Nauðungarflutningar á öldruðum Akureyringum

Mjög dapurlegt var að horfa á fréttaflutning í kvöld af nauðungarflutningum á öldruðum Akureyringum af hjúkrunarheimilinu Seli. Þetta er ómannúðleg og mjög lágkúruleg framkoma við gamalt fólk, sem nú er gert með valdboði að fara í herbergi með öðrum á Kristnesi og sætta sig við annars flokks þjónustu. Alltaf skal það vera þannig að ráðist sé á garðinn þar sem hann er lægstur, níðst á gömlu fólki og þeim sem minna mega sín. Þetta eru ekki góð skilaboð og er að mörgu leyti skipbrot velferðarkerfisins.

Vel má vera að starfið á Seli og á öðrum stofnunum séu tölur á blaði í huga einhverra, tölur sem geti komið vel saman í niðurskurði og þá sé allt svo gott við að eiga. Á bakvið þessar tölur eru hinsvegar fólk, aldrað fólk sem á það skilið að það njóti þess að eiga áhyggjulaust ævikvöld. Þetta er ómerkileg framkoma og þeim til skammar sem að því standa, öllum með tölu. Ekki þýðir fyrir þá sem taka slíkar ákvarðanir að fara í kosningar og slá sér upp með slagorðum um velferðarkerfi og mannleg gildi.

Slíkt er algjörlega innistæðulaust þegar við horfum upp á svona lágkúru. Orð dagsins á hin 88 ára gamla kjarnakona á Seli, sem nú þarf að sætta sig við að fara úr eigin herbergi og búa með öðrum. Ef þetta er ekki skipbrot velferðarkerfisins þá veit ég ekki hvað það á að kallast annað.

Risavaxið klúður demókrata með þingsæti Obama

Roland Burris
Dæmalaust klúður er þetta hjá demókrötum með þingsæti Baracks Obama í Illinois - heimatilbúinn vandi þeirra í ofanálag. Þeir geta aðeins sjálfum sér um kennt og geta ekki höndlað vandann. Roland Burris mætir til Washington til að taka við þingsætinu, enda valinn af réttkjörnum ríkisstjóra, þó umdeildur sé, og hefur fullt umboð. Og þingdemókratar hafna honum, þeldökkum manni sem hefur fullan rétt til að fara til Washington og taka við þingsæti sínu, eina blökkumanninum sem hefur umboð til að sitja í öldungadeildinni, þeim fjórða eða fimmta í þingsögunni. Þetta lítur ekki beinlínis vel út fyrir demókrata, hvorki í Washington né í Illinois.

Mér skilst að einn hluti samningaviðræðna þingdemókrata í öldungadeildinni við Burris sé að hann lofi því að sækjast ekki eftir þingsætinu í kosningunum 2010, þegar sex ára kjörtímabili Obama lýkur formlega, og fái þá leyfi þeirra til að taka þar sæti. Hverslags vinnubrögð eru það að taka við manninum með þeim skilmálum að hann hætti í pólitík, bara eftir þeirra duttlungum. Ekki má gleyma því að hinn umdeildi ríkisstjóri, sem hafði fullt umboð til að velja öldungadeildarþingmann, er í umboði demókrata í Illinois og var endurkjörinn þrátt fyrir allt orðsporið. Barack Obama talaði til stuðnings honum þá.

Eftir hálfan mánuð hverfa George W. Bush og Dick Cheney úr pólitískri tilveru demókrata. Þá fá þeir full völd yfir Hvíta húsinu auk þess að ráða þinginu. Þingið hefur sjaldan eða aldrei verið óvinsælla en undir forystu þingdemókrata. Þá dugar ekki lengur að fela þær óvinsældir með veikri stöðu Bush forseta. Hvernig mun þeim reiða af eftir 20. janúar fyrst þeir geta ekki einu sinni höndlað eitt þingsæti sitt í öldungadeildinni og leyst vandann í kringum það?

mbl.is Fékk ekki þingsætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugað að almannatengslamálum í FME of seint?

Ég held að það hefði átt að huga að almannatengslamálum í Fjármálaeftirlitinu fyrir löngu síðan. Þessi stofnun sem á að halda utan um mjög mikilvægt svið brást gjörsamlega fyrir og eftir bankahrunið og hefur lítinn sem engan trúverðugleika í verkum sínum. Sigurður G. Valgeirsson fær allavega nóg að gera eigi hann að snúa því við á nokkrum mánuðum eða vikum. Sennilega er það heldur mjög fjarri því að vera virðingarvert og spennandi verkefni.

Held að 80% landsmanna beri lítið eða ekkert traust til FME samkvæmt könnunum. Vonandi tekst þessari mikilvægu stofnun að snúa vörn í sókn og vera eitthvað annað en bilað batterí í stjórnkerfinu.

mbl.is Ráðinn tímabundið til FME
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar ríkisstjórnin ekki að birta lögfræðiálitið?

Mér finnst alveg lágmark að ríkisstjórnin birti lögfræðiálit þar sem segir að dómsmál gegn breskum yfirvöldum sé vonlaust. Allt upp á borðið, takk! Þetta álit stingur í stúf við álit annarra lagasérfræðinga í Bretlandi þar sem við erum þvert á móti talin vera með gott mál í höndunum. Aðför Bretanna gegn okkur er einfaldlega þannig að við eigum að taka það mál lengra og auðvitað á íslenska ríkisstjórnin að fara með málið fyrir dómstóla.

Nema þá að verið sé að breiða yfir eitthvað sem ekki má koma fram. Slíkar grunsemdir eru alveg ólíðandi, en þær eru til staðar meðan deilt er um hvað sé satt og rétt. Líka hvort eitthvað sé enn til í því að ríkisstjórnin vilji slá verndarhjúp utan um eitthvað í málinu.
 
Í þessum efnum er efinn vissulega til staðar. Ekkert dómsmál er unnið fyrirfram. Þar þarf að vinna einbeitt og traust að verkum, bæði til að hið rétta komi fram og réttlætið hafi sinn framgang. Auðvitað er það sérstaklega mikilvægt í þessu máli.

mbl.is Vonlaust dómsmál gegn Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurskurður hjá fjölmiðlum - breyttar forsendur

Varla teljast það stórtíðindi eins og komið er málum á fjölmiðlamarkaði að dagblöðin fækki útgáfudögum sínum. Í þessu árferði eiga fríblöð sérstaklega undir högg að sækja og varla raunhæf undirstaða til staðar fyrir sjö daga útgáfu, eins og var þegar allt lék í lyndi. Allar rekstrarforsendur hafa breyst núna og í raun má segja að það sé mikill munaður að til séu ókeypis fjölmiðlar ennþá eins og staðan er orðin í efnahagsmálunum.

Eflaust voru það sæludagar þegar til voru tvö fríblöð og hægt að fá dagblöð alla daga ársins. Ekki eru mörg ár síðan aðeins Morgunblaðið kom út á sunnudegi, þó borið út síðdegis á laugardegi, og ekkert blað formlega gefið út á sunnudegi. Held að sunnudagsútgáfa Fréttablaðsins sé innan við fimm ára gömul. Þetta var mikill munaður að fá að lesa blöð alla daga vikunnar en forsendur fyrir því eru klárlega brostnar.

Þetta ár verður erfitt fyrir fjölmiðla. Við eigum örugglega enn eftir að sjá mikla niðursveiflu og niðurskurð á öllum sviðum.

mbl.is Útgáfudögum Fréttablaðsins fækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barack Obama neitar að tala um ástandið á Gaza



Á meðan fólk um allan heim tjáir andstöðu við árás Ísraela á Gaza-svæðið þegir Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, þunnu hljóði um málið. Í valdatómarúminu í Washington hefur Obama þegar tekið sér sess á sviðinu og er langt síðan að kjörinn forseti hefur orðið svo áhrifamikill fyrir embættistöku sína. Í ljósi þess er þögn Obama um stöðuna á Gaza-svæðinu vægast sagt mjög athyglisverð og ætti að vekja marga stuðningsmenn Obama víða um heim til umhugsunar um hvort hann muni verða jafn hallur undir sjónarmið Ísraels og forveri hans, George W. Bush.

Allt frá því að Obama flutti ræðu hjá AIPAC í júní hefur tryggð hans við Ísrael verið augljós og var eiginlega endanlega römmuð inn með valinu á Rahm Emanuel (sem gárungarnir nefna Rahm-bo) sem starfsmannastjóra Hvíta hússins og ennfremur af orðum Obama á fyrsta blaðamannafundi hans sem viðtakandi forseti um Íran. Lítill munur er á orðum Bush og Obama um Íran og Ísrael allavega.

Ríkisstjórn Obama verður á vaktinni vegna Írans og mun ekki hika við að beita valdi muni Íransstjórn halda áfram kjarnorkuframleiðslu sinni. Obama sagði fyrir nokkrum vikum að hann myndi ekki hika við að beita kjarnorkuvopnum gegn Íran færu þeir gegn Ísrael.

Í kosningabaráttunni varð vart við þann misskilning vinstrimanna um allan heim að Obama myndi ekki taka upp sömu stefnu og Bush í málefnum Írans og Ísraels. Orð hans og gjörðir að undanförnu og þögnin nú sýnir vel að það reyndist markleysa.

mbl.is Obama er þögull
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband