Ætlar Hörður Torfa ekki að biðja Geir afsökunar?

Á ég virkilega að trúa því að Hörður Torfason sé það mikið fífl og tilfinningalaus mannskepna að hann ætli ekki að biðja Geir Haarde, forsætisráðherra, afsökunar á ómerkilegum ummælum sínum um hann í dag. Tal hans um að veikindi Geirs, illkynja mein í vélinda, séu eitthvað kosningatrix eða reykbomba eru svo ógeðsleg að maðurinn er ekki trúverðugur í einu né neinu framar, hvorki sem frontur í mótmælum eða fjöldahreyfingu á nokkurn máta. Hann fór langt fram úr sér.

Ég bar vonir og væntingar til þess að Hörður myndi biðjast afsökunar og draga ummæli sín til baka fyrir kvöldið. Enn hefur það ekki gerst. Ætlar hann virkilega að verða metinn slíkt fífl að standa við þessi nauðaómerkilegu ummæli sín?

mbl.is Sextándi mótmælafundurinn á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg Sólrún staðfestir kjördaginn 9. maí

Gott að Ingibjörg Sólrún sé komin og hafi fengið jákvæðar fregnir af veikindum sínum í dag. Mikilvægt er að hún og Geir fari nú yfir málin og leysi þau. Mér finnst samt Ingibjörg Sólrún staðfesta við heimkomuna kjördaginn 9. maí og í raun má telja öruggt að svo fari að kosið verði þá. Get ekki séð að nokkur geti komið í veg fyrir það. Fólk í öllum flokkum verður að fá tíma til að stokka upp framboðslista sína og undirbúa kosningarnar. Maíkosningar er því hið rétta í stöðunni. Mikilvægt er að undirbúa kosningarnar og tryggja uppstokkun.

mbl.is Ingibjörg Sólrún komin heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósmekkleg ummæli Harðar Torfasonar um Geir

Hörður Torfason á að vit á því að skammast sín vegna ósmekklegra ummæla sinna um Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og veikindi hans. Mér finnst það hrein lágkúra að talað sé um alvarleg veikindi hans, illkynja mein í vélinda, sem eitthvað trix eða fjölmiðlaútspil. Hann á að hafa vit á því að biðja Geir afsökunar.


mbl.is Hænuskref í rétta átt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða um maíkosningar - formannsslagur

Ég get ekki betur séð en samstaða muni nást um kosningar þann 9. maí. Allir ættu að geta sætt sig við það og byrjað á kosningabaráttunni sem fyrst. Ekki er lengur hægt að tala um að menn axli ekki ábyrgð - þegar kosningum er flýtt um tvö ár er ljóst að orðið hefur verið við kröfum þeirra sem voru óánægðir með stöðuna. Mér finnst það út í hött að mynduð verði önnur stjórn fram að þeim tíma. Kosningum hefur verið flýtt um tvö ár og tryggt að landsmenn muni taka afstöðu til flokkanna mjög fljótlega.

Tíðindin úr Valhöll eru mjög dapurleg og ég finn að hugur allra landsmanna er hjá Geir og fjölskyldu hans. Burtséð frá átökum hefur Geir verið einn vinsælasti og traustasti stjórnmálamaður landsins og nýtur virðingar vegna þekkingar sinnar og reynslu. Mikilvægt er að hann fái sitt svigrúm og landsmenn fari að beina sjónum sínum að kosningunum.

Alveg óþarfi er að mótmæla úr þessu, allavega hljómar kosningakrafan og uppgjörin sem fjarstæða nú. Reiðin og gremjan getur nú beinst í málefnalegar rökræður um næstu skref og kosningabaráttuna. Landsmenn fá nú valdið í sínar hendur og geta farið að einhenda sér í pólitíska baráttu um næstu skref, tala í lausnum.

Hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn er mikilvægt að allir sem hafa áhuga á formannsembættinu fari fram og við fáum heiðarlega baráttu um flokksforystuna á landsfundi. Mér finnst, eins og ég sagði fyrir stundu, rétt að nýr formaður Sjálfstæðisflokksins standi utan átakanna sem verið hafa og ég mun styðja þann sem getur boðað breytingar.


mbl.is Árni: Mikið áfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir hættir vegna krabbameins - kosningar í maí

Geir H. Haarde
Ég er mjög sleginn að heyra af því að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hafi greinst með illkynja krabbamein í vélinda og hafi því ákveðið að hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég vil færa Geir góðar batakveðjur og vonast eftir því að hann sigrist á meini sínu. Mikilvægt er að hann taki sér frí frá störfum og leggi alla sína orku í að ná heilsu að nýju. Ekkert er mikilvægara á þessari stundu, rétt eins og ég vona að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir muni ná sér, eins og góðar fregnir í morgun gefa tilefni til.

Augljóst er að nýjir tímar eru framundan innan Sjálfstæðisflokksins. Ný forysta verður kjörin á landsfundi í marslok, en fyrri fundi hefur nú verið frestað. Þar er mikilvægt að nýr formaður Sjálfstæðisflokksins verði einhver sem stendur utan meginátaka undanfarna daga og tryggt verði að flokkurinn endurnýji sig í aðdraganda vorkosninga, sem augljóst er nú að verða haldnar laugardaginn 9. maí nk.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fullt tækifæri til að endurnýja sig og treysta böndin á landsfundi í marslok. Nú þegar Geir H. Haarde, traustur forystumaður um langt skeið, yfirgefur sviðið og einbeitir sér að því að ná heilsu er mikilvægt að við flokksmenn stöndum saman um enduruppbygginguna og veljum formann sem getur endurreist flokkinn til verka og tekið trausta forystu varðandi þingkosningarnar.

mbl.is Geir: Kosið í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórtíðinda að vænta úr Valhöll

Augljóst er að stórtíðinda er nú að vænta úr Valhöll. Eftir samtöl við nokkra þingmenn síðustu dagana má ljóst vera að stjórnarsamstarfið er mjög óstöðugt og hefur verið mjög erfitt. Tal um kosningar í vor er hávært og auk þess að landsfundi verði frestað. Mér finnst greinilegt að forysta flokksins vilji eiga frumkvæði um næstu skref og muni taka nú þegar.

mbl.is Miðstjórnarfundur að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðsöm mótmæli - lærdómur skemmdarverkanna

Ég fagna því að mótmælendur eru með friðsamlega mótmælastöðu á Austurvelli og hafa lært sína lexíu af því sem gerðist síðustu nótt. Með því að breyta baráttuaðferðum og átta sig á að aðrar áherslur og friðsamlegri geta skilað þeim árangri og því að tekið sé mark á skoðunum þeirra hafa þeir sannað að þeir eru að tala af skynsemi en ekki heimsku. Mér fannst dapurlegt að mótmælendur breyttust í árásargjarna vitfirringa sem réðust að lögreglumönnum, sumir hreinlega til þess að valda þeim skaða.

Svo er líka gott að mótmælendur hafi áttað sig á því að áfengi og mótmæli eiga enga samleið. Ég hef heyrt margar sögur af því hvernig síðasta nótt var og fannst nóg um. Skrílslætin fóru yfir strikið síðustu nótt og ekki hægt að líta öðruvísi á en reynt hafi verið að drepa suma lögreglumenn með því að kasta í þá þungum steinhnullungum. Slíkt grjótkast er ekkert gamanmál, heldur hreinlega manndrápstilraun. Þeir mótmælendur sem snerust til varnar lögreglunni eiga hrós skilið fyrir sitt verk.

En allir hafa rétt á sínum skoðunum - setja verður þó mörk á milli skoðana og ofbeldis.

mbl.is Mótmælt í góðri sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband