Kynslóðaskipti með formannskjöri í Framsókn

Mér líst mjög vel á framboð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til formennsku í Framsóknarflokknum. Þar fer traustur ungur maður fram til forystu og ég yrði ekki hissa á því þó hann myndi standa uppi sem sigurvegari og leiða Framsóknarflokkinn inn í nýja tíma. Aðrir frambjóðendur um formennskuna eru líka menn nýrrar kynslóðar í pólitísku starfi. Ljóst er því að Framsóknarflokkurinn mun endurnýja sig á flokksþingi eftir hálfan mánuð og sækja fram til nýrra tíma.

Sögulegt fylgisafhroð Framsóknarflokksins í þingkosningunum fyrir tæpum tveimur árum var áfellisdómur yfir forystunni á Halldórstímanum. Nú er greinilegt að grasrótin í flokknum er að velta henni til hliðar og kallar eftir nýju fólki til forystu. Þetta hefur gerst á undraskömmum tíma, í raun eftir átakafundinn í miðstjórninni fyrir rúmum mánuði og þeir sem sátu þann fund sem forystumenn flokksins frá miðjum tíunda áratugnum hafa síðan vikið til hliðar og opnað fyrir uppstokkun.

Sumir tala um að formannskandidatarnir séu óreyndir og skorti þungavigt. Halldór Ásgrímsson var rétt rúmlega þrítugur þegar hann var orðinn varaformaður Framsóknarflokksins og tók að byggja sína stöðu til forystu innan flokksins. Hann varð ráðherra 36 ára gamall og enn tiltölulega nýr sem varaformaður og þá í raun krónprins. Miðað við það er ekkert óeðlilegt að ungir menn vilji forystusess. Þeir verða þá að byggja upp vigt sína og vinna sig upp í hlutverkið.

Þessi landsfundur og formannskosningin er í raun örlagapunktur í langri sögu Framsóknarflokksins. Annað hvort verður þar horft til framtíðar og sagt skilið við forna valdatíð eða hann heldur áfram að hníga og á sér enga framtíð. Þetta er því spurning um endalok eða nýju tímana. Því er ekki óeðlilegt að þeir sem gefið hafa kost á sér séu allir ungir og lausir við byrðar fortíðar.

Skilaboðin þar eru sennilega skýr, þau að klippt sé á Halldórstímann fyrir fullt og allt.

mbl.is Sigmundur Davíð býður sig fram til formanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn vill verða sérlegur saksóknari

Ég verð að viðurkenna að ég varð svolítið undrandi á því að enginn sótti um stöðu sérstaks saksóknara í rannsókninni á bankahruninu. En kannski þarf maður ekki að vera hissa. Þetta er vægast sagt mjög óeigingjarnt verkefni og væntanlega bæði mjög flókið og erfitt í alla staði. Ég held að þeir séu fáir sem leggi í það verkefni að taka að sér svona nokkuð í því umhverfi sem blasir við í íslensku samfélagi nema þá að hafa nægt fjármagn á bakvið og traust bakland.

Þegar skipaður var sérstakur saksóknari í Baugsmálinu var ráðist mjög harkalega að þeim sem skipaður var og hann varð mjög umdeildur, allt að því vegið að persónu hans, æru og heiðri. Sá sem tekur þetta verkefni að sér þarf að hafa mjög sterk bein og bakland sem skiptir einhverju máli. Greinilegt er að enginn leggur í verkefnið á þessari stundu. Margt er að í samfélaginu og barnalegt að telja að einn maður geti svælt út við þessar aðstæður.

Þetta er hinn napri sannleikur málsins. Kannski spilar eignarhald fjölmiðlanna eitthvað inn í þetta? Niðurstaðan er einföld. Við verðum að fá erlenda aðila í þetta verkefni. Einhverja sem verða hafnir yfir allan vafa og geta tekið til hér massíft án þess að verða dregnir í svaðið á heimavelli.

mbl.is Enginn sótti um embætti sérstaks saksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álitshnekkir fyrirliðans Gerrard

Þá hefur fótboltakappinn Steven Gerrard verið ákærður fyrir líkamsárás og gæti fengið allt að fimm ára refsingu. Afar ólíklegt telst að hann fái mjög þungan dóm. Helsta refsing hans gæti aðallega orðið álitshnekkir og vandræðaleg kynni við laganna verði. Gerrard hefur jú verið talinn táknmynd heilbrigðs lífsstíls og þótt vera strangheiðarlegur og rólegur að eðlisfari. Honum var t.d. falið að passa upp á fjörkálfinn Wayne Rooney í landsliðinu og hann væri til friðs.

Miðað við ákæruna og aðra dóma er ólíklegt Gerrard missi af mörgum leikjum vegna þessarar framkomu, en verði hinsvegar helst að horfast í augu við skaddað mannorð. Kannski er það eitt og sér mikil refsing fyrir mann sem talinn hefur verið strangheiðarlegur.

mbl.is Gerrard gæti átt fimm ára fangelsi yfir höfði sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiður að veði - stund sannleikans í bönkunum

Ég átti satt best að segja ekki von á öðru en Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson myndu neita öllum sögusögnum um óeðlilegar eða ólöglegar millifærslur í Kaupþingi í aðdraganda bankahrunsins. Heiður þeirra er undir og auðvitað reyna þeir að verja hann. Þeir hafa þó að mörgu leyti þegar tapað þeim heiðri og virðingu sinni í umrótinu í hruninu. Reiði fólks í þeirra garð er mjög skiljanleg og allra annarra sem hafa spilað djarft og tekið þjóðina með sér í fallinu, saklaust fólk sem tók engan þátt í spilavítisleiknum.

Mikilvægt er að fá hið sanna fram í málinu, bæði til að hreinsa þá af grun sem eru sakaðir um alvarleg brot eða þá að fá það óyggjandi í ljós að orðrómurinn sé sannur. Leitin að sannleikanum er mjög mikilvæg hjá öllum bönkunum. Kortleggja allt sem gerðist og gera það opinbert. Engin þjóðarsátt verður við úrvinnsluna úr rústunum nema að byggð sé traust undirstaða og reynt að eyða allri tortryggni og efasemdum. Nóg er af þeim núna. Traustið er ekkert. Ég skil það líka mjög vel.

Stjórnvöld hafa ekki staðið sig nægilega vel í að eyða efasemdum og tortryggni en hafa enn tíma til stefnu áður en þau verða að fara í kosningar og gera öll mál síðustu mánaða upp í eitt skipti fyrir öll.

mbl.is Engar ólögmætar færslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband