24.6.2007 | 22:26
Munurinn á milli bresks leiðtoga og formanns

Það var t.d. athyglisvert að sjá í kvöldfréttum Stöðvar 2 og sumum netfréttamiðlum að Gordon Brown var æ ofan í æ nefndur formaður breska Verkamannaflokksins. Eins og allir vita er titillinn leader, það er leiðtogi. Í breskum stjórnmálaflokkum er enda tvennt ólíkt að vera formaður eða leiðtogi. Leiðtogi er sá sem er andlit flokksins og leiðir hann út á við, er auðvitað forsætisráðherra sé flokkurinn í stjórn og er talsmaður hans út á við og inn á við. Formaðurinn er sá sem stjórnar innra starfinu og heldur í þræði þess sem gerist þar mun frekar en leiðtoginn.
Til dæmis var Hazel Blears formaður Verkamannaflokksins. Hazel tapaði illa í varaleiðtogakjöri kratanna í dag og varð í sjötta sæti. Brown tilkynnti reyndar í ræðu sinni í dag að hér eftir myndi varaleiðtoginn gegna þessum skyldum. Í raun er því verið að festa varaleiðtogann í þeim sessi að sinna því sem sinna þarf inn á við. Ekki er þetta ósvipað hérna heima en jafnan er varaformönnum falin leiðsögn innra starfsins þó þeir séu misduglegir við það oftast nær.
Í Bretlandi er því staða mála gjörólík því sem við venjumst hérna heima. Það er því kannski skiljanlegt að fjölmiðlar ruglist á þessu en það er samt sem áður vandræðalegt. Reyndar eru bresk stjórnmál ólíkt meira völundarhús og meira kerfisbákn en þau íslensku og skiljanlegt að þar sé málum skipt öðruvísi niður en í smáu landi og kerfi á við okkar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.6.2007 | 20:59
Átök í skjóli nætur
Við erum svosem ekkert sérstök með fréttir af þessum óhugnaði. Eflaust er þetta um allan heim í mismiklu mæli og varla er þetta eitthvað einsdæmi hér. En þetta er samt að aukast sífellt hérna heima. Róleg hverfi geta orðið vígvöllur um helgar og jafnvel er fólk ekki orðið óhult við að fara út að skemmta sér að helgarnóttu, það hafa dæmin sannað. Sumir hafa verið barðir svo illa í miðbæ Reykjavíkur um nótt að þeir hafa annaðhvort dáið eða bera merki þess alla tíð eftir það. Þetta er ömurlegt ástand.
Ég hugsa oft um það hvernig samfélagið okkar sé. Það er auðvitað alltaf best að trúa á hið besta í hverjum og einum en einhvernveginn efast maður um það allt saman þegar að fréttir af þessu tagi hrannast yfir morguninn eftir helgarkvöld eða jafnvel á virkum degi. Þetta er eiginlega orðið ástand sem vekur orðið of mikla athygli til að maður hugsi ekki um það.
Eða er þetta kannski orðið svo algengt ástand að maður er hættur að kippa sér upp við það. Erfitt um að segja. Hvað mig varðar finnst mér þetta ástand sem er ekki hægt að horfa framhjá. Þetta fær mann til að hugsa um hvert við stefnum og hvernig samfélagið sé. Það er mjög einfalt mál.
![]() |
Óþekkt áhald notað í fjöldaátökum í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.6.2007 | 17:59
Lifir samband Vilhjálms og Kate af sér storminn?

Vilhjálmur og Harry voru í erfiðum sporum fyrir áratug. Ekki aðeins þurftu þeir að kveðja móður sína án þess að geta í raun kvatt hana í sjálfu sér áður en hún dó, heldur þurftu þeir að syrgja í kastljósi fjölmiðla. Þar var enginn friður í raun. Dauði Díönu varð svo mikill fjölmiðlahasar í sjálfu sér að sorg í einrúmi, sem flestir telja sjálfsagðan og eðlilegan hlut eftir að nákominn ættingi deyr í skelfilegu slysi, varð ekki valkostur. Þeir náðu þó að bera þessar þungu byrðar aðdáunarlega vel og sérstaklega var Vilhjálmur sterkur þetta sumar. Hann hefur þó þurft að lifa síðan í sama fjölmiðlahasarnum og mamma hans var partur af allt til hinstu stundar.
Það var alltaf viðbúið að fjölmiðlar myndu fylgja Vilhjálmi eftir hvern spöl ævinnar allt frá því að hann yrði átján ára gamall og sérstakt samkomulag Karls, föður hans, við fjölmiðla eftir móðurmissinn rynni út. Það reyndist raunin sérstaklega þegar að hann varð ástfanginn af Kate Middleton og sóttist eftir sambandi við hana og ræktaði það. Það varð kaldhæðnislegt hversu fjölmiðlar hundeltu Kate hvert spor daglega lífsins eftir að sambandið varð opinbert. Kaldhæðnislega var flótti hennar undan ágengnum ljósmyndurum og fréttamönnum áberandi líkt því sem Díana þurfti að lifa við í tilhugalífinu með Karli prins.

Hvort að það gerist við fráfall ömmu hans eða föður er ómögulegt um að segja í raun á þessari stundu, en það er greinilegt á skoðanakönnunum þó að Bretar hafa alla tíð viljað að hann tæki við af Elísabetu II. Það var ennfremur ósk móður hans sem gerði upp við alla kergjuna í garð Karls í ógleymanlegu viðtali tveim árum áður en hún dó.
Það var mjög ánægjulegt að sjá frétt um það að Vilhjálmur og Kate ætla að reyna aftur. Vonandi tekst þeim að rækta líf í þessum myndavélablossum sem hlýtur að vera þungbær fylgifiskur þess lífs sem fylgir væntanlegum krónprinsi Englands. Það er líf sem enginn getur flúið sama hversu þungt það getur orðið.
Að mínu mati hefur Vilhjálmur eflst við hverja raun. Hann er lifandi eftirmynd Díönu og virðist hafa erft stillingu hennar og tignarlegan þokka, sem faðir hans hefur aldrei haft til að bera. Hann á eftir að verða glæsilegur kóngur, fyrr en síðar.
![]() |
Vilhjálmur og Kate saman á ný? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.6.2007 | 15:17
Gordon Brown tekur við af Blair sem flokksleiðtogi
Gordon Brown, verðandi forsætisráðherra Bretlands, hefur tekið formlega við leiðtogahlutverkinu í Verkamannaflokknum af Tony Blair, fráfarandi forsætisráðherra, eftir þrettán ára napra bið á hliðarlínunni eftir fullum völdum og áhrifum. Gordon Brown var á sínum tíma í huga margra hinn eini sanni arftaki læriföður síns, skotans John Smith, er hann varð bráðkvaddur fyrir þrettán árum en þá ákvað hann að leyfa Tony Blair að fá tækifærið gegn samkomulagi um að hann tæki síðar við.
Seint og um síðir, og eftir fræg svik og stingandi kulda í samskiptum þeirra, er nú komið að valdaskiptunum, sem allir hafa í raun beðið eftir frá kjöri Blairs. Það varpar reyndar miklum skugga á þennan sögulega dag fyrir Verkamannaflokkinn er sigursælasti leiðtogi hans kveður flokksforystuna og býr sig undir að flytja úr Downingstræti að leki út upplýsingar um að hann hafi viljað sparka Brown úr fjármálaráðuneytinu, þar sem hann hefur ríkt á ellefta ár, í aðdraganda þingkosninganna 2005, er samskipti þeirra voru við frostmark. Brosin á andlitum Blairs og Browns virkuðu þó sönn áðan.
Gordon Brown er í þessum skrifuðum orðum að lýsa framtíðarsýn sinni fyrir bresku þjóðina og flokkinn sem hann hefur loks fengið tækifærið til að leiða í ræðu í Manchester, þetta er löng ræða og vægast sagt vel undirbúin. Gordon er búinn að bíða lengi og var orðinn úrkula vonar um tíma, taldi að sótt yrði að sér úr herbúðum forsætisráðherrans fráfarandi. Að lokum fór svo ekki, það var ekki lagt í átök og sundrungu í aðdraganda brotthvarfs Blairs. Eflaust réði þar miklu sífellt versnandi staða Verkamannaflokksins í skoðanakönnunum og tilkoma nýs og sigurstranglegs leiðtoga í Íhaldsflokknum, sem virðist vera að rísa úr öskustónni eftir afhroðið mikla 1997 og töpin skaðlegu 2001 og 2005. Brown var sá eini sem blasti við og átök við hann hefðu getað skaðað kjarna flokksins svo mjög að næstu kosningar væru fyrirfram tapaðar.
Það má búast við miklum breytingum í breskum stjórnmálum á næstu dögum. Endalok stjórnmálaferils Tony Blair, sem hefur ríkt sem risi í pólitísku landslagi Bretlands frá kosningasigrinum sögulega 1997, boðar þáttaskil fyrir flokk og þjóð. Þrátt fyrir að vera flokksfélagar og um margt samherjar í verkum áranna tíu eru þetta tveir gjörólíkir menn. Verklag þeirra og kraftur er ólíkur og það verða miklar breytingar fyrir bæði flokkinn og þjóðina að fylgjast með þessum valdaskiptum. Búast má við að Brown muni sem forsætisráðherra stokka stjórnina upp mjög róttækt, valdamiklum ráðherrum Blair-tímans, sem ekki þegar hafa yfirgefið sviðið, verður sparkað og þeir sem trúastir hafa verið Skotanum fá tækifæri sem þeir fengu aldrei áður.
Gordon Brown mun sækjast eftir því sem flestir hafa talið ómögulegt um nokkuð skeið, að tryggja fjórða kjörtímabil Verkamannaflokksins við völd í Downingstræti og leika eftir sögulegan árangur Íhaldsflokksins sem ríkti í fjögur tímabil, í átján ár, 1979-1997. Gordon Brown er þó allt annar stjórnmálamaður en Sir John Major var. Major var uppfylling þegar að Thatcher missti fótanna og um margt málamiðlun ólíkra hópa. Það er Gordon Brown ekki. Sem forsætisráðherra mun hann njóta þess að hafa gert flokkinn að sínum stig af stigi og haft óskorað traust til að taka við, þó ekki allir dýrki hann út af lífinu. En það reynir nú á Skotann þegar að hann sækist eftir umboði.
Eftir áratugavist sem maður skuggans á bakvið John Smith og Tony Blair er Gordon Brown nú orðinn einn valdamesti maður heims og leiðir nú bresk stjórnmál. Það er verkefni sem hann hefur þjálfað sig fyrir allt frá því að hann var undir leiðsögn Smiths forðum daga. Nú reynir á hvort að hann hefur það sem hann þarf. Beið hann of lengi eftir völdunum. Það er spurning sem allir spyrja sig að. Svarið ætti að fást fljótlega í forsætisráðherratíð hans og öllum er ljóst að kosningarnar 2009 eða 2010 verða spennandi átök um völd og pólitíska framtíð risanna Brown og Cameron. Aðeins annar brosir þær kosningar af sér.
![]() |
Gordon Brown orðinn flokksleiðtogi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.6.2007 | 14:23
Harriet Harman sigrar - naumur sigur á Johnson
Harriet Harman, dómsmálaráðherra Bretlands, hefur verið kjörin varaleiðtogi breska Verkamannaflokksins. Hún sigraði Alan Johnson, menntamálaráðherra, naumlega en aðeins munaði tæpu prósenti á milli þeirra. Harman hlaut 50,3% en Johnson hlaut 49,6%. Sex sóttust eftir stöðunni, sem John Prescott hefur gegnt í þrettán ár. Var tilkynnt um valið með útsláttarfyrirkomulagi. Fyrst datt út Hazel Blears, því næst Peter Hain, Hilary Benn og Jon Cruddas, sem mörgum að óvörum varð í þriðja sætinu. Eftir stóðu því í lokahrinu Harman og Johnson.
Harriet Harman er sextándi varaleiðtoginn í 107 ára sögu Verkamannaflokksins og önnur konan sem gegnir því embætti. Margaret Beckett, sem nú er utanríkisráðherra Bretlands, fyrst kvenna, var kjörin varaleiðtogi Verkamannaflokksins árið 1992 er John Smith varð leiðtogi Verkamannaflokksins. Beckett varð leiðtogi flokksins þegar að John Smith varð bráðkvaddur 12. maí 1994, en andlát hans úr hjartaslagi varð gríðarlegt áfall fyrir flokkinn í þeirri stöðu sem hann var þá í, en talið var þá öruggt að Smith yrði forsætisráðherra. Beckett tapaði í leiðtogakjöri fyrir Tony Blair í júlí 1994 og hætti sem varaleiðtogi.
Harriet Harman hefur lengi verið áberandi bakvið tjöldin og bjuggust fáir við því fyrir nokkrum árum að hún ætti eftir að komast til æðstu metorða innan Verkamannaflokksins við hlið Gordon Brown í forsætisráðherratíð hans, er þrettán ára bið eftir leiðtogaembættinu lýkur. Það hefur blasað við að helstu stuðningsmenn Browns hafa talað máli Harmans og eiginlega má segja að sá stuðningur hafi skipt sköpum fyrir hana, altént í þessari tæpu stöðu.
Það er reyndar auðvitað það skemmtilegasta við kosningar innan Verkamannaflokksins að því er skipt í þrennt í hlutföllum, atkvæði þingmanna, óbreyttra flokksmanna og þeirra sem koma úr verkalýðshreyfingunni. Johnson, sem er gamall verkalýðsleiðtogi, hafði verkalýðsarminn með sér og þingflokkinn en Harman hafði óbreytta flokksmenn með sér greinilega og það skipti úrslitum, enda munurinn innan við prósent.
Harriet Harman mun eflaust fá öflugt ráðuneyti í ríkisstjórn Gordons Brown sem tekur við völdum síðdegis á miðvikudag eftir að Brown hefur þegið stjórnarmyndunarumboð úr hendi Elísabetar II drottningar í kjölfar afsagnar Tony Blair. Það blasir líka við að Harriet Harman verði valdamikill forystumaður, valdameiri en mörgum óraði fyrir þegar að hún féll í ónáð hjá Tony Blair á fyrsta tímabili flokksins við völd.
![]() |
Harriet Harman kosin aðstoðarflokksleiðtogi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.6.2007 | 03:10
Skrifað gegn kvenréttindum á Moggablogginu
Það er viðbúið að á opið bloggkerfi safnist saman fólk úr öllum áttum, sem vill tjá sig einhverra hluta vegna. Sumir eru málefnalegir og heiðarlegir í sínum skrifum. Þá er gaman að lesa. Það er hinsvegar ekki gaman að líta á vefi með skrifum af því tagi sem viðkomandi einstaklingur virðist hreykja sér mjög af að stunda. Ég hélt á þeim tímum sem við lifum á væri samstaða um það í samfélaginu að staða kvenna ætti að vera jöfn okkar karlanna. Það teljast mannréttindi að kynin standi jöfn. Það verður að standa vörð um það. Það er auðvitað ömurlegt að lesa skrif þar sem konur eru talaðar niður í duftið hér á þessu bloggkerfi.
Þegar að ég byrjaði á spjallvefunum var oft gaman að skrifa og ég naut þess tíma mjög. Það kom þó að því að lið sem var beinlínis að skemma vitræna umræðu lagði spjallvefina að mestu í rúst. Þetta var fólk sem gat með engu móti verið málefnalegt. Þetta fólk lagði Innherjavefinn á vísir.is í rúst og lagði síðar málefnin.com í rúst. Þar er nú steindatt samfélag að mestu sýnist mér. Ég leit í vikunni í fyrsta skipti á málefnin síðan í febrúar. Ég fékk mig fullsaddan af þeim vef þá er vefstjórinn þar bar út um mig ósanna kjaftasögu og braut eigin málverjaboðorð. Það var ekkert spennandi að líta þar aftur og ég er dauðfeginn að hafa hætt þar á þeim tíma.
Þar virðist hnefalögmálið og pólitískt fyrirframséð hatur ríkja á milli fólks. Óþolandi ómálefnalegt andrúmsloft semsagt. Það er eins og það er. Ég fer ekkert leynt með að ég sakna örlítið gömlu spjalldaganna þegar að málefnalegt spjall skipti máli milli fólks. Ég sakna þó alls ekki þess andrúmslofts sem var þar þó undir lokin í minni tíð. Það er leiðinlegt ef sömu leiðindi og ómerkilegheit berast hingað á Moggabloggið finnst mér. En það er þó valkostur okkar að sniðganga þau blogg sem okkur mislíkar og halda okkur við hin, enda eru margir frábærir pennar hér.
Ég þekki ekkert viðkomandi mann sem skrifar þessi ömurlegu orð á sinn vef. Þau verða þó til þess að ég tel ekki rétt að líta þar framar, þó umdeildur maður sé eftir uppljóstranir Elíasar Halldórs. Orðbragð hans í þeim væntingum að reyna að halda vinsældum sínum með því að ráðast að konum og sjálfsögðum mannréttindum þeirra hjálpa ekki málstað hans sem var þó orðinn frekar veikburða fyrir.
24.6.2007 | 01:41
Bloggpælingar
Það hefur alla tíð verið þannig að ég skrifa lítið um prívatmál á mínu bloggi. Það hefur alla tíð verið skýrt að hér eru pælingar að mestu útfrá þjóðmálum. Ég byrjaði reyndar að blogga í rólegheitum á blogspot fyrir rúmum fimm árum. Það átti upphaflega að vera lítið og sætt blogg fyrir vini og ættingja, sem vildu heyra í mér hljóðið og lesa skoðanir mínar. Eftir að ég fór að taka að ráði þátt í pólitísku starfi efldist þetta allt og ég opnaði vef fyrir fjórum árum sem lengi var flaggskip mitt á netinu. Það var ómetanlegur tími. Það voru viðbrigði fyrir mig þegar að ég ákvað að hætta að uppfæra hann. Ég held þó í hann enn eins og ég skildi við hann.
Bloggpælingarnar hafa sífellt orðið meira áberandi. Ég fann mér farveg á tveim vefsíðum, bloggpælingum og öflugri prívatsíðu, þar sem ég skrifaði langa pistla vikum saman. Að því kom að mér fannst sá vettvangur búinn. Ég vildi breyta til. Á þessum tíma var ég á krossgötum í pólitísku starfi. Ég varð fyrir vonbrigðum með stöðu mína og ekki síður þá sem ég hafði lengi unnið með í pólitísku starfi og hafði áður treyst. Það varð visst uppgjör hjá mér á þeim tímapunkti og ég ákvað að breyta stórlega til. Í kjölfar þess að standa á þeim krossgötum ákvað ég að hætta virku flokksstarfi að mestu. Það var rétt ákvörðun.
Síðasta haust kom ég hingað. Það var nýr og ferskur vettvangur sem gaf mér mikið. Hér hef ég skrifað um það sem mér hefur dottið í hug og langað að tala um. Þar eru fréttir dagsins í dag og málefni annarra tíma efst á baugi. Ég hef alla tíð haft gríðarlega gaman af að stúdera söguna og þess sést merki hér. Það má vel vera að sumum leiðist þetta sögugrúsk mitt og ennfremur hvernig ég skrifa um það sem er að gerast. Það hefur aldrei staðið til að þetta yrði blogg nær alveg um mig heldur um þau málefni sem ég met mest og hef alla tíð spáð mest í. Þessi vefur hefur verið mér mikilvægur og hér hef ég haft mitt pláss.
Stór þáttur þess hversu góður þessi vettvangur er telst auðvitað það að Mogginn opnar á það að við hér getum kommentað á fréttirnar sem eru í gangi. Það hef ég nýtt mér vel. Það má vel vera að sumum hafi alla tíð fundist ég langorður og fara of ítarlega yfir mál, það er mín ákvörðun og ég haga mínum seglum eftir því sem ég vil. Það að fara hingað á Moggabloggið var rétt ákvörðun og ég hef notið þess mjög að skrifa hér. Því held ég áfram svo lengi sem ég hef áhugann. Það að vera ekki lengur eins tengdur einum stjórnmálaflokki er líka ágætt í sjálfu sér. Ég er ófeiminn við að skjóta á þá sem ég hef unnið með ef ég tel það rétt.
Mín bloggtilvera hér skiptir mig máli og það skiptir mig líka máli að aðrir vilji lesa og skilji eftir komment. Það er vonlaust að vera algjörlega sammála öllum, en þess þá mikilvægara að stofna til málefnalegs spjalls við þá og eins hina sem vilja kommenta. Ég hef alla tíð reynt að vera málefnalegur og sleppt stóryrðum í garð fólks. Þannig var ég alinn upp og það er sá grunnur sem ég hef byggt á. Þannig verð ég alla tíð.
Það voru sviptingar á Moggablogginu um helgina. Nokkrir mætir félagar söðluðu um og yfirgáfu okkur. Það er eftirsjá af þeim. En það kemur ávallt fólk í skörðin sem losna. Sjálfur vil ég vera hér, þetta er vettvangur sem ég vil nýta mér og tel mig hafa fundið þann stall sem ég vil sjálfur halda áfram. Þeim sem hafa hætt hér vil ég þakka bloggvináttuna, en henni er nú sjálfhætt eftir að vefir þeirra dóu hér. Ég fylgist með þeim áfram á nýjum blogglendum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.6.2007 | 00:36
John Prescott hættir - hver verður varaleiðtogi?

Það hefur verið ljóst um langt skeið að John Prescott færi ekki fram í næstu þingkosningum og myndi víkja úr forystu breskra stjórnmála á sama tíma og Tony Blair yfirgæfi sviðið. Það kemur fáum á óvart að Prescott hætti í stjórnmálum. Hann hefur átt erfitt síðustu árin og hafa vandræði hans einkennst af skaðlegum hneykslismálum og innri erfiðleikum í hjónabandi hans. Erfiðasta hneykslið sem skók stjórnmálaferil hans og innviði flokksins var þegar að upp komst rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar í Bretlandi vorið 2006 að hann hefði átt í ástarsambandi við ritara sinn á árunum 2002-2004.
Um tíma héldu stjórnmálaspekúlantar í Bretlandi að hinn gamalreyndi og harðskeytti sjóarajaxl frá Hull myndi segja af sér vegna málsins. Svo fór þó ekki. Staða hans veiktist þó gríðarlega eftir kosningarnar, enda svipti Blair hann veigamiklum sess sínum sem ráðherra stjórnsýslu- og sveitarstjórnarmála. John Prescott, sem er fæddur árið 1938, hefur verið þingmaður Verkamannaflokksins frá 1970 og lengi virkur í innsta kjarna flokksins. Hann varð varaleiðtogi Verkamannaflokksins árið 1994, er Blair var kjörinn leiðtogi í stað John Smith og hefur frá kosningasigrinum fyrir áratug verið aðstoðarforsætisráðherra Bretlands.
Frá vorinu 2006 hefur hann verið semsagt aðstoðarforsætisráðherra án ráðuneytis, hann varð því eiginlega bara táknræn toppfígúra í forystu Verkamannaflokksins og var þar sem hann var eingöngu vegna þess að hann þurfti hlutverk í ljósi stöðu sinnar. Hann var rúinn allri stöðu í raun. Mikil og harðskeytt umræða hófst reyndar eftir ráðherrahrókeringarnar vorið 2006 þar sem Tony Blair lét hnífinn ganga og slátraði bæði Jack Straw og Charles Clarke um það hvort að Prescott væri hyglað sérstaklega til að hafa hann góðan, enda hefur hann lengi skipt miklu fyrir Tony Blair til að halda vissum kjörnum Verkamannaflokksins stilltum.
John Prescott hefur löngum verið þekktur sem harðjaxl og óvæginn í pólitískum verkum. Einkalíf hans hefur lengi verið honum fjötur um fót. Þó að lengi hefði verið í gangi orðrómur um að hann hafi haldið framhjá konu sinni áttu fáir Bretar von á því sem gerðist í fyrravor og hann stóð þá tæpar en nokkru sinni. Í kveðjuræðu á flokksþingi Verkamannaflokksins í september 2006 í Manchester bað Prescott flokkinn og félaga sína í forystu hans afsökunar á framferði sínu. Þótti ræðan einlæg miðað við hver það var sem flutti hana, enda hann ávallt haft á sér yfirbragð þess að vera hrjúfur og harkalegur. Hann hefur aldrei verið hinn mildi.
Það berjast sex sterkir þingmenn Verkamannaflokksins um varaleiðtogastöðuna. Það er því búist við að mjótt verði á munum. Alan Johnson, Hazel Blears, Harriet Harmann, Hilary Benn, Peter Hain og Jon Cruddas takast á um þetta veigamikla embætti við hlið leiðtogans. Veðbankar spá menntamálaráðherranum Johnson sigri. Hann hlaut flestar tilnefningar innan þingflokksins í aðdraganda kjörsins og þykir sterkur og sækir stuðning í verkalýðskjarnann rétt eins og Prescott. Hefur Prescott reyndar lýst opinberlega yfir stuðningi sínum við hann. Það hefur þó ekki verið útilokað að Hilary Benn og Harriet Harman næðu þessu.
John Prescott hefur verið einn litríkasti stjórnmálamaður Bretlands í áratugi. Það verður fróðlegt að sjá hver muni taka sess hans. Það er vissulega sjónarsviptir af Prescott nú þegar að hann yfirgefur framlínupólitík og tekur sæti á öftustu bekkjunum það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Hann hefur verið umdeildur og litríkur, og pressan hefur dýrkað að birta alla hans skandala. Það er ekki beint við því að búast að Brown og eftirmaðurinn muni halda því merki hans á lofti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)