Bjarni yfirgefur Framsóknarflokkinn

Úrsögn Bjarna Harðarsonar, fyrrverandi alþingismanns, úr Framsóknarflokknum koma ekki að óvörum eftir sviptingar síðustu mánuði innan flokksins en eru vissulega stórtíðindi. Bjarni var jú afgerandi fulltrúi gömlu fylkinganna í flokknum og talaði fyrir þeim gildum sem einkenndu Framsóknarflokkinn í gamla daga - var boðberi þess að halda í andstöðuna gegn ESB og vildi hafa Framsókn uppi í sveit. Þetta eru tímamót að því marki en kannski er þetta lokapunktur þess sem vitað var að myndi gerast.

Svo er það spurning hvort Bjarni yfirgefur flokkinn eða hann hefur yfirgefið hann. Væntanlega er það mitt á milli en greinilegt er á öllu að Framsókn tekur miklum breytingum í sviptingum næstu vikna, sem nær hámarki með kjöri nýs formanns Framsóknarflokksins í lok næstu viku.


mbl.is Bjarni sagði sig úr Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna hylja mótmælendur andlit sín?

Mér finnst allt í lagi að fólk tjái skoðanir sínar og mótmæli málefnalega og með boðskap og hafi einhvern tilgang að markmiði. En hvers vegna hylur það andlit sitt. Hvaða yfirlýsing er það að fela sig og vilja ekki tjá sig einbeitt og ákveðið undir nafni og númeri? Mér finnst þetta rýra annars ágæt mótmæli í dag, mótmæli sem loksins er beint að réttum aðilum.

mbl.is Elín borin út úr bankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beinast mótmælin nú loksins að réttum aðilum?

Ég er ekki hissa á því að fólk mótmæli í bönkunum. Er eiginlega mest hissa á að það hafi ekki gerst fyrr en rúmum tveimur til þremur mánuðum eftir bankahrunið. Mikilvægt er að mótmæla því að þar sitji stjórnendur frá liðnum tímum. Auðvitað er eðlilegt að krefjast þess að bæði Birna Einarsdóttir og Elín Sigfúsdóttir víkji af bankastjórastóli. Þeim er ekki sætt.

Ég held að atburðir síðustu daga hafi opnað augu margra fyrir því bankakerfið er rotið og fjölmiðlarnir líka, sem hafa bara þjónað duttlungum auðmanna úti í bæ, eigenda sinna og vina þeirra.

Þessu er mikilvægt að mótmæla og bankarnir eru góður staður til að tjá skoðanir sínar, meðan spillingin og blekkingin heldur áfram að grassera.

Algjör snilld að spila bolta í Landsbankanum - táknrænt og traust. Þetta er traustara form á mótmælum en margt annað sem gert hefur verið.

mbl.is Spiluðu knattspyrnu í bankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppniseftirlitið rannsakar Teymi

Samkeppniseftirlitið sýnir mjög vel að það er vakandi stofnun með rannsókn sinni á Teymi og dótturfélögunum. Allir hljóta að taka undir mikilvægi þess að fara yfir vafaatriðin í málum tengdum þeim. Þetta á að vera hlutverk Samkeppnisstofnunar og mikilvægt að þar sé farið strax til verka og reynt að fá hið sanna fram, hvað svo sem í því felst.

Oft hefur verið deilt á Samkeppniseftirlitið fyrir að vera sofandi stofnun sem bíður endalaust á meðan sögusagnir grassera. Þessi rannsókn ætti að slá á þær kjaftasögur.


mbl.is Húsleit hjá Teymi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harðvítug átök um formennskuna í Framsókn

Greinilegt er að harðvítug átök eru í uppsiglingu um formannsembættið í Framsóknarflokknum. Þar eru ungir og hraustir menn greinilega að beita öllum brögðum til að tryggja sér formennskuna og smalað er til hægri og vinstri í orðsins fyllstu merkingu. Greinilegt er að gömlu fylkingarnar eru mjög að riðlast til og má því eiga von á að allt geti gerst og myndist nýjar fylkingar utan um formannsefnin.

Ég er ekki í vafa um það að framtíð Framsóknarflokksins er undir í þessum formannsslag. Þar er spurt um hvort hann nái að endurnýja sig og eiga nýtt upphaf á gömlum grunni. Ég held að í þessu muni væntanlega koma sér sem best að vera með engar tengingar við forystu flokksins á undanförnum árum og ljóst að þingmennska mun ekki vera ráðandi hluti útkomunnar. Þarna verður horft til framtíðar og kynslóðaskipti eru í loftinu. Sóknarfæri flokksins munu ráðast af útkomu flokksþings.

Auðvitað er smalað í öllum kosningum. Slíkt gerist í ómerkilegri kosningum en formannskjöri í stjórnmálaflokki. Í flokki á borð við Framsókn þar sem uppstokkunin er mikil má búast við að fólk hópist í flokkinn til að hafa áhrif. Einn hluti þess er að sonarsonur og sonur fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins er kominn heim í heiðardalinn eftir skamma vist í öðrum flokki og í Ráðhúsinu.

Þarna er smalað grimmt og allt lagt undir. Kappið í kosningunum ber þess merki að allt getur gerst. Þannig á það auðvitað að vera þar sem barist er um alvöru hnoss og að byggja upp nýjan flokk á gömlum grunni, rústum ef út í mannamál er farið.

mbl.is Hiti á fundi framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband