Vika til þingkosninga - hverjir næðu kjöri á þing?

AlþingiÞað eru aðeins átta dagar til alþingiskosninga - spennan vex sífellt eftir því sem styttist í kjördaginn. Könnun Gallups í dag hefur vakið mikla athygli og sýnir talsverðar sviptingar. Ég hef nú sett upp lista yfir það hvaða þingmenn nái kjöri gangi könnunin eftir, sem sýnir stöðu mála á þessum tímapunkti.

Það er athyglisverð mæling - mikill fjöldi nýrra alþingismanna myndu ná inn í slíkri stöðu. Lítum á nafnalistann:

Sjálfstæðisflokkur (27)

Geir H. Haarde - Reykjavík suður
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Birgir Ármannsson
Dögg Pálsdóttir

Guðlaugur Þór Þórðarson - Reykjavík norður
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Pétur H. Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir - Suðvesturkjördæmi
Bjarni Benediktsson
Ármann Kr. Ólafsson
Jón Gunnarsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Sturla Böðvarsson - Norðvesturkjördæmi
Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Oddur Kristjánsson
Herdís Þórðardóttir

Kristján Þór Júlíusson - Norðausturkjördæmi
Arnbjörg Sveinsdóttir
Ólöf Nordal

Árni M. Mathiesen - Suðurkjördæmi
Árni Johnsen
Kjartan Ólafsson
Björk Guðjónsdóttir

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 22 þingsæti í kosningunum 2003 (bættist liðsauki við inngöngu Gunnars Örlygssonar í maí 2005, sem kom úr Frjálslynda flokknum) - bætir við sig fimm þingmönnum í könnuninni.
Þingmenn sem falla: Drífa Hjartardóttir, Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örn Örlygsson (féllu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í nóvember 2006).
Þingmenn sem hætta: Halldór Blöndal, Sólveig Pétursdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Guðmundur Hallvarðsson og Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Samfylkingin (16)

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir - Reykjavík suður
Ágúst Ólafur Ágústsson
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir

Össur Skarphéðinsson - Reykjavík norður
Jóhanna Sigurðardóttir
Helgi Hjörvar
Steinunn Valdís Óskarsdóttir

Gunnar Svavarsson - Suðvesturkjördæmi
Katrín Júlíusdóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Árni Páll Árnason

Guðbjartur Hannesson - Norðvesturkjördæmi

Kristján L. Möller - Norðausturkjördæmi
Einar Már Sigurðarson

Björgvin G. Sigurðsson - Suðurkjördæmi
Lúðvík Bergvinsson

Samfylkingin fékk 20 þingsæti í kosningunum 2003 (missti eitt með brotthvarfi Valdimars Leós Friðrikssonar til Frjálslynda flokksins) - missir fjögur þingsæti í þessari könnun.
Þingmenn sem falla: Mörður Árnason og Anna Kristín Gunnarsdóttir.
Þingmenn sem hætta: Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Jóhann Ársælsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Jón Gunnarsson.


VG (11)

Kolbrún Halldórsdóttir - Reykjavík suður
Álfheiður Ingadóttir

Katrín Jakobsdóttir - Reykjavík norður
Árni Þór Sigurðsson

Ögmundur Jónasson - Suðvesturkjördæmi
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir

Jón Bjarnason - Norðvesturkjördæmi
Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir

Steingrímur J. Sigfússon - Norðausturkjördæmi
Þuríður Backman

Atli Gíslason - Suðurkjördæmi

VG fékk 5 þingsæti í kosningunum 2003 - bætir við sig sex þingsætum í þessari könnun.
Þingmenn sem falla: Enginn.
Þingmenn sem hætta: Enginn


Framsóknarflokkur (6)

Jón Sigurðsson - Reykjavík norður

Magnús Stefánsson - Norðvesturkjördæmi

Valgerður Sverrisdóttir - Norðausturkjördæmi
Birkir Jón Jónsson

Guðni Ágústsson - Suðurkjördæmi
Bjarni Harðarson

Framsóknarflokkurinn fékk 12 þingsæti í kosningunum 2003 (missti eitt með brotthvarfi Kristins H. Gunnarssonar til Frjálslynda flokksins) - missir sex þingsæti í þessari könnun.
Þingmenn sem falla: Jónína Bjartmarz, Siv Friðleifsdóttir, Sæunn Stefánsdóttir og Guðjón Ólafur Jónsson.
Þingmenn sem hætta: Jón Kristjánsson, Hjálmar Árnason og Dagný Jónsdóttir.


Frjálslyndi flokkurinn (3)

Guðjón Arnar Kristjánsson - Norðvesturkjördæmi

Sigurjón Þórðarson - Norðausturkjördæmi

Grétar Mar Jónsson - Suðurkjördæmi

Frjálslyndi flokkurinn
fékk 4 þingsæti í kosningunum 2003 (einn þeirra gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn árið 2005 og flokkurinn fékk tvo nýja þingmenn árið 2007) - missir eitt þingsæti í þessari könnun.
Þingmenn sem falla: Magnús Þór Hafsteinsson, Kristinn H. Gunnarsson og Valdimar Leó Friðriksson.
Þingmenn sem hætta: Enginn.

Þetta eru mjög athyglisverðir nafnalistar og öllum ljóst að gríðarleg uppstokkun verður á Alþingi í vor verði þetta niðurstaðan. En vika getur verið langur tími í pólitík. Það má búast við leiftandi pólitískri spennu næstu átta dagana.


Bloggið hennar Ellýjar slær í gegn

Það leikur enginn vafi á því þessa dagana að Ellý Ármannsdóttir, þula, eigi vinsælasta blogg landsins nú um stundir. Hún er með um helmingi meiri lestur á viku en næsti bloggari hér á Moggablogginu og virðist hækka með degi hverjum og fá um eða yfir 10 þúsund lesendur á dag. Hún virðist hafa náð algjörum topp hér í bloggkerfinu okkar og toppar meira að segja vinsældir Steingríms Sævarrs meðan að hann skrifaði hér.

Ég er ekki í vafa um að önnur efnistök Ellýjar hér veki athygli og það er greinilegt að fólk vill lesa af miklum áhuga. Ég vil óska Ellýju til hamingju með góðan árangur á blogginu og vona að hún haldi áfram að skrifa á fullu.

mbl.is Ellý segist hissa á hvað bloggið hennar er vinsælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vænleg staða Sjálfstæðisflokks - VG missir flugið

Þorgerður Katrín og Geir H. HaardeSkv. nýrri könnun Gallups, þegar að átta dagar eru til þingkosninga, er fylgi Sjálfstæðisflokksins rúm 40% og Samfylkingin hefur fest sig aftur í sessi sem næststærsti flokkurinn, með 23,5%. VG missir flugið og mælist nú með 17,6%. Framsóknarflokkurinn hækkar ekki milli vikna og mælist enn með 10%. Frjálslyndir eru með 5,5% og Íslandshreyfingin hækkar í 3,2%.

Fall vinstri grænna milli vikna eru stærstu tíðindi þessarar könnunar. Ef marka má þessa stöðu er VG að síga hressilega á lokasprettinum, eins og svo margir spáðu. Þeir náðu hæst upp í tæp 28% og eru greinilega að missa fylgi til Íslandshreyfingar og Samfylkingar. Í síðustu viku voru vinstriflokkarnir jafnstórir með 21,2% en það hefur semsagt breyst með þeim hætti að sex prósentustig skilja flokkana að. Þessi staða er eitthvað sem margir hafa bent á að myndi gerast, enda hefði það orðið stórtíðindi hefði VG náð yfir 20% markið í þessum kosningum.

Þessi staða er mjög vænleg fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann má vel við þetta una. Allar kannanir hafa sýnt flokkinn í hressilegri uppsveiflu alla kosningabaráttuna. Staða flokksins er þó mjög misjöfn eftir kjördæmum. Hér í Norðausturkjördæmi er flokkurinn greinilega að missa fylgi og virðist þriðji maður vera kominn í hættu skv. þeim veruleika sem könnunin sýnir þar. Á móti kemur að flokkurinn hefur fylgi helmings kjósenda í Reykjavík norður, kjördæmi Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, á meðan að flokkurinn mælist mun minni í Reykjavík norður. Staðan er misjöfn en heilt yfir getur flokkurinn vel við þessar mælingar unað.

Samfylkingin virðist vera að rétta úr kútnum einkum á höfuðborgarsvæðinu. Víða úti á landi er staða þeirra frekar slöpp en það sem vekur mesta athygli er hversu mun betri flokkurinn mælist í kjördæmi Össurar Skarphéðinssonar en Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Það er mjög mikilvægt fyrir Samfylkinguna að sækja fram og ná góðri kosningu. Þrátt fyrir uppsveiflu er Samfylkingin enn átta prósentustigum undir kjörfylginu 2003 og virðist eiga talsvert langt í land. En sveiflur milli vikna eru greinilegar og fróðlegt að sjá hvort að þar verði sótt fram, en það er orðið langt síðan að flokkurinn hefur farið yfir 25% markið.

Staða frjálslyndra virðist mjög ótrygg. Þeir mælast sem fyrr með þrjú þingsæti en rétt lafa yfir 5% markinu í könnunum, því marki er færir þeim jöfnunarsæti. Íslandshreyfingin hefur ekki átt sjö dagana sæla og hefur ekki átt gott start. Það verður fróðlegt að sjá hvort henni duga sjö dagar í viðbót til að redda sér. Það hefur stefnt í háðulega útreið fyrir Íslandshreyfinguna um nokkuð langt skeið en hún þokast nú upp. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer fyrir forystumönnum flokksins í Reykjavík, en það verður auðvitað metið mikið áfall fyrir Margréti og Ómar nái þau ekki kjöri á þing eftir allt sem gengið hefur á.

Stóru tíðindi könnunarinnar eru væntanlega þau að ríkisstjórnin hefur þriggja manna meirihluta og styrkist hann milli vikna. Staða ríkisstjórnarinnar virðist traustari í aðdraganda þessara kosninga en þeirra sem voru fyrir fjórum árum, er stjórnin mældist fallin meira og minna alla kosningabaráttuna. Stór tíðindi önnur eru auðvitað fylgishrap VG og sú staðreynd kristallast sífellt betur að tveggja flokka stjórn verður ekki mynduð án Sjálfstæðisflokksins, en í það hefur vissulega stefnt um nokkuð skeið.

Harold Wilson, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, sagði forðum að vika væri langur tími í pólitík. Það hafa svo sannarlega æ ofan í æ reynst orð að sönnu. Það verður fróðlegt að sjá hversu örlagarík þessi vika til þingkosninganna verður og hversu mjög fylgissveiflur verða á þeim tíma.


mbl.is Samfylkingin aftur fram úr VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónína Bjartmarz kærir Kastljós til siðanefndar

Jónína Bjartmarz Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra og leiðtogi Framsóknarflokksins í Reykjavík suður, hefur nú ákveðið að kæra umfjöllun Kastljóss Sjónvarpsins um íslenskan ríkisborgararétt Luciu Celeste Molina Sierra, tengdadóttur sinnar, til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. Málið var fyrst kynnt í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins fyrir viku og var síðan tekið til umfjöllunar í þættinum sama kvöldið og sólarhring síðan tókust ráðherrann og þáttastjórnandi á í viðtali með eftirminnilegum hætti.

Kastljós hefur haldið umfjölluninni áfram með áberandi hætti. Það var greinilegt að það fauk í ráðherrann vegna umfjöllunar þáttarins í fyrrnefndu viðtali og það hefur sést vel að hún telji að sér sótt. Í gær skiptust ráðherrann og Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss, á skeytasendingum í formi yfirlýsinga og greinilegt að hvorugt vildi gefa eftir, bæði telja sig hafa heiður að verja.

Þetta mál er orðið teygt og vont. Það er auðvitað enn meira áberandi því að svo stutt er til þingkosninga og ráðherrann berst mjög erfiðri baráttu fyrir endurkjöri. Hún rær pólitískan lífróður, enda mælist hún fallin af þingi í skoðanakönnunum. Það er skiljanlegt að ráðherrann se ósátt við umfjöllunina. Þetta er auðvitað mjög vandræðaleg hlið sem birtist á þessu máli með gögnum þáttarins og umræður hafa verið skiptar í samfélaginu.

Málið tekur allavega sífellt nýja stefnu og fróðlegt að sjá hvernig því lýkur, burtséð frá pólitískri stöðu ráðherrans sjálfs.

mbl.is Umhverfisráðherra ætlar að kæra umfjöllun til siðanefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband