Stjórnleysi og algjör glundroði í Palestínu

Mahmoud Abbas í skugga Yasser Arafat Innan við þremur árum eftir dauða Yasser Arafat er Palestína nær komin á upphafspunkt á baráttuárum hans. Palestínska heimastjórnin er í molum og á svæðinu ríkir algjör glundroði og stjórnleysi. Harðvítugir bardagar á milli meginpólanna á svæðinu: Hamas og Fatah, sem barist hafa um völdin eftir óvæntan kosnignasigur Hamas fyrir einu og hálfu ári, hefur nú lokið með fullnaðarsigri Hamas á Gaza-ströndinni og greinilegt að þeir hafa hertekið megnið af svæðinu.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, hefur leyst upp palestínsku heimastjórnina og lýst yfir neyðarástandi á Gaza-ströndinni. Vald forsetans er stórlega lamað með atburðarás síðustu daga og það er erfitt að sjá hvað er í raun eftir af palestínsku heimastjórninni nema sundurskotin eymdin ein. Staða mála hefur tekið merkilega stefnu og Palestína á mestu krossgötum sínum frá upphafsárum baráttu Arafats. Það hefði fáum órað fyrir því fyrir ellefu árum er Arafat var kjörinn forseti heimastjórnarinnar að svo skömmu síðar yrði allt í bál og brand.

Það er mikil hætta á því að Hamas komi á íslömsku ríki á þessu svæði. Fari svo er útséð með að nokkuð vestrænt ríki vilji ljá máls á að tala máli Palestínu. Þegar hefur Evrópusambandið afturkallað aðstoð við svæðið og Bandaríkjastjórn mun að sjálfsögðu styðja Mahmoud Abbas út í rauðan dauðann. Hamas er fylking af því tagi sem ekki er hægt að styðja og viðbúið að þau ríki sem hafa ljáð máls á að styðja Palestínu hrökklist frá verði þarna íslamskt ríki og ofbeldið grasseri af því tagi sem verið hefur.

Það verður fróðlegt að sjá hvað tekur við. Það sem eftir er af palestínsku heimastjórninni er þó ekki beysið og vandséð hvernig þar verði komið á stjórntæku ástandi í þessum glundroða öllum. Þarna eru svo sannarlega krossgötur nú. Arafat hlýtur að snúa sér við í gröf sinni á Vesturbakkanum við þessi örlagaskil sem eru að eiga sér stað.

mbl.is Hamas lýsir yfir fullkomnum yfirráðum á Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Eiður Smári að fara til Manchester United?

Eiður Smári Guðjohnsen Samkvæmt kjaftasögunum eru viðræður hafnar á milli Barcelona og Manchester United um að Eiður Smári Guðjohnsen fari til Old Trafford. Þetta eru auðvitað miklar fréttir. Það er mjög gott ef að Eiður Smári fer aftur í enska boltann. Þar átti hann sín bestu tækifæri og blómstraði best. Sumir voru reyndar að pæla í hvort að hann færi jafnvel til Eggerts Magnússonar í West Ham.

Ekki kvarta ég ef Eiður endar hjá Manchester United. Svo mikið er nú víst.

mbl.is Fullyrt að viðræður Barcelona og Man.Utd um Eið séu hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvöss skot ganga á milli Gunnars og Reynis

Gunnar I. Birgisson Það er óhætt að fullyrða að skotin gangi hvöss nú á milli Gunnars I. Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi, og Reynis Traustasonar, ritstjóra Mannlífs, í kjölfar þess að Gunnar ákvað að kæra Ísafold og Mannlíf vegna umfjöllunar um sig. Reynir íhugar nú að kæra Gunnar vegna ummæla sinna á vísir.is í dag þar sem hann sagði blöðin gefin út undir verndarvæng auðhrings og að blaðamenn þeirra fengju óáreittir að taka menn af lífi á síðum blaðsins.

Ef marka má það sem Reynir sagði í dag er stefnt að frekari umfjöllun um Gunnar á síðum blaðanna. Er þar t.d. greinilega í pípunum að birta fleiri myndir af Gunnari á nektardansstaðnum Goldfinger í Kópavogi og fara yfir pólitísk verk hans á bæjarstjórastóli og tengsl hans við verktakabransann. Reynir stendur við alla umfjöllunina og svarar kærutali Gunnars með því að segjast ætla að gjalda líku líkt.

Ég veit eiginlega varla hvað skal halda um þetta mál. Mér finnst þó alveg ljóst að ekki er viðeigandi að bæjarstjóri heimsæki skemmtistað af þessu tagi og get ekki ímyndað mér annað en að efasemdir hafi vaknað um pólitíska stöðu hans vegna málsins. En sé ekkert að fela í málinu er eðlilegast að opna það allt og fara með þessi efni fyrir dómstóla. Reyndar er mjög athyglisvert að bæjarstjórinn svari ekki gagnrýni fjölmiðla efnislega.

Telji hann umfjöllunina aðför að sér er eina rétta leiðin að fara dómstólaleiðina með allar hliðar þess. Það er nauðsynlegt til að taka það fyrir með afgerandi hætti og kanna stöðu umfjöllunarinnar. Þó finnst mér ummæli Gunnars sem Reynir bendir á ganga frekar langt og úr gæti orðið heljarinnar darraðardans.

mbl.is Gunnar í mál við Mannlíf og Ísafold
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar I. Birgisson kærir Mannlíf og Ísafold

Gunnar I. Birgisson Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, hefur ákveðið að kæra umfjöllun Mannlífs og Ísafoldar um sig. Umfjallanir blaðanna, sem ritstýrt er af feðgunum Reyni Traustasyni og Jóni Trausta, hafa vakið athygli fyrir að vera beinskeytt í garð Gunnars og taka hann algjörlega fyrir með mjög hvössum hætti. Sérstaklega hefur umfjöllun Ísafoldar um hinn umdeilda nektardansstað Goldfinger í Kópavogi og heimsókn Gunnars á staðinn vakið athygli, en þar er birt mynd af Gunnari á staðnum.

Embættisathafnir Gunnars eru í kastljósinu í Mannlífi sem nýlega er komið út. Þar er vikið að því sem blaðið telur spillingarmál og lóðabrask og ekki síður verktakatengslum Gunnars, málinu tengdu Goldfinger og síðast en ekki síst sviptir blaðið hulunni af því sem það telur ástæður þess að Gunnar varð ekki ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, ölvunarakstri. Mikla athygli vakti árið 2003 þegar að Gunnar varð ekki ráðherra, heldur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem var fjórða á lista flokksins í Kraganum og löngum hefur ástæðum þess verið velt fyrir sér.

Gunnar hefur auðvitað sinn rétt að verja heiður sinn og eðlilegt að hann geri það telji hann óeðlilega að sér sótt með þessum skrifum. Það verður fróðlegt að fylgjast með næstu skrefum þessa merkilega stríðs Ísafoldar/Mannlífs og Gunnars Inga Birgissonar, hins mikla pólitíska risa í Kópavogi, sem þar hefur ríkt yfir bæjarmálunum í hartnær tvo áratugi.

Kurt Waldheim látinn

Kurt Waldheim Kurt Waldheim, fyrrum forseti Austurríkis og framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er látinn, 88 ára að aldri. Hans verður sennilega helst minnst í senn fyrir verk sín sem mjög öflugur diplómat á alþjóðavettvangi og fyrir litríkan forsetaferil sinn í Austurríki sem markaðist af einangrun hans í raun vegna uppljóstrana um fortíð hans í seinni heimsstyrjöldinni og lögðu í raun mannorð hans sem virðulegs "statesman" í rúst.

Waldheim varð ungur diplómat, að því er segja má fljótlega eftir seinni heimsstyrjöldina. Hann vann sig sífellt upp og var tilnefndur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna árið 1972 í stað U Thant. Áður hafði hann þó tapað forsetakosningum gegn Franz Jonas, sitjandi forseta, í Austurríki árið 1971. Waldheim sat í forsæti hjá SÞ í New York í áratug, allt til ársloka 1981. Hann hætti þó ekki glaður á brá, enda sóttist hann eftir þriðja kjörtímabilinu. Kína beitti neitunarvaldi gegn tilnefningu hans. Ferlinum lauk því þar með snubbóttum hætti.

Waldheim sóttist aftur eftir forsetaembættinu í Austurríki í kosningum sumarið 1986 þegar að Rudolf Kirchschläger, eftirmaður Franz Jonas, lét af embætti. Þá náði hann kjöri í embættið, orðinn 68 ára gamall. Í aðdraganda kosninganna komu fram uppljóstranir í austurrísku blaði um að Waldheim hefði verið tengdur inn í innstu kjarna nasista í Þýskalandi á stríðsárunum. Leyndarhjúpur hafði alltaf vofað yfir fortíð hans, sérstaklega á stríðsárunum í aðdraganda diplómatsáranna, og var dulúðinni stórlega aflétt með þeirri umfjöllun. Margir töldu að þær uppljóstranir myndu koma í veg fyrir kjör hans. Svo fór ekki. Hann sigraði í kosningunum.

En með forsetakjörinu var staða hans í raun orðin afleit og ímynd hans sem farsæls diplómats á SÞ-árunum skaddaðist nær algjörlega. Á sex ára forsetaferli sínum var Waldheim litinn hornauga og var að mestu einangraður í samskiptum við lykilríki í Evrópu og Bandaríkin sem vildu lítið saman við Waldheim sælda eftir það. Waldheim fór aldrei í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna eða helstu ríkjanna í Evrópu í ljósi þessa og var því nær algjörlega í kuldanum. Samskipti Austurríkis við helstu ríki heimsins voru því í frostmarki þau ár sem hann sat á forsetastóli. Waldheim lét af embætti sumarið 1992 og varð Thomas Klestil eftirmaður hans.

Waldheim ritaði bókina In the Eye of the Storm. Þá bók hef ég lesið. Það er að mörgu leyti merkileg lesning. Mikla athygli vekur þó að hann víkur lítið sem ekkert að snubbóttum forsetaferlinum og einblínir þess þá frekar á sælutímann sinn í New York sem áhrifamaður stórrar alþjóðastofnunar. Síðar ritaði hann frekar um helstu lykilmálin undir lok starfsferilsins og gerði að mestu leyti upp við skuggana.

Waldheim verður fyrst og fremst minnst fyrir að vera einlægur og áberandi diplómat, en um leið fyrir skuggana sem fylgdu honum eftir sem maran mikla eftir að hann náði takmarki ævinnar, að hljóta forsetaembættið í Austurríki. Það valdaskeið var pínleg skelfing fyrir hann og hann naut sín aldrei til fulls í þeirri spennitreyju sem fortíðin varð honum að lokum.

mbl.is Kurt Waldheim látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarþingi lokið - nýjir pólitískir pólar myndast

Alþingi

Sumarþingi lauk í gær. Þetta var óvenjulangt þing að sumri, enda mörg brýn mál verið sett á dagskrá og uppstokkun gerð á nefndum þingsins og ráðuneytum. Auk þess var farið yfir fjölda hitamála í kjölfar kosninganna. Þetta var auðvitað lærdómsríkt þing í þeim skilningi að þar hafa myndast nýjir pólitískir pólar og mikil uppstokkun orðið með stjórnarskiptum.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er mjög voldugur, 43 þingsæti. Að sama skapi er stjórnarandstaðan mjög veik með aðeins 20 þingsæti. Hún getur ekki stöðvað að stjórnarflokkarnir veiti afbrigði við að taka mál á dagskrá og hagað þinginu að sinni vild. Að auki er það svo að mikil gjá er á milli stærstu stjórnarandstöðuflokkanna sem hafa tekist harkalega á árum saman og eru að venjast því að vera komin á sama bátinn.

Þetta var stutt en snarpt þing. Nýjir pólar myndast, gamlir fjandvinir eru komin í stjórnarsamstarf og aðrir skipa minnihlutann og sumir eru að venjast því að vera óbreyttir eftir að hafa verið í ríkisstjórn árum saman og sumir að venjast stjórnarandstöðuvist í fyrsta skiptið á löngum þingferli. Þetta hefur verið umbreytingaskeið. Stjórnarandstaðan er vissulega mjög vængbrotin og hún virðist eiga erfitt með að fóta sig á svellinu. Eflaust mun það takast, eins og sést af nýlegum faðmlögum fjandvina á borð við Steingrím J. og Valgerði Sverrisdóttur.

Að sama skapi er athyglisvert að sjá Björn Bjarnason og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem samherja í ríkisstjórn, ekki aðeins hlið við hlið í samstarfi heldur með myndrænum og athyglisverðum hætti sem sessunautar í þingsal og á fundum ríkisstjórnar. Þar verða þau sessunautar meðan að bæði eru saman í ríkisstjórn, enda hún leiðtogi annars stjórnarflokksins og hann sá ráðherra sem lengst hefur setið í ríkisstjórn, rúm ellefu ár. Þetta er samstarf sem verður athyglisvert að fylgjast með svo sannarlega. Auk þessa verður sérstaklega athyglisvert að fylgjast með því hversu vel Geir og Ingibjörgu muni ganga að eiga farsælt samstarf og semja sín á milli um lykilmál.

Þingmeirihlutinn er svo stór að menn geta leyft sér að tala frjálslega og höggva jafnvel að næsta manni, þingmenn geta strítt ráðherrum með áberandi hætti. Hinn orðvitri Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, orðaði þetta svo skemmtilega í gær að þingmenn væru með handsprengjur í vösum og biðu færis að kasta þeim á ráðherrana. Alltaf gaman að Guðna. Reyndar finnst mér Guðni vera einmitt í essinu sínu núna, ég held að stjórnarandstöðuvistin muni gera hann tvíefldan á meðan að Steingrímur J. virðist vera að þorna upp í gremju, enda ekki furða fyrir mann eins og hann sem hefur hokrast í andstöðeymd í sextán ár samfellt. 

Steingrímur J. var reyndar kostulegur í gær þegar að hann talaði um ríkisstjórn hins ófullgerða stjórnarsáttmála. Gremja Steingríms J. hefur ekki farið framhjá neinum eftir eldmessu hans yfir Samfylkingunni við stefnuræðu forsætisráðherra, sem missti gjörsamlega marks. Hann trompaðist á vondum tíma held ég að flestir séu sammála um. Í stað þess að byggja upp sína framtíðarsýn og tala málefnalega um lykilmál kjörtímabilsins var hann eins og maður sem upplifir makann kominn í fang annars manns og er að bogna af gremju og svekkelsi. Þetta var dapurt móment á ferli þess þaulreynda þingmanns.

Framundan er hitavetur í íslenskum stjórnmálum. Oftast nær er fyrsti þingvetur nýs kjörtímabils rólegheitatímabil, enda engar kosningar þá í augsýn nema mögulega forsetakosningar. Nú stefnir í átakatíma. Stjórnin er svo voldug að hún hefur þingið algjörlega í hendi sér. Best sást það í gær með kosningum í landskjörstjórn og kjörstjórnir í kjördæmum, en af fimm sætum hefur stjórnarmeirihlutinn fjögur til ráðstöfunar. Minnihlutinn er því að vakna upp við hlutskipti sitt. Samt sem áður mun hann bíta vel frá sér þó hann sé í eðli sínu veikur. Ég held að veturinn verði mjög eldfimur og hressandi.

Við öll sem fylgjumst með stjórnmálum vonumst auðvitað eftir því, enda er ekkert gaman að stjórnmálum ef stjórnarandstaðan er veik og máttlaus og hún verður því að stíga vel í lappirnar og sanna sig. Þar þarf að yfirvinna gremju milli aðila og fróðlegt að sjá hvernig það gengur. Þetta verður spennandi kjörtímabil - áhugavert að sjá nýju pólana myndast betur og vinna saman næsta vetur. Þá fyrst reynir á stöðu mála í raun.


mbl.is Sumarþingi slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Madeleine McCann látin?

Madeleine McCann Hálfur annar mánuður, 42 dagar, eru liðnir frá því að Madeleine McCann hvarf sporlaust í bænum Praia de Luz á Algarve í Portúgal. Mikil dulúð hefur umlukið málið og foreldrarnir hafa leitt leitina að henni með áberandi hætti, t.d. með heimsókn til Benedikts XVI páfa. Nú berast böndin að ábendingum um að lík hennar sé grafið skammt frá staðnum þar sem hún hvarf.

Madeleine var numin á brott af hótelherbergi en foreldrar hennar höfðu skilið hana þar eftir á meðan þau fóru og fengu sér kvöldverð. Málið allt er hið undarlegasta og hefur það verið miðpunktur fjölmiðlaathygli af skiljanlegum ástæðum allt frá fyrsta degi. Ljóst er að portúgalska lögreglan vann málið allt of hægt í upphafi og klúðraði væntanlega rannsókninni á upphafsstigi. Sérstaklega var merkilegt að ekki var kannað betur er bútur úr barnsflík fannst í upphafi málsins skammt frá hótelinu.

McCann-hjónin hljóta að hafa upplifað hreint helvíti allt frá deginum sem dóttir þeirra hvarf. Þau munu eflaust alla tíð naga sig af samviskubiti sé það svo að Madeleine sé látin og ábendingarnar sem eru í fréttum nú séu réttar. Það sem hefur vakið mesta athygli mína er að þessi ábending og bréfið sem um er rætt er sláandi líkt því sem barst í belgísku morðmáli í fyrra þar sem bent var á staðinn þar sem lík tveggja stúlkna fundust.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næstu dagana. Þetta mál hefur verið í miðpunkti breskra fjölmiðla og víða um heim undanfarna daga. Það verður fylgst með því sem gerist í nágrenni Praia de Luz næstu dagana.

mbl.is Nýjar vísbendingar um hvar Madeleine er að finna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband