8.5.2007 | 23:57
4 dagar: pælingar um stöðuna í Norðaustri
Mér fannst miklu meira fútt í seinni hlutanum. Þar voru fjórir flokksleiðtogar í Norðausturkjördæmi í frontinum; Kristján Þór, Valgerður, Kristján Möller og Sigurjón Þórðar. Auk þeirra voru þarna Guðfríður Lilja og Ásta Þorleifs. Áhugavert að heyra skoðanir þeirra. Sérstaklega mikilvægt að heyra skoðanir um álver við Bakka. Það er mjög mikilvæg framkvæmd fyrir íbúa í norðanverðum hluta þessa kjördæmis. Það er með réttu aðalkosningamálið víða, einkum skiptir máli fyrir Þingeyinga að þeir fái að nýta orku sína með þessum hætti.
Þetta mikilvæga mál þarf að ræða vel og nauðsynlegt að fara hringinn og fá skýr svör. Með réttu ætti að halda íbúakosningu í Norðurþingi um þetta mikilvæga mál. Það er talað fjálglega um íbúalýðræði og mikilvægi þess. Mér finnst oft vinstri grænir vilja skakkt íbúalýðræði; þ.e.a.s. kosningar sem falla bara eftir þeirra skoðunum. Enda má ekki gleyma því að vinstri grænir í Hafnarfirði og fleiri reyndar töluðu með þeim hætti að það skipti í sjálfu sér engu máli hvað upp úr kössunum kæmi; samt yrði nei ofan á varðandi stækkun álvers Alcan.
Vinstri grænir og Íslandshreyfing eru blanko í atvinnumálum. Steingrímur J. hefur verið tómur hvað þau mál varðar er spurt er um það hér í Norðaustri þessar örlagaríku pólitísku vikur um hvað eigi að gera á Húsavík ef þessi innspýting eigi ekki að koma. Það er bara sagt pass. Það gerðist líka í kvöld. Gott og vel, þau mega hafa vissulega hafa þá skoðun. En þetta er óábyrgt. Þetta tóma spil er blanko í gegn hjá vinstri grænum. Til þess að geta talið upp einhverja atvinnuuppbyggingu á svæðinu taldi Steingrímur J. upp bjórverksmiðju, mjög glæsilegt fjölskylduframtak á Árskógssandi, en bíddu nú við, var ekki Steingrímur J. á móti bjórnum?
Það stefnir í spennandi kosningar hér. Við fáum væntanlega ekki fleiri kjördæmakannanir. Það er unnið vel hjá öllum flokkum. Það er spenna yfir stöðunni og fáir sem vita hvað kemur upp úr kössum á laugardag og aðfararnótt sunnudags, en hér liggja úrslit varla fyrir fyrr en undir morgun í síðasta
lagi. Ég lít svo á að atvinnu- og samgöngumál séu hér lykilmál. Staða mála á Húsavík verður lykilmál. Það sjá allir. Sumir hafa skýra stefnu varðandi það hvað eigi að gerast þar, aðrir segja pass.
Vonandi munu pass-flokkarnir í atvinnumálum og uppbyggingu svæðanna hér ekki fá góða kosningu hér í Norðausturkjördæmi á laugardag. Ég stóla sérstaklega á það að Þingeyingar og íbúar á öllu kjördæmissvæðinu hugsi þau mál vel áður en kosið er hvert skal stefna til framtíðar miðað við svör á Egilsstöðum í kvöld um framtíðarmöguleikana miklu við Bakka. Þeir skipta mjög miklu máli. Stöndum vörð um framtíð þessa svæðis með afgerandi hætti!
8.5.2007 | 23:24
Styttist í stóru stundina hjá Eiríki í Helsinki

Það er mikil spenna meðal landsmanna vegna keppninnar. Það er mikill meðbyr með Eiríki hérna heima, þjóðin stendur þétt að baki hans. Það er nú oftast nær auðvitað að þjóðin styður söngvarann í keppninni alla leið. Þó finnst mér orðið nokkuð síðan að maður hefur fundið svona sterkan byr með íslenska flytjandanum í keppninni. Silvía Nótt var umdeild hérna heima en Selma var vinsæl og það voru þjóðinni þegar að hún komst ekki áfram, hafandi orðið önnur í Jerúsalem 1999.
Fimmtudagskvöldið verður mikið partýkvöld. Alveg óhætt að segja það. Við ætlum að vera með fjölskyldupartý á fimmtudaginn og hafa gaman af þessu. Það verður klárlega annaðhvort þjóðargleði eða þjóðarsorg eftir keppnina, ekkert millibil þar á. Vonandi kemst Eiríkur áfram. Bundnar eru allavega miklar vonir við það í Helsinki að hann nái áfram.
Vonum það besta bara. Annars höfum við oftast nær gert okkur miklar væntingar og oftar en ekki orðið fyrir vonbrigðum. Vonandi verða ekki vonbrigði þetta árið. Farmiði á úrslitakvöldið er aðalmarkmiðið auðvitað. Allt annað er og verður talið stórsigur í stöðunni, enda er botnsaga okkar í keppninni orðin löng og erfið, allt frá því að Birgitta náði inn á topp tíu og brilleraði í Riga. Síðan hefur þetta verið þrusubotn.
![]() |
Slegist um Eirík í Helsinki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2007 | 22:46
Árás á bloggsíðu
Það er miður að sjá þessa aðför að blogginu hans, því að Halli hefur verið ötull baráttumaður fyrir réttindum ólíkra hópa hér í þjóðfélaginu. Einnig er skondið að hann sé úthúðaður sem rasisti út af þessu máli því svo vill nú til að eiginkona hans er af erlendu bergi brotin.
Það er mjög leitt þegar að misnotkun á sér stað undir nafni annarra. Það hefur einnig hent mig að óprúttnir aðilar hafi loggað sig inn á spjallvefi undir mínu nafni og verið að skrifa eitthvað í mínu nafni sem ég vil ekki kannast við og reynt hafi verið með því að ráðast að nafni mínu.
Það er ömurlegt að verða vitni að slíku.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.5.2007 | 18:25
Suðvesturkjördæmi

Suðvesturkjördæmi er fjölmennasta kjördæmi landsins. Það nær yfir Hafnarfjörð, Garðabæ, Kópavog, Bessastaðahrepp, Seltjarnarnes, Mosfellsbæ og Kjósarhrepp. Suðvesturkjördæmi er að upplagi myndað í kjördæmabreytingunni árið 2000 úr Reykjaneskjördæmi. Eina breytingin var þó sú að Reykjanesskaginn sjálfur sem tilheyrði Reykjaneskjördæmi færðist yfir í Suðurkjördæmi.
Á kjörtímabilinu hafa þingmenn kjördæmisins verið 11 talsins; níu kjördæmasæti og tvö jöfnunarsæti. Á því verður sú breyting að eitt kjördæmasæti færist frá Norðvesturkjördæmi í Suðvesturkjördæmi frá og með 12. maí. Á næsta kjörtímabili verða því 10 kjördæmasæti og 2 jöfnunarsæti í Kraganum.
Umfjöllun um Suðvesturkjördæmi
8.5.2007 | 16:12
Verður Jón H.B. Snorrason ríkissaksóknari?

Það er athyglisvert að lesa kjaftasögur á netinu um skipun í þessa stöðu. Einn umsækjandi hefur dregið umsókn sína til baka og ýmsar sögur ganga um það og eru áberandi í bloggsamfélaginu.
Það heyrist að fresta eigi að skipa í embættið fram í næstu viku. Það verður fróðlegt að sjá hver verða lok þessa máls og hver hljóti embættið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.5.2007 | 14:17
Framsókn og Samfylking hækka - fylgið á fleygiferð
Mikil fleygiferð virðist vera á fylgi stjórnmálaflokkanna skv. nýjustu raðkönnun Gallups sem birt var fyrir stundu. Fylgi bæði Framsóknarflokks og Samfylkingar hækkar um tvö prósentustig og Sjálfstæðisflokkurinn missir þrjú prósentustig frá fyrstu raðkönnuninni, sem birtist í gær. Kannanir verða birtar alla virka daga fram til alþingiskosninganna á laugardag og ramma inn vikuna á föstudag í síðustu skoðanakönnun Gallups fyrir kosningar.
Fylgi VG heldur sífellt áfram að minnka og mælist nú aðeins 16,5% og er ellefti maður VG orðinn tæpur. Þetta er mikið fall fyrir VG frá fyrri könnunum en hæst fóru þeir í tæp 28% í mars. Þeir toppuðu semsagt á vitlausum tíma. Hinsvegar er VG auðvitað að bæta stórlega við sig frá kosningunum 2003 og bætir við sig sex þingmönnum í þessari könnun frá þeim tíma. Samfylkingin er að bæta við sig á lokasprettinum - mælist með 27,1% og 18 alþingismenn, aðeins tveim færri en í kosningunum 2003. Samfylkingin nálgast óðfluga kjörfylgið 2003 semsagt.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 38,4% og 25 alþingismenn - þrem fleirum en í kosningunum 2003 og fimm prósentustigum yfir kjörfylginu þá. Þetta er nokkuð fall milli daga hinsvegar hjá Sjálfstæðisflokknum í raðkönnun Gallups. Framsóknarflokkurinn mælist með 9,8% - það er átta prósentustigum undir kjörfylginu, þingmennirnir mælast aðeins sex, en það er sú tala sem mest hefur fylgt þeim í gegnum kosningabaráttuna. Það yrði tap upp á sex þingmenn. Þetta er tveim prósentustigum yfir stöðunni í gær. Frjálslyndi flokkurinn er að mælast með 5,3% og fjóra þingmenn, einum færri en í kosningunum 2003. Frjálslyndir missa 0,7% milli daga.
Staðan er mjög spennandi. Óvissan um hvað gerist á laugardaginn er mjög mikil. Fylgið er á fleygiferð. Ríkisstjórnin mælist naumlega fallin í þessari könnun. Hún hefði 31 þingsæti og væri því úr sögunni auðvitað færi þetta svona. Þetta eru miklar sveiflur milli daga allavega.
Það eru aðeins fjórir dagar til alþingiskosninga. Þetta verða dagar spennu og pólitískra átaka - það er barist um hvert atkvæði. Mjög margir eru enn óákveðnir. Þeir ráða örlögum frambjóðenda á laugardaginn. Þetta verður áhugaverður lokasprettur svo sannarlega.
![]() |
Fylgi Samfylkingar og Framsóknarflokks eykst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.5.2007 | 11:18
Skaðar Jónínumálið Framsóknarflokkinn?

Könnunin var það vond að gangi eitthvað viðlíka eftir yrði flokkurinn að byggja sig upp nær frá grunni. Spjótin hafa vissulega staðið á Framsóknarflokknum úr mörgum áttum. Hinsvegar finn ég á þeim framsóknarmönnum sem ég þekki að þeir töldu að landið væri að rísa, sérstaklega hér í Norðaustri, botninum væri náð og nú myndi flokkurinn landa vænlegri, ekki ákjósanlegri en þolanlegri tveggja stafa prósentutölu.
Þessi könnun gerði nær út af við vænlega fylgismælingu en spurt er þó vissulega hvernig muni að lokum fara. Stóru tíðindin í gær eru þau að Framsókn horfist raunverulega í augu við það að þurrkast út á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að það muni nú ekki gerast en möguleikinn á því er þó mun meira til staðar nú en fyrir fjórum árum. Lokasprettur Framsóknar í kosningabaráttunni 2003 var ævintýralega góður. Það stefnir þó ekkert í að það afrek verði endurtekið.
Á laugardag ráðast örlög Framsóknarflokksins, hvort að hann verði áfram flokkur valda og áhrifa eða fari í pólitíska endurhæfingu. Ekkert eitt mál hefur verið meira rætt síðustu dagana en Jónínumálið. Ekki veit ég hvort það sé ástæða þess að fylgið hrynur aftur af Framsóknarflokknum en ansi er það nú líklegt.
8.5.2007 | 01:45
Kristján Þór telur stuðning við Íraksstríðið mistök
Kristján Þór Júlíusson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, ítrekaði þá skoðun sína á framboðsfundi á Akureyri í kvöld að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hefðu sem formenn stjórnarflokkanna gert mistök með aðild Íslands að innrásinni í Írak árið 2003. Þessi skoðun Kristjáns Þórs er ekki ný. Hann kom henni vel á framfæri í aðdraganda prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í nóvember 2006. Vakti afgerandi afstaða hans í málinu mikla athygli langt út fyrir kjördæmið.
Það var rætt um Íraksmálið í kvöld á þessum fundi. Eftir fjögurra ára átök í Írak er erfitt að halda því fram að árangur hafi náðst þar, nema þá verulega takmarkaður. Það er vissulega sorglegt. Sjálfur tel ég og hef gert um nokkuð skeið að þessi stuðningur hafi verið mistök, en á grundvelli þess sem þá lá fyrir mögulega ekki. Það er alveg ljóst að gögnin sem Bandaríkjamenn birtu á þessum tíma héldu ekki vatni og það er og verður alla tíð metið stóralvarlegt mál.
Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, var afgerandi fulltrúi ríkisstjórnarinnar á framboðsfundinum á Akureyri í kvöld, enda er Kristján Þór ekki enn orðinn þingmaður og hans staða er því mun opnari en Valgerðar sem var þingflokksformaður Framsóknarflokksins 1995-1999 og verið ráðherra í lykilmálaflokkum frá 1999. Hún er mun tengdari málinu sem ráðherra á þeim tíma og Íraksstríðið hófst. Valgerður gekk ekki eins langt og Kristján Þór en fór samt nærri því að meta stuðninginn mistök þó orðalagið væri hóflegra.
Ákvörðun um það sem gerðist í ríkisstjórn og meðal formanna stjórnarflokkanna vorið 2003 flokkast undir sagnfræði nú orðið. Það er bara þannig. Það sem þar var ákveðið verður ekki aftur tekið. Það er mjög athyglisvert að heyra umræðu um þetta nú og sérstaklega afgerandi ummæli forystumanna innan stjórnarflokkanna. Þar er mismikið hik þó á mönnum í eldlínu stjórnmálanna.
Kristján Þór Júlíusson hefur væntanlega gengið lengst sjálfstæðismanna í að tala gegn ákvörðunum þessa vors, í aðdraganda þingkosninganna 2003 og hefur ekki hikað við að taka afstöðu gegn flokkslínum, jafnvel á málum sem hafa verið umdeild. Það sýnir styrk hans sem leiðtoga á lokaspretti kosningabaráttunnar.