8.6.2007 | 22:59
Er Sigurjón að bíða af sér biðlaunin?
Það hefur vakið mikla athygli að enn hefur Sigurjón Þórðarson, fyrrum alþingismaður, ekki verið formlega ráðinn framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, þrátt fyrir orðróm um það úr öllum áttum. Það er að verða mánuður liðinn frá því að Sigurjón missti þingsæti sitt og honum vantar því eflaust verkefni. En hann er enn á biðlaunum og verður svo í sumar. Þar virðist stranda helst á málum, enda má viðkomandi ekki vera í launuðum verkefnum á meðan að biðlaunatíma stendur.
Sigurjón gagnrýndi Kristján Þór Júlíusson, leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, mjög harkalega í kosningabaráttunni hér í vor fyrir að þiggja biðlaun sem hann átti rétt á skv. samningum og þau réttindi sem almennt fylgja er hann lét af embætti bæjarstjóra á Akureyri í janúar 2007. Nú er hann sjálfur á biðlaunum og þiggur þau réttindi sem starfi sínu fylgdi og mun njóta þess í þá þrjá mánuði sem líða frá því að hann missti þingsætið. Þetta er nokkur kaldhæðni eflaust að einhverra mati sem heyrði á tal Sigurjóns í kosningabaráttunni hér.
Það er ekki óeðlilegt að forysta Frjálslynda flokksins vilji halda Sigurjóni í pólitískum störfum þó að þingsætið hafi tapast. Hann þekkir til stjórnmálastarfa og hefur starfað í þeim bransa sem helstur er í pólitíkinni, enda verið alþingismaður í fjögur ár. Hann verður þeim eflaust góður starfskraftur í forystunni þegar að biðlaununum sleppir og hann hefur tekið til starfa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.6.2007 kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.6.2007 | 19:21
Var S&H-viðtalið við konu Kalla Bjarna skáldað?
Það hefur mikið verið rætt og ritað um fíkniefnasmygl söngvarans Kalla Bjarna. Viðtal Séð og heyrt við sambýliskonu hans hefur vakið mikla athygli eftir að hún fullyrti að blaðið hefði skáldað það upp. Í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrir stundu svaraði Eiríkur Jónsson þeim ásökunum. Þar vakti athygli er hann sagði að viðtalið hefði farið fram og að því hefðu verið fjögur vitni. Það hefði þó ekki verið hljóðritað og vitnin hefðu aðeins séð að hann hringdi og spurði spurninga.
Þetta mál er allt hið undarlegasta. Þetta er ansi líkt málinu fyrir tveim árum er Eiríkur fjallaði um Bubba Morthens og einkalíf hans í áberandi forsíðuumfjöllun blaðsins Hér og nú, sem þótti hafi á sér frekar harkalegan blæ. Hörð umræða varð um vinnubrögð hans í viðtölum og málið endaði fyrir dómstólum. Að lokum fór það svo að blaðið tapaði málinu og fræg ummæli um að Bubbi væri fallinn voru dæmd dauð og ómerk en með fylgdu myndir af Bubba að reykja.
Vinnubrögð Eiríks Jónssonar hafa verið mjög umdeild vissulega lengur en það og er þetta mál með viðtalið í Séð og heyrt enn eitt merki þess. Ekki virðist þessi umfjöllun vera mjög til þess fallin að efla orðspor þessa umdeilda blaðamanns. Þetta virðist eitt annað málið sem dregur orðspor hans niður eða efasemdir vakna um það.
Hvað varðar þetta mál með Kalla Bjarna er það allt hið sorglegasta og leitt að sjá hversu harkalegt fall þar hefur átt sér stað. Eðlilega verður umfjöllun um það mál í ljósi frægðar söngvarans. Verst er þó ef deilt er um vinnubrögð fjölmiðla, eins og svo greinilega er gert í tilfelli Séð og heyrt nú.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2007 | 17:21
Finnur vill kynslóðaskipti í forystu Framsóknar

Það er afar fátt sem bendir til þess að kynslóðaskipti verði á forystu Framsóknarflokksins á næstunni. Formaður flokksins er þingmaður til tveggja áratuga og þrautreyndur pólitíkus á valdatíma flokksins. Auk þess bendir allt til þess að Valgerður Sverrisdóttir, fyrrum utanríkisráðherra, verði kjörin varaformaður flokksins á miðstjórnarfundi á sunnudag, en velja þarf eftirmann Guðna Ágústssonar á þeim stóli í ljósi afsagnar Jóns Sigurðssonar. Valgerður hefur setið á þingi jafnlengi og flokksformaðurinn Guðni Ágústsson. Forystan verður því skipuð fólki sömu kynslóðar og Halldór Ásgrímsson.
Það vakti reyndar mikla athygli þegar að eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli var valinn á flokksþingi í ágúst 2006 að þar hlaut kjör maður sem var eldri en Halldór sjálfur. Jón Sigurðsson er enda meira en ári eldri en Halldór. Það var frægt eftir að Halldór hrökklaðist frá í júníbyrjun 2006 að Valgerður Sverrisdóttir sagði í viðtali á Morgunvakt Rásar 1 að Guðni Ágústsosn kæmi ekki til greina sem formaður því að hann væri of gamall. Samt sem áður fór það svo að Jón, sem er þrem árum eldri en Guðni varð formaður, og Guðni varð svo sjálfkrafa eftirmaður hans, enda kjörinn varaformaður á flokksþinginu fyrir tæpu ári, rétt eins og áður. Það verður því vissulega skondið ef forystan verður samanfléttuð af Guðna og Valgerði.
Finnur lét þessar skoðanir ekki í ljósi fyrir ári er Jón Sigurðsson keppti um formennskuna við Siv Friðleifsdóttur. Þær hafa varla hentað þá, en eru vissulega sett í samhengi eftir afhroðið. Það er svosem varla furða að þær komi þó fram núna. Flokkurinn er valdalaus í landsstjórninni og afhroðið fyrir mánuði var þungt og gerði út af við stjórnmálaferil eftirmanns Halldórs Ásgrímssonar. Það má reyndar ekki gleyma að Finnur var tvívegis nefndur sem krónprins Halldórs. Fyrst á árunum 1995-1999 meðan að hann var iðnaðar- og viðskiptaráðherra og síðar í fyrrasumar við afsögn Halldórs. Í fyrra skiptið endaði Finnur í Seðlabankanum og gafst upp á stjórnmálunum en í hið seinna vildi hann ekki heyja slag um formennskuna.
Það er greinilega að hefjast enn ein atburðarásin í Framsóknarflokknum. Formaðurinn er varla nýtekinn við en farið er að grafa undan honum og reyna að spinna vettvang þess að ný þáttaskil verði. Það er þó erfitt að sjá hvernig þau geta orðið að þessu sinni. Þingflokkur Framsóknarflokksins er mjög roskinn. Aðeins tveir þingmenn flokksins eru yngri en 45 ára og þeir sem þar eru fyrir hafa flestir verið lengi í stjórnmálum. Nýliðun er lítil. Formaðurinn hefur nýtekið við og nýr varaformaður virðist ætla að vera gamalreyndur jaxl frá Halldórsarminum.
Það er öllum ljóst sem fylgjast með stjórnmálum að Framsóknarflokkurinn er mjög lemstraður. Varla mun þetta viðtal og spuni Finns efla samstöðuna innan þessa elsta stjórnmálaflokks landsins, sem gengur í gegnum dimma dali þessar björtu sumarvikur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.6.2007 | 15:41
Stjórnarformaður Íslands?

Síðan hafa fjöldi manna verið með titilinn. Eftir að hin gamalkunna viðskiptablokk kennd við Kolkrabbann hvarf af sjónarsviðinu í því formi sem hún var þekktust fyrir hafa aðrir fyllt í skörðin og víst er að ekki eru eignir á fleiri höndum nú en var á þeim tíma, jafnvel enn færri aðila, ef eitthvað er. Staðan á markaðnum er ansi áberandi. Krosstengsl nokkurra aðila á víðum vettvangi er allavega ekki minna áberandi nú en fyrir einum áratug eða tveim.
Þrátt fyrir að margir hafi búist við uppstokkun innan Baugs með einum hætti eða öðrum koma tíðindi dagsins samt að óvörum á nákvæmlega þessum tímapunkti. Jón Ásgeir er að færa sig til með áberandi hætti en heldur control á sínu veldi með áberandi hætti með því að verða starfandi stjórnarformaður Baugs. Tilfærslan í FL Group vekur athygli á nákvæmlega sama degi.
En eitt er víst að titillinn stjórnarformaður Íslands er enn við lýði, þó viðskiptaheimurinn hérlendis hafi tekið margar sveiflur frá því að titillinn varð fyrst til.
![]() |
Jón Ásgeir hættir sem forstjóri Baugs Group |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2007 | 13:51
Jón Ásgeir hættur sem forstjóri Baugs

Það er merkilegt að fylgjast með þessari uppstokkun hjá Baugi. Hún kemur áður en frægu dómsmáli kenndu við Baug lýkur formlega og áður en úrslit mála eru því endanlega ljós. Mesti hasarinn í því máli er fjarri því búinn, eftir úrskurð Hæstaréttar fyrir nokkrum dögum þar sem hluta málsins er aftur vísað heim í hérað.
Það verður fróðlegt að fylgjast með stöðu mála hjá Baugi á næstunni. Það er merkilegt að Jón Ásgeir færi sig til og athyglisvert að sjá hann taka sæti Hreins Loftssonar sem stjórnarformanns eftir allt sem á undan er gengið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2007 | 13:15
Líður að pólitískum lokum hjá Steingrími J?

Þrátt fyrir áratugi í pólitík klúðraði hann með mjög áberandi hætti stjórnarmyndunarmöguleikum flokks síns - hann lagði líka í rúst möguleikana á vinstristjórn, stjórn án aðkomu Sjálfstæðisflokksins, sjálfstæðismönnum til mikillar gleði. Þann kaleik ber hann einn. Honum varð svo mikið um stöðuna sem skapaðist við stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að hann fór í sauðburð norður á Gunnarsstaði, kúplaði sig út og hugsaði sitt ráð.
Það er ekki furða að staða Steingríms J. sé í umfjöllun nú. Eftir 24 ár á þingi, þar af 21 ár í stjórnarandstöðu, er ekki furða að spurningar vakni um stöðu hans og framtíðarhlutverk í stjórnmálum. Það er ekki undrunarefni að orðrómur vakni um hvort hann muni leiða flokkinn í kosningum eftir fjögur ár. Fyrir nokkrum mánuðum stefndi í pólitíska stórsigra Steingríms J. og gullna tíma. Á skammri stund hefur staða hans veikst mjög áberandi.
Í pistli mínum þann 1. júní sl. skrifaði ég orðrétt: "Mér fannst líka áhugavert að hlusta á ræður Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og Katrínar Jakobsdóttur. Ég tel að þetta séu framtíðarkonur í forystu flokksins og muni verða áberandi í stjórnmálum á komandi árum." og ennfremur: "Sú spurning hlýtur að vakna fyrr en síðar hvenær að forystuskipti verði hjá vinstri grænum eftir afleiki Steingríms J. upp á síðkastið."
Tel ég ekki undrunarefni að þessar spurningar og hugleiðingar vakni. Fari svo að Steingrímur J. hætti á tímabilinu yrði Björn Valur Gíslason þingmaður og Þuríður Backman yrði leiðtogi flokksins hér á svæðinu. Það yrðu tíðindi svo sannarlega og eiginlega er flokkurinn svo tengdur Steingrími að erfitt er um að spá hversu vel honum gangi án hans, sérstaklega hér, þar sem hann hefur dregið vagninn allt frá upphafi.
Það verður fróðlegt að sjá hversu lengi Steingrímur J. verður í pólitík og hver framtíð VG sé á komandi árum, í stjórnarandstöðu. Eftir 24 ára pólitíska þátttöku og enn ein vonbrigðin er ekki furða heldur að hugsað sé um stöðu Steingríms J. Eftir um margt góðar kosningar fyrir hann, þó mjög súrsætar, stendur hann á áberandi krossgötum.
8.6.2007 | 11:32
Sir Sean snýr ekki aftur úr eftirlaunakyrrðinni
Flestir kvikmyndaunnendur hafa talað vel um þriðju myndina í kvikmyndabálknum. Stærsti hluti myndarinnar og hinn dramatískasti var byggður á stirðbusalegu sambandi föður og sonar en restin var hreinn eltingarleikur með hvern æsilegan og glæsilegan hápunktinn á fætur öðrum. Þetta var mögnuð blanda og innkoma Connerys var toppur myndarinnar. Þó að Connery nálgist áttrætt og hafði haldið sjálfskipaður í eftirlaunakyrrðina voru vonir bundnar við að hann yrði allavega hluti fjórðu myndarinnar. Það verður fróðlegt að sjá handritið og uppbyggingu myndarinnar við þessa ákvörðun.
Það eru auðvitað mikil tíðindi svosem að Harrison Ford ætli sér að leika Indy aftur. Það eru eins og fyrr segir átján ár frá þriðju myndinni. Ford hefur elst nokkuð á frekar skömmum tíma, er allavega ekki lengur sá ferski og hressi maður sem hann var í myndunum þremur. Það er visst hættuspil að gera fjórðu myndina og ég vona að það áhættuspil sanni sig að vera farsælt með þetta einvalalið í frontinum. Það er þó áfall fyrir þá að Connery ákveði að sitja til hliðar og standi við þá ákvörðun að vera sestur í helgan stein. Vonandi verður myndin góð.
![]() |
Connery verður ekki með í fjórðu myndinni um Indiana Jones |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.6.2007 | 00:46
Paris losnar úr hinu mjúka svartholi

Paris Hilton er sennilega frægust af þeim uppagellum sem hafa flaskað á frægðinni og runnið til á göngunni á rauðu rósum glamúrlífsins. Það voru tíðindi þegar að hún rann til á svellinu og fékk dóminn um að afplána refsingu sína. Hún valdi á milli einhverra fangelsa, en ekki var nú fallið meira en svo að hún var höfð á sérdeild sem hæfir fólki sem hefur ekki séð það verra en að dælda örlítið bílinn sinn, eða jafnvel geta ekki keypt sér flottustu flíkina í tískubúðinni.
Það er ekkert gefið upp af hverju hún fái að fara heim og afplána restina með rafmagnsbandið á sér. Það mun þó varla líða á löngu þar til eitthvað slúðurblaðið hefur greint frá því. Það var tekið sérstaklega fram að hún gæti ekkert partýast á næstunni vegna þess að hún væri undir eftirliti. Þetta eiga greinilega eftir að verða erfiðir tímar fyrir glamúrgelluna á næstunni.
![]() |
París Hilton laus úr prísundinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)