17.6.2007 | 23:20
Ísland á EM í Noregi - sigur gegn Serbum!
Það var ævintýralega skemmtilegt að fylgjast með Íslendingum leggja Serba í Laugardalshöllinni í kvöld og tryggja sér með því farseðil á EM í Noregi í janúar 2008. Frábær leikur og mikil var gleðin með úrslitin, og það á sjálfum þjóðhátíðardeginum. Þetta var þó ótrúlega tæpt undir lokin, eftir glæsilegan leik lengst af og spennan var óbærileg með að vita hvoru megin þetta muni velta að lokum.
Þetta fór vel og sigurstemmningin var í senn ósvikin og kraftmikil er á hólminn kom. Þetta er auðvitað mjög merkilegur áfangi, með þessu er liðinu allir vegir í raun færir og mikilvægt að það fái tækifæri til að sýna hvað í því eiginlega búi. Við náðum ágætis árangri á HM í Þýskalandi í janúar, en við viljum auðvitað helst komast lengra en síðast, það vilja alltaf allir, og því vonumst við eftir góðu gengi í Noregi.
Ég er að hugsa um að skella mér til Noregs í janúar, fannst leiðinlegt að missa af HM, en nú í janúar mun maður skella sér í góðra vina hópi út og skemmta sér yfir leikjunum. Einfalt mál það.
![]() |
Ísland sigraði Serbíu 42:40 og er komið á EM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2007 | 20:02
Vond helgi á Akureyri - aðgerða er þörf!

Þetta er þó ekki nýr vandi. Fregnirnar hafa enda hljómað rétt eins og verið hefur á bæjarhátíðinni Einni með öllu um verslunarmannahelgar undanfarin ár. Það er ekki góður stimpill, það er alveg ljóst. Nú þegar að þessi helgi er liðin stöndum við frammi fyrir nokkuð áleitnum spurningum - við verðum að spyrja okkur hvað sé að gerast í raun og veru? Höfum við eitthvað sofnað á verðinum? Höfum við fengið á okkur sukkstimpilinn sem fylgdi Halló Akureyri forðum daga? Erum við að sigla í sömu átt og við reyndum að forðast áður?
Mér finnst fregnir af þessu sukki afleitar en mun meira svíður mér þó allt ofbeldið. Ofbeldið í samfélaginu er alltaf að aukast og við sjáum einhvern anga þeirrar skelfingar á þessari hátíð um helgina. Sérstaklega fór mjög í mig að heyra af því að starfsmenn tjaldsvæðisins á Hömrum hafi verið barðir. Þetta er algjörlega ólíðandi. Það að verði að hafa vakt lögreglumanna við tjaldsvæðin er napur veruleiki og leiðir til þess að setja verður hlutina í nýtt samhengi og leysa úr þeim flækjum sem því fylgir.
Það er alveg ljóst að fylleríið og ofbeldið í bænum náði vondum hápunkti þessa helgina. Það verður að hugsa vel um þau mál öll. Ég vil að Akureyri standi undir nafni sem fjölskyldubær en fái ekki á sig stimpil óreglu og sukks - en alltof mikið var af slíku hér um helgina og því miður það eina sem var fréttnæmt héðan. Þetta gengur ekki lengur!
![]() |
Kallaðir út úr fæðingar- og sumarorlofi til að sinna löggæslu á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.6.2007 | 19:40
Gleðilega þjóðhátíð!
Ég óska lesendum gleðilegrar þjóðhátíðar. 17. júní er ávallt gleðidagur í huga okkar allra og hann er mesti hátíðisdagurinn í sögu landsins. Það eiga allir góðar minningar tengdar deginum, þó æði oft hafi regn sett mark sitt á hann, eftirminnilegast var það þó fyrir 63 árum er lýðveldi var stofnað á Þingvöllum.
Fallegasta ættjarðarljóðið að mínu mati er Hver á sér fegra föðurland eftir skáldkonuna Huldu, Unni Benediktsdóttur Bjarklind.
Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.
Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.
Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur liti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)