Hillary á sigurbraut - baráttan harðnar

Clinton-hjónin Ég fæ ekki betur séð en að Hillary Rodham Clinton sé á sigurbraut í baráttunni um hver verði forsetaefni demókrata á næsta ári. Það þarf ansi margt að breytast á þeim fimmtán vikum sem eru til fyrstu forkosninganna i flokknum til að koma í veg fyrir sigur hennar. Munurinn á milli hennar og keppinautanna sjö er að aukast frekar en hitt og því skiljanlegt að þeir John Edwards og Barack Obama grípi til vopna til að reyna að jafna stöðuna út, áður en baráttan við forsetafrúna fyrrverandi verður óvinnandi.

Mesta stuðið hefur verið á milli Hillary og Obama undanfarna mánuði. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að telja að annað þeirra verði frambjóðandi demókrata. Held að möguleikar Edwards séu þó næstir því, hinir eiga einfaldlega ekki séns og það verður áhugavert að sjá hversu hratt byrjar að saxast niður af hópnum þegar að líður á janúarmánuð og harkan hefst fyrir alvöru með forkosningunum. Obama hefur skotið talsvert á Hillary, þó undir rauðri kratarós frekar en hitt en það er að færast harka í leikinn og greinilegt að Obama er dauðhræddur um að Hillary taki þetta með trompi er yfir lýkur.

Margir demókratar líta auðvitað á Hillary og Obama sem draumateymi í forsetakosningunum eftir rúma þrettán mánuði. Sjálfur hefur Obama þó neitað því alfarið að taka boði um að verða varaforsetaefni Hillary og ég held að enginn hafi lagt í að spyrja Hillary að því hvort hún tæki að sér aukahlutverk með Obama í frontinum. Staðan er einfaldlega þannig núna að það leggur enginn í það, enda eru möguleikar Hillary mun betri og hún myndi ekki taka varaforsetahlutverk að sér. Tapaði hún slagnum úr því sem komið er myndi það tákna endalok stjórnmálaferils hennar. Það er upp á mikið að spila í sjálfu sér.

Hvernig svo sem fer virðist Obama hafa veðjað á rétt. Hann hefur engu að tapa með framboðinu og mun aðeins styrkja sig hvernig sem fer, ólíkt Hillary. Obama er ekki í ólíkri stöðu nú og John Edwards við síðustu forsetakosningar, sem sá er tekur áhættuna vitandi að hann tapar engu hvernig sem fer. Hann mun aðeins eflast og það verulega - stimplar sig inn í forystusveit flokksins með einum hætti eða öðrum. Sjálfur veit ennfremur Edwards nú að tap núna skaðar hann verulega. Hann fórnaði þingsætinu síðast fyrir aukahlutverk með Kerry og verið án hlutverks eftir að mistókst að landa sigri þá.

Bill og Hillary Rodham Clinton lögðu grunn að þessu framboði með forsetatíðinni 1993-2001 og eiga víða vini og kunningja. Þau stóla nú á að það muni tryggja forsetafrúnni á þeim tíma vist í Hvíta húsinu nú. Þau munu sækja inni alla greiða sem þau mögulega geta tryggt og leita víðar en það. Það stefnir allt í að sigurganga Hillary sé í spilunum. Allt annað yrðu stórpólitísk tíðindi úr þessu. Baráttan sýnist því vera Hillary vs. rest. Þar eru átakapunktarnir greinilegir og eflaust munu andstæðingar hennar eiga eftir að herða róðurinn gegn henni verulega þær vikur sem eru í að alvaran verði sönn í baráttunni.

Skoðanakannanir vestanhafs benda til þess að við fáum að sjá að ári þann pólitíska slag sem stefndi svo lengi vel í að yrði sviðsettur í New York árið 2000; keppni milli Hillary Rodham Clinton og Rudolph Giuliani. Þau standa sterkast að vígi. En eins og staðan er núna er alls óvíst hver verði fulltrúi repúblikana í kosningunum. Þar gnæfir enginn einn yfir þó Giuliani leiði vissulega í könnunum. Forskot Hillary meðal demókratanna er það mikið flestir telja hana örugga alla leið í lokabaráttuna. Enda er sótt að henni bæði innan eigin raða sem og annarsstaðar. Hún er umdeild.

Það stefnir í spennandi forsetakosningar á næsta ári. Einn óvinsælasti forseti bandarískrar stjórnmálasögu heldur brátt inn í pólitíska sólsetrið heima í Texas og stefnir í miklar breytingar í Washington hvernig sem fer í baráttunni um Hvíta húsið. Repúblikanar gætu vel stokkað sig hressilega upp með brotthvarfi bæði Bush og Cheney af pólitíska sviðinu. Hverjir svo sem mætast að lokum á örlagadeginum 4. nóvember 2008 má fullyrða að næsti forseti Bandaríkjanna verði harla ólíkur þeim núverandi.

mbl.is Hillary Clinton sætir vaxandi gagnrýni keppinauta sinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flett ofan af einræðisherra og sjúkum kommúnisma

Maó Fáar bækur hafa orðið meiri upplifun fyrir lesendur á undanförnum árum en bók hjónanna Jung Chang og Jon Holliday um einræðisherrann kínverska Maó. Hún er yfir 800 síður en er voldug saga, sem allir sem unna stjórnmálum og sagnfræðilegum málefnum lesa með miklum áhuga. Las ég hana á nokkrum dögum fyrir nokkrum árum í ensku útgáfunni og finnst hún með þeim betri sem ég hef lesið árum saman. Þar er flett ofan af einræðisherra og sjúkum kommúnisma.

Nú er bókin komin út í þýðingu Ólafs Teits Guðnasonar, blaðamanns. Ætla ég að kaupa mér bókina nú um helgina, enda ætla ég mér að upplifa hana aftur, en nú á íslensku, sem fyrst. Það er auðvitað ljóst að bókin er með þeim umdeildustu sem komið hafa út á undanförnum árum og skapað mikla umræðu um valdaferil Maó og varpað nýju ljósi á persónu hans og stjórnmálamanninn á bak við einræðisherrann.

Það er öllum hollt að lesa þessa bók, sérstaklega mæli ég með henni við vinstrimenn. Það hafa margir dýrkað Maó, eiga Rauða kverið og hafa slegið skjaldborg utan um minningu Maó til að hefja hann upp til skýjanna. Hef ég heyrt af mörgum sem hafa átt Rauða kverið en hent því eftir að hafa lesið þessa bók. Þetta er mikil upplifun og mikilvægt að sem flestir lesi bókina. Tækifærið er sannarlega komið nú með útgáfu hennar á íslensku.

Í vikunni voru Jung Chang og Jon Holliday í ítarlegu og góðu viðtali í bókaþætti Egils Helgasonar, Kiljunni. Var áhugavert að sjá viðtalið og heyra þau segja meira frá bókinni og sögunni á bakvið Maó. Egill er að standa sig vel með bókaþáttinn og hann er sannarlega ómissandi fyrir okkur bókaáhugafólkið.

Á að nafngreina meinta kynferðisafbrotamenn?

Mikil umræða hefur verið um meintan kynferðisafbrotamann eftir umfjöllun um hann í Kompás í vikunni. Sumir hafa tekið sig til og haldið málinu áfram og nafngreint viðkomandi mann og jafnvel gengið skrefinu lengra. Hefur alla tíð verið mjög umdeilt hversu langt eigi að ganga í svona tilfellum og sitt sýnist eflaust hverjum. Mörgum var illa brugðið þegar að DV tók upp þá stefnu sem gult pressublað fyrir nokkrum árum að nafngreina menn sem sakaðir voru um að vera kynferðisafbrotamenn og miklar deilur urðu.

Mér finnst það ábyrgðarhluti að kveikja svona bál gegn fólki áður en sekt er sönnuð fyrir dómi. Það verður að meðhöndla svona mál rétt og með öðrum brag en að kveikja bál á blogginu gegn þeim sem við á. Er ég þá ekkert endilega að tala um þetta mál sem mest hefur verið rætt undanfarna heldur almennt. Vel má vera að staða hans sem lögmanns hafi gert marga arga en ég er samt þeirrar skoðunar að mál af þessu tagi eigi að fara rétta leið en nafnbirting sé ekki hið rétta.

Kristján biður skipaverkfræðinginn afsökunar

Kristján L. Möller Það var gríðarlegt pólitískt klúður hjá Kristjáni L. Möller, samgönguráðherra, að kenna Einari Hermannssyni, skipaverkfræðingi, einum um Grímseyjaferjuklúðrið mikla. Seint og um síðir hefur hann nú beðið Einar afsökunar. Er með ólíkindum hversu mjög Kristján hefur dregið þá afsökunarbeiðni og eiginlega honum til skammar að hafa beðið svo lengi. Með þessu var ráðherrann að hengja bakara fyrir smið. En betra er jú seint en aldrei að átta sig á mistökum sínum.

Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra, bætti ekki úr skák fyrir ráðherranum þegar að hann geystist fram á ritvöllinn til að reyna að verja þetta klúður ráðherrans. Hann hafði enga stjórn á orðavali sínu í skrifum til Bjarna Harðarsonar, alþingismanns, og minnti mig á fyllerístal varaformanns Frjálslynda flokksins í garð undirritaðs, Halldórs Blöndals og Björns Bjarnasonar, nótt eina á spjallvef fyrir þrem árum, þar sem hann vildi sprengja okkur til helvítis. Stjórnlaus og ómálefnaleg skrif sem voru engum manni í pólitísku starfi til sóma.

Róbert missti svo enn og aftur stjórn á sér í spjallþætti fyrir viku þar sem hann réðst að Bjarna með skít og skömm. Var svona á tímapunkti varla að maður tryði því að þar færi maður sem hefði verið fréttastjórnandi á einu alíslensku fréttastöðinni í sjónvarpi. Róbert varð sér til skammar og opinberaði sinn innri mann rétt eins og varaformaður Frjálslynda flokksins á sínum tíma. Hann varð sér algjörlega til skammar og gengisfelldi sig svo um munaði. Hann gerði illt verra fyrir Kristján Lúðvík Möller, sem væntanlega vildi reyndan fjölmiðlamann til að aðstoða sig til að ná til pressunnar en ekki draga sig upp úr svaðinu í leiðinni.

Kristján er maður að meiri fyrir að játa á sig mistök sín og leysa þennan hnút sem hann átti svo erfitt með að leysa með aðstoð Róberts Marshalls.

mbl.is Kristján biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt slys

Dapurlegasta frétt vikunnar var án nokkurs vafa slysið í Soginu, þar sem maður á sextugsaldri beið bana. Það er huggun harmi gegn að nú hafi lík hans fundist eftir tveggja daga erfiða leit. Það er alltaf skelfilegt í svona málum þegar að fólk sem leitað er að finnst ekki og aðstandendur geta ekki átt þá einu sönnu hinstu kveðjustund sem við á.

Enginn vafi er á því að mikið björgunarafrek var unnið þegar að syni mannsins var bjargað á miðvikudag eins og allir þekkja til sem kannast við staðinn og hversu erfiðar aðstæður geta skapast þar. Björgunarsveitirnar okkar hafa unnið vel í þessu máli eins og jafnan og enn einu sinni sést hversu mikilvægt hlutverk þeirra er.

Ég votta fjölskyldu og aðstandendum mannsins sem lést í þessu skelfilega slysi innilega samúð mína.

mbl.is Karlmaður sem féll í Sogið fannst látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. september 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband