8.4.2007 | 23:26
Kvikmyndapælingar á páskadegi

Joaquin Phoenix verður hinn goðsagnakenndi sveitasöngvari með glans og túlkar hann með bravúr og syngur meira að segja lögin hans með fítonskrafti. Reese Witherspoon brillerar með túlkun sinni á June, sem er hiklaust hennar besta leikframmistaða á ferlinum. Reese sýndi á sér nýja hlið í leik í myndinni og hlaut óskarinn fyrir túlkun sína. Þau eru sterkt par í myndinni og hún er sannkölluð upplifun fyrir kvikmyndaáhugafólk og þá sem meta mikils tónlist Cash. Flott mynd.
Eftir hádegið í dag horfði ég hinsvegar á Ben-Hur. Það var orðið alltof langt síðan að ég hef sett hana í tækið. Þetta er löng og vönduð mynd, sem þarf að horfa á í rólegheitum og njóta til fulls. Það er ekki ofsögum sagt að Ben-Hur sé ein sterkasta kvikmynd sögunnar, en hún hlaut ellefu óskarsverðlaun og hefur alla tíð verið á stalli ef svo má segja. Það er með klassamynd á borð við þessa að maður áttar sig alltaf á einhverju nýja við hvert áhorf. Þessi mynd er enn risastór, þó hún sé að verða hálfrar aldar gömul. Sannkallaður eðall!
Horfði svo á kvikmyndina Arthur með Dudley Moore, Lizu Minnelli og Sir John Gielgud. Ólík mynd, en samt alveg yndisleg. Þetta er auðvitað mjög öflug gamanmynd, en þar er sögð sagan af auðjöfrinum og glaumgosanum Arthur Bach sem lendir í þeirri vondu aðstöðu að þurfa að velja á milli ástarinnar og peninganna. Moore átti túlkun ferilsins í hlutverki Arthurs og hlaut sína einu tilnefningu til óskarsverðlaunanna fyrir. Shakespeare-leikarinn fágaði Gielgud fékk óskarinn fyrir að leika þjóninn kaldhæðna Hobson og sló eftirminnilega í gegn. Það er kaldhæðið að hans er nú frekar minnst fyrir þessa rullu en stóru sviðsverkin sín.
Síðast en ekki síst horfði ég á mynd sem mér hefur nú alltaf verið nokkuð kær; Foul Play með Goldie Hawn, Chevy Chase og Dudley Moore. Foul Play er alltaf viðeigandi vilji maður hlæja og hafa gaman af lífinu. Þar er sögð saga Gloriu sem lendir í ótrúlegum aðstæðum fyrir mikla tilviljun og endar með morðingja á eftir sér um San Francisco. Þessi víðfræga gamanmynd er að mörgu leyti stæling á mörgum bestu töktum meistara Alfred Hitchcock með flottum dassa af húmor. Lag Barry Manilow í myndinni sló í gegn og sama má sama um leik aðalleikaranna þó sennilega hafi Dudley Moore verið senuþjófur myndarinnar. Ein besta mynd ferils Goldie Hawn.
Í tónlistarspilaranum hér er að finna þrjú lög með Johnny Cash; Ring of fire, On the Evening Train og We´ll Meet Again. Fyrstnefnda lagið er eitt af vinsælustu lögum ferils hans en hin eru af hinum eftirminnilegu plötum undir lok ferilsins með síðustu hljóðritununum, árin 2002 og 2003. On the Evening Train er yndislegt lag, fallegur texti og túlkunin er næm. We´ll Meet Again er þekktast í túlkun Veru Lynn frá stríðsárunum og hljómaði t.d. í kvikmyndinni Dr. Strangelove. Að lokum er þar einn frægasti dúett Johnny og June; Jackson, algjört klassalag. Þarna er frægasta útgáfa þess, úr tónleikunum frægu úr Folsom-fangelsinu.
Í spilaranum er ennfremur að finna hið eftirminnilega lag Arthur´s Theme með Christopher Cross úr kvikmyndinni Arthur frá 1981. Það hlaut óskarinn sem besta kvikmyndalagið á sínum tíma og telst með bestu kvikmyndalögum undir lok 20. aldarinnar, víðfrægt lag eftir Burt Bacharach. Alltaf jafn gott.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.4.2007 | 22:43
Gleðilega páska

Þetta hefur verið alveg virkilega góður dagur hjá mér. Það fylgir dögum á borð við þennan að fara í messu, borða góðan mat og njóta þess besta með fínni afslöppun.
Það var ágætt að líta í páskaeggið sitt. Það kemur misjafnlega góð speki úr þeim, en að þessu sinni sást þar málshátturinn; Ekki er allt gull sem glóir.
Horfði á þrjár magnaðar kvikmyndir eftir hádegið og framundir kvöldfréttatíma og horfði á fína sjónvarpsdagskrá í kvöld. Þeir stóðu sig betur í þeim pakkanum á Stöð 2 að mínu mati.
En í heildina mjög góður dagur. Vona að þið hafið öll haft það gott og rólegt í dag. Efast þó um það að allir hafi verið rólegir ef marka má sum kommentin í umræðunni um Ingibjörgu Sólrúnu hér neðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.4.2007 | 01:29
Pólitískt áfall Ingibjargar Sólrúnar

Það er erfiður mánuður framundan fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Þetta er tíminn sem ræður framtíð hennar í stjórnmálum. Það blæs ekki byrlega. Það hefur reyndar verið ljóst mánuðum saman að það hefði syrt í álinn fyrir hana, en staða flokksins og hennar virðist mjög slæm og það er aðeins mánuður til kosninga. Rúmir 30 dagar eru stuttur tími, en gæti verið lengi að líða fyrir einhverja pólitískt. Þetta er eiginlega make or break tími fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, ef svo má segja. Þetta verður örlagaríkur tími. Annaðhvort mun hún og flokkur hennar floppa stórt eða bjarga sér með einhverju sem helst mætti kalla kraftaverk.
Það er ekki annað í stöðunni eins og viðrar núna. Þessi könnun sýnir enda að landsmenn hafa misst traustið á Ingibjörgu Sólrúnu. Á þessum tímapunkti kosningabaráttunnar fyrir fjórum árum hafði hún sterka stöðu meðal kvenna og var vinsælli en Davíð Oddsson í könnunum Gallups. Það er kaldhæðnislegt að bera stöðuna þá saman við það sem gerist nú. Það að Ómar Ragnarsson sé vinsælli meðal kvenna segir söguna mjög sterkt. Það er eflaust mesta áfallið fyrir Ingibjörgu Sólrúnu að hafa konurnar ekki með sér í baráttunni. Að því leyti má segja að ógæfa hennar felist fyrst og fremst. Vinstrikonur hafa færst yfir til vinstri grænna. Það virðast vera stóru umskiptin. Það kristallast þarna.
Það hefðu þótt stórtíðindi í kosningabaráttunni 2003 hefði einhverjum dottið í hug að missa út úr sér að fleiri konur myndu treysta Steingrími J. Sigfússyni til landsmálaforystu en Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem þá var forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Þá gekk Ingibjörgu Sólrúnu vel og margir töldu framan af baráttunni að hún yrði forsætisráðherra. Samfylkingin mældist meira að segja stærri en Sjálfstæðisflokkurinn hjá Gallup í mars og apríl 2003. Svo snerist straumurinn örlítið. Samfylkingin bætti við sig fylgi en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mistókst naumlega að komast inn á þing. Segja má að stjórnmálaferill hennar hafi verið ein sorgarsaga frá kosninganóttinni 2003.
Það hefði þótt kaldhæðnislegt fyrir ári í mestu þrengingum Halldórs Ásgrímssonar að einhver hefði líkt Ingibjörgu Sólrúnu við hann. En að mörgu leyti er svo komið að tekið er að fjara undan Ingibjörgu Sólrúnu, jafnvel innan eigin raða, með sama hætti og var tilfellið með Halldór. Það þarf ekki klókan stjórnmálaskýranda til að lýsa þessari stöðu Ingibjargar Sólrúnar sem felst í þessari skelfilegu mælingu fyrir hana sem skelfilegri. Hún virðist föst með flokkinn í lágum fylgismörkum og sjálf hefur hún ekki tiltrú landsmanna. Það að hún sé aðeins vinsælli en Jón Sigurðsson og Guðjón Arnar hlýtur að skelfa hana og flokksmenn hennar.
Eflaust munu Samfylkingarmenn standa með formanni sínum næstu 30 dagana, í gegnum það sem eftir stendur af kosningabaráttunni. Það verður reynt á þeim bænum að snúa vörn í sókn. En þessi staða er fjarri því að vera álitleg fyrir nokkurn stjórnmálaflokk og leiðtoga hans. Þetta er lamandi staða og mjög vond, enda má ekki gleyma því að þetta er stjórnmálamaður sem eitt sinn var talin vonarstjarna vinstrimanna og fékk tækifærið sem formaður flokks síns út á þann sess. Fari kosningarnar svona fyrir flokknum mun það verða mjög áberandi fylgistap, það verður metið pólitískt áfall.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig að andrúmsloftið verður pólitískt fyrir Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eftir fimm vikur þegar að lokatölur í þessum alþingiskosninum liggur fyrir, dómur landsmanna verður ljós. Verði hann eitthvað í líkingu við skoðanakannanir og dómur landsmanna yfir leiðtoganum verði í einhverjum takti við það sem könnun Gallups segir hljóta allra augu að beinast að því hvernig fari fyrir forystu flokksins.
Það eru örlagaríkar vikur framundan fyrir flokk og formann. Það munu allir stjórnmálaskýrendur fylgjast vel með því hvort að stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins verði fyrir skell af þessu tagi. Kannski verður það stóra spurningamerki kosningabaráttunnar hvort að sá flokkur sem verði fyrir mestum skakkaföllum verði stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Mikil verða nú tíðindin fari það svo.