Árni tekur við framkvæmdastjórn þingflokksins

Árni Helgason Árni Helgason, varaformaður Heimdallar, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Ég er mjög ánægður með að hann hafi verið valinn til þessa verkefnis. Árna hef ég kynnst mjög vel í ungliðastarfinu á síðustu árum. Það hefur verið mjög gaman að kynnast honum þar og vinna með honum að þeim verkefnum sem þar hafa verið.

Það er ánægjulegt að virkt fólk í ungliðastarfinu veljist til verkefna af þessu tagi og það styrkir kjarnann okkar að sjá að því er treyst til þess að leiða starfið innan þingflokksins. Árni ætti að þekkja vel til þingsins, enda er faðir hans skrifstofustjóri Alþingis og hefur unnið þar áratugum saman að mig minnir.

En Árna sendi ég innilegar hamingjuóskir. Hann er vel að þessu starfi kominn.

mbl.is Árni Helgason framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Katrín Friðriksson aðstoðar Guðlaug Þór

Hanna Katrín Friðriksson Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, ákvað í dag að ráða Hönnu Katrínu Friðriksson, framkvæmdastjóra stjórnunarsviðs Eimskips, sem aðstoðarmann sinn. Hanna Katrín hefur á sínum ferli m.a. verið framkvæmdastjóri Háskólans í Reykjavík og auk þess verið blaðamaður á Morgunblaðinu. Þetta er að mínu mati mjög gott val hjá Gulla.

Hanna Katrín er mjög frambærileg kona og sannað kraft sinn í þeim verkefnum sem hún hefur sinnt. Ég sat fyrir nokkrum árum námskeið um greinaskrif sem hún var með á vegum SUS og Sjálfstæðisflokksins og sannfærðist þá mjög vel um það að Hanna Katrín er farsæl í því sem hún tekur sér fyrir hendur og er líkleg til að skila árangri í þeim verkefnum sem henni er treyst fyrir.

Í morgun sá ég "skúbb" hjá Andrési Jónssyni þar sem sagði að Erla Ósk Ásgeirsdóttir, formaður Heimdallar, yrði aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Það vekur athygli að sjá fregnir um ráðningu Hönnu Katrínar á sama degi. Andrés verður eitthvað að kanna heimildarmennina betur.

mbl.is Hanna Katrín Friðriksson aðstoðarmaður heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gréta Ingþórsdóttir ráðin aðstoðarmaður Geirs

Gréta IngþórsdóttirGréta Ingþórsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, í stað Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, alþingismanns. Þetta er mjög gott val hjá Geir. Gréta er mjög traust og öflug kona sem hefur unnið vel fyrir Sjálfstæðisflokkinn í áranna rás og skilað öllu því sem hún hefur gert með glæsilegum hætti. Ég hef kynnst Grétu í flokksstarfinu, hún hefur verið öflug í þeim hópi alla tíð sem ég hef starfað innan flokksins og ávallt hefur hún sannað hversu vinnusöm og dugleg hún er.

Mér kemur val Geirs á aðstoðarmanni ekki að óvörum. Ég átti aldrei von á því að Geir myndi velja ungliða sem aðstoðarmann þrátt fyrir þrálátar sögusagnir þar um á fjölda vefsíðna. Það var alltaf mun líklegra að Geir myndi velja reynda flokksmanneskju með tengsl í alla flokkskjarna, manneskju sem nyti trausts og virðingar innan alls flokksins. Þá stöðu hefur klárlega Gréta Ingþórsdóttir. Hún er vel að þessu komin.

Ég óska Grétu innilega til hamingju með nýja starfið.


mbl.is Nýr aðstoðarmaður forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í minningu Ástu Lovísu

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir var jarðsungin í dag. Ásta Lovísa öðlaðist sess í huga okkar því að hún gerði baráttu sína opinbera í netskrifum sem halda nafni hennar lengi á lofti, hún hikaði ekki við að deila hugsunum sínum; allt í senn vonbrigðum, vonum, væntingum, eldmóð, bakslögum og baráttuþreki með okkur. Við urðum að áhorfendum að baráttu hennar.

Það er ekki auðvelt að lifa svona baráttu svo opinbert og halda reisn sinni og glæsileik allt til enda. Það tókst Ástu Lovísu. Öll vonuðum við að hún næði að sigrast á meininu og þrátt fyrir bakslögin undanfarnar vikur sem fram komu á blogginu var andlátsfregn hennar fyrir rúmlega tíu dögum sláandi og var mikið áfall. Slíkur varð krafturinn á bakvið baráttu hennar að hún virkaði aldrei vonlaus, þó erfið væri. Hún barðist enda allt til hinstu stundar.

Ég tel að við öll sem höfum bloggað í dagsins önn minnumst Ástu Lovísu sem eins af þeim fremstu í okkar bloggveröld. Hún þorði að skrifa frá hjartanu og opna hug sinn og hjarta þó á raunastundum væri. Hún talaði með bjartsýni að leiðarljósi hvort sem um sigra eða ósigra á vegferðinni var að ræða. Hún kenndi okkur öllum að lífið getur oft verið ein barátta út í gegn, en það skipti máli að berjast brosandi og vonast ávallt eftir bjartari tíð.

Ég votta fjölskyldu hennar samúð mína og vona að Guð styrki þau í þeirra miklu sorg.

Valgerður kjörin varaformaður í Framsókn

Valgerður SverrisdóttirValgerður Sverrisdóttir hefur verið kjörin varaformaður Framsóknarflokksins. Ég vil óska henni til hamingju með þann merka áfanga í sínu pólitíska starfi eftir langan stjórnmálaferil. Valgerður er kjarnakona, sem hefur aldrei hikað og hefur unnið af krafti í stjórnmálum alla tíð. Hún hefur sýnt það og sannað hér í kjördæminu í tveim síðustu þingkosningum hversu öflug hún er. Í bæði skiptin hefur hún leitt flokkinn til sinna stærstu sigra á landsvísu.

Besti vitnisburðurinn um styrkleika Valgerðar innan Framsóknarflokksins er einmitt það að í þingflokknum koma þrír af sjö þingmönnum á landsvísu héðan úr Norðausturkjördæmi. Mjög var að henni sótt sérstaklega í kosningunum 12. maí sl. Þrátt fyrir afhroð um allt land náði hún áberandi varnarsigri hér. Henni tókst að halda Framsókn stærri en báðum vinstriflokkunum, þrátt fyrir vondar kannanir og að flestir töldu stöðu hennar vondaufa um að ná slíkum árangri aðeins nokkrum vikum fyrir kosningar. Hvernig henni tókst að sigrast sérstaklega á vinstriflokkunum voru stærstu tíðindi kosninganna hér í kjördæminu, utan auðvitað sigurs Sjálfstæðisflokksins.

Staða Valgerðar innan Framsóknarflokksins hefur í ljósi þessa styrkst mjög auðvitað. Það var mjög eðlilegt og auðvitað hið eina rétta að hún myndi sækja fram til æðstu forystu flokksins eftir þessar þingkosningar þegar að Jón Sigurðsson ákvað að draga sig í hlé, verandi í erfiðri stöðu. Er reyndar mjög athyglisvert að henni skyldu ekki falin trúnaðarstörf af þessu kalíberi við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar fyrir ári, en þá hefði verið réttast að láta henni eftir formennsku flokksins að mínu mati. Það hefði verið taktískt öflugt fyrir flokkinn og skapað honum aðra ímynd en ella varð. En hún fær nú þann sess í uppbyggingu Framsóknar.

Valgerði hefur reyndar alla tíð verið treyst fyrir miklum lykilembættum innan Framsóknarflokksins: hún var fyrsta þingkona flokksins í marga áratugi og aðeins sú önnur í sögu hans, síðar þingflokksformaður og loks iðnaðar- og viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra í tæp átta ár. Hún hefur lengst íslenskra kvenna setið í ríkisstjórn. Valgerður hefur verið einn sterkasti landsbyggðarleiðtogi flokksins, rétt eins og Guðni Ágústsson. Úrslit kosninganna 12. maí sl. eru með þeim hætti að byggja verður flokkinn upp frá landsbyggðinni í raun, enda varð afhroð flokksins mest í Reykjavík.

Valgerður hefur verið þingmaður hér í tvo áratugi, frá árinu 1987. Þó stundum hafi oft verið harkalega að henni sótt sigraði hún alla slagina. Þó að ég hafi verið pólitískur andstæðingur hennar mjög lengi hef ég alla tíð virt mjög og dáðst af krafti hennar. Hún hefur aldrei sótt fram sem eingöngu kona í stjórnmálum. Hún hefur farið fram sem persóna og lagt sín verk í dóm. Aldrei hefur hún verið kynnt undir merkjum þess eins að vera kona. Enda þarf Valla að ég tel ekki þau merki einvörðungu.

Ég óska henni góðs í forystuverkum þeim sem hún hefur verið kjörin til. Hún hefur unnið fyrir þeim sess með pólitískum verkum sínum í gegnum tíðina, og það meira að segja fyrir löngu.


mbl.is Valgerður kjörin varaformaður Framsóknarflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kajakræðarar finnast við Sjöundá

Það er gleðiefni að kajakfólkið fannst heilt á húfi. Uggur hafði verið í fólki yfir örlögum þeirra og hafði staðið yfir löng og erfið leit, sem framan af skilaði engum árangri. Það er eflaust metið kaldhæðnislegt að fólkið hafi fundist við Sjöundá á Rauðasandi á Barðaströnd. Það er eins og flestir vita mjög sögulega merkilegur staður, vegna þess sem þar gerðist fyrr á öldum.

En mestu skiptir að fólkið sé heilt á húfi. Það skiptir ekkert annað máli í raun við þessar aðstæður.

mbl.is Kajakræðarar fundnir heilir á húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband