Þorleifur á að sjá sóma sinn í að segja af sér

Mér finnst það mjög alvarlegt mál að borgarfulltrúi sendi fjölmiðlum tölvupóst með mjög viðkvæmum persónulegum gögnum í algjöru leyfisleysi og án þess að hafa rætt málið við viðkomandi einstakling sem treysti honum fyrir sínum erfiðleikum. Auðvitað á Þorleifur Gunnlaugsson að sjá sóma sinn í að segja af sér vegna þessa máls. Get ekki séð að neitt annað komi til greina. Þetta eru rosalega mikil mistök sem hann verður að taka fulla ábyrgð á.

Með þessu sannast að kjörnir fulltrúar eiga að viðhalda því trausti sem almenningur sýnir þeim með því að tala við þá persónulega um sín mál án þess að eiga á hættu að þær upplýsingar verði persónugreinanlegar. Slíkt traust er mjög mikilvægt eigi viðkomandi kjörinn fulltrúi að geta verið trúverðugur í sínum verkum.

mbl.is Sendi bréf í leyfisleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg Sólrún hótar sjálfstæðismönnum

Ég túlka ummæli Ingibjargar Sólrúnar í Vikulokunum í morgun sem beina hótun til sjálfstæðismanna. Ekki hægt að gera annað, enda er þetta sett fram í þeim stíl. Miðað við þessi orð er sjálfgefið að kosið verður eftir nokkra mánuði, væntanlega í vor. Hef reyndar verið viss um það í nokkurn tíma að kosningar þurfi á næsta ári til að stokka mál upp og færa mál fram á við. Mér finnst vorið eða síðsumar bestu tímapunktar í þeim efnum. Þá verður að stokka spilin upp á nýtt og færa mál áfram.

En mér líkar ekki við þessa tjáningu Ingibjargar Sólrúnar. Stjórnarsamstarf er samstarf um málamiðlanir og sameiginlega verkstjórn um að sætta ólík sjónarmið. Slíkt felst ekki í þessum ummælum, nema síður sé. En við þessa hótun finnst mér tilhugsun um kosningar á næstu mánuðum mun betri og finnst mikilvægt að mál verði stokkuð upp sem fyrst og tel eðlilegt að tímasetja kosningar fljótlega.


mbl.is Ríkisstjórnin verður að svara kalli um breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar áttu að sýna Bretum klærnar

Ég er algjörlega sammála Guðna Ágústssyni, fyrrum formanni Framsóknarflokksins, um að íslenska þjóðin átti að sýna Bretum klærnar í verki með því að slíta stjórnmálasambandi við Bretland eða tjá okkur mun meira ákveðið innan NATÓ en gert var vegna framkomu þeirra við okkur. Íslenska ríkisstjórnin missti af tækifærinu með því að tjá sig ekki með mun ákveðnari hætti í erlendum fjölmiðlum strax í kjölfarið og missti þetta niður í tapað spil. Með því að snúa vörn í sókn hefði íslenska þjóðin getað styrkt stöðu sína og náð vopnum sínum í þessari deilu.

Fyrstu viðbrögð mín þegar Gordon Brown hjólaði í íslensku þjóðina á Sky-sjónvarpsstöðinni í október voru að slíta ætti stjórnmálasambandinu, senda breska sendiherrann heim og taka frumkvæðið í stöðunni - fara með málið með þjósti fyrir NATÓ. Enda svona eiga menn ekki að geta unnið. Pólitíski durturinn Gordon Brown átti ekki að komast upp með þetta. Ég meinti þetta algjörlega þá og stend enn við þessa skoðun. Mjög mikil mistök að taka ekki drastíska ákvörðun en beygja sig þess í stað undir þetta vald.

Og svo er talað um að málsóknin gegn bresku kratastjórninni alræmdu sé við það að renna út í sandinn. Mikil verður skömm stjórnvalda ef þeim tekst að klúðra því máli hjálparlaust.

mbl.is Hefði jafnvel átt að segja Ísland úr NATÓ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekst mótmælendunum að þaga í 17 mínútur?

Ég verð að viðurkenna að það fyrsta sem mér datt í hug þegar talað var um þagnarmótmælin á Austurvelli var hvort mótmælendunum tækist að fókusera sig bara á þögnina án þess að hafa ræðuhöld og klapp inn á milli eða slagorðaskoðanir í bland. Þetta er nýtt form á mótmælum og alls óvíst hvort það verði árangursríkt.

Mér finnst þeir sem hafa verið háværastir ekki líklegir til að geta sameinast í því. Þarna ætti að koma fram hver innsti kjarninn virkilega er hjá Herði Torfa og svosem ágætt að kanna hvort mótmælin virka í þögn rétt eins og hörðum skoðunum.

mbl.is Öflugt andóf boðað eftir jól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband