Veik staða Lúðvíks - óánægja Samfylkingarfólks

Ég heyri mikla óánægju Samfylkingarfólks með frammistöðu Björgvins G. Sigurðssonar og Lúðvíks Bergvinssonar í fjölmiðlum í gær - efasemdir vakna meðal þeirra hvort Samfylkingin sé lengur traustsins verð. Auðvitað er það rétt að Lúðvík framdi allt að því pólitískt sjálfsmorð í Kastljósi í gærkvöldi. Verri frammistöðu man maður varla eftir hjá pólitískt kjörnum fulltrúa í umræðuþætti. Hann var hreinlega skelfilega dapur og allt að því steinsofandi fyrir staðreyndum, hvort sem hann vildi ekki sjá það eða forðaðist grunnforsendur málsins.

Sumir sem ég hef heyrt í og eða lesið skrif eftir eru æfir vegna þess hvernig Samfylkingin virðist vera hemill á rannsókn bankahrunsins og ekki náð að tækla þessi mál. Eftir tvo mánuði er enn deilt um rannsóknargögn og viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar virðist annað hvort sofandi á verðinum eða í besta falli horfir á atburðarásina án þess að segja eða gera neitt. Traustið á honum fer þverrandi og forysta Samfylkingarinnar dregst í svaðið með.

Hversu langt er þar til óánægjan verður almenn. Þegar traust Samfylkingarfólk er farið að formæla flokknum sínum á netinu og bæði Lúðvíki og Björgvini er langt gengið. Svo er rifjað upp að Lúðvík hafi verið eini stjórnmálamaðurinn sem var gestur á hinni frægu snekkju Thee Viking. Jón Gerald Sullenberger hefur gefið það sterklega í skyn altént.

Sú snekkjuferð og næturfundur viðskiptaráðherrans með BaugsJóni verður allavega merkilegra í minningunni hafandi allt sem hefur gerst síðan í huga.


mbl.is Fjármálaeftirlitið í Lúxemborg vill veita upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skandall í Chicago - Obama vill afsögn Blago

Blago og Obama
Ég er ekki hissa á því að Barack Obama hafi farið fram á afsögn Rod Blagojevich. Skandallinn kringum hann skaðar stórlega Obama og Demókrataflokkinn almennt á meðan hann situr í embætti og hefur valdið til að skipa eftirmann Obama í öldungadeildinni. Auðvitað er ótrúlegt til þess að hugsa að hann hefði getað skipað öldungadeildarþingmann úr fangelsinu í gær og hefði haft til þess full völd og pólitíska stöðu. Hver dagur sem Blago situr í embætti í viðbót með sín miklu pólitísku völd dregur hann Obama með sér í svaðið - demókratar verða að losa sig við hann úr embætti.

Í gær ætlaði Obama að slá sér upp með blaðamannafundi þar sem Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna og sá sem fékk flest atkvæði í forsetakosningunum 2000 án þess þó að verða forseti nokkru sinni, var gestur hans ásamt Joe Biden, verðandi varaforseta. Umræðuefnið var loftslagsmál og mikið talað um hvort Gore yrði hluti af ríkisstjórninni. Svo varð ekki. Ekkert var talað um loftslagsmálin en í staðinn varð Obama að svara spurningaflaumi um Blago og pólitíska spillingu hans. Gore sat til hliðar eins og illa gerður hlutur, var sannarlega á röngum stað á röngum tíma sýndist manni.

Allt frá kjördegi 4. nóvember hefur Obama verið í pólitískri sæluvímu, haft sterka stöðu og raðað upp ráðherrum sínum og undirbúið valdaskiptin eftir tæpar sex vikur. Hann hefur sótt sér mun meiri áhrif en aðrir kjörnir forsetar í biðinni eftir forsetastólnum frá kjördegi til embættisskiptanna. Í raun hefur atburðarásin í Chicago minnt meira á það sem ætti að gerast í Washington. Hlutverk Obama er mjög mikið og áhrifamáttur hans óumdeildur þó formlega sé hann ekki orðinn forseti Bandaríkjanna.

Spilling Blago varpar skugga á það verk og skaðar forsetann verðandi. Hann verður að fjarlægja sig honum fljótt og fumlaust eigi hann ekki að skaðast á þessum skandal sjálfur og það meira að segja áður en hann verður forseti. Því verða demókratar í Illinois að höfða mál til embættismissis gegn Blago og svipta hann völdum til að skipa í þingsætið.

mbl.is Reynt að tengja Obama við ríkisstjórahneykslið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðlaus og ósmekkleg dánartilkynning


Ég held að það sé ekki hægt að vera ósmekklegri en standa fyrir þeim verknaði að senda inn dánartilkynningu í Morgunblaðið með mynd og nafni af lifandi manni og ætla að reyna að fá peninga út úr því. Sumir fara greinilega ótroðnar slóðir til að reyna að ná sér í pening. Þetta er líka skellur fyrir Morgunblaðið sem birtir þessar tilkynningar án þess að kynna sér auðvitað hvort viðkomandi einstaklingur sé látinn. Þó ætti það reyndar varla að þurfa, þar sem auglýsingin kostar rúmlega 10.000 krónur.

En þetta er lágkúra af verstu sort. Ekki hægt að segja annað.

mbl.is Auglýsti andlát samfanga síns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við að trúa hverju sem er?

Ætli ég sé nokkuð einn um að finnast óeðlilegt að fylgjast með því hvernig hjónin í Next aðlöguðu reglurnar að sjálfum sér og eignuðust verslanirnar aftur þrátt fyrir að hafa farið í þrot. Kannski er þetta skólabókardæmi að sama hvernig fari í rekstri sé hægt að halda leiknum áfram, fara í hring eftir hring og leika sér að reglunum og aðstæðum á markaði. Þetta er auðvitað óttalegur hráskinnaleikur en hann hefur sjaldan ef aldrei verið táknrænni en nú í bankahruninu.

Ekki er undarlegt að stór hluti landsmanna sé óttasleginn yfir því að þeir sem sigldu þessari þjóð í strand muni rísa upp öflugri sem aldrei fyrr, eins og karlar í tölvuleik. Nóg sé að ýta á start-takkann á lyklaborðinu og þá byrji leikurinn aftur frá byrjun, kannski enn kuldalegri og meira ógnvekjandi en áður. Kuldaleg tilhugsun.

mbl.is Next vildi þau eða ekkert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógnvekjandi há tala horfinna í Ríó

Mannshvörf eru vissulega alltaf dularfull. Mér finnst samt í meira lagi sorglegt og nöturlegt við þá staðreynd að 9.000 manns, sem er eitthvað svipað og býr í Garðabæ, hafi horfið í Ríó de Janeiro á innan við tveimur árum. Er ekki hissa á því að vakin sé athygli á þeirri staðreynd með svo myndrænum og traustum hætti og gert var á Copacabana-ströndinni.

Kannski finnst einhverjum þetta dropi í hafið í fjölmennu landi, en þessi gjörningur hlýtur að vekja fólk til umhugsunar. Oft getur myndrænn gjörningur sagt meira en mörg orð og það á sannarlega við í þessu tilfelli.

mbl.is 9000 horfnir á tveimur árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband