Flugslys og óttinn við að fljúga

Mér brá nokkuð þegar ég sá á erlendri fréttastöð áðan að vél US Airways hefði hrapað í Hudson ána. Datt eiginlega fyrst í hug þegar Boeing-vélin hrapaði í Potomac-ána í Washington, skammt frá Hvíta húsinu, fyrir tæpum þremur áratugum. Eftir því var gerð fræg mynd og ég hef lesið bækur um það. Veðuraðstæður voru þá aðrar og eiginlega var þar unnið mikið björgunarafrek og frægt var að einn flugfarþeganna fórnaði lífi sínu við að bjarga öðrum í vélinni.

Ég hef aldrei verið flughræddur eða óttast það að fljúga. Aldrei eitt augnablik. Eiginlega er vonlaust að ferðast eða fara nokkuð um nema vita að allt getur gerst, hvar sem maður er staddur. Ég þekki fólk sem er svo flughrætt að það þorir varla í innanlandsflug. Hef aldrei skilið þessa tilfinningu en kannski er það skiljanlegt þegar fréttir berast af slíku slysi.

Flugið er ekki versti ferðamátinn en auðvitað er það alltaf sérstakt að setjast upp í flugvél og halda út í óvissuna.

mbl.is Flugvél hrapaði í Hudsonfljót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttukveðjur til Ingibjargar Sólrúnar

Ég vil færa Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, einlægar og góðar baráttukveðjur. Hún er baráttukona og ég vona að henni gangi vel í baráttunni við veikindi sín og nái sér sem fyrst.

mbl.is Ingibjörg Sólrún lengur frá en áður var talið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarmennska eða glamúr hjá Hefner

Hugh Hefner og stelpurnar hans Held að fáir menn á níræðisaldri lifi skrautlegra lífi en glaumgosakóngurinn Hugh Hefner. Á gamals aldri er hann með samansafn ungra meyja á sérstöku setri, kenndu við Playboy-ritið margfræga, sér við hlið og hann vill alltaf yngri og glæsilegri gellur á forsíðu blaðsins síns og setrið. En nú er ekki nema von að spurt sé hvort þetta sé allt eitt sjónarspil.

Yngismeyjar hafa keppst um það að fara til hans á setrið og vera í blaðinu hans, misjafnlega frægar. Sama er hversu Hefner verður gamall og slitinn, alltaf nær hann athygli út á líferni sitt og hann er ekki beint feiminn við sviðsljósið. Kyndir frekar undir eldinn gegn sér og er slétt sama um þá sem helst gagnrýna hann og Playboy-lífið á setrinu margfræga.

Meðal annars hafa verið gerðir raunveruleikaþættir um lífið þar og hafa þeir ekki síður vakið athygli fyrir hversu lífsglatt gamalmenni Hefner er fyrir húsfreyjurnar sínar. Nú er spurningin hvort Hefner deyji sæll og glaður á þessu setri eða koðnar niður í ellinni? Allavega er nokkuð öruggt að öldruðum er búið þar áhyggjulaust ævikvöld.

mbl.is Líf Hefners sýndarmennska?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æpandi þögn eftir yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar

ISG
Æpandi er þögn, og ekki síður pínlega vandræðaleg, þeirra sem réðust að Guðlaugi Þór Þórðarsyni vegna ummæla Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur á borgarafundinum. Þegar í ljós kom að Ingibjörg Sólrún átti í hlut heyrðist ekki meira og ásakanirnar gufuðu upp. Þetta er dæmigert fyrir Samfylkingarmennina og aðra andstæðinga Sjálfstæðisflokksins sem ætluðu að ná höggi á Guðlaug Þór vegna meints yfirgangs hans. Þarna átti virkilega að reyna að sparka duglega í hann.

Þegar ljóst er að hótunin kom frá formanni Samfylkingarinnar þorir enginn að standa við hin stóru orð. Ekki er sama hver á í hlut. Þetta er auðvitað hálfgerður aumingjaskapur og svolítið fyndið að sjá þá sem voru með stór orð þagna gjörsamlega og ekki einu sinni hafa manndóm í sér að biðja Guðlaug Þór afsökunar.

Ekki er sama hver í hlut á. Þessi afskipti Ingibjargar Sólrúnar virðast ekki eins alvarleg og hefði Guðlaugur Þór átt í hlut. Ekki hægt annað en hlæja að þeim sem þora ekki að taka umræðuna fyrst hótunin kom úr Samfylkingunni.

Bloggfærslur 15. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband