Háskaakstur í miðborg Reykjavíkur

Það var mjög dapurlegt að heyra fréttir af hraðakstrinum í miðborg Reykjavíkur sem lauk með því að ekið var á Hamborgarabúllu Tómasar. Þetta er auðvitað stóralvarlegt mál, það er skelfilegt að hraðakstur af þessu tagi sé inni í miðri borg. Þetta telst varla slys, heldur hreinlega manndrápsakstur að mínu mati. Það getur varla öðruvísi endað en með skelfingu þegar ekið er af þessu tagi. Þetta getur orðið að tilræði við gangandi vegfarendur, sem fyrir tilviljun geta orðið fórnarlömb þess sem fylgir hraðakstrinum, enda þarf lítið að gerast til að ökumennirnir missi stjórn á stöðunni.

Það er vonandi að ungmennin þrjú sem lentu í þessu nái fullri heilsu. Það eru samt blendnar tilfinningar sem fylgja þessu máli, það er alveg ljóst. Það er auðvitað algjört sjálfskaparvíti að stunda hraðakstur inni í miðri borg og getur farið verulega illa. Það gerðist í þessu tilfelli og það hefur gerst áður. Það voru tilfelli t.d. á síðasta ári sem voru svipuð þessu. Banaslys fylgdu í sumum tilfellum. Þetta er dapurleg þróun, enda virðist vera sama þó að klifað sé á því að hraðakstur eða hreinn kappakstur geti orðið fólki að bana að staðan virðist lítið sem ekkert breytast til hins betra.

Það þarf að stokka málin upp enn frekar. Guðbrandur Bogason, formaður Ökukennarafélags Íslands, kom reyndar með góðan punkt í kvöldfréttum þar sem hann kom með sitt mat að breyta þurfi ökunámi á Íslandi og eyða meira púðri í djúpa innrætingu. Það er margt til í því. Eitthvað þarf allavega að gera. Það blasir við. Þetta er þróun sem á ekki að sætta sig við. Til þess er hún enda í senn bæði of drungaleg og sorgleg.

mbl.is Þungt haldin eftir umferðarslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekur Akureyrarbær yfir flugvöllinn í bænum?

Akureyrarflugvöllur Það vakti mikla athygli er Sjálfstæðisflokkur og Samfylking mynduðu meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar að þar kom fram vilji flokkanna að Akureyrarbær myndi taka við rekstri Akureyrarflugvallar. Nú hafa Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, og Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs, skerpt á þessari skoðun með mjög áberandi hætti og vilja láta á þetta reyna.

Kristján L. Möller, s
amgönguráðherra og leiðtogi Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að flugbrautin á Akureyrarflugvelli verði lengd við fyrsta tækifæri og að það yrði jafnframt skoðað hvort að bærinn tæki við vellinum. Hann tekur með öðrum orðum ekki fyrir þann valkost og heldur honum galopnum. Eflaust hefur Kristján rætt þessi mál vel áður við Hermann Jón, en þeir þekkjast vel úr kjördæmastarfinu og ráðherrann kemur oft við hjá flokksfólki sínu hér í bæ og er eflaust vel inni í þessum málum öllum sem um er að ræða.

Sigrún Björk tók sérstaklega fram í ræðu á bæjarstjórnarfundi í Ráðhúsinu á þriðjudag að þessa tillögu þyrfti nú að skoða betur en áður. Vilji hennar og annarra bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins virtist skýr. Hermann Jón hefur tekið undir þessa skoðun með áberandi hætti, síðast í viðtali við Svæðisútvarpið hér. Þetta er reyndar skoðun sem þarf ekkert að kanna að því er virðist enda er hún grúnderuð í meirihlutasamningi flokkanna og full samstaða virðist innan meirihlutans um þennan valkost. Boltinn virðist mun frekar vera staddur því hjá samgönguráðherranum, þingmanni kjördæmisins.

Sérstaklega er þó gleðilegt að samgönguráðherra hefur tekið afdráttarlaust fyrir að stækka eigi Akureyrarflugvöll. Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, dró lappirnar í því máli alltof lengi að mati okkar hér eins og ég hef margoft farið yfir í mínum skrifum á þessum vef. Völlurinn verður ekki alvöru millilandaflugvöllur fyrr en hann hefur verið lengdur og mun ekki geta staðið undir nafni sem lykiltenging Akureyrarbæjar og Norðurlands alls við höfuðborgarsvæðið og útlönd fyrr en sú lenging hefur átt sér stað. Það er algjört lykilmál hér nú.

Akureyrarbær hefur eflaust í hyggju með því að taka yfir völlinn að markaðssetja flugvöllinn talsvert betur en nú er gert og reyna að laða að sér lággjaldaflugfélög. Það skiptir máli. Þetta er kostur sem mikilvægt er að skoða. Ekki virðist skorta pólitíska samstöðu hér á Akureyri. Afstaða bæjarstjórans og bæjarfulltrúa meirihlutaflokkanna liggur skýr fyrir. Það er mikilvægt að taka næsta skref og kanna þetta betur.

The Last Hurrah in Brussels

Tony BlairTony Blair, forsætisráðherra Bretlands, er nú staddur í Brussel á leiðtogafundi ESB sem verður síðasta stóra embættisverk hans á stjórnmálaferlinum, en hann lætur af völdum á miðvikudaginn. Það sem átti eflaust að verða afslöppuð kveðjustund hans í framlínupólitík sem myndi sýna styrk hans sem stjórnmálamanns varð að hinu gagnstæða. Fundurinn hefur markast af átökum um hvert skuli stefna í málefnum Evrópusambandsins og ekkert víst enn í þeim efnum.

Fyrirfram var ljóst að tekist yrði á um framtíðina í Brussel og að þar yrðu Bretar og Pólverjar erfiðastir við að eiga. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur stýrt fundinum eins og herforingi en sérstaklega átt erfitt með að eiga við Pólverjana, sérstaklega eftir ummæli Lech Kaczynski um skarðan hlut Pólverja í samstarfinu í ljósi þess að þeir væru mun fleiri ef Þjóðverjar hefðu ekki stefnt til seinni heimsstyrjaldarinnar. Það varð sem olía á eldinn.

Blair virðist hafa gefið eftir fyrir kröfum Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, í Brussel og sagt er að til hvassra orðaskipta hafi komið milli Blairs og Browns í síma síðdegis þar sem þeir fóru yfir stöðu mála. Tony Blair er að mörgu leyti orðinn stórlega skaddaður sem stjórnmálamaður, vald hans og kraftur hefur veikst mjög í gegnum orrahríðir undanfarinna mánaða. Sérstaklega hafa innri væringar innan Verkamannaflokksins veikt hann, en þar er að mestu um að kenna átökum um hversu lengi hann myndi vera við völd.

Svo virðist sem að Tony Blair sé eiginlega dauðfeginn að losna brátt við skyldur stjórnmálaforystunnar. Hann og fjölskyldan munu halda beint í frí á ónefndum stað við Miðjarðarhafið í næstu viku eftir að hann hefur látið af embætti eftir hádegi á miðvikudag. Í Brussel fer lokarimma hans í stjórnmálum þó fram. Á meðan að hann nýtur þar lokaglampans síns á löngum stjórnmálaferli er Gordon Brown þegar byrjaður að setja saman ráðuneyti sitt í London og hefur boðið mönnum utan þings og Verkamannaflokksins ráðherrasæti. Fræg rimma hefur verið vegna þeirra mála milli Browns og forystumanna frjálslyndra.

Tony Blair hefur verið í stjórnmálum í yfir tvo áratugi og í rúman áratug verið maður sem hefur mikil alþjóðleg völd og áhrif. Þeim lýkur senn og stjórnmálaferlinum líka. Það er þó varla við því að búast að hann hverfi úr blossa alþjóðastjórnmálanna, enda er Bandaríkjamönnum sýnilega mikilvægt að halda honum í sviðsljósinu áfram, enda vita þeir hvað þeir höfðu með Tony Blair en ekki hvað þeir fá með Gordon Brown sem á miðvikudag stígur úr skugganum og tekur sæti á hástallinum mikla.


mbl.is Samkomulag milli Þjóðverja og Pólverja um atkvæðavægi innan ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar um Hafró

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar Greinilegur ágreiningur er innan ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um Hafrannsóknastofnun. Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, tjáir þá skoðun á vefsíðu sinni að skilja eigi Hafrannsóknastofnun frá sjávarútvegsráðuneytinu. Varla er við því að búast að t.d. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og fyrrum sjávarútvegsráðherra, og fleiri ráðherrar Sjálfstæðisflokksins taki undir þá skoðun.

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, var ekki beint parhrifin í fréttum Stöðvar 2 rétt í þessu. Fróðlegt væri að heyra skoðun Einars Kristins Guðfinnssonar, sjávarútvegsráðherra, en hann hefur varla undan því að svara því sem fulltrúar stjórnarflokkanna segja opinberlega um málaflokk hans, en mikla athygli vöktu um daginn nærgætin svör hans við hinni frægu þjóðhátíðarræðu Sturlu Böðvarssonar, forseta Alþingis, sem yfirskyggðu ræðu forsætisráðherrans sem þó var flutt í kastljósi fjölmiðla í beinni útsendingu.

Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður og Vestfjarðajaxl með meiru, er eflaust glaður yfir þessum skrifum Össurar. Mikla athygli vakti rimma Árna M. Mathiesen og Einars Odds í vikunni, þar sem Árni skaut föstum skotum vestur til Einars Odds. Var það með hvassari átökum þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem ég man eftir að hafi átt sér stað eftir formannskjör Davíðs Oddssonar fyrir einum og hálfum áratug, en flokkurinn logaði oft í skotum kjörinna fulltrúa á áttunda og níunda áratugnum, er hann klofnaði með áberandi hætti, t.d. með myndun ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens, þáverandi varaformanns, í trássi við flokksstofnanir.

Það verður fróðlegt að sjá hvor skoðunin verður ofan á innan ríkisstjórnarinnar, en skýr ágreiningur um aðferðir í málefnum Hafrannsóknastofnunar og hverjum hún muni tilheyra er til staðar.

Nýtt bloggsamfélag - Egill bloggar á Eyjunni

Egill Helgason Nýja bloggsamfélagið Eyjan mun víst eiga að opna í dag. Kjaftasögurnar segja að Egill Helgason muni blogga á Eyjunni, en hann hefur bloggað hér á Moggablogginu í þrjár vikur, eða frá því að honum var úthýst af vísi.is eftir fjölmiðlaátök í gúrkutíð að sumri við fjölmiðlaveldið 365. Það verður fróðlegt að sjá á næstu dögum hvort kjaftasögurnar eru réttar.

Egill hefur reyndar ekki bloggað hér í nokkra daga, en dvelst í blíðunni á eyjunni Folegandros. Lista yfir bloggnöfnin sem þá voru komin á Eyjuna var skúbbað fyrir nokkrum dögum án þess að nokkur sýnileg mótmæli kæmu við því og því greinilegt að það fólk ætlar að skrifa þar eftir boð þar um, enda verður ekki um að ræða opið bloggsamfélag eftir mínum heimildum, heldur fyrirfram ákveðinn pennavettvang sem mynda samfélagið sem um ræðir.

Þau nöfn eru:
Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi
Helga Vala Helgadóttir, varaþingmaður
Habba Kriss, sálfræðingur og systir Sigga Kára
Grímur Atlason, bæjarstjóri í Bolungarvík
Freedomfries, ameríska bloggið skemmtilega
Hux (Pétur Gunnarsson) stjóri
Andrés (Jónsson) stjóri
Andrés M. blaðamaður
Pétur Tyrfingsson, sálfræðingur
Obba (eiginkona Ágústs Ólafs Ágústssonar)
Arna Schram, formaður Blaðamannafélagsins
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra.

Merkilegur listi þetta. Ekki vekur mikla undrun að sjá nafn Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra og fyrrum formanns Samfylkingarinnar, en hann og Andrés eru vel tengdir. En enn er smellt er á eyjuna.is kemur melding um innskráningu og ekkert enn verið opnað. Það verður fróðlegt að sjá það sem blasir við þegar að hurðin opnast. Reyndar gat maður litið á grunninn að nýrri síðu Björns Inga um daginn og hún gaf fyrirheit um hvað er framundan.


Mun Guðrún Ögmundsdóttir fá Jafnréttisstofu?

Guðrún Ögmundsdóttir Kjaftasögurnar segja að Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, ætli Guðrúnu Ögmundsdóttur, fyrrum alþingismanni Samfylkingarinnar, embætti framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu hér á Akureyri sem brátt verður auglýst laust til umsóknar. Margrét María Sigurðardóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri, sem gegnt hefur embættinu frá því að Valgerði H. Bjarnadóttur var ýtt til hliðar af Árna Magnússyni, þáverandi félagsmálaráðherra, hefur verið ráðin umboðsmaður barna.

Það verður vissulega mjög athyglisvert ef Guðrún, sem var alþingismaður Reykvíkinga í átta ár og borgarfulltrúi þar áður í sex ár í Reykjavík, myndi flytja til Akureyrar og taka við Jafnréttisstofu í Borgum við Norðurslóð. Guðrún var á þingferli sínum mjög ötull talsmaður mannréttinda og jafnréttis og var vissulega framarlega í flokki talsmanna velferðarmála innan Samfylkingarinnar áður en henni var hafnað í prófkjöri í nóvember 2006. Hún þorði að fara gegn straumnum í fjölda málaflokka en naut þess ekki er á hólminn kom.

Guðrún var umsækjandi um embætti umboðsmanns barna, stöðuna sem Margrét María fékk. Það hafði verið í umræðunni hvort henni væri ætlað verkefni. Nú þegar að Jafnréttisstofa losnar er ekki óeðlilegt að velta því fyrir sér hverjir hafi áhuga. Jóhanna Sigurðardóttir mun sem félagsmálaráðherra og yfirmaður jafnréttismála veita embætti framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Jóhanna og Guðrún voru saman á þingi um langt skeið og þekkjast vel. Það verður fróðlegt að sjá hvort hún skipar sína fyrrum samstarfskonu.

Það verður reyndar fróðlegast af öllu að sjá hvort að Valgerður H. Bjarnadóttir, fyrrum framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi á Akureyri, sæki um stöðuna sem hún gegndi um árabil. Það verður athyglisvert að sjá hvort að hún fái stöðuna sæki hún um.

50 dagar liðnir - er Madeleine stödd á Möltu?

Madeleine McCann Það eru 50 dagar liðnir frá því að Madeleine McCann hvarf sporlaust í bænum Praia de Luz á Algarve í Portúgal. Því er minnst um allan heim í dag með því að sleppa fimmtíu gulum blöðrum út í loftið. Það var gert hér í Reykjavík eins og sést í meðfylgjandi frétt. Mikil dulúð hefur umlukið málið allt frá fyrsta degi.

Madeleine var numin á brott af hótelherbergi en foreldrar hennar höfðu skilið hana þar eftir á meðan þau fóru og fengu sér kvöldverð. Málið allt er hið undarlegasta og hefur það verið miðpunktur fjölmiðlaathygli af skiljanlegum ástæðum allt frá fyrsta degi. Ljóst er að portúgalska lögreglan vann málið allt of hægt í upphafi og klúðraði augljóslega rannsókninni strax á upphafsstigi.

Nú beinast sjónir að vísbendingum um að hjón hafi séð stelpu sem líkist Madeleine McCann á Möltu. Þær vísbendingar þykja vera sterkar og er nú verið að kanna þær. Það er þó ljóst að eftir fimmtíu daga leit minnka sífellt vonir um árangur í leitinni. Það hefur þó gerst að börn hafi verið týnd árum saman en jafnvel fundist. Þetta tilfelli þykir þó sérstaklega dularfullt og fjölmiðlaathyglin er gríðarleg.

Það er ljóst að McCann-hjónin eru í sjokki. Þau litu af dóttur sinni og kenna sér eflaust um hvernig fór. Það verður þeim þung byrði ef Madeleine finnst látin eða jafnvel finnst aldrei, þess eru auðvitað dæmi að krakkar hafi horfið við svipaðar aðstæður, en aldrei fundist. Það eru dapurleg örlög.

mbl.is Blöðrur til marks um samkennd með fjölskyldu Madeleine
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvinsæll forseti á pólitískum hættuslóðum

George W. Bush Pólitísk staða George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, heldur sífellt áfram að versna. Nú er hann orðinn óvinsælli í könnunum en Richard M. Nixon var á Watergate-tímanum, en hann sagði af sér forsetaembættinu vegna þess sögulega hneykslismáls beygður og smáður í ágúst 1974. Pólitísk örlög Bush eru að verða ansi grá og guggin, staða hans heldur aðeins áfram að versna og aðeins spursmál hversu melódramatísk afgangur kjörtímabilsins verði fyrir hann.

Kjörtímabili hans á forsetastóli mun ljúka þann 20. janúar 2009. Hann getur ekki gefið kost á sér til endurkjörs - það líður því að lokum forsetaferils þessa umdeilda forseta. Það er ljóst að forsetinn er einn sá óvinsælasti í sögu landsins. Meira en 2/3 hluta landsmanna hafa misst traust og trú á forystu hans og telja honum hafa orðið á. Það er greinilegt að lokasprettur forsetaferilsins verður honum erfiður og viðbúið að brátt syrti æ meir í álinn milli demókrata og repúblikana en nú þegar orðið er.

George W. Bush hafði aðeins einu sinni á sex ára forsetaferli beitt neitunarvaldi gegn lögum frá þinginu á forsetaferlinum áður en repúblikanar misstu bæði öldungadeildina og fulltrúadeildina í nóvember 2006. Síðan hefur hann tvisvar beitt neitunarvaldi og viðbúið að það muni gerast æ oftar á næstunni. Greinilegt er að forsetinn leggur sérstaka áherslu á að þingið gefi hinni nýju hernaðaráætlun sinni og Bob Gates, varnarmálaráðherra, færi á að sanna sig og verða sett í framkvæmd af krafti. Viðbúið er að demókratar sætti sig ekki við fjölgun hermanna í Írak og auka stríðsreksturinn þar eins og staðan er orðin. Forsetinn hefur ekki lengur meirihluta á þingi bakvið hernaðarplan sitt og þar er orðið algjörlega stál í stál.

Stóri vandi Bush forseta nú er tvíþættur; hann hefur misst tiltrú landsmanna og hann hefur ekki þingið á bakvið sig lengur. Hann er því mun einangraðri sem forseti en margir forvera sinna. Sumir forsetar hafa getað sætt sig við að hafa þingið ekki með sér en eiga mun erfiðar með að segja sína skoðun vitandi að þjóðin fylgir honum ekki eftir. Það er þung byrði að bera - þá byrði ber Bush nú, jafnvel allt til loka forsetaferilsins, hver veit? Allavega hefur mjög þyngst yfir honum sem forseta, það hefur mjög margt breyst.

Bush forseti veit vel að pólitísk arfleifð hans ræðst mikið af því hvernig fer á næstu 20 mánuðum, það sem eftir lifir valdaferilsins. Hann veit að demókratar ráða þinginu og virðast hafa almenningsálitið með sér. Merki þess hversu gríðarlega hann hefur veikst pólitískt sjást í því hversu snemma kosningabaráttan um val á eftirmanni forsetans hefst. Hún mun aldrei standa lengur en að þessu sinni, hófst þegar á fullu í janúar. Það er jafnan sterkt merki þess hvort forseti sé sterkur eða veikur.

Öll vitum við hvað er að gerast núna. Baráttan um Hvíta húsið er hafin með sama krafti og kjósa ætti í forkosningum í næsta mánuði. Nú veltur allt á hvernig að Bush gengur að vinna með demókrötum. Hann vann með þingi undir yfirráðum demókrata í Texas meðan að hann var ríkisstjóri þar. En nú er þolraunin erfiðari - jafnframt um meira að tefla. Hann mun eiga erfitt í þessari stöðu.

Það að vera stríðsforseti í vonlausu stríði er ekki fallið til vinsælda. Öll munum við eftir Texas-búanum Lyndon B. Johnson, ekki satt?

mbl.is Bush óvinsælasti forseti Bandaríkjanna í 35 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur sigur - nýjir tímar í kvennaboltanum?

Mörkum fagnað Það var yndislegt að sjá íslenska kvennalandsliðið bursta hið serbneska á Laugardalsvelli í sumarblíðunni í kvöld, 5-0. Glæsilegur sigur, stelpurnar áttu hann svo sannarlega skilið. Liðsandinn og stemmningin skein af liðinu og þær fóru algjörlega á kostum. Það er alveg greinilega að blómstra þetta landslið og þjálfari og leikmenn samstíga í góðum verkum. Þarna er gott starf til fjölda ára að skila sér svo sannarlega.

Það eru nýjir tímar í kvennaboltanum. 6000 manns voru á Laugardalsvelli. Þetta er auðvitað stórglæsilegt, loksins er kvennaboltinn að fá verðskuldaðan sess. Kvennaliðinu gengur mun betur en karlaliðinu og það er í ljóma sigursældar og góðs árangurs. Svo góður árangur byggir ekki bara góða liðsheild heldur tryggir að landsmenn vilja fylgjast með. Landsmenn hafa sjaldan stutt eins vel við bakið á kvennalandsliðinu í kvöld, enda var þetta glæsilegt móment fyrir kvennaboltann að mínu mati. Þetta var mikið sigurkvöld fyrir þær sem hafa leitt þetta starf árum saman og sjá nú afrakstur þess.

Staða íslenska kvennaliðsins er góð í riðlinum. Þær leiða hann með þrjá sigra og níu stig. Þetta er auðvitað stórmerkilegur árangur. Það er alveg ljóst að þetta er lið sem getur gert enn betri hluti en þá sem áður hafa átt sér stað. Það er þó ekkert gefið fyrr en yfir lýkur og framundan eru erfiðir leikir. En þetta er lið sem getur fært góða sigra, liðsheildin er öflug og landsmenn styðja stelpurnar 110%. Það allt skiptir máli. Þetta er blanda sem getur varla klikkað. Það sjáum við vel á þessu fagra júníkvöldi.

Bloggfærslur 22. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband