Ósigur Íslands gegn alþjóðasamfélaginu

Mér finnst það sorglegasta staðreyndin í öllum efnahagsþrengingum Íslands að enginn stóð með okkur í Icesave-baráttunni. Við vorum ein og gátum ekki unnið þann slag, hann var fyrirfram tapaður. Ekki einu sinni Norðurlöndin voru tilbúin að leggja okkur lið nema við tækjum á okkur þær þungu byrðar sem fylgja Icesave. Þegar svo er komið málum erum við í orðsins fyllstu merkingu á köldum klaka. En það er samt viss léttir að þetta mál er úr sögunni, þó það sé mikið áfall fyrir íslensku þjóðina.

Ég man ekki eftir því hvenær við þurftum að láta í minni pokann í eins mikilvægu máli, urðum hreinlega að sætta okkur við það ofbeldi sem alþjóðasamfélagið beitti okkur, safnaði liði gegn hagsmunum okkar. Þetta eru þung og erfið örlög, en við komumst vonandi í gegnum það. Ég er þess fullviss að varnarleysi okkar lék lykilhlutverk í þessari niðurstöðu. Við höfðum ekki áhrifamátt eða kraft á alþjóðavísu til að berjast gegn þessu.

Er fjarri því viss um að við hefðum verið snarbeygð svona ef við hefðum herafla eða einhvert annað áhrifaafl á þeim mælikvarða. Við vorum einfaldlega snúin niður og neydd til uppgjafar. Þetta er erfitt fyrir íslensku þjóðarsálina hvað það varðar. En nú verður að horfa fram á veginn en ekki aftur. Við höfum ekki afl til að berjast gegn alþjóðasamfélaginu og fara gegn því öllu sem heild.

Hitt er svo annað mál að ég er vægast sagt óhress með því að þetta sé niðurstaðan - að framtíðarkynslóðir landsmanna verði að bera þennan skuldahala. Skelfileg niðurstaða fyrir þjóðina - þetta er áfellisdómur yfir þeim sem ráða för í landsmálunum og sváfu á verðinum í marga mánuði, voru ekki í sambandi á dýrmætum tíma mánuðina fyrir bankahrunið.

mbl.is Skilaboðin voru skýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egill sigursæll á Edduverðlaunahátíðinni

Ég vil óska Agli Helgasyni til hamingju með glæsilegan árangur á Edduverðlaunahátíðinni í kvöld. Ekki aðeins hefur hann verið valinn sjónvarpsmaður ársins heldur hafa Silfrið og Kiljan hlotið verðskulduð verðlaun. Báðir þættir eru í sérflokki í íslensku sjónvarpi og staða Egils sem vinsælasta sjónvarpsmanns landsins er fyrir löngu orðin vel þekkt staðreynd.

Mér finnst þetta mikilvægur árangur fyrir Egil eftir að mjög var að honum sótt eftir viðtalið við Jón Ásgeir Jóhannesson. Þar stóð hann sig mjög vel og var bæði ákveðinn og traustur í því viðtali. Sumir aðilar sökuðu Egil um að hafa farið yfir strikið og gengið of langt, en mér finnst þessi verðlaun staðfesta vel trausta stöðu hans og góða frammistöðu undanfarið.

Umfjöllun Egils á netinu og í sjónvarpi hefur vakið athygli og allir fylgjast með hans sjónarhorni á málin. Egill hefur kennt okkur að það er hægt að gera góða þætti um bókmenntir. Hans þáttur er sá besti af þeim nýju og eru algjörlega ómissandi, fyrir bókafíkla sem og aðra. Silfrið er svo fyrir löngu orðið ómissandi, þáttur sem markaði þáttaskil í íslensku sjónvarpi.

mbl.is Brúðguminn hlaut sjö Edduverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Diplómatískur rembihnýtur Icesave-málsins leystur

Mjög mikilvægt er að loksins hafi tekist að landa Icesave-málinu og koma því á traustan leiðarenda, eftir harkalega og erfiða atburðarás fyrir okkur Íslendinga. Niðurstaðan er auðvitað ekki sú sem við hefðum helst viljað. Við vorum orðin ein eftir í þessari baráttu og gátum ekkert annað gert en sætta okkur við þrýstinginn frá alþjóðasamfélaginu þar sem allir sneru við okkur baki. Mér finnst þetta lærdómsrík niðurstaða, enda kom varnarleysi okkar þar fram, bæði napurt og afgerandi. Þetta er ekki góð niðurstaða fyrir stolta þjóð í því tilliti.

En mikilvægast fyrir íslensku þjóðina er að þoka málum áfram og koma hlutunum á einhverja hreyfingu. Icesave-málið hefur verið alltof lengi í diplómatískum rembihnút og komið í veg fyrir að við getum farið að byggja upp eftir bankahrunið - komið samfélaginu aftur af stað. Þetta var orðið að spurningu um örfáa daga fyrir þjóðina, til að allt myndi hér ekki stöðvast vegna hinnar vondu stöðu í gjaldeyrismálum.

Þetta er lærdómsrík niðurstaða. Við vitum nú betur að fáum er í raun að treysta þegar kemur að því að velja vini og við verðum að fóta okkur upp á nýtt. Niðurstaðan er ekki sú besta fyrir okkur sem stolta þjóð en sú eina sem gat hentað úr því sem komið var. Ómögulegt var að hafa þessi mál áfram í rembihnút.

mbl.is Icesave-deilan leyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Táknræn bankamótmæli á Akureyri

Ég verð að viðurkenna að ég brosti út í annað þegar ég heyrði að sjóræningjafáni hafi verið dreginn við hún við Landsbankaútibúið hér á Akureyri í nótt. Þetta er sennilega listrænn gjörningur af sama tagi og átti sér stað um daginn í útibúinu þegar kona, sem var í viðskiptum hjá Landsbankanum og tapaði pening á reikningi sínum, ákvað að taka stól traustataki úr útibúinu og hélt með hann beina leið út úr húsinu og mætti þar laganna vörðum. Öryggisvörður hefur verið í útibúinu vegna þess.

Ég veit mjög vel að konan sem tók stólinn ætlaði ekki að eiga hann eða ræna honum. Þetta var fyrst og fremst táknrænn gjörningur, mjög vel heppnaður og hefur vakið verðskuldaða athygli. Sama gerist nú með sjóræningjafánann en mikil skilaboð felast í honum á þessum stað.

mbl.is Sjóræningjafáni við Landsbankann á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðir samstöðutónleikar - traust skemmtun

Ég hlustaði áðan á samstöðutónleikana á ruv.is og hafði mjög gaman af. Þarna kom rjóminn í íslensku tónlistarlífi saman og tók lagið - létti þar með lund landsmanna og kom með öflug og góð skilaboð um að við verðum að horfa í gegnum svartnættið sem fylgir þrengingum í efnahagslífi og dökkum horfum á næstu mánuðum. Þessum tónleikum var fyrst og fremst ætlað að þjappa fólki saman og skemmta því, það tókst heldur betur.

Vil þakka Rás 2 fyrir að færa okkur tónleikana, en ég hlustaði á þá nú eftir miðnættið á ruv.is og fór yfir það helsta, og þeim tónlistarmönnum sem komu fram. Virkilega vel gert og gott framtak hjá öllum hlutaðeigandi.

mbl.is „Hlýleg“ stemmning í Höllinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband