Flokksleiðtogar mætast - lykilbaráttan hefst

Leiðtogar Lykilátök kosningabaráttunnar vegna alþingiskosninganna eftir 33 daga hófust í kvöld með umræðum leiðtoga stjórnmálaflokkanna í Ríkissjónvarpinu. Það er að myndast hefð fyrir því að lykilátök í íslenskri kosningabaráttu sé miðuð við rétt rúmlega mánuð, tímann eftir páskahátíðina fram að kjördegi. Það má búast við hressilegum pólitískum mánuði og drjúgum átökum milli flokka og frambjóðenda.

Umræðurnar í kvöld voru fyrstu alvöru umræðurnar milli leiðtoga flokkanna fyrir þessar kosningar. Frá síðustu þingkosningum árið 2003 hafa forsætisráðherrarnir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hætt þátttöku í stjórnmálum, en báðir voru lykilmenn í íslenskum stjórnmálum og forystumenn flokka sinna í rúman áratug. Össur Skarphéðinsson var felldur af formannsstóli Samfylkingarinnar á kjörtímabilinu en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var talsmaður Samfylkingarinnar í kosningunum 2003, sett framfyrir Össur sem formann. Í síðustu kosningum bauð Nýtt afl fram á landsvísu en fékk aðeins 1% atkvæða með Guðmund G. Þórarinsson í brúnni. Sá flokkur er horfinn af sjónarsviðinu nú.

Samkvæmt öllum skoðanakönnunum síðustu mánaða er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur. Undanfarnar vikur hafa VG styrkst í sessi sem annar stærsti flokkur landsins og hefur haft vistaskipti í mælingum á við Samfylkinguna. Samkvæmt öllum skoðanakönnunum eru Samfylkingin og Framsóknarflokkur að mælast mun lægri en í kjörfylginu 2003. Báðir flokkar mælast t.d. í nýjustu könnun Gallups yfir 10% undir kjörfylginu þá. Þá hlutu þessir tveir flokkar þingmeirihluta, 32 þingsæti, en mælast með 18 samtals í fyrrnefndri könnun. Það stefnir því í miklar breytingar. Nýr flokkur, Íslandshreyfingin, er kominn til sögunnar og óvíst hvaðan hann sækir afl sitt, þó kannanir sýni að hann taki af VG.

Í þætti kvöldsins ræddu formenn flokkanna; Geir H. Haarde, Steingrímur J. Sigfússon, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Sigurðsson, Guðjón Arnar Kristjánsson og Ómar Ragnarsson, lykilmál baráttunnar á þessum tímapunkti. Umræðan var mjög fjölbreytt og formennirnir tókust mismikið á í þessum efnum. Það er margt breytt í stjórnmálunum frá síðustu kosningum. Davíð Oddsson var mjög áberandi stjórnmálamaður og gnæfði mikið yfir umræðunni, jafnvel í sínum síðustu kosningum er mjög var að honum sótt. Fyrir fólk minnar kynslóðar og hina yngri er athyglisvert að fylgjast með kosningabaráttu án hans og ennfremur Halldórs Ásgrímssonar vissulega.

Geir H. Haarde var greinilega í hlutverki landshöfðingjans í þessum umræðum. Hann hefur setið á þingi í tvo áratugi og er sá frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í efstu sætum sem lengsta þingreynslu hefur að baki. Hann ætlar sér greinilega að vera trausti forystumaðurinn, maður reynslu og stöðugleika. Geir varð eftirmaður Davíðs Oddssonar með sterkri kosningu á landsfundi haustið 2005 og ekki urðu nein átök innan flokksins um kjör hans. Geir virðist njóta stuðnings almennings skv. könnunum og mun keyra á þeirri stöðu sinni að vera vinsælasti stjórnmálamaður landsins. Hann er líka nokkuð ólíkur Davíð og kemur með nýjar hliðar í pólitíkina.

Steingrímur J. Sigfússon hefur styrkst mjög frá þingkosningunum 2003. Þá veiktist VG og missti eitt þingsæti frá kosningunum 1999, þeim fyrstu í sögu flokksins. Í könnunum undanfarinna vikna hefur VG mælst með allt upp í 17 þingsæti og stefnir í að hann verði að óbreyttu hástökkvari kosninganna. Steingrímur J. hefur mesta þingreynslu flokksleiðtoganna og hefur setið á þingi frá árinu 1983. Aðeins Jóhanna Sigurðardóttir mun eiga meiri þingreynslu að baki eftir kosningar. Hann er mjög sjóaður stjórnmálamaður og virkar öryggið uppmálað og hefur greinilega styrkst mjög frá síðustu kosningum. Hann kom fram af miklu öryggi altént í umræðum kvöldsins.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stendur illa samkvæmt könnunum. Óvinsældir hennar hafa aukist mjög frá síðustu kosningum, er hún var með vinsældir á pari við Davíð Oddsson. Auk þess virðist Samfylkingin vera föst í 20% fylgismörkum, um eða 10% undir kjörfylginu 2003. Slíkt yrði mikið áfall fyrir flokk sem hefur verið í forystu stjórnarandstöðunnar. Ingibjörg Sólrún felldi sitjandi formann árið 2005 með loforðum um að Samfylkingin yrði mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn undir hennar stjórn. Það hefur ekki enn tekist. Ingibjörg Sólrún átti misjafna spretti í þættinum, var þó betri í seinni hlutanum en þeim fyrri. Henni gekk mjög illa að svara fyrir vont gengi í könnunum.

Jón Sigurðsson varð formaður Framsóknarflokksins í ágúst 2006 og hafði orðið ráðherra, verandi utanþings, við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar. Hann hafði enga stjórnmálareynslu að baki fyrir það og varð flokksleiðtogi mörgum að óvörum og er enn að vinna sig upp. Eins og fram kom í skrifum mínum hér fyrr í kvöld verður eitt stærsta spurningamerki kosningabaráttunnar hvort að honum tekst að snúa vörn í sókn fyrir flokkinn, en kjörtímabilið hefur verið ein sorgarsaga fyrir hann og hápunktur þess var vandræðaleg afögn Halldórs. Jón hefur styrkst að mörgu leyti undanfarnar vikur en á enn mjög langt í land, eins og sást af gloppóttri frammistöðu hans í þættinum.

Guðjón Arnar Kristjánsson leiðir flokk sem klofnaði með áberandi hætti í aðdraganda þessara kosninga er stofnandi hans og stuðningsmannahópur hans hélt í aðrar áttir. Innflytjendaumræðan hefur virkað helsta kosningamál þessa flokks undanfarnar vikur og virðist örvæntingarkosningamál flokks í miklum vanda. Eins og vel sást í þessum þætti getur enginn flokkur skrifað upp á tal þeirra og stefnuáherslur í innflytjendamálum. Það virðist því vera sem að hann sé innilokaður þrátt fyrir að enginn vilji gefa út dánarvottorðið í raun nú og heldur í vonina. Guðjón Arnar, sem setið hefur á þingi frá 1999, virkar sem maður á línunni í málinu en virðist vera orðinn gísl annarra afla.

Ómar Ragnarsson er þekktur í hugum landsmanna sem skemmtikraftur, fréttamaður og þúsundþjalasmiður. Hann varð stjórnmálamaður í haust mörgum að óvörum og er nú á 67. aldursári orðinn flokksleiðtogi í fremstu víglínu átakanna. Hann hefur enga stjórnmálareynslu að baki og virðist því hafa frírra spil en ella að tala hreint út og þarf ekki um leið að verja fyrri stefnu eða tal. Það blasir við öllum að umhverfismálin verða leiðarstef hinnar nýju Íslandshreyfingar og um leið ljóst að markmið og stefna úr þeirri áttinni er skýrt. Ómar nýtur þess að vera vanur fjölmiðlamaður sem á auðvelt með að svara fyrir sig. Það ræðst brátt hvort hann hafi sterkan grunn í pólitík.

Þessi þáttur var í heildina mjög áhugaverður og vandaður. Allir leiðtogarnir virðast mjög fókuseraðir í baráttunni og koma vel undirbúnir til leiks. Allir vilja þeir bæta við sig fylgi frá nýjustu könnunum og sumir þeirra munu verða fyrir vonbrigðum, ef marka má kannanir munu tveir þeirra verða fyrir miklu fylgistapi og spurt þá hvað verði um leiðtoga þeirra flokka. Það er barist því bæði fyrir pólitískri framtíð jafnt sem og atkvæðum. Stjórnendur þáttarins héldu mjög vel utan um debattinn.

En kosningabaráttan er nú hafin af fullum þunga. Það verður mikið um auglýsingar, framboðsfundi, frambjóðendur á ferð og flugi um samfélagið, skoðanakannanir og litríkar stjórnmálapælingar. Ég hyggst fjalla um kosningabaráttuna af krafti á lokaspretti hennar, rétt eins og í allan vetur. Það verður um margt að skrifa og pæla á þessum tíma.

Ég held að þetta verði mjög öflug og beitt kosningabarátta. Það stefnir í jafnar kosningar og spennandi úrslit, jafnvel mikla tvísýnu. Það verður áhugavert að fylgjast með þessum kosningum - enginn vafi á því.

Duga 30 dagar fyrir Jón Sigurðsson?

Jón Sigurðsson Það blæs ekki byrlega fyrir Framsóknarflokknum og Jóni Sigurðssyni, formanni hans, í skoðanakönnunum. Flokkurinn hefur átt erfitt meginhluta þessa kjörtímabils og tíu mánuðir eru liðnir frá afsögn Halldórs Ásgrímssonar, formanns flokksins í tólf ár, af forsætisráðherrastóli. Þá var staða flokksins vond og hún hefur lítið skánað. Pólitísk endalok Halldórs og formannsskiptin með krýningu Jóns Sigurðssonar hafa ekki markað flokknum nýjan grunn.

Þegar að 33 dagar eru til alþingiskosninga velta margir fyrir sér stöðu Framsóknarflokksins. Þessi forni flokkur valda og áhrifa er í dimmum dal þessar vikurnar og stefnir í sögulegt afhroð. Það virðist að duga eða drepast fyrir Jón Sigurðsson í þeirri stöðu sem uppi er. Hann er ekki ofarlega í mælingum á stjórnmálamönnum, mælist fimmtur í röðinni á eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og hefur ekki enn mælst inni í Reykjavík norður, eftir að ákveðið var að hann myndi leiða framboðslista Framsóknarflokksins þar. Staðan er svo sannarlega ekki glæsileg þar er haldið er inn í lokasprett kosningabaráttunnar.

Mörgum fannst valið á Jóni sem formanni mjög djarft. Hann hafði við formannskjör sitt aðeins verið virkur þátttakandi í stjórnmálum í tvo mánuði og var utanþingsráðherra, einn fárra í íslenskri stjórnmálasögu. Það var vitað strax í fyrrasumar að erfitt verkefni væri framundan fyrir Jón. Rúmu hálfu ári síðar virkar það enn stærra en áður. Flokkurinn mælist í skelfilegri stöðu, hefur misst þingmenn skv. mælingum i flestum kjördæmum og mikið fylgistap blasir við. Framsóknarflokkurinn hefur í 90 ára sögu sinni aldrei staðið verr að vígi og fyrri krísur flokksins virðast blikna í samanburði við það sem nú blasir við.

Fyrir viku var Stöð 2 með ítarlegt viðtal við Jón, svokallað leiðtogaviðtal. Þar kom að mörgu leyti fram kostir og gallar Jóns sem stjórnmálamanns. Hann virkar fjölfróður og vandaður maður en honum virðist ekki gefið að geisla mikið út fyrir flokkinn sinn. Það er mín tilfinning að hann passi vel í stórum sal flytjandi fyrirlestra en ekki mjög sterkur í samskiptum maður á mann. Margir nefna svona stjórnmálamenn Nixon-esque. Það er að geta fúnkerað vel á fjöldafundum en ekki sterka í mannlegum samskiptum. Að mörgu leyti virðist honum hafa tekist að byggja sinn kjarna vel en ekki tekist að efla hann og stækka.

Það mætti kalla baráttu næstu vikna sannkallaðan lífróður fyrir Framsóknarflokkinn. Það mun allt standa og falla fyrir Framsókn á því hvernig Jóni gengur í raun. Hann sem leiðtogi í kosningabaráttu verður andlit flokksins. Það boðar vond tíðindi fyrir Framsóknarflokkinn að hann sé ekki eftirminnilegur kjósendum er spurt er út í vinsældir þeirra. Af mörgum alvarlegum tíðindum fyrir Framsóknarflokkinn eru þetta jafnvel þau alvarlegustu. Flokkar verða aldrei stórir eða valdamiklir njóti leiðtogi þeirra ekki stuðnings. Í þessum efnum virðist Jón eiga enn langt í land.

Jón og Siv Það er ljóst að Jón Sigurðsson hefur mjög takmarkaðan tíma úr þessu til að snúa vörn í sókn; fyrir bæði sig og Framsóknarflokkinn. Næstu 30 dagar munu ráða úrslitum fyrir flokk eða formann. Allar kannanir núna sýna eyðimerkurgöngu fyrir flokkinn. Hann fer ekki í ríkisstjórn með 10% fylgi eða þaðan af minna. Í raun er þetta mikil barátta sem blasir við og ljóst að Jón leikur lykilhlutverk í því hver mæling flokksins verður.

Hann var álitinn bjargvættur Framsóknarflokksins til að taka við er Halldór hætti. Hann hlaut mikinn stuðning til verka er Halldór hætti og nýtur hans því miður ekki neitt út fyrir flokkinn. Jón fékk tækifærið. Nú ræðst fljótt hvernig fer fyrir honum og flokknum - hvort hann verði sá sterki leiðtogi sem honum var ætlað að vera. Landsmenn fella þann dóm yfir honum og flokknum þann 12. maí.

Nú er komið að örlagastundu fyrir Jón - baráttan framundan verður örlagarík fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins og ekki síður Jón sjálfan. Það er enda vandséð að hann verði áfram formaður flokksins fái flokkurinn skell af þeim skala sem hann mælist með og hann jafnvel nái ekki inn á þing í höfuðborginni. Verður hann sterkur leiðtogi út árið eða lengur eða biðleikur? Stór spurning. 

Þetta verður lífróður fyrir gamalgróinn flokk og flokksformann með blæ nýliða í stjórnmálum - með þessum lífróðri fylgjast allir stjórnmálaáhugamenn. En stóra spurningin fyrir Framsóknarflokkinn nú virðist vera: duga 30 dagar fyrir Jón Sigurðsson? Svarið fæst ekki að fullu fram fyrr en síðla kvölds 12. maí en mun afhjúpast að vissu marki þó stig af stigi dag hvern þangað til.

Hver er Jón Sigurðsson?
pistill SFS - 20. ágúst 2006

Ekki er nú öll vitleysan eins.....

Það var athyglisvert, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið, að lesa grein stjórnmálafræðiprófessorsins sem leggur til, með háðsádeilutóni, að Bandaríkjaher geri frekar sprengjuárás á Ísland en Íran. Mér skilst að þetta sé mikils metinn stjórnmálafræðiprófessor við Princetonháskóla í New Jersey, þannig að seint verður þetta talinn vitleysingur, ef svo má að orði komast. Þetta er greinilega mikil háðsádeila, sem eflaust stuðar mjög Íslendinga að einhverju marki.

Sjálfur hef ég verið algjörlega andsnúinn innrás í Íran. Það er alveg lágmark að bandamenn komi skikki á stöðu mála í Írak áður en þeir svo mikið sem íhugi að fara inn í önnur lönd. Það er alveg ljóst að staðan í Írak er mjög slæm og fjarri því að lykilmarkmið þess sem gera átti fyrir fjórum árum hafi tekist. Það er alveg fjarstæðukennt að horfa annað á meðan að staðan er með þessum hætti að mínu mati.

Það er víti til varnaðar og mjög afleitt mál telji t.d. Bandaríkjamenn rétt að fara inn í önnur lönd með mörg ókláruð verkefni í gangi og erfiða stöðu sem gnæfir enn í fréttum. Horfði á þáttinn Inside Iraq á Sky News nú eftir hádegið. Það var fræðandi þáttur og augljóst sjónarhorn í þá átt að staða mála í Írak er skelfileg og fer fjarri því batnandi.

mbl.is Nær að sprengja Ísland en Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg Sólrún í vanda - hvað hefur klikkað?

ISGUm fátt hefur verið meira rætt um páskahelgina en slæma útkomu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í könnun Gallups á stöðu stjórnmálaleiðtoganna. Þar mældist hún mjög illa meðal kvenna og varð fjórða í röð þeirra sem landsmenn treysta best. Ingibjörg Sólrún er sá flokksleiðtogi sem flestir voru neikvæðir gagnvart, eða meira en helmingur aðspurðra.

Ég skrifaði hér í gærkvöldi grein um þessa útkomu, sem er auðvitað rosalega vond fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, sem í aðdraganda þingkosninganna 2003 var vinsælasti stjórnmálamaður landsins, jafnan á pari við Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, og stundum vinsælli. Hún er nú heillum horfin með arfaslaka stöðu, sem virðist umfram allt kristalla vont gengi Samfylkingarinnar. Það eru enda gömul sannindi að óvinsæll flokksleiðtogi eins og Ingibjörg Sólrún er nú orðin skv. skoðanakönnunum dregur niður flokk sinn er á heildina er litið. Það þarf enga snillinga til að sjá það.

Það er vægt til orða tekið að Samfylkingarmenn sem lesa vefinn hafi verið ósáttir við skrif mín og komið með allskonar undarleg skrif, misjafnlega kostuleg þó. Það er auðvitað alveg ljóst að það sjá allir stjórnmálaskýrendur hvernig landið liggur. Vond mæling Ingibjargar Sólrúnar kemur ofan á allar fyrri kannanir sem sýna vel vonda stöðu Samfylkingarinnar, sem berst í bökkum um allt land og virðist hafa misst um eða yfir 10% af kjörfylginu 2003, sem eru auðvitað mikil tíðindi miðað við að um er að ræða stærsta stjórnarandstöðuaflið. Ingibjörg Sólrún hefur enda aldrei verið ráðherra og ekki gegnt valdamiklu pólitísku embætti í yfir fjögur ár, en hún var borgarstjóri í Reykjavík 1994-2003.

Samfylkingin hefur aldrei setið í ríkisstjórn, svo að ekki er hægt að tala um að þetta fylgistap sé vegna þess að flokkurinn sé óvinsæll vegna einhverra verka sinna á þeim vettvangi. Það að Samfylkingin sé að mælast með svipað fylgistap eða jafnvel meira en Framsóknarflokkurinn, sem hefur verið í ríkisstjórn í tólf ár og leitt ýmis erfið mál, eru stórtíðindi. Það væri hægt að skilja kostuleg ummæli stuðningsmanna Samfylkingarinnar og Ingibjargar Sólrúnar og útúrsnúninga þeirra ef aðeins karlmenn væru að snúa við henni bakinu og kvennafylgið væri sterkt á móti, en það er ekki heldur. Það er enda mesta áfall Ingibjargar Sólrúnar.

Ég skil vel að þessi könnun sé áfall fyrir Samfylkinguna, það er það vissulega. Vonbrigði þeirra eru mikil og það er erfitt að horfast í augu við þessa stöðu. Því verður þó ekkert neitað að staðan er svört, það væri metið sem algjör afneitun ef einhver stjórnmálaskýrandi liti framhjá myndinni sem kannanir nú draga upp. Ingibjörgu Sólrúnu hefur alla tíð verið lýst sem helstu vonarstjörnu vinstrimanna og hún varð formaður Samfylkingarinnar út á stöðu sína sem farsæll leiðtogi í Reykjavík í tæpan áratug og myndin var dregin upp að hún gæti lyft Samfylkingunni upp til hæstu hæða, gert hann að einhverju stóru og miklu. Þær vonir hafa brugðist.

Það varð hér athyglisverð umræða um skrif mín um stöðu Ingibjargar Sólrúnar. Margir höfðu skoðun á því sem ég setti fram. Ég stend við þau skrif, enda tel ég þau vera að lýsa myndinni eins og hún er. Það er öllum ljóst að konurnar eru að fara yfir til vinstri grænna og það hafa orðið umskipti að því leyti að margir hafa ekki trú á stjórnmálaforystu Ingibjargar Sólrúnar. Það þýðir allavega ekki fyrir stuðningsmenn Samfylkingarinnar að lýsa könnun Gallups sem einhverju rugli og reyna að lita heiminn eftir hugsjónum Pollýönnu. Staðan er mjög einföld og þeir væru ekki veglegir stjórnmálaskýrendurnir sem myndu ekki meta stöðuna svona.

Það stefnir í spennandi kosningar. Þegar að rétt rúmir 30 dagar eru til kosninga er Ingibjörg Sólrún í miklum vanda. Það að hún hafi misst fótfestuna meðal kvenna eru dökk tíðindi fyrir hana, það eru líka dökk tíðindi fyrir flokkinn sem hún leiðir. Þessir 30 dagar ráða pólitískri framtíð hennar, það blasir við öllum. Hún á erfitt verkefni framundan, enda er erfitt að vera leiðtogi stjórnarandstöðuflokks sem fer fram gegn tólf ára gamalli ríkisstjórn og vera að mælast pikkfastir tíu prósentustigum undir kjörfylginu æ ofan í æ og með leiðtoga sem mælist ekki með tiltrú landsmanna. Það er mikill örvæntingartúr sem er framundan hjá flokki í slíkri stöðu.

Þannig er staða Samfylkingarinnar skv. könnunum. Það er fjarstæða að ætla að reyna að segja að allar kannanir séu rangar og að þetta sé bara fjarstæða. Það virkar ótrúverðugt þegar að stuðningsmenn flokks í vanda og með leiðtoga í vanda við stýrið reyna að segja að allt sé þar í lagi. En það eru enn 30 dagar eftir vissulega, en það er alltaf sálfræðilega erfiðara að halda inn í lokasprettinn undir en verandi yfir. Það er mjög einfalt mál. Það þarf ekki snjalla stjórnmálaskýrendur til að sjá það. Enda er oft erfitt að rísa úr langri botnstöðu þegar að svo margt gengur illa.

En það verður vissulega fylgst vel með Samfylkingunni og leiðtoganum. En vandræði þeirra verða enn vandræðalegri þegar að fólk horfist ekki í augu við vandann heldur reynir að skjóta sendiboðana sem greina stöðuna með heiðarlegum hætti. Enda er hlegið að þeim stjórnmálaskýrendum sem reyna að greina stöðuna í dag sem góða fyrir Samfylkinguna.


Bloggfærslur 9. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband