7.5.2007 | 23:56
5 dagar: pælingar um stöðuna í Norðaustri
Vonandi fækkaði óákveðnum hér við að horfa á þennan þátt. Persónulega fannst mér þetta allavega áhugaverð skoðanaskipti. Þetta var auðvitað hefðbundið karp milli leiðtoganna um málefnin. Steingrímur J. og Valgerður tókust á með hefðbundnum hætti um lykilmálin, sérstaklega álversmálin við Bakka. Sigurjón hjólaði í Valgerði fyrir ýmsa hluti og var eins og hann á að sér að vera. Stjórnarandstæðingar réðust meira á Valgerði. Það er svosem skiljanlegt í sjálfu sér, enda er hún bæði fyrsti þingmaður kjördæmisins og andlit ríkisstjórnarinnar.
Kristján Þór er mun óbundnari því sem ríkisstjórnin hefur í sjálfu sér gert. Hann er enda nýliði í landsmálunum. Hann þorir að tala af krafti og hikar ekkert við að gagnrýna það sem hann telur afleitt, meira að segja hjá ríkisstjórninni. Þekki vel þessa flokksleiðtoga alla, nema Hörð hjá Íslandshreyfingunni. Þekki reyndar engan af þeim sem eru þar í toppsætunum. En heilt yfir var þetta spjall um kosningamálin frá þeim grunni sem við höfum áður séð.
Það komu góðar spurningar úr sal. Sjálfur stóð ég í biðröð eftir að koma að spurningu en röðin var löng og ég komst því miður ekki að með spurningu. Það var mjög gaman að spjalla við frambjóðendur og fara yfir stöðuna, fyrir og eftir fundinn. Það var fjölmenni í Sjallanum og allar raddir um að pólitískir fundir heyri sögunni til voru kveðnar í kútinn. Þetta var líflegt og skemmtilegt pólitískt kvöld allavega í Sjallanum. Megi N4 hafa þökk fyrir fundinn.
Það eru fáir sem vita með vissu hvað er að fara að gerast á laugardaginn. Ég tala við marga spámenn. Þeir sem ég tel áreiðanlega spá því að slagurinn sé á milli þriðja manns Samfylkingar, þriðja manns Framsóknarflokks og fjórða manns Sjálfstæðisflokks, jafnvel að frjálslyndir nái inn jöfnunarmanni. Erfitt um að segja. Ég vona þó svo sannarlega að fleiri Akureyringar en Kristján Þór Júlíusson komist á Alþingi á laugardaginn hér í nafni þessa kjördæmis.
Spennan heldur áfram altént.
7.5.2007 | 19:01
Er Framsókn að stefna í sögulegt pólitískt afhroð?

Kannanir eru Framsóknarflokknum mjög erfiðar nú um stundir og hafa gert nær allt kjörtímabilið. Það að formaður flokksins sé að mælast svo veikur og utan þings marga mánuði í röð og sjái ekki til sólar hlýtur að sliga mjög flokkinn. Sérstaklega miðað við að þetta er maður sem ekki hefur verið lengi í stjórnmálum og ætti því varla að bera þungar byrðar fortíðar með sér. Kannski er það þó eftir allt veikleiki hans, að vera ekki sterkur stjórnmálamaður með fortíð, hafa ekki suma þungann pólitískt og Halldór Ásgrímsson hafði í þingkosningunum 2003, sem leiðtogi sem leiddi vagninn rétta leið að lokum.
Í dag birtist landskönnun sem sýnir Framsókn með innan við 8%. Það er vandséð hvernig að Sjálfstæðisflokkurinn geti horft til þessa samstarfs áfram fái Framsóknarflokkinn þennan þunga dóm sem stefnir í, þó stjórnin héldi. Það virðist vera sviðin jörð um allt land skv. könnunum fyrir flokkinn. Meira að segja gömlu lykilvígin hafa bognað til. Staða Framsóknarflokksins hér í Norðaustri mælist ekki góð. Það er orðið óralangt síðan að Framsókn mældist með fleiri en tvo þingmenn hér. Í síðustu kosningum fengu framsóknarmenn hér fjóra menn en hafa hrapað mjög síðan. Í Suðurkjördæmi á Guðni Ágústsson í vök að verjast og Siv Friðleifsdóttir heyr þunga baráttu í Kraganum.
Það er vörn yfir merkjum Framsóknarflokksins í þessari kosningabaráttu. Það blæs ekki byrlega fyrir flokknum. Þar er lifað í voninni um að það sama endurtaki sig og gerðist á lokasprettinum 2003. Þar var tapaðri skák snúið við og Framsókn náði að spila síðustu leiki skákarinnar sér í vil. Sama lukkustjarnan er ekki komin til sögunnar fimm dögum fyrir kosningar. Framsóknarmenn bíða og vona. Á meðan berst formaður Framsóknarflokksins fyrir pólitísku lífi sínu í Reykjavík og lykilfólk standa veikt í erfiðri baráttu. Þetta er ekki glæsileg staða fyrir flokk sem hefur haft völd áratugum saman.
Nú er komið að örlagastundu fyrir Framsóknarflokkinn. Hvernig mun lífróðrinum ljúka? Þetta er stór spurning, sem brátt fæst svar við. Það verða þung örlög fyrir elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins falli taflið ekki þeim í vil á lokasprettinum. Þar verður þungur skellur á sunnudag fari allt á versta veg. Getur Framsókn unnið sigur á könnunum? Svarið; jú það er handan við hornið.
Hver er Jón Sigurðsson?
pistill SFS - 20. ágúst 2006
7.5.2007 | 18:33
D og S í mikilli sókn á lokaspretti baráttunnar

VG mælist í könnuninni með 17,5%, sem er lægsta fylgi þeirra hjá Gallup í heilt ár. Framsóknarflokkurinn er eins og fyrr segir aðeins með tæp 8% og er skv. því að stefna í afhroð. Ekki virðist fylgið vera að aukast á lokasprettinum, öðru nær. Frjálslyndir hækka - mælist aðeins með 6%. Íslandshreyfingin nær sem fyrr engu flugi og mælist bara með 2%, sem yrði þeim háðugleg útreið.
Miðað við þessa mælingu er Sjálfstæðisflokkurinn með 27 þingsæti, fimm þingsætum meira en í kosningunum 2003. Framsóknarflokkurinn myndi í þessari stöðu missa heil 7 þingsæti og fengi aðeins 5 menn á þing. Samfylkingin mælist með 16 þingsæti, missir fjögur frá kosningunum 2003. Vinstri grænir mælast með 11 þingsæti, myndi bæta við sig 6 sætum. Frjálslyndir mælast með 4 þingsæti, sama og í kosningunum 2003. Ríkisstjórnin héldi velli mjög naumlega, með 49,5% atkvæða og 32 sæti eins og fyrr segir.
Þetta er merkileg staða. Þetta er fyrsta raðkönnun Gallups sem birtast munu stig af stigi næstu fimm dagana og munu ramma svo upp stóra lokakönnun á föstudaginn. Staðan hér er einföld. Framsókn fengi stóran skell gengi þetta eftir. Skilaboð kjósenda yrðu að hann færi í pólitíska endurhæfingu. Stórt afhroð virðist blasa við þeim. Vondur skellur yrði þetta. Niðurstaða af þessu tagi myndi vísa á nýja stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að mínu mati. Mjög einfalt mál.
Það eru fimm dagar til stefnu. Þetta verða háspennudagar í íslenskri pólitík og spurt er að leikslokum. En þessi mæling er mjög athyglisverður fyrirboði um pólitísk stórtíðindi í þessum kosningum. Það blasir við.
![]() |
Samfylking og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2007 | 17:00
Suðurkjördæmi

Suðurkjördæmi nær frá sveitarfélaginu Hornafirði í austri til Vatnsleysustrandahrepps í suðri og þekur því syðstu strandlengju landsins. Suðurkjördæmi var myndað í kjördæmabreytingunni árið 2000 úr þremur kjördæmahlutum; þó að mestu leyti úr Suðurlandskjördæmi.
Viðbætur við það voru þau að Hornafjörður og nærsveitir sem áður tilheyrðu Austurlandskjördæmi færðust yfir í kjördæmið og Reykjanesskaginn sem áður tilheyrði Reykjaneskjördæmi varð hluti af Suðrinu.
Á kjörtímabilinu hafa þingmenn kjördæmisins verið 10 talsins; níu kjördæmasæti og eitt jöfnunarsæti. Svo verður áfram eftir kosningarnar 12. maí nk.
Umfjöllun um Suðurkjördæmi
7.5.2007 | 04:08
Er ævintýrinu litríka um Silvíu Nótt að ljúka?

Það er víst óhætt að segja að Ágústa Eva hafi bæði hneykslað og glatt landsmenn með þessum karakter í rúm tvö ár og tekið allan skalann í tilfinningatúlkun. Öll þjóðin hefur fylgst með Silvíu Nótt á þessum tíma. Hún hefur verið í miðpunkti bæði í umræðunni og verið bæði stingandi og heillandi í senn. Hápunktur og um leið botn hennar hlýtur að vera sami viðburðurinn merkilegt nokk. Sigurinn heima í Eurovision með Til hamingju Ísland var sætur en skellurinn mikli með Congratulations í Aþenu fyrir ári, í maí 2006 var mikill, enda voru væntingar hennar og landsmanna miklir til árangurs.
Það má þó segja að ævintýrið hafi gengið of langt, dramatíkin og stingandi karakterinn hafi farið yfir strikið í Grikklandi. Á miðri Eurovision-leiðinni fór karakterinn yfir rauða strikið varhugaverða. Það kom margt merkilegt fram í þessu viðtali. Ágústa Eva opnar karakterinn algjörlega upp á gátt og dregur eiginlega ekkert undan. Sérstaklega var athyglisvert að heyra hana lýsa aftur Aþenu-ævintýrinu og álaginu mikla þar. Það blasir við öllum að hún var þar að leka niður af álagi og taugastrekkju er þessu lauk. Reyndar má segja að mesta afrek Ágústu Evu hafi verið að lifa í gegnum þennan flaming karakter allan þennan tíma og halda dampi.
Enda er þetta auðvitað frábær leikkona, hún sannaði kraft sinn og styrk sem karakterleikkonu í Mýrinni, þar sem nafna hennar, Eva Lind Erlendsdóttir, varð ljóslifandi í góðri túlkun hennar. Það er freistandi að spyrja hvort ævintýrinu mikla með Silvíu Nótt sé virkilega að ljúka. Það trúa því kannski ekki allir. Ágústa Eva er leikkona sem á mörg tækifæri framundan myndi ég segja. Hún hefur allavega sýnt að hún getur leikið, getur túlkað allan tilfinningaskalann.
Það eru viss tíðindi að leikþættinum sé lokið. Ansi mörgum er sennilega létt. Það verður fróðlegt að sjá hver framtíð skapara glamúrgellunnar verður nú þegar að gríman er fallin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.5.2007 | 00:08
6 dagar: pælingar um stöðuna í Norðaustri
Er alveg innilega sammála Halldóri um að þessi kjördæmaskipan er algjört rugl. Þessi landsbyggðarkjördæmi eru alltof stór og erfið. Margir hafa spurt sig hvort þessi kjördæmaskipan hafi gengið upp. Að sumu leyti hefur hún vissulega tekist vel - að öðru leyti ekkert sérstaklega eða hreinlega illa. Heilt yfir hefur þetta þó tekist furðanlega vel miðað við allar aðstæður. Hinsvegar er ekki öfundsvert að vera stjórnmálamaður í svona stórum kjördæmum. Það er enda mikil vinna að sinna vel svo stóru svæði.
Margir hafa spurt sig hvort önnur mynd á kjördæmi á svæðinu hefði verið betri. Ég var þeirrar skoðunar er kjördæmabreytingin var gerð fyrir sjö til átta árum að illskárra hefði nú verið ef Norðurland hefði orðið eitt, sameina hefði átt Norðurland eystra og vestra. Þá hefði myndast sterkt norðlenskt kjördæmi með Akureyri sem grunnmiðpunkt. Það gerðist illu heilli ekki. Þess í stað enduðum við t.d. með dreifðari kjördæmi og ólíkari svæðisheildar. Það er hiklaust mitt mat að þessar kjördæmaheildar verði ekki langlífar.
Það var gaman að fylgjast með Silfrinu og heyra í stjórnmálamönnum sem annaðhvort eru hættir eða að hætta. Mat þeirra á landsbyggðarkjördæmin var hið sama. Þarna sameinuðust Halldór, Magga Frímanns og Hjörleifur um það mat. Það var gaman að hlusta á þetta spjall. Og ég held að flestir landsbyggðarmenn séu á þessari skoðun. Að mörgu leyti var þessum bastarði sem kjördæmaskipunin er þröngvað illu heilli upp á okkur á landsbyggðinni. Við getum huggað okkur við það að þessi skipan er dæmd til að breytast fljótlega.
Sex dagar í pólitík eru skammur tími. Hér inn um póstlúguna mína streyma glansbæklingar og kynningarefni. Seint verð ég þó talinn óákveðinn kjósandi. Það er samt gaman að lesa bæklingana. Akureyringarnir í framboði eru vel kynntir. Það mun ekki líða vikan áður en jafnvel áhugalausasta fólk um stjórnmál veit að Akureyringar eru í baráttusætunum. Það er mikilvægt að eitthvað af þeim komist inn. Það er alveg ljóst að baráttan skiptir máli frá þeim forsendum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeirri rimmu lýkur.
Mesti þunginn verður virku dagana fimm sem framundan eru. Á morgun verður framboðsfundur í Sjallanum. Það verður áhugavert að sjá kynningu á málum hér og alvöru pólitíska umræðu í Sjallanum. Ég ætla að skella mér þangað og blogga um þá upplifun annað kvöld alveg hiklaust.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)