Aðsúgur gerður að Jóni Ásgeiri við 101 Hótel

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, varð fyrir aðsúg við 101 Hótel í miðbæ Reykjavíkur í dag og munaði litlu að kæmi til átaka milli hans og mótmælenda sem sóttu að honum. Öskrað var á Jón Ásgeir og reynt að slá til hans. Komst undan með naumindum í bifreið sinni, eftir því sem ég heyrði áðan, en ég fékk tölvupóst frá manni sem heyrði af þessu og sá til.

Ólgan í samfélaginu er greinilega farin að beinast að auðmönnunum og bönkunum, mun frekar en stjórnmálamönnum, enda mun frekar hægt að benda á tengsl þeirra við hrunið í gegnum útrásina. Óánægja almennings er vissulega mjög skiljanleg og ekki undarlegt að sú gremja beinist að útrásarvíkingunum, þó ekki sé gott ef þau verða mjög ofbeldisfull.

Þessi óánægja er þó til marks um þá deiglu sem á sér stað í umræðunni, þar sem sífellt fleiri beina gremjunni að auðmönnum sem hafa skuldsett þjóðina.


Þjónað hagsmunum eigendanna á Baugsblöðum

Mér finnst óhugnanlegt að sjá inn í kviku þess sem hefur gerst á dagblöðum í eigu Baugsmanna. Þar hefur verið setið á mikilvægum gögnum og upplýsingum, allt til að þjóna hagsmunum eigendanna. Engu er líkara en eigendurnir hafi haft ritstjóra og yfirmanna blaðanna í vasanum og fylgst með eða gefið skipanir um það sem gert var á ritstjórnarskrifstofum í mikilvægri og heiðarlegri fréttaumfjöllun. Þar hafi verið unnið eftir rörsýn eigendanna.

Þetta er grafalvarlegt mál og þarf að fara yfir svo þessir fjölmiðlar hafi einhvern trúverðugleika og hlutverk fyrir lesendur úr að spila en verði ekki endanlega stimplaðir sem áróðursmaskína eigenda sinna. Síðustu árin hefur það verið mjög hávær orðrómur en það virðist staðfest með uppljóstrunum blaðamanna sem fengu nóg af ofríkinu og ritskoðuninni á ritstjórnarkontór. Vonandi munu fleiri láta samviskuna ráða og segja frá vinnubrögðunum.

mbl.is Fyrrum blaðamaður DV segist hafa sætt ritskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beinast mótmælin nú að réttum aðilum?

Ég er ekki hissa á því að fólk mótmæli í bönkunum. Er eiginlega mest hissa á að það hafi ekki gerst fyrr en rúmum tveimur mánuðum eftir bankahrunið. Mikilvægt er að mótmæla því að þar sitji stjórnendur frá liðnum tímum og umdeildir menn sem hafa verið dæmdir fyrir alvarleg brot, nátengdir mönnum sem hafa verið umdeildir og eru lykilmenn í falli þjóðarinnar.

Ég held að atburðir síðustu daga hafi opnað augu margra fyrir því bankakerfið er rotið og fjölmiðlarnir líka, sem hafa bara þjónað duttlungum auðmanna úti í bæ, eigenda sinna og vina þeirra.

Þessu er mikilvægt að mótmæla og bankarnir eru góður staður til að tjá skoðanir sínar, meðan spillingin og blekkingin heldur áfram að grassera.

mbl.is Jón Gerald mótmælir í Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband