. Það atriði kemur sterklega til greina sem sorglegasta og um leið svipmesta augnablik kvikmyndasögunnar.
Titanic varð stærsta kvikmynd 20. aldarinnar, tilnefnd til 14 óskarsverðlauna og hlaut 11, hið mesta í sögu Óskarsverðlaunanna. Lykillag myndarinnar er hér í spilaranum, eitt stórbrotnasta kvikmyndalag sögunnar að mínu mati. Þetta er mynd sem er hollt að sjá reglulega. Kannski maður líti á nokkur brot af henni á eftir.
![]() |
Tveggja farþega af sokknu farþegaskipi saknað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.4.2007 | 02:20
Sjokkerandi uppgötvun

Þetta mál minnir mjög á hina sjokkerandi sögu af Teena Brandon, sem lifði sem maður undir nafninu Brandon Teena og átti kærustur og taldi sjálfum sér og öðrum trú um að líf hans/hennar væri líf karlmanns. Teenu var nauðgað og síðar myrt í desember 1993 þegar að upp komst um bakgrunn karaktersins, enda var samkynhneigð ekki viðurkennd í Nebraska, þar sem þessir atburðir áttu sér stað og olli þessi uppljóstrun sviptingum í smábæ á borð við þetta. Sakamálið sem fylgdi í kjölfarið varð mjög mjög áberandi í Bandaríkjunum og um allan heim og þótti mjög sorglegt.
Þessi ógleymanlega saga, sem var í senn bæði sorgleg og ógleymanleg, var sögð í kvikmyndinni Boys Don´t Cry árið 1999. Í myndinni átti leikkonan Hilary Swank stjörnuleik í hlutverki Teenu/Brandons og hlaut óskarsverðlaunin fyrir stórfenglega túlkun sína. Þessi frammistaða Swank er einn eftirminnilegasti leiksigur i sögu bandarískra kvikmynda síðustu áratugina. Það er svo sannarlega upplifun að sjá þá mynd, þó vissulega sé hún ekkert skemmtiefni.
Datt helst þetta mál í hug þegar að ég heyrði, enda er vissulega með ólíkindum að fólk geti villt á sér heimildir svo lengi og jafnvel reynt að þykjast vera af öðru kyni og vera jafnvel í samböndum af þessu tagi. En þetta er svo sannarlega frétt sem vekur athygli, það þarf ekki að kvarta yfir því.
![]() |
Kærastinn var í raun þrítug kona |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)